Fræðigreinar

Breytingar hjá Læknablaðinu

Um áramót urðu ritstjórnarfulltrúaskipti á Læknablaðinu. Birna Þórðardóttir sagði starfi sínu lausu í haust og hætti um áramót eftir margra ára starf hjá læknafélögunum og Læknablaðinu. Birna vann fyrst á skrifstofu félaganna, síðan við Fréttabréf lækna sem ritstjóri og loks sem ritstjórnarfulltrúi Læknablaðsins. Ritstjórn Læknablaðsins þakkar henni fyrir langa trúmennsku og ánægjulegt samstarf og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. Í störfum sínum við Læknablaðið hefur Birna borið hitann og þungann af framkvæmd þeirra breytinga sem á blaðinu hafa orðið á síðustu árum og nægir þar að nefna að prentun og framleiðsla var flutt frá Danmörku til Íslands, sameiningu fréttabréfs og blaðs og útlitsbreytingu blaðsins fyrir tveimur árum. Eftir á að hyggja er erfitt að hugsa sér að hægt hefði verið að gera þessa hluti án þess að Birna hefði komið að þeim. Svo mikið og náið hefur Birna unnið að öllum þáttum í framleiðslu blaðsins að engu er líkara en að Læknablaðið og Birna hafi verið eitt. Það hefur og greinilega komið í ljós eftir að það spurðist út að Birna væri að hætta að höfundar efnis og viðskiptamenn hafa kunnað að meta störf hennar, staðfestu og trúnað við blaðið.

Eitt það síðasta sem Birna hefur lagt hönd á plóg við er gerð samnings um hönnun vefútgáfu Læknablaðsins. Í honum er gert ráð fyrir að blaðið allt komi á vefnum í þeirri mynd sem það birtist á pappírnum. Blaðið mun verða óbreytt, vefurinn mun geyma viðbótarútgáfu sem öllum verður opin og aðgengileg á slóðinni: www.icemed.is/laeknabladid. Frá og með mánaðamótum janúar/ febrúar verður því hægt að lesa blaðið af tölvuskjánum. Ætlunin er að hægt verði að leita að efni í vefútgáfunni eftir höfundum, fyrirsögnum og einstökum orðum. Þannig heldur blaðið áfram að þróast.

Til þess að taka við starfi Birnu Þórðardóttur hefur Védís Skarphéðinsdóttir verið ráðin sem ritstjórnarfulltrúi. Védís hefur kanditatspróf í íslenskum bókmenntum og hefur auk annars verið ritstjóri hjá Eddu - miðlun & útgáfu. Hún er boðin velkomin til starfa.



Vilhjálmur Rafnsson

ábyrgðarmaður

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica