Íðorðapistlar 1-130

014-Hvar eru tillögurnar?

Í nokkrum fyrri pistlum hefur verið óskað eftir því að lesendur sendi Orðanefndinni tillögur að íslenskun fræðiorða. Þeir, sem nota Íðorðasafnið að staðaldri, hafa tekið eftir orðum, sem taka með sér spurningarmerki "?" í stað þýðingar. Þau orð hefur nefndin af ýmsum ástæðum ekki treyst sér til að þýða að sinni, en óskar eftir aðstoð og góðum tillögum. Þá er ekki síður beðið um góðviljaða gagnrýni á þær þýðingar sem gerðar hafa verið. Nauðsynlegt er að Íðorðasafnið sé í stöðugri endurskoðun og að sem flestir leggi hönd á plóginn. Íslenska fræðimálið þarf að fá að þróast eins og annað mál og það gerist best ef menn eru vakandi fyrir nýjum hugmyndum og reiðubúnir að koma þeim á framfæri. Þó að Orðanefndin vinni stöðugt að orðasöfnun og þýðingum, þá er ekki nokkur leið fyrir þá fáu menn, sem í henni starfa, að fylgjast með orðanotkun á öllum sviðum læknisfræði. Enn einu sinni er því skorað á lækna að hika ekki við að senda nefndinni tillögur sínar og hugmyndir til umfjöllunar.Áður en lengra er haldið!

Stundum liggur manni við að örvænta um íslenskt "læknamál". Þannig var það á tveimur fræðslufundum, sem undirritaður sótti nýlega. Það var með ólíkindum hvað fundarmenn létu sér um munn fara af erlendum slangurorðum, sem auðvelt hefði verið að þýða. Ritmálið í texta, sem sýndur var á glærum, var öllu skárra. Þar var þó greinilega hægt að sjá viðleitni til að þýða fræðiorð á íslensku. Enda var það ekki skortur á íslenskun fræðiheita, sem leiddi til þess að undirrituðum blöskraði, heldur notkun ónauðsynlegra slangurorða. Það var ekki eins og menn hefðu farið í betri fötin fyrir fundina. Á stuttum tíma hripaði undirritaður niður tugi slangurorða. Reyndar er ekki laust við að stundum læðist að manni sá grunur, að læknum þyki felast einhver dýpri merking í mörgum slangurorðum heldur en í venjulegum íslenskum orðum. Lesendum skal látið eftir að dæma um sannleiksgildi þessarar staðhæfingar.

Talað var um keisið (tilfellið), materíalið (efniviðinn), stúdíuna (könnunina), statusinn (ástandið), kríteríurnar (skilmerkin) og tendensinn (tilhneiginguna). Sagnorð voru einnig áberandi. Rætt var um að presentera (segja frá), transfúndera (gefa blóð), súpprímera (bæla), módifísera (breyta), referera (vísa), reagéra (bregðast við), elimínera (útiloka), kommentera (ræða um) og defínera (skilgreina). - Með svolítilli hagræðingu á orðum eins fyrirlesarans, má segja að ofantalið sé þó ekki nema "týpískur status á klínískri presentasjón" og "ekki siggnifíkant um neitt, sem ekki geti effektíft normalíserast".Nokkrar tillögur

Þá er að snúa sér að umfjöllun á tillögum, sem borist hafa. Einn starfsbróðir var að fást við þýðingu á secondary leukemia og spurði hvort kalla mætti þetta fyrirbæri "tengt hvítblæði". Secondary leukemia er ekki sérstakt uppflettiheiti í Íðorðasafninu, en þar kemur secondary fyrir í öðrum samsetningum með margvíslegum þýðingum, svo sem: afleiddur, annars flokks, annars stigs, auka-, ákominn, áunninn, fylgi-, minni háttar og síð-. Ekkert af þessu er sérlega lipurt í umræddri samsetningu, þannig að óska verður eftir fleiri tillögum.

Annar orðhagur starfsbróðir sendi stutt bréf þar sem hann rökstyður notkun orðsins skíðhygli sem heiti á schizophrenia í stað heitisins geðklofi. Skíð var upphaflega notað um viðarklofning og telur tillöguhöfundur að orðsifjafræðileg tengsl, merkingartengsl og hljóðlíking geri þetta orð vel nothæft. Þessu er hér með komið á framfæri.

Atypia er eitt af þeim orðum, sem ekki hafa fengið góða þýðingu. Atypical merkir einfaldlega óvenjulegur, afbrigðilegur eða frábrigðilegur og nú er spurt hvort atypia megi heita frábrigð eða frábrigði.

FL 1991; 9(1); 7
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica