Íðorðapistlar 1-130

047-Smásjá - örsjá

Undirritaður var að fletta í gömlum árgöngum Læknablaðsins þegar hann rakst á pistil eftir Guðmund Hannesson, eins konar fréttir úr erlendum læknablöðum, þar sem rætt var um smásjá, örsjá og "elektronasmásjá". Í framhaldi af nýlegri umfjöllun undirritaðs um þessi orð (FL 1993;11:6) skulu nú birtar nokkrar glefsur úr samantekt Guðmundar.

"Þegar smásjáin fannst, opnaðist nýr heimur fyrir læknum og náttúrufræðingum, og allir vita hve fjölbreyttur og þýðingarmikill hann var. Smám saman varð smásjáin svo fullkomin, sem eðli ljósbylgjanna leyfði og varð ekki annað sýnna en að aldrei kæmist sjón manna lengra. Það leið þó ekki á löngu til þess að gerð var örsjá (ultra mikroskop) og mátti þá sjá hluti, sem voru ekki sýnilegir í beztu smásjám, þótt myndin væri ekki allskostar glögg."

"Þá vildi það til fyrir nokkrum árum, að algerlega ný smásjá fannst: elektronasmásjáin. Við hana er ekki notað ljós og ljósbrjótar, heldur elektronastraumar eða geislar, sem beygja má á líkan hátt og ljósgeisla, þótt engir ljósbrjótar séu notaðir. Sést þá myndin á "fluorescerandi" fleti. Talið er ekki örvænt að slíkar huliðssjár geti stækkað 200.000 sinnum." (Læknablaðið 1942;28:79-80)

Það kom undirrituðum á óvart að þarna skyldi orðið örsjá vera notað um annað en rafeindasmásjána. Honum er ekki heldur fyllilega ljóst hverrar gerðar umrædd örsjá hefur verið. Ef til vill er þó verið að vísa til þess að allra fyrstu smásjárnar höfðu einfalt kerfi sjónglerja (E. simple microscope), og voru því nánast ekki annað en öflugt stækkunargler. Samsetta smásjáin (E. compound microscope), en af þeirri gerð eru allar síðari tíma smásjár, hefur hins vegar að minnsta kosti tvö kerfi sjónglerja, annars vegar svonefnd viðfangsgler (objective lens), næst því sem skoðað er (viðfangsefninu), og hins vegar augngler (ocular lens eða eyepiece), næst auga skoðandans. Í ljós kemur að Íðorðasafn lækna notar heitið fjargler til þýðingar á objective. Það finnst undirrituðum vont heiti, vegna þess að eitt sér gefur það mjög óljósa hugmynd um hvað við er átt. Ef augnglerið væri kallað nærgler væri þó um samstæðu að ræða.Stórsjá - víðsjá

Við endurskoðun á fyrri pistli rifjaðist það upp að sumir rannsóknarmenn nota heitið víðsjá um þá sjá, sem þar var nefnd stórsjá (E. macroscope). Reyndar er það svo að erlendir framleiðendur tækjanna hafa ekki komið sér saman um almenn tegundarheiti. Það, sem sumir nefna macroscope, nefna aðrir dissecting microscope og enn aðrir stereomicroscope.

Víðsjá er þýðing á síðasta tegundarheitinu og er það í fullu samræmi við víðóm útvarpsins. Sem innskoti má þó koma því á framfæri að undirrituðum líkar alls ekki að lýsingarorðið stereophonic sé þýtt sem víðóma. Hversu víður er ómurinn? Nær væri að tala um tvíóma eða tvírása hljóðvarp, eða hver man ekki eftir fjóróma (quadrophonic) hljómtækjum, sem vinsæl voru fyrir um það bil tveimur áratugum. Gefa þau ekki enn "víðari" óm? Rétt er og að geta þess að orðhlutinn stereo- er kominn úr grísku, af lýsingarorðinu stereos, sem merkti upphaflega þéttur eða fastur (E. solid). Síðar var orðhlutinn stereo einnig notaður í fræðiorðum til lýsingar á tjáningu eða skynjun dýptar eða þrívíddar. Loks má nefna að heitið þrívíddarsmásjá hefur einnig verið notað um fyrrgreint tæki, stereomicroscope.Villa

Í fyrri smásjárpistli slæddist inn villa, sem rétt er að leiðrétta. Þar var sagt að enska heitið scope væri komið af grísku sögninni skopeo, en hið rétta er að nafnháttur hinnar grísku sagnar er skopein. Sem fróðleiksmola má bæta því við að orðið microscope mun hafa verið sett saman á Ítalíu árið 1624 af einhverjum meðlimanna í hópi fræðimanna, sem nefndu sig Academia del Lincei. Einn þeirra var eðlis- og stjörnufræðingurinn Galileo.Prospective - retrospective

Í lokin má vekja athygli á orðum sem notuð eru til að gera greinarmun á tveimur tegundum fræðirannsókna. Önnur byggir á gögnum, sem safnað er sérstaklega fyrir rannsóknina, og nefnist framskyggn, framsæ eða framvirk rannsókn, prospective study. Hin byggir á gögnum, sem þegar hefur verið safnað, oft í öðrum tilgangi, og nefnist afturskyggn, aftursæ eða afturvirk, retrospective study. Íslensku orðin eru öll það lipur að óþarfi ætti að vera nota slettur og slanguryrði.

FL 1993; 11(11): 9
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica