Umræða fréttir
  • Árni Björnsson

Tæpitungulaust. Þegar krosstrén bregðast

Ef telja ætti upp krosstré Þjóðarinnar eftir að Eimskip og Flugleiðir brugðust mundi Krabbameinsfélag Íslands standa ofarlega á listanum. Sá sem þetta ritar hefur þó jafnan haft fyrirvara á um að stofna félög kringum sjúkdóma eða sjúkdómaflokka. Þau eru nefnilega liður í læknisfræðivæðingunni sem tröllríður nútímaþjóðfélögum. En þetta er nú einu sinni tíska og til hvers er að spyrna við fótum, þegar hún er annarsvegar?

Hvað sem því líður hefur Krabbameinsfélagið um árabil verið eitt af krosstrjám þjóðarinnar, með heit á þvertrénu um að berjast við þann flokk sjúkdóma sem við köllum krabbamein og hefur jafnan verið talinn einn skæðasti óvinur lífsins þó hann geti líka verið hin endanlega líkn. Á þeim tíma sem félagið hefur starfað hafa orðið verulegar breytingar á birtingarformi krabbameina. Sumum hefur fækkað en öðrum fjölgað og í heild hefur dánartíðni af völdum krabbameinssjúkdóma lækkað. Þegar um er að ræða árangur af baráttu við sjúkdóma kemur margt til greina en þó blandast engum hugur um að barátta Krabbameinsfélagsins hefur skilað árangri sem engin ástæða er til að vanmeta. Þessvegna hefur þjóðin tekið félagið að brjósti sínu og stutt starfsemi þess af heilum huga.

Ein uppistaðan í kjörviði stofns félagsins er krabbameinsskráningin en í krabbameinsskránni eru persónueinkenni allra þeirra sem hafa fengið krabbamein á síðustu áratugum, bæði látinna og lifandi. Bæði hinir látnu og lifandi hafa hingað til talið að í þeirri skrá væri krabbameinssjúkrasaga þeirra vel geymd, hugsanlega notuð til rannsókna á krabbameinum en hvorki afhent þriðja aðila ókeypis né sem söluvara, enda í eigu þjóðarinnar, sem byggði veglegt hús yfir starfsemina og hefur stutt félagið með kaupum á merkjum, happadrættismiðum minningargjöfum og skattfé úr ríkissjóði. En eins er með krosstré sem og önnur tré, þau geta brugðist. Sveppategund sem veldur fúa í trjáviði, sem kallast þurrafúi, getur jafnvel skemmt kjörvið. Krosstré sem önnur tré geta smitast af þurrafúa sem veikir þau, svo þau bregðast og brotna. Þurrafúinn getur eins og krabbamein birst í ýmsum myndum. Sá þurrafúi sem gegnsýrir íslenska þjóðfélagsmeiðinn nú, er gjaldfíkn og sá sem hefur í höndum næringu fyrir þann fúavald virðist hafa greiðan aðgang að flestum trjám þjóðfélagsins, jafnvel krosstrjánum. Enginn virðist ónæmur fyrir fúavaldinum og nú hefur "krosstréð" Krabbameinsfélag Íslands tekið sýkina og hver trúir því að stofninn sé ónæmur þegar hluti hans hefur sýkst.

Sá sem fær krabbamein getur ekki lengur treyst því að upplýsingarnar um sjúkdóm hans séu varðveittar í krabbameinsskránni. Það er nefnilega búið að verðleggja þær og selja og upplýsingarnar um hvern einstakling eru metnar á andvirði eins meðal dilkakjötlæris. Krosstréð hefur brugðist og varlegt er að treysta því að brestirnir í því séu traustabrestir.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica