Umræða fréttir

Ársskýrsla Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins

Krabbameinsfélagið hefur gefið út skýrslu um leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum árið 2000. Starfsemi Leitarstöðvar félagsins hófst árið 1964 og stendur leghálsskoðun öllum konum á aldrinum 20-69 ára til boða. Jafnframt er leitað að brjóstakrabbameini í konum á aldrinum 40-69 ára.

Í skýrslunni kemur fram að á árinu 2000 voru gerðar 31.803 skoðanir á leghálsi hjá 30.750 konum og voru 68,4% kvennanna skoðaðar í Leitarstöðinni en 31,6% hjá sérfræðingum og sjúkrastofnunum. Þetta jafngildir rúmlega þriðjungi kvenna í aldurshópnum 20-69 ára. Vegna leitar að brjóstakrabbameini voru gerðar 16.745 skoðanir á 16.453 konum á árinu. Langstærstur hluti þeirra eða 14.116 voru á aldrinum 40-69 ára en það jafngildir því að 32,2% kvenna í þeim aldurshópi hafi mætt í brjóstaskoðun á árinu.

Mikil áhersla er lögð á að konur mæti reglulega til skoðunar og má segja að í gegnum tíðina hafi gengið vel að fá konur til að mæta. Í skýrslunni kemur fram að 5,2% kvenna á aldrinum 25-69 ára hafa aldrei mætt til leghálskrabbameinsleitar og 14,4% kvenna á aldrinum 40-69 ára hafa aldrei mætt til brjóstaröntgenmyndatöku. Þá er vakin athygli á því í skýrslunni að árið 1992 höfðu 82% kvenna í aldurshópnum 25-69 ára mætt til skoðunar einu sinni á næstliðnum þremur árum. Í fyrra hafði þetta hlutfall lækkað niður í 76% og er fækkunin aðallega meðal kvenna undir 50 ára aldri.

Á árinu 2000 var 961 konu vísað til framhaldsrannsóknar að lokinni fyrstu leghálsskoðun en á árinu greindust 12 tilfelli af leghálskrabbameini, þar af þrjú á hærra stigi en IB. Eftir brjóstaþreifingu var 1.949 konum vísað til frekari rannsókna og 530 konum sem mættu í brjósamyndatöku var vísað til frekari rannsókna. Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskránni er vitað um 193 einstaklinga sem greindust með krabbamein í brjóstum árið 2000 (192 konur og einn karl). -ÞH

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica