Umræða fréttir

Menningarheimar mætast

Ólík menningar- og trúaráhrif móta líf og viðhorf einstaklinga. Þessi staðreynd er ástæða þess að landlæknisembættið og Landspítalinn-háskólasjúkrahús hafa gefið út ritið: Menningarheimar mætast, með upplýsingum fyrir heilbrigðis- starfsfólk. Ólík viðhorf koma ekki síst í ljós þegar á reynir, við fæðingu, sjúkdóma, þjáningar eða dauða. Í fréttatilkynningu frá Landspítalanum og landlæknisembættinu segir meðal annars að markmið útgáfunnar sé að auka skilning heilbrigðisstarfsfólks á þörfum einstaklinga, sem alist hafa upp við mismunandi menningu og trú. Það er gert í ritinu með því að varpa ljósi á þá trúarheimspeki, viðhorf og lífsgildi sem rekja má til arfleifðar sem sjúklingar af ýmsum trúarbrögðum og þjóðernum hafa, svo og viðhorf þeirra sem aðhyllast ákveðnar trúarskoðanir.

Kveikjan að ritinu er sú staðreynd að á skömmum tíma hefur íslenskt samfélag orðið fjölþjóðlegt og við því þarf að bregðast. Samfélagið þarf að koma til móts við mismunandi þarfir sem meðal annars skapast af margvíslegri arfleifð, lífsháttum og trúarhefð. Þá hefur aukinn straumur ferðamanna aukið þörf á því að heilbrigðisstarfsfólk sé upplýst um mismunandi menningu, trú og siði.

Í fréttatilkynningunni segir ennfremur:

,,Nokkuð álag getur fylgt því fyrir heilbrigðisstarfsfólk þegar ólíkir menningarheimar mætast, einkum þegar kemur að eftirliti, meðferð og umönnun veikra og deyjandi sjúklinga svo og í samskiptum við aðstandendur þeirra. Þekking heilbrigðisstarfsmanna á megingildum ólíkra þjóðfélagshópa sem leita til heilbrigðiskerfisins er líkleg til að auðvelda nálgun, eftirlit, meðferð og umönnun sjúklinga. Hún er til þess fallin að auka skiling, samvinnu og traust milli manna og stuðla að betri samskiptum og árangri. Á þessu byggir grundvallarhugmyndafræði heilbrigðisþjónustunnar, það er að mæta einstaklingnum á hans forsendum og veita honum heildræna meðferð."

Höfundar ritsins eru Þorbjörg Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum og Vilborg Ingólfsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur við landlæknisembættið. Það er hið fyrsta sinnar tegundar sem gefið er út hér á landi. Við vinnslu bókarinnar var haft samband við öll trúfélög hér á landi með 100 eða fleiri meðlimi, sem skráð eru hjá Hagstofu Íslands.

Auk prentútgáfu ritsins er hægt að nálgast það á vefi Landspítalans (www.landspitali.is) og landlæknisembættisins (www.landlaeknir.is).

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica