Umræða fréttir

Ragnheidur Guðmundsdóttir heiðursfélagi FKLÍ

Félag kvenna í læknastétt á Íslandi gerði nýverið Ragnheiði Guðmundsdóttur augnlækni að fyrsta heiðursfélaga sínum. Þann 24. apríl síðastliðinn var haldið hóf henni til heiðurs þar sem hún var heiðruð fyrir störf sín sem einn af frumkvöðlum úr hópi kvenna í íslenskri læknastétt. Ólöf Sigurðardóttir formaður félagsins sagði í stuttu spjalli við Læknablaðið að hún væri Ragnheiði sérstaklega þakklát fyrir þann einlæga áhuga og stuðning sem hún hefur sýnt félaginu allt frá upphafi.

Ragnheiður lauk embættisprófi í læknisfræði árið 1945 og höfðu aðeins sex íslenskar konur lokið kandídatsprófi í læknisfræði á undan henni (1912-1945). Þess má geta að á sama tímabili luku 193 karlar kandídatsprófi í læknisfræði. Ragnheiður fæddist í Reykjavík 20. ágúst 1915. Hún tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1935 og stundaði nám í þýskri og enskri bókmenntasögu við Kaupmannahafnarháskóla 1935-1936. Hún lauk cand. phil prófi þaðan vorið 1936. Eftir það lá leiðin aftur heim til Íslands og í læknanám. Cand. med. varð hún frá Háskóla Íslands vorið 1945, sem fyrr segir. Hún fékk almennt lækningaleyfi árið 1951 og lauk sérfræðiprófi frá Escuela Professional de Oftalmologia í Barcelona árið 1964 og fékk sérfræðingsleyfi á Íslandi tveimur árum síðar. Hún dvaldi meðal annars í Bandaríkjunum og í Bretlandi við framhaldsnám síðar.

Ragnheiður hefur verið brautryðjandi á ýmsum sviðum, meðal annars við að skipuleggja nám sjúkraliða hér á landi. Hún hefur einnig tekið virkan þátt í félagsmálum og var meðal annars formaður Félags íslenskra háskólakvenna og Kvenstúdentafélagsins um sex ára skeið. Þá hefur hún einnig gegnt formennsku í Augnlæknafélagi Íslands, Golfklúbbi Reykjavíkur og Landssambandi sjálfstæðiskvenna.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica