Umræða fréttir

Gráu svæðin

Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands er gerkunnugur skoðanakönnunum og framkvæmd þeirra. Hann hefur meðal annars unnið að því að byggja upp þær kannanir sem gerðar eru hjá Félagsvísindastofnun Háskólans. Hann var inntur álits á þeim spurningum sem lagðar voru fyrir íslenska lækna og almenning í könnun Gallups og kynningunni á niðurstöðunum. Einnig um þær almennu reglur sem hafa þarf í huga varðandi skoðanakannanir. Hann var fyrst spurður um það hver réði venjulega ferðinni varðandi orðalag spurninga í skoðanakönnunum.

"Þau fyrirtæki sem kaupa spurningar af könnunarfyrirtækjum ráða á endanum hvaða spurninga er spurt. Hins vegar eru fyrirtæki sem hafa metnað, eins og Gallup til dæmis hefur augljóslega, mjög á varðbergi gagnvart því að spyrja spurninga sem eru augljóslega leiðandi eða gallaðar. Þarna er að vísu alls konar grá svæði í sambandi við samskipti viðskiptavinar og fyrirtækis, eins og oft er, ekki aðeins í sambandi við skoðanakannanir heldur einnig hjá ráðgjafarfyrirtækjum og fleiri aðilum."

Er falin einhver gildra í skilyrtum spurningum eins og til dæmis þeirri sem læknar svöruðu varðandi gagnagrunninn? Eins og fram hefur komið hefur spurningin verið túlkuð mismunandi af fulltrúum Íslenskrar erfðagreiningar og Læknafélagsins þar sem meðal annars hefur verið tekist á um hvenær upplýst samþykki þurfi að liggja fyrir?

"Fyrst ber þess að gæta að spurningin sem læknar voru spurðir varðandi afstöðu til gagnagrunnsins og sú sem almenningur fékk eru tvær ólíkar spurningar. Svörin við þeim eru alls ekki sambærileg. Það hefði verið áhugavert að hafa spurningarnar eins og spyrja læknana bara þessarar einfaldari spurningar.

Það er í sjálfu sér allt í lagi að gefa sér forsendur og því betur sem svarendur þekkja til málsins þeim mun líklegri eru þeir til að geta áttað sig á tiltölulega flóknum atriðum. Ég geri ráð fyrir að læknar hafi í grófum dráttum einhverja sæmilega hugmynd um hvað átt er við með öllum skilmálum alþjóðasamtaka lækna og vísindasamfélagsins. Þeir sem vilja að farið sé að þessum skilmálum, án tillits til þess hverjir þeir eru, geta svarað spurningunni með jái eða neii. Hins vegar getur það vel haft áhrif ef ekki er vel ljóst hvað átt er við með því hvaða skilyrði er verið að tala um. Það væri heppilegast að spyrja þessarar spurningar og spyrja síðan fleiri spurninga, til dæmis að spyrja þá beint um upplýst samþykki. Þegar verið er að spyrja um viðhorf segja ein eða tvær spurningar aldrei alla söguna."

Er til einhver þumalfingursregla um hvað sé heppilegt að spyrja margra spurninga?

"Nei, það er ekki hægt að segja það. Mjög oft eru fáar spurningar vegna þess að menn hafa ekki endalausa peninga og verða að láta sér þær nægja. Ef maður vill kortleggja afstöðu fólks mjög vel þá er gott að spyrja fimm, 10 eða jafnvel 20 spurninga."

Hvað finnst þér annars um þessa könnun sem slíka?

"Almennt eru þetta mjög klassískar spurningar og settar upp á þann hátt sem venjulegt er. Það má auðvitað alltaf velta fyrir sér einhverjum blæbrigðum í spurningu, eins og hvort það að vísa til þess að farið sé eftir öllum skilmálum alþjóðasamtaka lækna og vísindasamfélagsins þjóni þeim tilgangi að auka fjölda jákvæðra svara. En ég sé ekkert augljóslega ámælisvert í spurningunum þótt túlkunin á þeim sé ekki endilega augljós.

Ef fyrsta spurningin sem læknarnir svöruðu er túlkuð þannig, að allir sem svara henni játandi séu samþykkir núverandi uppbyggingu á gagnagrunni, þá er það augljóslega ekki rétt túlkun, nema þá að allir læknar hafi sama skilning á skilyrðum alþjóðasamtaka lækna og vísindasamfélagsins, sem ég held að sé ekki. Það er reyndar mjög algengt að menn fari frjálslega með hvers er spurt í umfjöllun eftir á. Ég hef einmitt séð rannsóknir á því að oft þegar menn eru að skoða stöðugleika í viðhorfum almennings þá má skýra sveiflur sem fram koma með því að ekki er verið að spyrja um sama hlutinn. Stöðugleiki í viðhorfum fólks er miklu meiri en menn halda oft, jafnvel árum og áratugum saman. Einnig er til í dæminu að greina megi ákveðna þróun sem gengur öll í sömu átt eins og hefur verið kannað í Bandaríkjunum, þar sem afstaðan til kvenna hefur til dæmis í rólegheitum breyst verulega á undanförnum 60-70 árum. En í fréttum virðist sem einhverjar miklar sveiflur séu í gangi og menn draga þær ályktanir að almenningsálitið sé svona óskaplega flöktandi. Menn benda á að í gær hafi 70% manna verið meðmæltir Persaflóastríðinu en í dag séu þeir aðeins 50%. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að spurningarnar sem spurt var eru ekki sambærilegar."

Nú urðu talsverð blaðaskrif vegna þess að Íslensk erfðagreining birti ekki svör nema við annarri aðalspurningunni. Er það algengt að tekinn sé hluti úr könnun og kynntur en öðrum sleppt, ef til vill ef sá fyrrnefndi er hagstæður en hinn ekki?

"Ég er nú ekki sjálfur að framkvæma svona kannanir nú og veit ekki hversu algengt það er. Ég gæti þó trúað því að það væri töluvert algengt. Sá sem kaupir spurningar er ekki skyldugur til að birta allar niðurstöðurnar. Sumir birta engar. Þetta er hins vegar eins og með aðrar upplýsingar, ég held að könnunarfyrirtæki geti ekki gert kröfu um að allt sé birt. Stundum er um margar spurningar að ræða og þá vilja menn sýna færri og skýrari niðurstöður, sem eru samt dæmigerðar. Ef hins vegar sá sem lætur gera könnun fyrir sig kýs viljandi að birta villandi niðurstöður sem eru á skjön við meginniðurstöður könnunarinnar, þá er það náttúrulega siðferðilega ámælisvert. En það á líka við um aðrar upplýsingar, það er líka ámælisvert ef Þjóðhagsstofnun eða Seðlabankinn birta 30 vísa um þjóðahagsstærðir og stjórnmálamaður kýs að taka aðeins einn eða tvo sem eru á skjön við heildarmyndina. Þar eru að vísu allar upplýsingar á borðinu."

Þarna var um að ræða tvær aðalspurningar, breytir það einhverju?

"Í þessu tilfelli hefði ég nú talið það lang heiðarlegast og hyggilegast af þeim að birta allt. En það er auðvitað þeirra mat, sem keyptu könnunina, hvernig staðið var að kynningunni."

Eru skoðanakannanir farnar að vera tæki til að birta jákvæða mynd af fyrirtækjum?

"Skoðanakannanir eru ekkert öðru vísi en aðrar upplýsingar. Það getur skipt miklu máli hvernig afkomureikningur fyrirtækja er settur upp. Þarna er grá lína, hvenær upplýsingarnar eru svona svolítið villandi og hvenær er farið að falsa eða ljúga. Auðvitað vill maður hafa framsetningu sem einfaldasta og heiðarlegasta en í veruleikanum eru alls konar grá svæði á þessu sviði eins og öðrum. Maður verður fyrst og fremst að gera þá kröfu að upplýsingar um framkvæmdina séu ljósar og ljóst sé hvernig er spurt. Þá geta menn metið sjálfir hvort þeir telja að eðlilega sé að staðið eða ekki. Reyndar er það nú þannig að það getur komið í bakið á mönnum ef þeir ætla að búa sér til hagstæða niðurstöðu, til dæmis með því að búa til mjög hlutdrægar spurningar. Það er venjulega augljóst hvað þeir eru að gera. Og þá eru þeir bara hlegnir út úr húsinu."

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica