Umræða fréttir

Broshornið 14. Af magnýl og sterum

Barn á leiðinni

Verðandi föður var mikið niðri fyrir þegar hann hringdi á fæðingadeildina.

"Konan mín á von á sér og samdrátturinn kemur á tveggja mínútna fresti."

"Er þetta fyrsta barnið hennar?," spurði ljósmóðirin sem svaraði símanum.

"Nei, er ekki allt í lagi með þig? Þetta er eiginmaðurinn."



Á stofugangi

Geðlæknirinn gekk stofugang. Þegar hann kom inn á tvíbýli þar sem Nonni og Maggi dvöldu sá hann að Nonni var að þykjast saga spýtu í sundur. Maggi hékk hins vegar niður úr loftinu með höfuðið á undan sér.

"Nonni, hvað ertu eiginlega að gera?," spurði læknirinn.

"Sérðu ekki að ég er að saga spýtu í tvennt?"

"En hvað er Maggi þá að gera þarna uppi í loftinu?"

"Æ, hann er dálítið ruglaður í dag. Hann heldur að hann sé ljósapera."

"Heldurðu að það væri ekki skynsamlegt að fá hann til að koma niður á gólf?"

"Hvað meinarðu?," spurði Nonni. "Á ég þá að vinna í myrkri?"



Setningar sem sjúklingurinn má alls ekki heyra inni á skurðstofu

"Oops!"

"Hefur nokkur séð úrið mitt?."

"Þetta var alveg rosalegt partý í gærkvöldi. Ég held ég hafi aldrei orðið eins fullur á ævinni."

"Heyrðu mig, þetta virðist vera skemmtilegt. Viltu leyfa mér að prófa?"

"Geymdu það sem er í skálinni. Við gætum þurft á því að halda við krufninguna."

"Fjandinn sjálfur, þar fór rafmagnið enn einu sinni."

"Er það ekki rétt hjá mér að þessi sjúklingur eigi eitthvað af börnum?"

"Var þessi sjúklingur ekki örugglega búinn að skrifa undir að hann vildi gefa líffæri úr sér?"



Lífssýn skurðlæknisins

Skurðlæknirinn fann þörf hjá sér til að tjá sig við geðlækninn.

"Ef mér verður verulega á í messunni deyr sjúklingurinn. Ef þér mistekst eitthvað illilega á sjúklingurinn um sárt að binda alla ævi."



Einn af fjórum

Geðlæknar vilja meina að einn af hverjum fjórum þjáist af geðsjúkdómi. Athugaðu þrjá vini þína. Ef þeir eru í lagi þá ert það þú sem ert sá klikkaði.



Magnýl

Kona kom inn í lyfjabúð og spurði afgreiðslustúlkuna:

"Áttu til acetýlsalicýlsýru?"

"Meinarðu magnýl ?"

"Já, einmitt," sagði konan. "Ég get bókstaflega aldrei munað þetta nafn."



Kál í eyranu

Maður nokkur kom til læknis og kvartaði undan því að spergilkál væri farið að vaxa út úr öðru eyranu.

Læknirinn trúði varla sínum eigin augum, þegar hann skoðaði manninn og gat staðfest, að í raun og veru var spergilkál farið að vaxa í hægra eyranu.

"Það hlýtur að vera erfið reynsla fyrir þig að kál skuli vaxa í eyranu á þér," sagði læknirinn.

"Já, því máttu trúa og ég er alveg grútspældur af því að ég sáði gulrótum."



Hænusystir

Læknirinn: "Hvað er eiginlega að bróður þínum?"

Systir sjúklingsins: "Hann heldur að hann sé hæna."

Læknirinn: "Hvað hefur hann haldið það lengi?"

Systirin: "Í þrjú ár."

Læknirinn: "Í þrjú ár. Því í ósköpunum komstu ekki með hann fyrr?"

Systirin: "Við þurftum að nota eggin."



Á sterum

Kona ofarlega á miðjum aldri kom á stofu til Skeggja læknis, sem hafði skrifað upp á stera handa henni.

"Ég hef nokkrar áhyggjur af þessu lyfi, sem þú ert að láta mig taka, Skeggi."

"Af hverju hefurðu áhyggjur af því?"

"Ég er komin með hár á bringuna," sagði konan og hneppti frá tveimur efstu tölunum á blússunni. Við lækninum blasti hármotta milli brjósta konunnar.

"Guð minn góður," hrópaði læknirinn upp yfir sig. "Hversu langt niður nær hárvöxturinn?"

"Það er reyndar hitt málið, sem ég ætlaði að ræða við þig. Hann nær alveg niður að eistum."

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica