Umræða fréttir

Háloftaútkall

Undirritaður var staddur í Flugleiðavél í október síðastliðnum á leið frá Orlando til Íslands. Flugfreyjan benti mér brosandi á, að vel ætti nú við, að ég sæti beint undir sjúkratöskunni þar sem mér var ætlaður sess á aftasta bekk (sætisröð 35 ef ég man rétt) stjórnborðsmegin. Rétt er að benda mönnum á að forðast þessa sætisröð eins og heitan eldinn, því sætin eru enn þrengri en önnur og til dæmis er ekki hægt að halla sætisbaki. Til að gera aðstöðuna enn skemmtilegri þá er maður síðastur í afgreiðsluröð matar, þannig að maturinn sem okkur var ætlaður var uppurinn þegar að okkur kom, en okkur boðið upp á fisk sem hafði greinilega verið nokkurra daga gamall þegar hann var eldaður, svo jafnvel matmaðurinn ég, sem til þessa hef borðað allan flugmat og yfirleitt þótt hann góður, sendi fiskinn ónotaðan til baka.

En þetta var útúrdúr! Yfir miðju Atlantshafi fór stór og mikill farþegi að gerast skringilegur og fjarrænn með meiru og reyndist æði hýpótensífur þegar ykkar einlægur mældi hann. Þá tíma sem eftir lifðu ferðar upp undir Íslandsstrendur eyddi ég því bograndi yfir manninum eða standandi í flugeldhúsinu þar sem við lögðum hann. Hvort það var mun óþægilegra en að sitja í hálfgerðri fósturstellingu í öftustu röð skal ósagt látið, en mér finnst reyndar að annað hvort eigi þessi sæti að víkja, eða seljast einvörðungu bráðungu og hressu fólki og þá á hálfvirði.

Hvað um það, þegar nær dró landi þurfti að ákveða framhaldið og þar sem sjúklingurinn hafði hjarnað vel við ákvað ég að leyfa honum að halda áfram för til heimabæjar (London) og að afþakka sjúkrabíl og spítalaferð í Keflavík. Fyrir þá sem áhuga hafa: læknataska er í flugvélum og furðu vel búin, enda skilst mér að slíkt sé í umsjá Árna Kristinssonar. Mér tókst að vísu ekki að finna innrennslisvökva, en vel má vera að þeir leynist í vélunum.

Þar sem aukin umræða um ábyrgð lækna hefur varla farið fram hjá mönnum hef ég velt ýmsu fyrir mér eftir ferðina. Auðvitað var mér ljúft og skylt að bregðast við útkalli, en ef ég hefði gert eitthvað óviðurkvæmilegt í háloftunum, eða hefði maðurinn til dæmis látist af lungnaembólíu eftir að ég leyfði honum að halda áfram för, hvers er þá ábyrgðin? Í annan stað: Bíllinn minn beið í Keflavík svo ekki var etanóldropi í blóðinu, en ekki er ótítt að ég, og jafnvel aðrir læknar, séu ekki bláedrú í flugferðum. Hverju breytir það ef einhverju í ábyrgð og skyldum?

Í þriðja lagi fjarskylt efni: Unglæknar og læknanemar aðallega taka gjarnan að sér einhvers konar læknisþjónustu á þjóðhátíð og öðrum útihátíðum, hvar hvílir þá ábyrgð og bótaskylda?

Svona í lokin: Einhver veltir því örugglega fyrir sér hvernig sé með umbun fyrir háloftaútkall og ef til vill einhverra klukkustunda vinnu við erfið skilyrði. Ég hef heyrt að Atlanta hafa brugðist við slíku með nýrri ferð, en þetta er óstaðfest. Þessar ágætu flugfreyjur, sem ég var samferðu, tóku skilmerkilega niður nafn mitt og aðrar upplýsingar og meðal annars hvenær ég flygi næst með Flugleiðum. Töldu þær öruggt að ég yrði uppfærður í Saga klass, þar sem rými er nægt og maturinn ætur. Ekkert slíkt gerðist í þau tvö skipti sem ég hef flogið síðan. Reyndar átti ég hvorki von á flugpunktum né uppfærslu frá þessu félagi, því miður, en átti hálft í hvoru von á stöðluðu þakkarbréfi eða jólakorti, en, nei ekkert slíkt.

Félagi minn á slysadeild hefur sömu reynslu af þessu félagi, háloftaútkall, nafn og númer skráð vandlega en síðan ekki einu sinni, svei þér! Gaman væri að vita hvað tíðkast hjá flugfélögum í hinum siðmenntaða heimi í svona tilfellum. Maður veltir því fyrir sér, reyndar með örlítilli ofsóknarkennd, til hvers félagið þurfi nafn og númer læknisins, nema því aðeins að geta gripið til hans ef eitthvað fer úrskeiðis með sjúklinginn.

Hrafnkell Óskarsson

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica