Umræða fréttir

Íðorðapistlar Læknablaðsins gefnir út

Íðorðapistlar Jóhanns Heiðars Jóhannssonar læknis hafa birst í Læknablaðinu í liðlega áratug. Nú hafa fyrstu 130 pistlarnir verið gefnir út sem Fylgirit með blaðinu (41/2001) og er ritið án efa til mikils gagns fyrir lækna og annað áhugafólk um heilbrigðismál. Ítarleg orða- og nafnaskrá gerir notkun pistlanna auðvelda og aðgengilega.

Fyrsti pistill Jóhanns Heiðars birtist í Læknablaðinu/Fréttabréfi lækna, 5. tölublaði árið 1989 en pistlarnir hafa birst reglubundið í blaðinu frá því í ársbyrjun 1990. Örn Bjarnason, fyrrverandi ritstjóri Læknablaðsins, fylgir pistlunum úr hlaði í Fylgiritinu og segir meðal þar meðal annars: ,, ... sífellt bætast við erlend hugtök og heiti. Það er í ljósi þessa, sem mat verður lagt á framlag Jóhanns Heiðars. Mikilvægi þess felst í því, að hann veitir okkur innsýn í umræðu um íðorðasmíð í læknisfræði og við fræðumst um það, hvernig má mynda ný íðorð og hvaða aðferðum er hægt að beita. ... Það var ekki fyrr en ég las yfir handritið í heild, að ég gerði mér grein fyrir því, hvílíka feiknavinnu Jóhann Heiðar hefir þegar lagt í verkið." Umfang ritsins staðfestir þessi orð, því það er 164 síður að stærð og spannar nánast öll svið læknisfræðinnar auk þarfra pistla um framburð orða, ráðstefnumál og fleira sem tengist íðorðum lækna.

Framlag Jóhanns verður sennilega seint fullmetið, en með útgáfu pistlanna er gerð tilraun til að sýna vinnu hans þann sóma sem ástæða er til. Áskrifendur Læknablaðsins hafa þegar fengið Fylgiritið í hendur en auk þess er hægt að nálgast ritið hjá Læknablaðinu, Hlíðasmára 8, Kópavogi.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica