Umræða fréttir

Íðorð 131. Complex

Í nýlegri fyrirspurn birtist enska nafnorðið complex. Eins og fram kom í 96. pistli (Læknablaðið 1997;84:63) er það komið úr latínu. Latneska nafnorðið complexio merkir sameining, samsetning, samstæða og lýsingarorðið complexus merkir flókinn, samofinn, samsettur. Í Ensk-íslenskri orðabók Arnar og Örlygs má finna skýringar á enska lýsingarorðinu: 1. samsettur, margbrotinn. 2. margslunginn, flókinn. og enska nafnorðinu: 1. samsett og margbrotin heild. 2. samstæða. 3. (í sálfræði) geðhnútur, duld, geðflækja, kerfi bældra tilfinninga. 4. (í efnafræði) samsett efnasamband. 5. (óformlega) sterkar ósjálfráðar tilfinningar, einkum fordómar, óbeit eða andúð. Undirritaður gerði mjög ítarlega leit í Íðorðasafni lækna og fann þar eftirtaldar þýðingar, ýmist stakar eða í samsetningum: duld, flóki, flækja, hnútur, kerfi, mynd, samstæða, útslag.



QRS-complex

Í texta þeim, sem fyrirspurnin vísaði til, kom fyrir samsetningin "broad and/or narrow complex tachycardias". Íðorðasafnið nefnir tachycardia hraðtakt eða hraðslátt og QRS-complex er nefnt QRS-mynd. Eftir að hafa ráðfært sig við hjartalækni fór undirritaður þá leið að vísa í bylgjur hjartarafritsins og nefna þetta hraðslátt með gleiðri eða mjórri bylgjumynd (QRS-complex). Í stað bylgjumyndar hefði mátt tala um bylgjusamstæðu (QRS-samstæðu). Gaman væri að fá fregnir af því ef hjartalæknar hafa fundið aðra lausn.



Paroxysmal

Þannig hittist á að sama daginn kom annar hjartalæknir, Árni Kristinsson, með hugmynd að þýðingu á lýsingarorðinu paroxysmal í tengslum við hjartsláttartruflanir. Slíkar truflanir segist hann nefna tilfallandi, en þær viðvarandi sem sumir aðrir læknar nefna krónískar. Uppfletting í Íðorðasafninu leiðir í ljós að paroxysm er kast eða hviða og paroxysmal fær þar þýðingarnar köstóttur eða hviðu-. Paroxysmal tachycardia er hraðsláttur sem kemur í köstum og nefnir Íðorðasafnið slíkt hraðsláttarköst.

Hugmynd Árna þarf að skoða betur. Gott er að ráða yfir mismunandi kostum til þýðinga við mismunandi kringumstæður. Þar sem við hittumst í biðröð í matsalnum voru ekki tök á miklum eða löngum útskýringum. Fljótt á litið finnst undirrituðum að hraðsláttartruflanir geti verið tilfallandi, hvort sem þær koma í köstum eða ekki. Íslensk orðabók Máls og menningar skýrir tilfallandi þannig: sem kemur eða verður án sýnilegrar (ytri) ástæðu.





Taugaflækja



Elísabet Guðmundsdóttir, deildarlæknir, var að skrifa fræðigrein og vantaði íslensk heiti á tvö líffærafræðileg fyrirbæri, annars vegar það sem á latínu nefnist plexus myentericus og hins vegar plexus submucosus. Latneska orðið plexus er ýmist talið lýsingarorð eða lýsingarháttur sagnorðs. Læknisfræðiorðabók Stedmans og hin nýja læknisfræðiorðabók Dorlands nota enska orðið braid til að útskýra plexus. Um nafnorðið braid segir Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs: 1. fléttuband, fléttingur; hárflétta. 2. brydding, borði. 3. hárband.

Í Líffærafræðiheitunum, Nomina anatomica, er ætíð notað orðið flækja þegar vísað er í samsett net æða eða tauga. Undirritaður vildi þó miklu fremur nefna slíkt fléttu, bæði vegna ofangreindrar orðskýringar og eins vegna þess persónulega skilnings að flækja vísi til þess sem er í óreiðu og skipulagsleysi en flétta til þess sem er samofið og skipulagt.

Til fyllingar má benda á að plexus myentericus, sá hluti af taugaflækju meltingarvegar sem liggur milli vöðvalaganna, er einnig nefndur Auerbachs plexus. Líffærafræðiheitin nefna hann vöðvahjúpsflækju. Annar hlutinn, plexus submucosus, liggur í slímhúðarbeðnum og nefnist slímubeðsflækja, en þriðji hlutinn liggur undir hálu, tunica serosa, og nefnist hálubeðsflækja.



Síðasta dægradvöl

Dægradvölin í 130. pistli var tekin úr grein í Læknablaðinu árið 1958 (9.-10. tbl., bls. 132-41), sem bar heitið "Oehlenschläger í Arnarhváli". Þar var á ferðinni Arinbjörn Kolbeinsson, læknir, til að setja ofaní við Vilmund Jónsson, þáverandi landlækni, fyrir grein hans "Thorvaldsen og Oehlenschläger" sem birtist í Læknablaðinu árið 1955 (8.-9. tbl., bls. 124-39). Vilmundur hafði gagnrýnt stílsmátann í ritsmíðum íslenskra lækna (sjá kassa) og Arinbjörn brást hart við: "Nauðsynlegt er að brýna fyrir lesendum Læknablaðsins, nú og þó einkum síðar, sem ekki þekkja V.J. nægilega, að með sínum sérstöku verknaðartökum á íslensku ritmáli, getur hann auðveldlega villt mönnum sýn, þannig að þeim yfirsjáist verulegir gallar á meðferð efnis og geri sér ekki nægilega ljósan tilgang ritgerðarinnar. Með glæstum stílsmáta er unnt að leiða athygli og dómgreind lesandans á villigötur líkt og skrautlegar umbúðir geta blekkt grandalausan kaupanda."

Dægradvöl VI

Vilmundur sagði meðal annars þetta: "Ýmislegt kann manni þó að detta í hug um þá Færeyjagikki íslenzkrar læknastéttar, sem að því er virðist fyrir einnar saman fordildar sakir bera annars góð og gild fræðsluerindi á borð fyrir ólæknislært fólk á þeirri andhælislegu djöflaþýzku, sem þeir kalla íslenzkt læknamál og engum öðrum en læknum er ætlandi að grynna neitt í. Þeir læknar, ef nokkrir kynnu að vera, sem betur mega, en halda því þó til streitu að ræða og rita um fræði sín á því hrakmáli, mættu hugleiða málfar sitt frá almennu þrifnaðarsjónarmiði."

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica