Umræða fréttir

Tilmæli landlæknis nr. 1/2001

Möguleg áhætta af notkun catgut sauma sem framleiddir eru úr görnum nautgripa

Catgut er framleitt úr smáþörmum nautgripa (og stundum geita). Nautgripagarnir flokkast nú undir afurðir sem taldar geta borið kúariðu, sé þeirra neytt (sbr. tilmæli Evrópusambandsins CD 2000/418/EU og CD 2001/2/EU.

Eftirlitsnefnd um lækningatæki á vegum Evrópusambandsins hefur komist að þeirri niðurstöðu að áhætta á Creutzfeldt-Jacobs sjúkdómi af notkun catgut sauma í skurðaðgerðum sé mögulega hærri en 1/106 sem talin eru viðmiðunarmörk. Tekið skal þó fram að ekki eru til dæmi um smit sjúkdómsins af þessum völdum. Saumar eru hins vegar framleiddir úr öðrum ólífrænum efnum sem geta í öllum tilvikum komið í stað catgut (sbr. skýrslu um önnur efni en dýraþarma til framleiðslu á saumum frá vísindanefnd Evrópuráðsins um lækningatæki frá 16. september 1998).

Í ljósi þessa er því ekki heimilt lengur að nota catgut unnið úr nautgripaþörmum við skurðaðgerðir og sárameðferð á Íslandi. Mælst er til að birgðum verði eytt og þar fylgt reglum um eyðingu lífræns úrgangs.

Landlæknir beinir þeim tilmælum til forstöðumanna að þeir komi þessum ábendingum til hlutaðeigandi aðila, þ.e. lækna, tannlækna, ljósmæðra, hjúkrunarfræðinga, yfirmanna innkaupa og birgðastjóra á stofnunum.Til forstöðumanna heilbrigðisstofnana, yfirmanna innkaupa/birgðastjóra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, héraðslækna, Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Ljósmæðrafélags Íslands, Læknafélags Íslands, Tannlæknafélags Íslands.27. febrúar 2001

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica