Umræða fréttir

Úrskurður Siðanefndar Læknafélags Íslands

Árið 2001, föstudaginn 5. janúar, er í Siðanefnd Læknafélags Íslands í máli Högna Óskarssonar gegn Boga Andersen kveðinn upp svofelldur



ÚRSKURÐUR

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 22. des. sl.

Kærandi er Högni Óskarsson læknir og kærði Bogi Andersen læknir.

Með bréfi til Læknafélags Íslands, dags. 18. janúar 2000, kærði Högni Óskarsson geðlæknir Boga Andersen, lyflækni og sérfræðing í innkirtla- og efnaskiptasjúkdómum, fyrir tiltekin brot á siðareglum Læknafélags Íslands.

Með kæru þessari kærði Högni í fyrsta lagi það sem Bogi Andersen sagði í viðtali í Ríkisútvarpinu 28. des. 1999, í öðru lagi endursögn fréttamanns af því sem Bogi sagði við hann í viðtalinu og í þriðja lagi vinnubrögð Boga Andersen við gerð skýrslu sem Sif Konráðsdóttir hrl. lagði fyrir Siðanefnd LÍ við umfjöllun nefndarinnar á kæru á hendur Högna Óskarssyni vegna álitsgerðar sem Högni vann að beiðni verjanda í hæstaréttarmáli nr. 286/1999.

Með bréfi til Læknafélags Íslands, dags. 1. okt. 2000, kærði Högni Óskarsson Boga Andersen fyrir tiltekin brot á siðareglum Læknafélags Íslands.

Viðbótarkæruefnin eru:

1. Högni telur að Bogi Andersen hafi með því að semja greinargerð til Siðanefndar LÍ um efni sem sé órafjarri sérsviði hans brotið V. grein siðreglna, en þar segi: "Þekkið eigin takmarkanir og hæfni annarra."

2. Bogi Andersen hafi með sömu röksemdum og að ofan brotið 2. gr. siðareglna, 2. mgr. en þar segi: "Lækni hlýðir í starfi sínu að fara sem minnst út fyrir það verksvið sem menntun hans tekur til."

3. Enn fremur telur Högni að Bogi Andersen hafi gerst brotlegur við 19. gr. siðareglna LÍ með því að villa á sér heimildir á bak við hugtakið "færir sérfræðingar" eins og standi í bréfi lögmanns kæranda í hæstaréttarmáli nr. 286/1999, þegar ekkert bendi til þess að Bogi hafi haft faglega þekkingu til að fjalla um málið á þann hátt sem eðli málsins geri kröfu um. Líta verði svo á að Boga hafi verið kunnugt um á hvern hátt lögmaðurinn hagaði kynningu á sérfræðivinnunni að baki greinargerðarinnar í fylgibréfi sínu.

Högni Óskarsson krefst þess að vegna brota þessara verði Bogi Andersen látinn sæta þeim viðurlögum sem við eiga.

Kærði, Bogi Andersen, krefst sýknu af kærum Högna Óskarssonar og að Siðanefnd LÍ úrskurði að kærandi skuli greiða kærða kostnað að mati nefndarinnar vegna reksturs málsins fyrir nefndinni.



Málavextir og gangur málsins

Undir rekstri hæstaréttarmálsins nr. 286/1999 óskaði lögmaður ákærða í því máli eftir því við Högna Óskarsson að hann skilaði álitsgerð um skýrslu þriggja sérfræðinga sem höfðu að beiðni héraðsdóms rannsakað tiltekin atriði er vörðuðu stúlkuna, sem kært hafði ákærða í framangreindu máli. Lyktir framangreinds hæstaréttarmáls voru þær að ákærði var sýknaður með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 28. okt. 1999.

Með bréfi, dags. 15. nóv. 1999, til stjórnar LÍ óskaði Sif Konráðsdóttir hrl., lögmaður kæranda í framangreindu hæstaréttarmáli, eftir því að tiltekin atriði yrðu tekin til athugunar þar sem umbjóðandi hennar teldi Högna Óskarsson hafa gerst brotlegan við siðareglur lækna með skýrslu sinni. Undir rekstri málsins fyrir Siðanefnd LÍ lagði Sif Konráðsdóttir hrl. fram óundirritaða greinargerð sem hún mun hafa sagt stafa frá færum sérfræðingum. Lögmaðurinn neitaði að upplýsa hver eða hverjir væru höfundar greinargerðarinnar. Hinn 13. desember 1999 kvað Siðanefnd LÍ upp úrskurð vegna erindis þessa og var það niðurstaða nefndarinnar að Högni Óskarsson hefði ekki gerst brotlegur við siðareglur lækna í tengslum við gerð ofangreindrar skýrslu.

Hinn 28. desember 1999 var haft viðtal í Ríkisútvarpinu við Boga Andersen lækni. Í viðtali þessu kvaðst Bogi Andersen vera höfundur framangreindrar greinargerðar.

Með bréfi til Læknafélags Íslands, dags. 18. jan. 2000, kærði Högni Óskarsson Boga Andersen fyrir tiltekin ummæli í viðtali þessu. Í framhaldi af þessari kæru Högna Óskarssonar skrifaði Bogi Andersen stjórn LÍ bréf, dags. 29. febr. 2000, þar sem hann varpaði fram þeirri spurningu hvort ekki sé eðlilegt að siðanefndarmennirnir Allan Vagn Magnússon, Ásgeir B. Ellertsson og Runólfur Pálsson, víki úr Siðanefnd í máli þessu. Siðanefnd kvað upp úrskurð 28. apríl 2000 þar sem úrskurðað var að aðalmenn í Siðanefnd LÍ víki ekki sæti við meðferð á kæru Högna Óskarssonar á hendur Boga Andersen. Úrskurði þessum skaut Bogi Andersen til Gerðardóms LÍ með kæru, dags. 10. maí 2000. Gerðardómur LÍ kvað upp úrskurð 18. júlí 2000 þar sem úrskurðað var að aðalmenn í Siðanefnd LÍ skuli víkja sæti þegar nefndin fjallar um kæru Högna Óskarssonar á hendur Boga Andersen. Samkvæmt bréfi LÍ, dags. 28. ágúst 2000, til dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur taldi varaformaður Siðanefndar LÍ sig vanhæfan til meðferðar málsins og var þess óskað að dómstjóri tilnefndi ad hoc formann í Siðanefnd LÍ til meðferðar máls Högna Óskarssonar gegn Boga Andersen. Með bréfi dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 4. sept. 2000, var Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari tilefnd sem formaður nefndarinnar til þess að fara með framangreint mál. Hinn 20. sept. 2000 barst formanni kæra Högna Óskarssonar, dags. 18. jan. 2000, og bréf Boga Andersen, dags. 29. febr. 2000. Hinn 3. okt. 2000 afhenti lögmaður Boga Andersen, Dögg Pálsdóttir hrl., formanni bréf Boga Andersen, dags. 11. sept. 2000. Sama dag barst formanni viðbótarkæra frá Högna Óskarssyni, dags. 1. okt. 2000.

Hinn 5. okt. 2000 komu saman á fund í Siðanefnd LÍ læknarnir Ásgeir Böðvarsson og Haukur S. Magnússon og Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari. Nefndin ákvað að skrifa Högna Óskarssyni og óska eftir viðbrögðum hans við framangreindu bréfi Boga Andersen, dags. 11. sept. 2000. Jafnframt var ákveðið að skrifa lögmanni Boga Andersen bréf og senda honum ljósrit af viðbótarkæru Högna Óskarssonar. Ákveðið var að nefndin kæmi saman þegar viðbrögð hefðu borist við bréfum þessum.

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000 komu ofangreindir nefndarmenn saman á fund. Þar upplýsti Ásgeir Böðvarsson að hann væri í stjórn Læknafélags Norðausturlands, en skv. gr. 6.4 í viðauka við lög LÍ í kafla B um Siðanefnd LÍ mega aðalmenn og varamenn í Siðanefnd hvorki eiga sæti í stjórn LÍ né í stjórn svæðafélags. Vegna þessa var stjórn Læknafélags Íslands skrifað og þess óskað að nýr maður yrði skipaður sem varamaður í nefndina. Með bréfi stjórnar LÍ, dags. 7. des. 2000, var tilkynnt að Stefán B. Matthíasson læknir, sem er varamaður í Siðanefnd LÍ, kæmi til starfa í nefndinni í stað Ásgeirs Böðvarssonar læknis.

Þriðjudaginn 12. des. 2000 komu svo saman á fund í Siðanefndinni þau Haukur S. Magnússon, Stefán B. Matthíasson og Auður Þorbergsdóttir. Á fundinum var ákveðið að senda Högna Óskarssyni ljósrit af bréfi Boga Andersen, dags. 19. okt. 2000, þar sem Bogi óskar eftir svörum frá Högna Óskarssyni varðandi ýmis atriði í viðbótarkæru Högna og óska eftir viðbrögðum Högna. Jafnframt var ákveðið að óska eftir því við Högna að hann legði fram endurrit í heild sinni af þeirri fjölmiðlaumfjöllun sem vísað er til í kæru hans þannig að fram komi allt viðtalið við Boga Andersen frá 28. des. 1999 og það sem fréttamaður hafði eftir Boga. Fyrir nefndinni lá jafnframt bréf Daggar Pálsdóttur hrl., umboðsmanns Boga Andersen, dags. 30. okt. 2000, þar sem þess var óskað að Siðanefnd færi fram á það við Högna Óskarsson að hann svaraði bréfi Boga Andersen, dags. 19. okt. 2000. Jafnframt var þess óskað að Siðanefnd færi fram á það við Högna Óskarsson að hann legði fram tiltekin gögn.

Á fundinum var ákveðið að skrifa Dögg Pálsdóttur og tilkynna hvaða gögnum var óskað eftir frá Högna. Næsti fundur var ákveðinn 20. des. sl. til þess að gefa þeim Högna Óskarssyni og Dögg Pálsdóttur kost á að mæta með þau gögn sem aðilar vildu leggja fyrir nefndina. Þau Högni Óskarsson og Dögg Pálsdóttir mættu á fund hjá nefndinni 20. des. sl. Leitað var sátta án árangurs. Dögg Pálsdóttir lagði fram greinargerð Boga Andersen, aðilaskýrslu, bréf, dags. 15. des. sl. og tölvubréf Högna Óskarssonar, dags. 19. des. sl. Högni Óskarsson lagði fram kafla úr greinargerð sem lögð var fyrir settan landlækni í kærumáli Sifjar Konráðsdóttur hrl., f.h. X.

Málinu var frestað til munnlegs málflutnings til föstudagsins 22. des. sl.

Föstudaginn 22. des. sl. mættu þau Högni Óskarsson og Dögg Pálsdóttir á fund hjá nefndinni. Dögg lagði fram svar Boga Andersen við greinargerð sem Högni lagði fyrir settan landlækni. Síðan fór fram munnlegur málflutningur og málið tekið til úrskurðar.



Málsástæður og rökstuðningur kæranda

Kærandi telur, að í viðtali sínu í fréttatíma Ríkisútvarpsins þann 28. desember sl. hafi Bogi Andersen brotið þau ákvæði Codex Ethicus, sem á eftir fara. Vitnað er í ákvæðin eftir því sem kærandi telur við eiga í lok hvers kæruatriðis. Ákvæði Codex Ethicus sem kærandi telur skipta máli í þessari kæru eru:

Meginreglur.

l II. Virðið læknisstarfið og sýnið ábyrgð.

l V. Þekkið eigin takmarkanir og hæfni annarra.

l VII. Virðið hefðir stéttarinnar.

Almenn ákvæði.

l 1. gr., 3. málsgrein. Læknir skal rækja starf sitt án manngreinarálits, af vandvirkni og samviskusemi.

l 2. gr., 2. mgr. Lækni hlýðir í starfi sínu að fara sem minnst út fyrir það verksvið sem menntun hans tekur til.

l 16. gr. Læknir skal tryggja þegar fjölmiðlar leita til hans að ekki sé annað eftir honum haft en það, sem hann telur sér samboðið að efni og formi.

Ákvæði um samskipti lækna.

l 29. gr. Lækni er skylt að auðsýna öðrum læknum drengskap og háttvísi jafnt í viðtali sem umtali, ráðum sem gerðum og hann skal forðast að kasta rýrð á þekkingu eða störf annarra lækna.

Lækni er ósæmandi að eiga þátt í eða stuðla að ráðstöfunum, sem geti leitt til skerðingar á atvinnuöryggi annars læknis. Telji læknir að ástæða sé til íhlutunar vegna brots á siðareglum þessum eða vanhæfni læknis í starfi skal hann snúa sér til landlæknis og stjórnar viðkomandi svæðafélags Læknafélags Íslands.

A. Bein ræða Boga.

1. Í viðtalinu í Ríkisútvarpinu þann 28. desember sl. og frétt á undan segir Bogi:

"... og þessi fullyrðing Högna að stúlkan sé ekki haldin heilkenninu áfallastreita er greinilega rangfæring, það eru engin gögn til í málinu sem leyfðu honum að komast að svo víðtækri ályktun".

Hér haldi Bogi Andersen því fram að kærandi hafi framkvæmt sjúkdómsgreiningu á stúlkunni og að kærandi hafi framkvæmt það læknisverk á algjörlega ófaglegum forsendum. Hið rétta sé og sé það staðfest í úrskurði Siðanefndar þann 13. desember sl. að kærandi hafi ekki sjúkdómsgreint stúlkuna, heldur einungis fjallað um hvað mætti lesa út úr skýrslu sérfræðinga fyrir héraðsdómi.

Með þessu telur kærandi Boga Andersen hafa brotið meginreglu II, 1. gr., 3. mgr. sem geri kröfu um vandvirkni og samviskusemi og 29. gr., 1. mgr.

2. Í svari Boga við frásögn fréttamanns um umfjöllun kæranda um geymd minninga og tilvísan í ákveðna yfirlitsgrein segi Bogi:

"Nú þetta er afskaplega lymskulega gert hjá Högna vegna þess að sú grein fjallar um allt annað fyrirbæri, það er að segja svokallaðar endurvaktar minningar, það er að segja það á við eldra, eldri einstaklinga sem að oftast hafa verið í geðlæknismeðferð og fara allt í einu að muna eftir kynferðislegri misnotkun. Og það hefur verið dregið í efa að þessar minningar séu réttar. Hins vegar á það alls ekki við í þessu tilfelli því að stúlkan hafði aldrei gleymt neinu."

Og Bogi haldi áfram: "Þannig að það má segja það að Högni hafi þarna á ákveðinn hátt blekkt Hæstarétt því að það er ekki neinn fræðilegur grunnur fyrir að efast um vitnisburð stúlkunnar á þennan hátt, ekki meir heldur en maður mundi þá efast um minni Hæstaréttardómara."

Staðhæfing Boga Andersen um að "...þetta er afskaplega lymskulega gert hjá Högna" byggist á falskri tilvitnun í umrædda grein (British Journal of Psychiatry, Vol. 72 (sic), 1998; Recovered Memories of Childhood Sexual Abuse. Brandon et al.). Rétt sé, að greinin fjalli um vinnu nefndar á vegum breska geðlæknafélagsins (Royal Collega of Psychiatrists) um endurvaktar minningar (recovered memories). Vinnu nefndarinnar sé skipt í sex kafla og heiti fyrsti kaflinn "The Psycholgy of Memory". Í þeim kafla sé fjallað um eðli minnis, flokkun minninga, ýmislegt sem hafi áhrif á geymd minninga, s.s. áföll, svo fátt eitt sé talið. Boga hljóti að vera ljóst af lestri álitsgerðar kæranda og af lestri þessarar greinar, sem hann sjálfur vitni í, í sinni greinargerð, að tilvitnunin í ofangreinda grein sé í þennan kafla greinarinnar. Hann kjósi að líta fram hjá þessu og ásaka kæranda um að styðjast við allt aðra kafla í ofangreindri grein, að vera faglega óheiðarlegur, og það sem meira er, að beita læknisþekkingu til að blekkja Hæstarétt.

Með þessu hafi Bogi Andersen brotið meginreglu V, 1. gr., 3. mgr., 2. gr., 2. mgr., 16. gr. og 29. gr., 1. mgr.

3. Eftir að fréttamaður hefur vitnað í umfjöllun Boga Andersen, þann þátt álitsgerðar kæranda sem víkur að gægjuhneigð, þá les fréttamaður: "Bogi segir enn fremur að staðhæfingar Högna um að gægjuhneigð föðurins dragi úr líkum á því að hann geti verið sekur um aðra kynferðislega hegðun sé röng."

Segir Bogi síðan sjálfur: "Já ég get ekki dregið neina aðra ályktun en að þetta sé vísvitandi vegna þess að ég held jafnvel að almenningur geri sér grein fyrir því að einstaklingar með gægjuhneigð geta framkvæmt önnur kynferðisafbrot."

Kærandi telur að hér sé um þríþætt brot að ræða hjá Boga Andersen. Í fyrsta lagi staðhæfi kærandi ekkert um þetta mál í álitsgerðinni, heldur sé vitnað í ummæli Valgerðar Baldursdóttur læknis, sem sé einn sérfræðinganna sem gerði skýrslu um kæranda fyrir héraðsdóm, þar sem hún hafi talið Ásgeir Karlsson geðlækni fara með rangt mál hvað varðar gægjuhneigð. Kærandi hafi einungis vitnað í tvær nýlegar útgáfur kennslubóka um þetta efni, sem hafi stutt skoðun Ásgeirs Karlssonar.

Í öðru lagi setji Bogi Andersen fram þá skoðun að kærandi hafi beitt faglegri þekkingu sinni til að blekkja, og þá væntanlega Hæstarétt. Ekkert í álitsgerð kæranda styðji þessa skoðun Boga Andersen.

Í þriðja lagi geri Bogi Andersen lítið úr fagþekkingu kæranda með því að segja "vegna þess að ég held jafnvel að almenningur geri sér grein fyrir því að einstaklingar með gægjuhneigð geta framkvæmt önnur kynferðisafbrot". Í álitsgerð undirritaðs segir hvergi að einstaklingar með gægjuhneigð geti ekki framkvæmt önnur kynferðisafbrot. Hér sé því um beina fölsun að ræða sem Bogi Andersen noti sér síðan í mjög niðrandi tilgangi.

Með þessu hafi Bogi Andersen brotið meginreglu V, 1. gr., 3. mgr., 2. gr., 2. mgr., 16. gr. og 29. gr., 1. mgr.

4. Bogi staðhæfi í lok viðtalsins: "Þannig að það er engin spurning að þessi skýrsla Högna hún er.. verður þess valdandi að hún rýrir það traust sem hefur verið milli dómsyfirvalda og lækna." Þessa niðurstöðu sína byggi Bogi Andersen væntanlega á því sem hann sagði á undan eða var haft eftir honum. Staðhæfingar hans um faglega vinnu kæranda séu byggðar á röngum tilvitnunum eða jafnvel búnum til af honum sjálfum. Hér sé því um að ræða aðför Boga Andersen að starfsheiðri kæranda og tilraun til að eyðileggja þann þátt í starfsvettvangi kæranda þar sem séu ýmis verkefni fyrir dómstóla og lögregluyfirvöld.

Með þessu hafi Bogi Andersen brotið 29. gr., 2. mgr.

B. Tilvitnanir fréttamanns í viðtali hans við Boga.

Þar sem Bogi hafi ekki komið á framfæri leiðréttingum á því, sem fréttamaður hafði eftir honum við gerð fréttarinnar og fréttaspegils, þá megi líta svo á að fréttamaður hafi haft það rétt eftir Boga sem þar kemur fram.

1. Fréttamaður hefur eftir Boga Andersen: "Hann segir megintilgang skýrslu Högna vera að draga úr trúverðugleika stúlkunnar. Hann gerir það meðal annars með því að gefa í skyn að minningar fólks tengdar neikvæðri reynslu hefðu tilhneigingu til að breytast." Fyrri setning tilvitnunar sé í hróplegu ósamræmi við það sem standi í þeim þætti álitsgerðar kæranda, sem hann sé að vitna í. Þar segi kærandi á bls. 5:

"Undirritaður er ekki með skrifum þessa kafla að kasta rýrð á framburð ... og hennar erfiðu stöðu, heldur aðeins að vekja athygli á þeim vanda sem kemur upp við það að meta áreiðanleika upprifjana á tilfinningalega erfiðum atburðum, þegar staðfesting annarra liggur ekki fyrir."

Enginn vafi sé á því, enda megi styðja það fleiri tilvitnunum í vísindagreinar, að minningar fólks hafi tilhneigingu til að breytast með tímanum, og sé í engu hægt að nota þessa tilvitnun í álitsgerð kæranda til að staðhæfa að megintilgangur álitsgerðar kæranda hafi verið að draga úr trúverðugleika stúlkunnar.

Þessi aðferð Boga Andersen, að draga ályktanir um vinnu kæranda sem séu í algjöru ósamræmi við það sem segi í álitsgerðinni sjálfri, sem hann noti síðan til að ófrægja kæranda, hljóti að teljast ósæmileg.

Með þessu hafi Bogi Andersen brotið 16. og 29. gr., l. mgr.

2. Fréttamaður vitnar í tengsl alvarleika kynferðislegra afbrota gagnvart börnum og alvarleika afleiðinga. Bogi segir það vissulega rétt að tengsl séu þarna á milli, en að engar niðurstöður í þessum vísindagreinum, sem Högni vitni til, styðji niðurstöður Högna og að hann hafi hreinlega skáldað vísindalega þekkingu í þessu tilfelli.

Staðhæfing Boga um að kærandi "hafi hreinlega skáldað vísindalega þekkingu í þessu tilfelli" sé ekki byggð neinum rökum. Þegar álitsgerð kæranda sé skoðuð komi í ljós að þar sem vitnað var til vísindagreina hafi verið fjallað um líkur á að finna alvarlegar afleiðingar eða gefnar upp prósentutölur. Ekkert hafi verið fullyrt í niðurstöðum, en eins og fram hafi komið þá hafi kærandi gefið tvo mögulega valkosti, annan þann að minningar stúlkunnar hefðu umbreyst í áranna rás og tekið á sig dekkri mynd, eða þá að stúlkan hefði rétt fyrir sér í ákæruatriðunum, og að hún hefði þolað valdbeitinguna án þess að bíða þannig tjón af að það greindist við geðrannsóknina. Bogi Andersen gjörþekki álitsgerð og niðurstöður kæranda en kjósi engu að síður að saka kæranda um að beita falsrökum (skáldaðri vísindaþekkingu).

Með þessu hafi Bogi Andersen brotið meginreglu V, 1. gr., 3. mgr., 2. gr., 2. mgr., 16. gr. og 29. gr., 1. mgr.

3. Að lokum greini Bogi Andersen rangt frá forsendum niðurstöðu Siðanefndar þegar hann segir, í endursögn fréttamanns, að "..Högni hafi bæði verið læknir ákærða og aðstoðað hann við málsvörn hans, og það hafi verið skylda hans að láta það koma fram í skýrslunni en Högni lét það ógert. Siðanefnd Læknafélagsins sýknaði Högna fyrr í mánuðnum af því að hafa brotið siðareglur félagsins og segir Bogi að það sé fordæmisgefandi að Högni komist upp með þessi vinnubrögð."

Bogi: "Já auðvitað er það fordæmisgefandi. Það þýðir það að Siðanefnd Læknafélags Íslands hefur í raun og veru gefið úrskurð um það að íslenskir læknar þurfi ekki að geta um hagsmunaárekstra þegar þeir gefa skýrslur, meðal annars fyrir Hæstarétti Íslands." Gefi Bogi í skyn með þessu að kærandi hafi vísvitandi falið meðferðartengsl við ákærða fyrir Hæstarétti og að Siðanefnd hafi ekki talið það athugavert.

Bogi Andersen líti fram hjá þeirri staðreynd, sem Siðanefnd hafi tekið tillit til í úrskurði sínum, að öllum aðilum málsins hafi verið kunnugt um meðferðartengsl kæranda og kærða í framangreindu hæstaréttarmáli. Með þessu væni hann kæranda um óheiðarleg vinnubrögð um leið og hann vegi að Siðanefnd Læknafélags Íslands með ósæmilegum hætti.

Með þessu hafi Bogi Andersen brotið 16. gr. og 29. gr., 1. mgr.

C. Óundirrituð greinargerð, lögð fyrir Siðanefnd þann 1. desember 1999.

l Í kæru á hendur kæranda hafi Sif Konráðsdóttir hrl. lagt fram 25 blaðsíðna greinargerð þann 1. desember 1999 til stuðnings kærunni. Hafi hún getið þess í fylgibréfi að kærandi hefði fengið færa sérfræðinga til að fara yfir álitsgerð kæranda "til að sýna fram á brot læknisins". Greinargerðin, sem hafi m.a. einkennst af illa ígrunduðum staðhæfingum, röngum tilvitnunum í texta kæranda og niðrandi ummælum um kæranda hafi verið óundirrituð. Kærandi kveðst hafa farið fram á það við formann Siðanefndar í bréfi þann 6. desember að lögmaðurinn skýrði frá því hver höfundur greinargerðarinnar væri til að ganga mætti úr skugga um að um "færa sérfræðinga" væri að ræða. Samkvæmt upplýsingum formanns hafi lögmaðurinn neitað þessari beiðni. Siðanefnd hafi því orðið að fella úrskurð sinn án þess að vita hver höfundur væri. Bogi Andersen hafi síðan gefið sig fram sem höfundur greinargerðarinnar í Ríkisútvarpinu þann 28. desember og við stjórn Læknafélags Íslands seinna þann sama dag.

Á þennan hátt hafi Bogi Andersen ráðist með ærumeiðandi hætti á kæranda, kollega sinn, án þess að gerlegt væri að koma efnislegum vörnum við í umfjöllun Siðanefndar. Það sé bæði skylda lækna, hefð og almenn háttvísi að menn auðkenni sérfræðilega greinargerðir með nöfnum höfunda(r).

Með þessu hafi Bogi Andersen brotið meginreglu VII og 29. gr., 1. mgr.

Viðbótarkæra kæranda er m.a. rökstudd með því að lögmaðurinn, Sif Konráðsdóttir hrl., hafi getið þess að hún hafi fengið færa sérfræðinga til að yfirfara álit læknisins. Greinargerðin hafi verið óundirrituð og lögmaðurinn neitað að láta uppi hverjir hinir "færu sérfræðingar" væru. Tilurð málsins tengist mjög sérhæfðu sviði innan geðlæknisfræði sem ekki sé einu sinni á færi almennra geðlækna að fjalla um fyrir rétti án sérstaks undirbúnings. Nokkrum vikum seinna hafi kærði gefið sig fram sem höfundur greinargerðarinnar.

Greinargerð kærða um álitsgerð kæranda var að áliti kæranda ekki fyrst og fremst fagleg gagnrýni á efnisatriði álitsgerðar kæranda heldur persónuleg og rætin. Með því að undirrita ekki greinargerðina og svo með því að lögmaðurinn hafi neitað að gefa upp höfund hennar hafi kærði og lögmaðurinn falið þá augljósu staðreynd að það hafi ekki verið "færir sérfræðingar" sem fóru yfir álitsgerð kæranda heldur læknir sem hafi enga sannanlega faglega þekkingu til að fjalla um það sérhæfða svið sem málið snerist um. Í ritinu Læknar á Íslandi, útg. árið 2000, séu upplýsingar um kærða og þar komi í ljós að kærði hafi verið virkur vísindamaður á sviði sameindaerfðafræði en hvergi komi fram að hann hafi öðlast sérstaka þjálfun á sviði almennra geðlækninga og enn síður á því þrönga sérsviði sem greinargerð hans fjalli um.

Kærandi telur að kærði hafi með því að semja greinargerð til Siðanefndar LÍ um efni sem sé órafjarri sérsviði hans, brotið V. meginreglu siðareglna, en þar segi: "Þekkið eigin takmarkanir og hæfni annarra."

Kærði hafi með sömu röksemdum og að ofan brotið 2. gr. siðareglna 2. mgr., en þar segi: "Lækni hlýðir í starfi sínu að fara sem minnst út fyrir það verksvið sem menntun hans tekur til."

Enn fremur hafi kærði gerst brotlegur við 19. gr. siðareglna LÍ með því að villa á sér heimildir á bak við hugtakið "færir sérfræðingar" eins og standi í bréfi lögmanns kæranda, þegar ekkert bendi til þess að kærði hafi haft faglega þekkingu til að fjalla um málið á þann hátt sem eðli málsins geri kröfu um. Líta verði svo á að kærða hafi verið kunnugt um á hvern hátt lögmaðurinn hagaði kynningu á sérfræðivinnunni að baki greinargerðarinnar í fylgibréfi sínu.



Málsástæður og rökstuðningur kærða

Af hálfu kærða er því haldið fram að síðan siðareglum LÍ var síðast breytt 1992 hafi orðið miklar breytingar á lagaákvæðum um tjáningarfrelsi. Árið 1995 hafi tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 verið rýmkuð verulega, sbr. lög nr. 97/1995. Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar séu allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar eigi hver maður rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar megi eingöngu setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Ári fyrr með lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála hafi ákvæði mannréttindasáttmálans verið lögfest hér á landi. Ákvæði 10. gr. sáttmálans um tjáningarfrelsi séu sambærileg ákvæðum 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæði siðareglna LÍ verði því að túlka í ljósi nýrri lagaákvæða um tjáningarfrelsi og vert sé að minnast þess að siðareglur gangi aldrei framar en lagareglur.

Kærði telur að þegar hin kærðu ummæli séu skoðuð í ljósi 73. gr. stjórnarskrárinnar og þeirra lögfestu takmarkana á tjáningarfrelsinu sem leiði af XXV. kafla almennra hegningarlaga, beri að sýkna hann af kröfum kæranda. Allar takmarkanir á tjáningarfrelsinu beri nú að skýra þröngt og verði að víkja nema sýnt sé fram á í hverju tilviki að beiting takmörkunar hafi verið nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Ákvæði siðareglna LÍ er varða takmarkanir á tjáningarfrelsi lækna verði ekki skýrð rýmra en 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu. Annað væri skýlaust brot á lögvernduðum rétti lækna sem annarra borgara til tjáningarfrelsis.

Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu verði skoðanafrelsi ekki settar skorður með lögum. Í skoðanafrelsi felist einnig réttur til að koma skoðunum sínum opinberlega á framfæri. Skoðanafrelsinu tilheyri einnig svonefndir gildisdómar sem felldir séu um menn og málefni og séu ályktanir sem dregnar séu af tilteknum staðreyndum og séu skoðun og mat þess sem gildisdóminn fellir og verði hvorki sannaðar né afsannaðar að neinu marki. Sum þeirra ummæla sem kærandi kæri fyrir séu dæmigerðir gildisdómar sem öllum í réttarríki sé sér að vítalausu heimilt að láta opinberlega í ljós og geti með engu móti varðað við siðareglur LÍ. Um sé að ræða skoðanir kærða á tilteknum gögnum í tilteknu sakamáli og ályktanir hans um þessi gögn sem hann hafi dregið eftir vandlega yfirferð gagnanna og sjálfstæða vinnu við fræðiheimildir.

Kæran beri með sér að kærandi telji kærða ekki mega láta opinberlega í ljós skoðun sína á álitsgerð kæranda þar sem kærði sé ekki fagmaður á sérsviði kæranda og geti því ekki dæmt um vinnubrögð hans. Kærurnar virðist því öðrum þræði byggjast á því að kærði hafi ekki haft faglegar forsendur til að hafa skoðun á álitsgerð kæranda. Þessi málsástæða kæranda standist ekki ákvæði um tjáningar- og skoðanafrelsi. Kærði telur sig hafa fullan rétt á því að hafa þá skoðun sem hann kýs á álitsgerð kæranda og til að tjá sig um þá skoðun opinberlega. Til þess þurfi hann ekki faglegar forsendur enda sé tjáningarfrelsið ekki bundið við neinar slíkar forsendur. Eigi það jafnt við um gildisdóma sem aðrar skoðanir. Kærandi eins og aðrir íbúar samfélagsins verði að una þessu. Af hálfu kærða er tekið fram að baki ummæla kærða hafi legið faglegar forsendur þar sem kærði hafi kynnt sér ítarlega fræðigreinar um efnið og byggt athugasemdir sínar, ummæli og skoðanir á þeim.

Einstaklingar sem taka að sér sérfræðistörf fyrir aðila í dómsmálum verði að þola opinbera umfjöllun um sérfræðistörf sín, ekki síst ef niðurstaða dómsins verður umdeild. Einstaklingar sem taka að sér sérfræðistörf af þessu tagi verði því að þola opinbera umfjöllun jafnvel þó hún virðist óvægin gagnvart þeim einstaklingum sem þar eiga í hlut enda sé þess ætíð gætt í umræðunni að umfjöllunin og gagnrýnin séu málefnalegar. Kærði telur alla umfjöllun sína um álitsgerð kæranda uppfylla þessi skilyrði því hún hafi verið málefnaleg og vel innan þeirra marka sem lagaákvæði um tjáningar- og skoðanafrelsi skapi honum.

Kærandi hafi sjálfur farið mjög óvægum orðum um saksóknara og lögmanninn, Sif Konráðsdóttur hrl., í fjölmiðlum. Áður en kærði kom fram opinberlega hafi kærandi komið margoft fram í fjölmiðlum og lýst yfir áhuga sínum á að taka þátt í þeirri þjóðfélagsumræðu sem var í gangi í kjölfar dóms Hæstaréttar. Þannig hafi kærandi nýtt sér tjáningarfrelsi sitt til að gagnrýna opinberlega kæru stúlkunnar á hendur honum til Siðanefndar LÍ með fullyrðingum um að forsendur kærunnar væru rangar og atriði í málflutningi stúlkunnar væru ekki rétt. Þegar einstaklingur taki til máls á opinberum vettvangi megi hann alltaf búast við að honum verði svarað. Ef andsvör séu málefnaleg sé með engum hætti hægt að amast við þeim. Daginn eftir útvarpsviðtalið við kærða hafi verið viðtal við kæranda á sama vettvangi þar sem hann hafi fengið rúman tíma til andsvara. Það samræmist hvorki stjórnarskrá Íslands né mannréttindasáttmálanum að læknar, sem taka þátt í þjóðfélagsumræðu eins og kærandi hafi gert í þessu máli, hafi rétt fram yfir aðra íbúa landsins til að koma í veg fyrir andsvör í sömu umræðu.

Nýlegir hæstaréttardómar renni stoðum undir að allar tálmanir á tjáningar- og skoðanafrelsi beri að túlka mjög þröngt. Í þessu sambandi er bent á mál nr. 337/1998 og mál nr. 272/2000.

Varðandi einstök kæruatriði er af hálfu kærða m.a. tekið fram eftirfarandi:

Kæruatriði A.1.

Kærandi segi orðrétt í álitsgerð sinni: Svar mitt við spurningum Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. er að kærandi er ekki haldinn heilkenninu áfallastreita. Orðalag kæranda í álitsgerðinni sé ekki unnt að skilja öðru vísi en svo að hans sérfræðilega skoðun, sem hann hafi byggt á fyrirliggjandi gögnum, væri sú að stúlkan væri ekki haldin heilkenninu áfallastreitu. Af orðalaginu verði ekki annað ráðið en að með því sé kærandi að lýsa skoðun á því hver sjúkdómsgreining stúlkunnar sé eða sé ekki. Fyrir liggi að kærði sé ekki einn um að hafa skilið orðalag álitsgerðar kæranda með þessum hætti. Í dómi Hæstaréttar segi: Í álitsgerð Högna Óskarssonar geðlæknis frá 7. október 1999 kemur meðal annars fram sú skoðun, að kærandi sé ekki haldin heilkenninu áfallastreitu, eins og fram hafi komið í fyrri sérfræðigögnum. Í þessu sambandi er lögð á það áhersla að kærandi hafi rangfært staðreyndir úr sérfræðiskýrslu annars sérfræðings varðandi áfallastreitu.

Í inngangi að skýrslu sinni segi kærandi að hann hafi verið spurður álits á: "....hvort kærandi, X, sé haldin heilkenninu áfallastreita eins og staðhæft sé í skýrslu Jóns Fr. Sigurðssonar sálfræðings". Skoðun á gögnum málsins leiði í ljós að hvorki Jón né aðrir sérfræðingar hafi haldið því fram að stúlkan hefði heilkennið áfallastreita, aðeins hafi þeir minnst á að stúlkan sýndi einkenni áfallastreitu. Þessi ósannindi kæranda hafi lagt grunninn að niðurstöðu hans og samtímis leyft honum á fullkomlega óheiðarlegan hátt að rýra trúverðugleika og hæfni dómkvadds sérfræðings fyrir Hæstarétti, sbr. niðurstöðu meirihluta Hæstarréttar.

Orðalag álitsgerðar kæranda hafi verið með þeim hætti að fyrir liggi að ýmsir sem lásu hana hafi skilið það með sama hætti og kærði, þ.á m. sjálfur Hæstiréttur. Það hljóti að teljast innan eðlilegra marka þegar kærði leggi sama skilning á skýrslu kæranda og dómarar Hæstaréttar hafi lagt á hana. Á þessu beri kærandi sjálfur ábyrgð og hann verði að lifa við það að eftir að hann hafi skilað álitsgerð sé orðalag hennar háð túlkun þeirra sem lesa án tillits til hvað höfundur hafi talið sig vera að segja. Tilvísun kæranda í niðurstöðu Siðanefndar frá 13. des. 1999 sé hæpinn rökstuðningur. Fyrir liggi nú að einn nefndarmanna sem tók þátt í meðferð málsins hafi verið almennt vanhæfur til setu í nefndinni. Valdi það almennu vanhæfi allrar nefndarinnar til málsmeðferðar.

Ef fallist yrði á þetta kæruatriði kæranda yrði ábyrgð af ónákvæmu orðalagi kæranda í eigin álitsgerð velt yfir á þá sem lesa álitsgerðina með öðrum skilningi en kærandi vilji að hún sé lesin. Slík niðurstaða væri óeðlileg.

Kæruatrið A.2.

Kærandi geti þess hvergi í álitsgerð sinni að hann sé eingöngu að styðjast við afmarkaðan hluta umræddrar fræðigreinar. Hér fari kærandi með ósannindi því hann vitni beint í aðra hluta greinarinnar þar sem dregnar séu saman niðurstöður um endurvaktar og falskar minningar.

Á grundvelli ummæla í álitsgerð kæranda segi Hæstiréttur í dóminum og sé þar að vísa til þess sem kærandi segi: Hann segir, að sérfræðingarnir hafi ekki fjallað sérstaklega um þá staðreynd, að minningar umbreytist og litist með tímanum og eigi það ekki síst við um minningar, sem tengdar séu neikvæðum upplifunum. Umrædd fræðigrein geri greinarmun á endurvöktum minningum og minningum sem ekki séu endurvaktar. Álitsgerð kæranda dragi þennan mun ekki fram. Í skýrslu sinni geri kærandi það sem höfundar greinarinnar vari sérstaklega við, þ.e. að nota fræðilegar upplýsingar um endurvaktar minningar til að rugla greiningu og meðferð á kynferðislegri misnotkun barna.

Stúlkan sem um var fjallað í álitsgerð kæranda hafi aldrei gleymt neinu. Þannig eigi ekki við að styðjast við kenningar um endurvaktar minningar. Valgerður Baldursdóttir geðlæknir hafi tekið sérstaklega fram í skýrslu sinni að vandamál í sambandi við endurvaktar minningar eigi ekki við. Við skýrslugjöf fyrir dómi hafi hún einnig bent á að það séu engar forsendur fyrir því að tengja framburð stúlkunnar við falskar minningar. Í málinu hafi spurningin staðið um það hvor sagði ósatt, faðir eða dóttir, og óeðlilegt sé að vekja upp kenningar um endurvaktar minningar eða aðrar tegundir af fölskum minningum, því hvorugt þeirra sagðist neinu hafa gleymt.

Aðferð kæranda, að vísa til fræðigreinar sem bendi til að framburð stúlkunnar beri að skoða með meiri varkárni en gengur og gerist, þrátt fyrir að niðurstaða tilvitnaðrar greinar sé að slíkar minningar séu mjög traustar og aðeins ástæða til að vera á verði þegar slíkar minningar eru endurvaktar, telur kærði að feli í sér brot á 4. gr. Codex Ethicus. Jafnframt telur kærði kæranda hafa brotið 9. gr. læknalaga og 29. gr. Codex Ethicus með því að saka Valgerði Baldursdóttur lækni og Jón Fr. Sigurðsson sálfræðing ranglega um að hafa ekki metið stúlkuna með tilliti til þess möguleika að um sé að ræða falskar minningar. Með því að rýra hæfni þeirra hafi hann véfengt trúverðugleika stúlkunnar óbeint og grafið undan réttlæti í samfélaginu.

Kærði telur gagnrýni sína réttmæta og bendir á í því sambandi að greinin sem kærandi vitnaði til leggi einmitt áherslu á að í tilviki eins og þessu sé engin ástæða til að efast um meginatriði vitnisburðar á þeirri forsendu að minningar séu falskar. Sérstaklega sé varað við að láta vandamál við endurvaktar minningar rugla sönnunarfærslu í málum þar sem viðkomandi hefur engu gleymt.

Hvergi í skýrslunni sem kærandi gerði fyrir Hæstarétt komi fram að hann sé eingöngu að styðjast við afmarkaðan hluta greinarinnar og að það sem sagt er um endurvaktar minningar í umræddri grein eigi alls ekki við í þessu tilviki. Þvert á móti tali kærandi stöðugt um greinina eða skýrsluna, en hvergi minnist hann á sérstakan kafla enda vitni hann í fleiri kafla greinarinnar. Eini kaflinn sem kærandi viðurkenni að hafa vitnað í gangi þvert á það sem hann haldi fram í skýrslu sinni að kaflinn gefi tilefni til að álykta. Kærði telur sannað að kærandi hafi stuðst við aðra kafla í framangreindri fræðigrein en þann eina sem hann kannist nú við. Jafnframt komi fram í vinnubrögðum hans grófur faglegur óheiðarleiki þar sem hann tengi höfunda fræðigreinar við niðurstöður sínar sem stangist í grundvallaratriðum á við álit þessara sömu fræðimanna.

Kæruatriði A.3.

Kærði telur rangt hjá kæranda að hann hafi ekkert fullyrt um að gægjuhneigð föður dragi úr líkum á að hann geti verið sekur um aðra kynferðislega hegðun.

Í geðheilbrigðisrannsókn á ákærða í umræddu Hæstaréttarmáli hafi Ásgeir Karlsson geðlæknir komist að þeirri niðurstöðu að ákærði væri haldinn gægjuhneigð F65.3 (voyeurism) og ljúki hann skýrslu sinni með þessum orðum: "Þeir karlmenn sem haldnir eru gægjuþörf, forðast að vekja á sér athygli þannig að eftir þeim verði tekið. Þeir verða sjaldan uppvísir af grófari kynferðislegri áreitni." Í vitnaleiðslu hafi Ásgeir sagt skoðun þessa viðtekna skoðun innan geðlæknisfræðinnar. Þetta sé yfirleitt ekki hættulegt fólk kynferðislega. Í vitnaleiðslu hafi Valgerður Baldursdóttir barnageðlæknir verið spurð um þetta álit Ásgeirs Karlssonar. Hún hafi lýst yfir miklum efa að þetta stæðist nútímaþekkingu í geðlæknisfræði.

Í skýrslu sinni hafi kærandi fjallað um vitnaleiðslur sérfræðinga fyrir rétti og í samantekt segi hann: "Í framburði Valgerðar Baldursdóttur geðlæknis kemur fram að þekking hennar á gægjuhneigð er ekki í samræmi við það sem nú er skrifað í kennslubækur." Í skýrslu sinni gangi kærandi lengra en Ásgeir Karlsson í fullyrðingum sínum um þetta atriði því hann leggi áherslu á og undirstriki eftirfarandi tilvitnun úr kennslubók: "but does not attempt sexual activity with them."

Kærði telur staðhæfingar geðlæknanna Ásgeirs Karlssonar og kæranda um gægjuhneigð vera í engu samræmi við nútímaþekkingu í geðlæknisfræði. Kærði telur athyglisvert að þessir geðlæknar, kærandi og Ásgeir Karlsson, skuli vitna í kennslubækur í geðlæknisfræði fyrir læknanema í máli fyrir Hæstarétti í stað þess að vitna beint í rannsóknarniðurstöður. Það sé rangt að gægjuhneigðarmenn verði sjaldan uppvísir að grófari kynferðislegri áreitni enda vitað að slíkir einstaklingar hafi háa tíðni af öðrum kynferðislegum frávikum (paraphilias), þar með talið pedophiliu.

Með því að fara ranglega með fræðilega þekkingu um paraphilias eins og hún komi fyrir í kennslubókum og fræðigreinum, þar á meðal þeim kennslubókum sem kærandi hafi sjálfur lagt fram máli sínu til stuðnings, hafi kærandi brotið 4. gr. Codex Ethicus, 9. gr. læknalaga og 29. gr. Codex Ethicus.

Sú forsenda kærunnar að kærði hafi gert lítið úr fagþekkingu kæranda með því að minnast á þekkingu almennings í sama viðtali og rætt var um störf kæranda fái ekki staðist.

Kæruatriði A.4.

Hér sé kærði að lýsa persónulegri skoðun um afleiðingar álitsgerðar kæranda. Tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar heimili honum að hafa þessa skoðun og skoðun hans geti tæpast talist brot á siðareglum.

Kæruatriði B.1.

Kærði telur niðurstöðu Hæstaréttar skýrasta sönnun þeirrar fullyrðingar sem höfð er eftir honum. Kærði heldur því fram að í skýrslu sinni hafi kærandi véfengt trúverðugleika stúlkunnar með mörgum aðferðum og jafnframt hafi hann véfengt trúverðugleika, hæfni og sértækar ályktanir dómkvaddra sérfræðinga.

Í dómi meirihluta Hæstaréttar komi fram að kæranda hafi tekist að rýra trúverðugleika stúlkunnar með því að véfengja hæfni dómkvaddra sérfræðinga.

Kæruatriði B.2.

Rétt sé að kærandi hafi í skýrslu sinni gefið "tvo mögulega valkosti, annan þann að minningar stúlkunnar hefðu umbreyst í áranna rás og tekið á sig dekkri mynd, eða þá að stúlkan hefði rétt fyrir sér í ákæruatriðunum, og að hún hefði þolað valdbeitingu án þess að bíða þannig tjón af að það greindist við geðrannsóknina". Seinni valkosturinn hafi þó ekki verið gefinn nákvæmlega á þennan hátt í skýrslunni, heldur hafi það margoft verið fullyrt að ef stúlkan væri að segja sannleikann þá mætti "búast við" að það "greindist við geðrannsóknina", eins og stutt sé af "vísindarannsóknum" á fórnarlömbum kynferðislegs ofbeldis. Það sé nákvæmlega þessi skáldaða vísindaþekking sem kærði kveðst hafa gagnrýnt. Það séu engar vísindaniðurstöður til sem segi að hægt sé að greina kynferðislegt ofbeldi við geðrannsókn sem gerð sé mörgum árum seinna eins og kærandi haldi fram í skýrslunni og rökstuðningi sínum fyrir þessu kæruatriði. Hver séu skilmerki greiningarinnar við geðrannsókn? Í hvaða fræðirit geti kærandi vitnað því til stuðnings að við geðskoðun sé hægt að greina kynferðislegt ofbeldi mánuðum og árum eftir að því lauk? Þessa hugmynd kæranda telur kærði einmitt byggjast á skáldaðri vísindaþekkingu, svo notuð séu hans eigin orð.

Þekking sú sem kærandi vísi til sé hvergi til og að fullyrða slíkt í skýrslunni sé að beita falsrökum á siðlausan hátt.

Kæruatriði B.3.

Vegna þessa kæruatriðis er því haldið fram af hálfu kærða að í tölvubréfi sem kærandi sendi Ragnheiði Haraldsdóttur og öðrum hafi komið fram að hann hafi verið læknir ákærða í framangreindu hæstaréttarmáli og að hann hafi talið sér skylt að verða við óskinni um skýrsluna. Í umræddu tölvubréfi komi einnig fram eftirfarandi: "Þegar málið kom fyrir dómstóla þá leitaði Ák. ráða hjá mér og fékk uppgefinn heimildarlista, sem hann síðan nýtti sér. Auk þess veitti ég upplýsingar um þau atriði sem ég taldi mikilvægt að upplýstust." M.ö.o. hafi kærandi unnið að málsvörn ákærða í hæstaréttarmálinu meðan málið fór í gegnum dómstóla. Enda komi skýrt fram í bréfi ákærða til verjanda síns, dags. 23. maí 1999, að meginröksemdir hans og kæranda séu þær sömu. Þannig segi orðrétt í lok bréfs ákærða: "Saksóknaraembættinu hefur ekki tekist að sýna fram á að kærandi sé "trúverðugt fórnarlamb" sifjaspella. Reynslan sem kærandi lýsir hlýtur þó að teljast óvenjulega langvinn, stöðug og hroðaleg og ættu merkin um hana því að vera augsýnilegri og alvarlegri en í flestum eða a.m.k. mörgum öðrum sifjaspellsmálum." Einnig sé fjallað um falskar minningar á sama hátt í bréfi ákærða og skýrslu kæranda.

Skýrsla kæranda hafi ekki fjallað um ákærða, heldur eingöngu um geðheilsu stúlkunnar svo og sérfræðileg atriði er vörðuðu trúverðugleika hennar. Hér sé um augljósan hagsmunaárekstur að ræða. Hér takist á annars vegar skyldur læknisins gagnvart sjúklingi þeim sem hann hafi stundað sem séu honum auðvitað tamar því meginregla í siðareglum lækna sé að læknum beri að setja hagsmuni sjúklinga ofar öllu. Hins vegar komi til skyldur læknisins gagnvart dómskerfinu og réttlæti í samfélaginu og í þessu tilfelli gagnvart mannréttindum fórnarlambs kynferðislegrar misnotkunar. Hér sé því um verulega togstreitu að ræða og augljóst að tengsl viðkomandi læknis við annan aðilann geri það erfitt fyrir hann að skrifa óvilhalla skýrslu um málið og hættan á að hann líti á ákærða sem skjólstæðing sinn sé verulega aukin.

Fyrst kærandi hafi kosið að fara þá leið að skila umræddri skýrslu þá hafi honum skilyrðislaust borið að gera grein fyrir framangreindum hagsmunaárekstrum í skýrslu sinni. Það hafi kærandi ekki gert. Það komi fram í dómi Hæstaréttar að þetta hafi uppgötvast að hluta við munnlegan málflutning fyrir réttinum, en ekki fyrir tilstuðlan kæranda, heldur saksóknara.

Kæruatriði C.

Kærði kveðst hafa skrifað umrædda greinargerð, sem fjallaði um brot kæranda á siðareglum lækna og læknalögum að beiðni stúlkunnar X og löggæslumanns hennar. Greinargerðina kveðst kærði hafa sent til lögmanns stúlkunnar með tölvupósti undir fullu nafni. Lögmaður stúlkunnar og stúlkan sjálf hafi tekið þá ákvörðun að leggja greinargerðina fram sem hluta af skriflegum málflutningi án þess að gera grein fyrir hver höfundar hennar væri.

Kærði kveðst aldrei hafa neitað að skrifa undir greinargerðina. Kærði hafi enga aðild átt að því að lögmaður stúlkunnar gerði ekki grein fyrir að hann væri höfundur umræddrar greinargerðar.

Kæruatriði 1 í viðbótarkæru.

Kröfur kæranda feli í sér að hann telji að enginn nema sérfræðingur á tilteknu sviði geti skrifað faglegar og fræðilegar greinargerðir sem snúa að því sviði. Með þessu sé kærandi að krefjast slíkrar takmörkunar á tjáningarfrelsi að fjarstæðukennt sé. Hver og einn geti tekið saman faglega og fræðilega greinargerð um hvaða fagsvið sem er, jafnvel þó hann sé ekki sérfræðingur í því. Faglegar og fræðilegar greinargerðir krefjist vísindalegra vinnubragða. Kærði sé sérfræðingur í slíkum vinnubrögðum og þaulvanur í heimildaöflun og heimildanotkun.

Kæruatriði 2 í viðbótarkæru.

Læknar sem aðstoða sjúklinga við að koma á framfæri kvörtunum og kærum til LÍ verði ekki krafðir um sérstök próf fram yfir almenn læknisréttindi enda sé þessi skylda lögð á herðar allra lækna skv. 29. gr., 3. mgr. Codex Ethicus. (Telji læknir, að ástæða sé til íhlutunar vegna brots á siðareglum þessum eða vanhæfi læknis í starfi, skal hann snúa sér til landlæknis og stjórnar viðkomandi svæðafélags LÍ).

Kæruatriði 3 í viðbótarkæru.

Kærði kveðst sannanlega ekki hafa verið að vekja á sér athygli enda hafi lögmaður X ekki gefið upp nafn hans að svo stöddu. Kærði kveðst hafa gert stúlkunni og lögmanni hennar nákvæma grein fyrir menntun sinni, þekkingu og hæfi. Hann hafi ekki beðið neinn um að hampa þeim upplýsingum. Ekki verði annað séð en að staðhæfing lögmannsins um "færan sérfræðing" eigi ágætlega við kærða. Verði því ekki séð hvernig 19. gr. hafi verið brotin. Lögmaðurinn hafi ekki haft samráð við sig um það hvernig hún hagaði kynningu á sérfræðivinnunni að baki greinargerðar kærða.

Málskostnaðarkrafa kærða er á því byggð að samkvæmt siðareglum LÍ beri að fylgja almennum málsmeðferðarreglum varðandi málsmeðferð fyrir Siðanefnd. Kærði hafi neyðst til þess að skjóta úrskurði Siðanefndar um eigið hæfi til Gerðardóms til að tryggja að varnarmöguleikar hans væru ekki óeðlilega skertir. Kærði hafi því séð sig tilneyddan til að leita aðstoðar lögmanns til að gæta réttar síns í þessu máli, enda geri 34. gr. viðauka við lög LÍ ráð fyrir því að aðilar máls geti leitað aðstoðar lögfræðings. Sú aðstoð hafi bakað kærða fjárútlát sem eðlilegt sé að hann geri kröfu um að kærandi greiði. Hér beri sérstaklega að hafa í huga að kærði sé kærður fyrir aðstoð við sjúkling og í kærum þessum sé að mati kærða gengið svo langt að kærandi fari með ósannindi í rökstuðningi fyrir þessum kærum. Kærurnar séu tilefnislausar. Kærandi hafi sjálfur kallað yfir sig umfjöllun kærða með þátttöku í fjölmiðlaumfjöllun áður en kærði hafi þar látið að sér kveða. Sömuleiðis liggi fyrir að sum þau ummæli sem kært er fyrir séu í fullu samræmi við skilning hæstaréttardómara á álitsgerð þeirri sem kærandi gerði fyrir verjanda föður X. Að öllu þessu virtu sé eðlilegt að kærandi verði úrskurðaður til að greiða málskostnað verði niðurstaða Siðanefndar sú að fallist sé á sýknukröfu kærða, sbr. einkum 130. og 131. gr. laga um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Félagar í Læknafélagi Íslands eru bundnir af siðareglum félagsins. Ekki skiptir máli í því sambandi þótt reglur þessar kunni í ýmsum atriðum að vera strangari en almennar lagareglur segja til um, enda mun það almennt vera svo að í siðareglum hinna einstöku félaga eru, eðli máls samkvæmt, settar á ákveðnum sviðum mun ýtarlegri reglur en finnast í almennri löggjöf. Siðareglur LÍ virðast fyrst og fremst vera settar með hagsmuni sjúklinga í huga enda þótt þar séu einnig ákvæði um samskipti lækna. Reglur þessar verða hvorki túlkaðar þannig að þeim sé ætlað að koma í veg fyrir skoðanaskipti um læknisfræðileg álitaefni né að læknum sé óheimilt að fjalla um önnur læknisfræðileg álitamál en þeir eru sjálfir sérfræðingar í.

Kærandi gerði álitsgerð til framlagningar fyrir Hæstarétt í máli sem hafði þá þegar hlotið mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Í álitsgerðinni gagnrýndi kærandi vinnu annarra sérfræðinga, þ.e. sálfræðings, taugasálfræðings og geðlæknis. Verður kærandi að una því að aðrir fjalli um og gagnrýni hans verk.

Verður nú tekin afstaða til hinna einstöku kæruatriða.

A. Bein ræða Boga.

1. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 286/1999 segir m.a. svo: "Í álitsgerð Högna Óskarssonar geðlæknis frá 7. október 1999 kemur meðal annars fram sú skoðun, að kærandi sé ekki haldin heilkenninu áfallastreitu, eins og fram hafi komið í fyrri sérfræðigögnum." Í inngangi álitsgerðar sinnar segir kærandi að hann hafi verið beðinn um að gefa sérfræðiálit á því hvort kærandi "sé haldin heilkenninu áfallastreita eins og staðhæft er í skýrslu Jóns Fr. Sigurðssonar sálfræðings."

Við málflutning fyrir Siðanefnd hélt kærandi því fram að það sé misritun í álitsgerð hans þar sem segir að Jón Fr. Sigurðsson sálfræðingur hafi staðhæft að stúlkan sé haldin áfallastreitu.

Í viðtalinu er kærði að fjalla um álitsgerð kæranda og niðurstöðu álitsgerðarinnar sem er: "að ... er ekki haldin heilkenninu áfallastreita". Þá niðurstöðu mun kærandi hafa byggt á þeim sérfræðigögnum sem lágu fyrir héraðsdómi þá er framangreint mál var til meðferðar þar.

Slík niðurstaða getur talist sjúkdómsgreining, sbr. New Gould Dictionary frá 1951 en þar segir um merkingu orðsins diagnosis: 1) Listin eða sá gjörningur að ákveða eðli sjúkdóms (The art or the act of determining the nature of a disease). 2) Niðurstaðan sem komist hefur verið að (The decision reached).

Álitamálið hlýtur að vera hvort kærði hafi brotið tilvitnaðar siðareglur LÍ með því að segja "...og þessi fullyrðing Högna að stúlkan sé ekki haldin heilkenninu áfallastreita er greinilega rangfæring, það eru engin gögn til í málinu sem leyfðu honum að komast að svo víðtækri ályktun".

Þegar litið er til málsástæðna kærða vegna þessa kæruliðar er það álit Siðanefndar að kærði hafi ekki gerst brotlegur við siðareglur LÍ með ummælum þeim sem kærð eru undir lið A.1.

A.2.

Álitsgerð kæranda var gerð að beiðni verjanda ákærða í framangreindu hæstaréttarmáli.

Þegar litið er til þess sem fram kemur í aðilaskýrslu kærða um vísanir kæranda í álitsgerð hans í grein í British Journal of Psychiatry 1998 þá er ekki óeðlilegt hjá kærða að álykta, að það hafi verið gert að yfirlögðu ráði hjá kæranda að vísa í greinina í heild án þess að tiltaka þann kafla sem kærandi kveðst hafa stuðst við, þ.e. kaflann "The Psychology of Memory". Kærði hefur í aðilaskýrslu sinni bent á þrjár tilvitnanir í nefnda grein sem styðja trúverðugleika X, t.d.: "The issue of false or recovered memories should not be allowed to confuse the recognition and treatment of sexually abused children."

Það er niðurstaða Siðanefndar að ummæli kærða "Nú er þetta afskaplega lymskulega gert hjá Högna..." sé brot á 1. mgr. 29. gr. siðareglna LÍ. Aðrar greinar siðareglna LÍ telst kærði ekki hafa brotið með ummælum sem kærð eru undir lið þessum.

A.3.

Fram kemur í skjölum málsins að geðlæknarnir Ásgeir Karlsson og Valgerður Baldursdóttir hafa ólíkar skoðanir á því hvort gægjuhneigðarmenn séu líklegir eða ólíklegir til að fremja alvarleg kynferðisafbrot. Ásgeir Karlsson taldi þessa menn ólíklega til þess að fremja alvarleg kynferðisafbrot en Valgerður Baldursdóttir var á annarri skoðun. Í álitsgerð kæranda segir í sambandi við þetta álitamál: "Skoðun Valgerðar á málinu má því telja ranga." Í því sambandi vísaði kærandi í álitsgerð sinni í Oxford Textbook of Psychiatry, 3. útgáfu frá 1996. Í aðilaskýrslu kærða er vísað í sömu bók, bls. 497, en þar komi fram að sumt fólk hafi meira en eina tegund paraphilia. Jafnframt vísar kærði í ýmis önnur rit sem styðja skoðun Valgerðar Baldursdóttur geðlæknis.

Telji kærði að kærandi hafi vísvitandi farið með rangt mál í þessu sambandi, þá er það hans skoðun, sem telja verður hann frjálsan að enda hefur hann rökstutt þá skoðun sína nokkuð með ýmsum tilvitnunum í aðilaskýrslu sinni.

Það, að kærði telji, að jafnvel almenningur geri sér grein fyrir því að einstaklingar með gægjuhneigð geti framkvæmt önnur kynferðisafbrot, telst ekki brot á siðarreglum LÍ.

A.4.

Hér er um persónulega skoðun kærða á afleiðingum álitsgerðar kæranda að ræða og verður að telja honum frjálst að hafa þá skoðun og tjá sig um hana. Um leið telur Siðanefnd að kærði hafi ekki brotið 2. mgr. 29. gr. siðreglna LÍ með þessum ummælum.

B.1.

Þegar verjandi ákærða í hæstaréttarmálinu nr. 286/1999 leitaði til kæranda og óskaði m.a. eftir sérfræðilegum athugasemdum um þá sönnunarfærslu "um sekt ákærða sem felst í meðferð meirihluta héraðsdómsins á skýrslum sérfræðinga sem til voru kvaddir..." eins og segir í álitsgerðinni, hafði ákærði verið sakfelldur í héraðsdómi. Þrír sérfræðingar höfðu komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til þess að efast um trúverðugleika stúlkunnar. Eins og framangreint hæstaréttarmál er vaxið hlaut það að vera meginviðgangsefni verjanda að reyna að veikja trú dómsins á trúverðugleika stúlkunnar. Hver sem tilgangur kæranda var með álitsgerðinni þá veikti hún trúverðugleika stúlkunnar.

Það er álit nefndarinnar að með fullyrðingum töldum undir þessum lið kærunnar hafi kærði ekki brotið tilvitnaðar greinar siðareglna LÍ.

B.2.

Í dómsendurriti héraðsdóms sem var undanfari framangreinds hæstaréttarmáls kemur fram að sérfræðingar sem gáfu skýrslur fyrir héraðsdómi höfðu aðra skoðun en kærandi á því hvort ástand stúlkunnar samræmdist því að hún hefði orðið fyrir þeirri valdbeitingu sem ákært var fyrir.

Í niðurstöðu álitsgerðar kæranda segir svo: "Það er líka mat mitt að sönnunarfærsla héraðsdóms eins og hún byggir á skýrslum sérfræðinganna hafi ekki tekið tillit til veikleika og mótsagna í rannsóknarniðurstöðum þeirra, hafi ekki litið til veikleika í framburði sérfræðinganna og hafi alls ekki tekið tillit til þess að það er mikið misræmi milli þess hvernig sérfræðingarnir lýsa persónuleika ..., sjálfsmati og geðheilsu og þess, hversu sköðuð maður hefði getað búist við að ... væri, hefði hún orðið fyrir jafn hrottalegri misnotkun og felst í ákærunni."

Ljóst er að hér er um mismunandi skoðanir á viðkvæmu álitaefni að ræða. Kærða var frjálst að véfengja niðurstöðu kæranda og jafnframt að tjá sig um þetta málefni, en orðalagið "...að hann hafi hreinlega skáldað vísindalega þekkingu í þessu tilviki", telst brot á 1. mgr. 29. gr. siðareglna LÍ en telst ekki brot á 16. gr. siðareglna, enda ekki annað fram komið en kærði telji það sem eftir honum var haft sér samboðið.

B.3.

Í álitsgerð kæranda sem lögð var fyrir Hæstarétt í margnefndu máli eru engar upplýsingar um meðferðartengsl kæranda við ákærða í hæstaréttarmálinu.

Verður kærði því ekki talinn hafa brotið siðareglur LÍ með því sem talið er undir þessum lið.

C.

Fallast ber á það með kærða að það sé við lögmanninn, sem lagði greinargerðina fram óundirritaða og neitaði að upplýsa um höfund, að sakast, en ekki kærða.

Verður kærði því ekki talinn hafa brotið siðareglur LÍ með því að greinargerð hans var lögð fram án þess að höfundur væri tilgreindur.

Telja verður lækni heimilt að fjalla um verk lækna sem starfa á öðrum sviðum en sá sem um fjallar án þess að það í sjálfu sér sé brot á siðareglum lækna.

Viðbótarkæra.

1. Þegar litið er til menntunar, starfsreynslu og vísindalegrar þjálfunar kærða verður að telja að hann hafi hæfni til þess að fjalla um læknisfræðilega álitsgerð enda þótt hún sé ekki á sérsviði hans.

2. Hér gildir það sama og við lið 1 í viðbótarkæru.

3. Það var lögmaður X sem lagði fram og kynnti greinargerð kærða fyrir Siðanefnd. Eins og málið liggur fyrir er ósannað að kærði hafi átt hlut að kynningu og nafnleynd höfundar greinargerðarinnar.

Krafa kærða um málskostnað er ekki tekin til greina.

Málið úrskurða Haukur S. Magnússon, Stefán B. Matthíasson og Auður Þorbergsdóttir.

Úrskurðarorð:



Kærði, Bogi Andersen læknir, braut 1. mgr. 29. gr. Codex Ethicus Læknafélags Íslands með eftirgreindum ummælum sínum um kæranda, Högna Óskarsson lækni:

1. "Nú er þetta afskaplega lymskulega gert hjá Högna..."

2. "...að hann hafi hreinlega skáldað vísindalega þekkingu í þessu tilviki."



Auður Þorbergsdóttir

Haukur S. Magnússon

Stefán B. Matthíasson

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica