Umræða fréttir

Hóptrygging lækna. Af starfi nefndar Læknafélags Íslands

Stjórn Læknafélags Íslands hefur skipað nefnd til að fjalla um tryggingamál lækna. Í nefndinni eiga sæti læknarnir Guðmundur Helgi Þórðarson, Ísak G. Hallgrímsson og Guðmundur Jón Elíasson, sem jafnframt er formaður nefndarinnar.

Í skipunarbréfi frá Læknafélagi Íslands dagsettu 14.06.2000 stendur: "Eftir umræður í stjórn LÍ um tryggingamál lækna var ákveðið að skipa nefnd til að fjalla um þau mál. Guðmundur Helgi Þórðarson, fyrrverandi heilsugæslulæknir fjallaði um hóptryggingu lækna í Læknablaðinu í vetur og var það tilefni til umræðna í stjórn LÍ um tryggingamál lækna."

Nefndarmenn öfluðu gagna víða, hjá Læknafélagi Íslands, Sameinaða líftryggingafélaginu og frá Læknafélögum Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur, auk upplýsinga um hóptryggingar verkalýðsfélaga á Norðurlöndum.



Staðan í hóptryggingunni

Hvað varðar hóptryggingu lækna hefur komið í ljós að 14 aðilar eru enn tryggðir samkvæmt eldri hóptryggingu en þar mun einungis vera um líftryggingar að ræða.

Í nýju tryggingunni (frá 1995) eru 438 tryggðir, þar af 295 læknar og 143 makar þeirra í líftryggingu. Læknarnir skiptast þannig eftir aldurshópum: 92 eru 25-39 ára, 191 er 40-54 ára og 12 eru 55-67 ára.

Fram kemur í bréfi frá Sameinaða líftryggingafélaginu að frá því að nýi samningurinn tók gildi árið 1995 hafa tveir læknar fengið synjun um aðild og einn fengið frestun í tvö ár. Fimm læknar greiða hærra iðgjald en iðgjaldaskráin segir til um. Sjö læknar hafa hætt við tryggingartöku vegna álags á iðgjaldið og sjö hafa hætt við af öðrum ástæðum til dæmis ekki sinnt því að fara í læknisskoðun eða ekki svarað viðbótarspurningum félagsins um heilsufar.



Álit nefndarinnar

Af þeim gögnum sem fyrir liggja og af þeim viðræðum sem nefndarmenn hafa átt við þá sem þekkja til tryggingamála virðist ljóst að hóptryggingin sem í gildi er fyrir Læknafélag Íslands er á góðum kjörum fyrir þá sem trygginguna fá. Ekki er um skyldutryggingu að ræða og því er það undir hverjum og einum einstaklingi komið hvort hann kaupir trygginguna og greiðir iðgjald. Mikill eðlismunur er á skyldutryggingu þar sem allur hópurinn er tryggður eða þegar um frjálst val er að ræða. Þannig er lækkun iðgjalda fyrst og fremst fengin með því að töluverðar líkur eru á því að margir læknar muni tryggja sig og að þeir sem eru í meiri heilsufarsáhættu verða ekki tryggðir. Ekki er fyrirfram skilgreindur allur hópur lækna í Læknafélagi Íslands. Þannig er í raun mjög eðlilegt að tryggingafélagið vilji fá heilsufarsupplýsingar hvers þess einstaklings sem vill gerast aðili að hóptryggingunni. Í raun er því ekki mögulegt að gera athugasemd við það.

Af framangreindum tölum, kemur í ljós að fáir læknar greiða hærra iðgjald og ekki hefur mörgum verið synjað um tryggingar. Hlutskipti þessara lækna hlýtur þó að skipta okkur máli og verður því eindregið að hvetja félaga til þess að gerast aðilar að hóptryggingunni hið allra fyrsta eftir útskrift. Hvorki með hóptryggingu né öðrum tryggingum er unnt að vænta þess að mögulegt sé að tryggja eftir á. Þess vegna er mikilvægt að læknar eins og aðrir gerist aðilar að tryggingunni hið fyrsta eftir útskrift.

Í Svíþjóð eru hóptryggingar í aðalatriðum þrenns konar hjá verkalýðsfélögum.

Í fyrsta lagi skyldutrygging sem nær til allra félagsmanna. Iðgjaldið er þá hluti af félagsgjaldinu og tekur tryggingin gildi um leið og félagsmaður byrjar að greiða félagsgjald.

Í öðru lagi er um að ræða sjálfkrafa aðild með fyrirvara sem felur í sér að tryggingin nær til allra, einstaka félagsmenn hafa þó rétt á að afþakka aðild fyrir sitt leyti og geta þannig lækkað félagsgjaldið sitt.

Í þriðja lagi er um að ræða frjálsa aðild. Einstakir félagsmenn verða þá sjálfir að kaupa tryggingu hjá tryggingafélaginu á sérstökum kjörum sem stéttarsambandið hefur samið um. Þó er ekki heimilt að hafna aðild að tryggingunni.

Læknafélagið hefur samið um sérstök kjör við Sameinaða Líftryggingafélagið um hóptrygginguna, en öllum er ekki tryggð aðild. Hópurinn er því alls ekki skilgreindur fyrirfram og ekki hægt að ætlast til að tyggingafélagið taki alla áhættu af heilsufari frjálsra tryggingakaupenda og skiljanlegt er að undanfarandi sé könnun á heilsufari og jafnvel læknisskoðun.



Niðurstaða nefndarinnar

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að tryggingavernd sú, sem fæst með aðild að hóptryggingu Læknafélags Íslands og Sameinaða líftryggingafélagsins, sé góð og á góðum kjörum fyrir þá sem hana fá. Rétt er að árétta að nauðsynlegt er hverjum einstaklingi að huga vandlega að tryggingum sínum og fyrir lækna virðist góður kostur að taka þátt í hóptryggingunni.

Rétt er að minna enn á slagorðið að ekki er mögulegt að tryggja eftir á og því er mikilvægt fyrir lækna að gerast aðilar að tryggingunni hið fyrsta eftir útskrift.

Rétt er að minna lækna einnig á, að þeir eru aðilar að sterkum lífeyrissjóði þar sem samtrygging okkar er skilyrðislaus bæði hvað varðar örorkutryggingu, makalífeyri og eftirlaun.



Tillaga nefndarinnar

Nefndin vill eindregið beina því til stjórnar Læknafélags Íslands að vinna að eftirfarandi breytingu á hóptryggingunni.

l Nefndin leggur til að allir félagsmenn Læknafélags Íslands verði sjálfkrafa aðilar af hóptryggingunni en hverjum og einum sé heimilt að segja sig úr tryggingunni. Tryggingafélagi verði óheimilt að hafna aðild og iðgjöld miðist einungis við aldur.

l Það er skoðun nefndarinnar að ef læknar verði sjálfkrafa aðilar að hóptryggingunni muni þeir ekki segja sig úr henni og lækka þannig félagsgjald sitt nema að mjög vandlega íhuguðu máli. Væntanlega munu mun fleiri læknar tryggja sig sem styrkja mun stöðu hópsins í samningaviðræðum við tryggingafélögin.

l Nauðsynlegt er einnig að tryggja það að kjör þeirra sem þegar eru aðilar að hóptryggingunni muni ekki versna.



Guðmundur Helgi Þórðarson

Ísak G. Hallgrímsson

Guðmundur J. Elíasson

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica