Umræða fréttir

Ályktun stjórnar LÍ frá 29. desember 2000

Á fundi sínum þann 29. desember síðastliðinn samþykkti stjórn Læknafélags Íslands eftirfarandi ályktun. Ályktunin var send heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, forseta læknadeildar, læknaráði, lækningaforstjóra og forstjóra Landspítala - háskólasjúkrahúss."Þann 8. febrúar s.l. sendu stjórnir Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur frá sér yfirlýsingu um málefni Landspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Í henni segir m.a.:

"Koma þarf í veg fyrir faglega stöðnun og einokun á sameinuðu hátæknisjúkrahúsi meðal annars með tímabundnum ráðningum æðstu stjórnenda sjúkradeilda. Nýta þarf þetta tækifæri til að fella hið nýja sjúkrahús að nútímalegum hugmyndum um hinn akedemíska þátt í rekstri þess með því að efla tengslin við Háskóla Íslands, þannig að það þjóni landsmönnum sem kennslu- og rannsóknastofnun jafnt sem sjúkrahús í fremstu röð.

...Stjórnir Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur hvetja stjórnvöld til að grípa ekki til neinna þeirra aðgerða í máli þessu, sem líklegar eru til að valda afturför eða ólgu og sundurþykkju meða þeirra, sem málið varðar mest."

Landspítalinn - háskólasjúkrahús er eina heilbrigðisstofnunin af sínu tagi hér á landi. Innan veggja þessarar stofnunar er að finna þekkingu til greiningar og meðferðar sjúkdóma og til kennslu heilbrigðisstétta eins og best gerist meðal þjóða á Vesturlöndum. Landspítalinn - háskólasjúkrahús ætti því með réttu að teljast háborg heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Ein af forsendum þess, að svo geti orðið, er að þar ríki akademískt frelsi til hugsunar og tjáningar um þróun heilbrigðisþjónustu hér á landi. Það frelsi varðar jafnt umræður um heilsugæslu utan sjúkrahúsa og sjúkrahúsþjónustu svo og brotalamir, sem á þessari þjónustu kunna að vera. Allir starfsmenn sjúkrahússins ættu að njóta frelsis að þessu leyti. Það er skoðun stjórnar Læknafélags Íslands að lúti starfsmennirnir óttanum um óvild sjúkrahússtjórnarinnar, beri þeir fram óþægilega framtíðarsýn frá hennar sjónarhóli, muni það leggja dauða hönd framtaks- og sinnuleysis á málefni Landspítala - háskólasjúkrahúss sem og annarra heilbrigðisstofnana í landi okkar.

Stjórn Læknafélags Íslands hvetur alla hlutaðeigandi til að virða þessi sjónarmið landsmönnum öllum til hagsbóta og velfarnaðar."

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica