Umræða fréttir

Frelsi til tjáningar og gjörða. Þankar vegna samþykktar stjórnar LÍ

Stjórn Læknafélags Íslands gerði samþykkt um frelsi til hugsunar og tjáningar og birti í Morgunblaðinu þann 3. janúar síðastliðinn. Ekki er getið tilefnis, en skilja má af samþykktinni að það hafi verið sá atburður á Landspítala - háskólasjúkrahúsi að læknir var valinn til stjórnunarstarfs, en valið síðar dregið til baka. Ekkert nafn var nefnt og mun ég fylgja því fordæmi með einni undantekningu. Áður en ályktunin birtist hafði Morgunblaðið tekið málið upp á mjög sérstæðan hátt og haldið því fram að um skoðanakúgun væri að ræða. Stjórnendur Landspítala - háskólasjúkrahúss hafi óvænt komist að skoðun læknisins á einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og því hafi boðið verið afturkallað. Þetta átti að hafa gerst þegar læknirinn sendi út fréttatilkynningu þar sem kunngerð voru áform einkaaðila um að stofna nýja miðstöð fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Í þessu sambandi má minna á að viðkomandi læknir hefur ekki farið dult með skoðanir sínar á einkarekstri í heilbrigðiskerfinu, þvert á móti hefur hann verið einarður talsmaður einkareksturs við hvern sem heyra vildi. Að gera því skóna að stjórnendur Landspítala - háskólasjúkrahúss hafi ekki þekkt skoðanir læknisins er í raun að gera afar lítið úr honum og hans málflutningi.

Orðalag ályktunar stjórnar LÍ bendir til að hún hafi ekki kannað tilefnið sem skyldi og það eru ekki góð vinnubrögð.

Lítum á hvað gerðist samkvæmt frásögnum í fjölmiðlum. Læknirinn sendi út fréttatilkynningu þar sem greint var frá ákvörðun um "að stofna félag til að kanna hagkvæmni þess að reisa nýja miðstöð fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu". Fram kom að margir eiga aðild að félagsstofnuninni en það fór ekki á milli mála að hann var í forystu fyrir hópnum og ætlaði að leggja vinnu í framgang þessa málefnis. Í viðtölum í fjölmiðlum sem fylgdu deildi hann á Landspítala - háskólasjúkrahús fyrir að standa sig ekki sem skyldi og valda ekki verkefni sínu þrátt fyrir 20 milljarða króna fjárveitingu. Hin fyrirhugaða félagsstofnun væri meðal annars til að bæta úr afleiðingum þessarar vangetu.

Við skoðun málsins koma að minnsta kosti fjögur atriði fram:

1. Skoðanir læknisins á einkarekstri.

2. Áform um að vinna að stofnun einkafyrirtækis.

3. Vantrú á að stjórnendur Landspítala - háskólasjúkrahúss geti leyst verkefnið sem þeim er falið.

4. Læknirinn vill vinna að lausn verkefnisins, - ekki innan Landspítala - háskólasjúkrahúss og með starfsmönnum þess - heldur stofna til þess nýtt félag.

Umræðan um þetta atvik verður alröng ef eingöngu er tekið til skoðunar fyrsta atriðið eins og gert var í yfirlýsingu stjórnar LÍ. Þar segir að á Landspítala - háskólasjúkrahúsi eigi að ríkja "akademískt frelsi til hugsunar og tjáningar um þróun heilbrigðisþjónustu hér á landi". Í yfirlýsingum frá stjórnendum Landspítala - háskólasjúkrahúss hafa einnig komið fram skoðanir um það efni. Í yfirlýsingu forstjóra Landspítala - háskólasjúkrahúss í Morgunblaðinu 15. desember síðastliðinn segir að stjórnendur spítalans "virði málfrelsi, skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi" og í yfirlýsingu framkvæmdastjóra kennslu og fræða á sama stað segir að enginn dragi í efa frelsi læknisins til þeirra skoðana sem hann hefur gefið til kynna. Ennfremur segir "um þetta eru forstjórinn og öll framkvæmdastjórnin algerlega sammála". Svo er að sjá að skoðanir stjórnar LÍ og stjórnenda Landspítala - háskólasjúkrahúss falli saman í þessu.

Ef grannt er skoðað er tjáningafrelsi í opinberri umræðu þó oftast takmarkað að einhverju leyti. Miklar deilur hafa orðið um sumar þær skoðanir sem forseti Íslands hefur sett fram opinberlega og hvað sé við hæfi að komi fram í opinberum ræðum hans. Varla eru ráðherrar ætíð sammála gerðum annarra ráðherra. Gagnrýni þeir hver annan opinberlega, hriktir í undirstöðum ríkisstjórnar og eins líklegt að hún falli. Deilumál eru leyst innanhúss, eða að minnsta kosti ekki rædd opinberlega. Í mörgum einkafyrirtækjum og jafnvel á stofum lækna er starfsmönnum bannað að ræða utan fyrirtækisins um það er varðar innri starfsemi þess. Með öðrum orðum, við ráðningu og kosningu hafa menn afsalað sér hluta af tjáningarfrelsi sínu. Í Codex Ethicus og lögum eru settar takmarkanir á tjáningafrelsi lækna.

Í Morgunblaðinu var sagt að opinber rekstur og einkarekstur gætu farið saman. Allir sem þekkja til reksturs heilbrigðisþjónustunnar vita að í áratugi hefur hluti sjúkrahúslækna rekið einkastofur jafnhliða fullu starfi á sjúkrahúsum. Mér er ekki kunnugt um að nokkurs staðar tvinnist saman jafn náið einka- og opinber rekstur, né veit ég dæmi til að nokkurri annarri stétt hafi verið sýndur sá trúnaður að vinna hjá einni stofnun og reka jafnframt eigin starfsemi sem eðli starfsins vegna verður að hluta til að fara fram í dagvinnu og það án strangs eftirlits vinnuveitanda. Þetta er auðvitað gert með fullu leyfi yfirvalda og samkvæmt samningi sjúkrahúslækna. Ekki er allir sammála um ágæti þessa kerfis, hvorki læknar né aðrir.

Göngudeildastarfsemi í formi polýklínika eins og tíðkast í nágrannalöndum okkar hefur ekki náð að þróast hér á landi. Því er rekstur einkastofa undirstaða þess að kunnátta sjúkrahúslækna nýtist sjúklingum sem ekki leggjast inn á spítala. Á meðan það breytist ekki verða sjúkrahúslæknar að hafa leyfi til að reka einkastofur enda um það samið. Í þeim samningi er kveðið á um framkvæmd þeirra mála og raunar eru einnig í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ákvæði þar að lútandi. Þótt eftirlitið með framkvæmd samningsins hafi ekki verið strangt getur það breyst. Sumir ætla að sjúkrahúslæknar misnoti þetta frelsi. Flestir læknar muna "stimpilklukkumálið" á Ríkisspítulum fyrir nokkrum árum. Einn þáttur þess var að auka eftirlit með vinnuskilum lækna. Það skiptir læknastéttina miklu máli að sýna að hún er traustsins verð og læknar verða að fara með mikilli gát með þann trúnað.

Víða í þjóðfélaginu er verið að skerpa samskiptalínur, samanber ýmsa þjónustusamninga svo og samninga Landspítala - háskólasjúkrahúss og Háskóla Íslands sem nú er unnið að. Gerðar eru kröfur um að ríkisrekstur líkist einkarekstri á sem flestan hátt. Ekki er úr vegi að líta á hvað sagt hefur verið í fjölmiðlum um ofannefnt mál í sambandi við einkarekstur. Varaformaður stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss, sem er háttsettur stjórnandi í einkafyrirtæki, taldi að réttara hefði verið fyrir lækninn að leita eftir leyfi frá störfum við spítalann á meðan hann vann að málefnum læknastöðvanna. Í dagskrá á Rás 2 þann 19. desember síðastliðinn var rætt við Sigurð Helgason stjórnsýslufræðing og sagði hann meðal annars: "... ég er ekki í nokkrum vafa um að ef að sambærilegt mál hefði komið upp hjá einkafyrirtæki hefði viðkomandi aðila verið vikið úr starfi". Hvorki var það gert né lækninum gert að taka sér frí, en boð um aukna ábyrgð var dregið til baka.

Í yfirlýsingum yfirmanna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi hefur ítrekað verið rætt um trúnaðarbrest milli þeirra og margnefnds læknis. Það er augljóst af fréttatikynningunni og umræðum eins og fyrr var rakið að læknirinn hefur ekki trú á að stjórnendur Landspítala - háskólasjúkrahúss geti leyst á viðunandi hátt það verkefni sem þeir hafa tekið að sér og til að bæta þar nokkuð um ætlar hann að stofna einkafyrirtæki. Ekki tjáði hann yfirmönnum sínum þetta, ekki minntist hann heldur á þau auknu verkefni sem hann hafði tekið að sér þó hann væri í viðræðum við þá um stöðuhækkun á spítalanum, en sendi tilkynningu þar um til fjölmiðla. Ekki leikur vafi á að læknirinn sýndi yfirmönnum sínum og væntanlegum samstarfsmönnum við stjórnun ekki nokkurn trúnað.

Í heimi vaxandi peningahyggju, samkeppni og hörku á öllum sviðum, jafnframt aukinni spurn eftir spítalalæknum í hlutastörf og kröfunni um að opinber rekstur líkist sem mest einkarekstri, er næsta víst að krafan um eftirlit með vinnuskilum lækna verður háværari. Ég tel mikla nauðsyn á, bæði vegna lækna og sjúkrahússins, að fram fari viðræður milli Læknafélags Íslands og Landspítala - háskólasjúkrahúss um ýmis samskipti félagsins og lækna við spítalann. Meðal þess sem þarf að ræða er framkvæmd ákvæða í samningi sjúkrahúslækna sem snúa að einkarekstri lækna, hlutastörfum þeirra hjá einkafyrirtækjum og öðrum stofnunum og hvernig læknum verði tryggt frelsi til að sinna sjúklingum sem ekki liggja á spítalanum. Umræða milli samninganefnda LÍ og ríkisins um laun dugar ekki, bein umræða við spítalann er nauðsynleg.Skrifað í janúar 2001

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica