Umræða fréttir

Reglugerð um Orlofssjóð Læknafélags Íslands

Upphaflega samþykkt í september 1979. 4. gr. var breytt 1987. 8. gr. var breytt 1995.

Breyting var gerð hinn 12. desember 2000 á reglugerð Orlofssjóðs á sameiginlegum fundi stjórna LÍ/LR samkvæmt gildandi reglugerð. Var meðal annars nafni sjóðsins breytt úr Orlofsheimilasjóður LÍ/ LR í Orlofssjóð LÍ og þannig staðfest í reglugerð Orlofssjóðs sú skipan að sjóðurinn er og hefur verið eignfærður í ársreikningi LÍ.



I. Kafli

Aðild, framlög og hlutverk

1. gr.

Sjóðurinn heitir Orlofssjóður Læknafélags Íslands (LÍ) og á heimili og varnarþing á starfsstöð LÍ.

Rétt til aðildar að Orlofssjóðnum eiga allir félagar í Læknafélagi Íslands. Aðild að sjóðnum og framlag í hann skal vera með þessum hætti:

1. Með samningum samtaka lækna við vinnuveitendur eða sjúkratryggingar um ákveðið framlag eða frádrátt af greiðslum, sem rennur í sjóðinn. Framlag sjóðfélaga fer eftir ákvæðum viðkomandi kjarasamninga, úrskurðum kjaranefndar og öðrum samningum.

2. Einstakir læknar, er gera sérstakan samning við Orlofssjóð. Framlag þeirra skal ákveðið af orlofsnefnd hverju sinni.

Sjóðnum skal varið til þjónustu við félagsmenn í orlofi. Sjóðurinn á og rekur orlofshúsnæði og skapar á annan hátt aðstöðu til orlofsdvalar sjóðfélaga.



II. Kafli

Réttindi sjóðfélaga

2. gr.

Rétt til afnota af sumarhúsum eða annarri þjónustu Orlofssjóðs hafa allir sjóðfélagar, sbr. 1. gr.

Orlofsnefnd sbr. 3. gr., úthlutar skv. starfsreglum, sem hún setur í samráði við stjórn LÍ. Orlofsdvöl utan sumartíma verður úthlutað, eftir því sem óskir berast frá sjóðfélögum. Öllum sjóðfélögum skal tilkynnt fyrir 1. mars ár hvert, hvaða orlofsdvöl sjóðurinn bjóði upp á og skal sækja um leigu á sumarhúsum fyrir 1. apríl. Fyrir 15. apríl skal orlofsnefnd tilkynna hverjir hafa fengið oflofshús á leigu það sumarið. Einungis þeir, sem skuldlausir eru við LÍ og orlofssjóð, skulu hafa rétt til að taka orlofshús á leigu.



III. Kafli

Stjórn og rekstur sjóðsins

3. gr.

Stjórn LÍ skipar fimm lækna í orlofsnefnd til tveggja ára í senn. Orlofsnefnd gerir tillögur til stjórnar LÍ um meginákvarðanir varðandi uppbyggingu og rekstur orlofsheimila. Orlofsnefnd kynnir stjórn LÍ starfsáætlun, fjárhags- og fjárfestingaráætlun í lok hvers árs fyrir komandi ár.

Læknafélag Íslands annast daglegan rekstur sjóðsins. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Kjörnir skoðunarmenn og löggiltir endurskoðendur LÍ endurskoða reikninga Orlofssjóðs, sem skulu lagðir fram til afgreiðslu á aðalfundi LÍ. Orlofsnefnd er heimilt að taka lán í nafni sjóðsins og undirgangast aðrar skuldbindingar að fengnu samþykki stjórnar LÍ. Óráðstafaður hluti sjóðsins skal ávaxtaður eins og best verður á kosið.

Orlofsnefnd ákveður leigugjald fyrir orlofshús.



IV. Kafli

Almenn ákvæði

4. gr.

Rísi ágreiningur um einstök atriði í reglugerð þessari, sker stjórn LÍ úr honum.

5. gr.

Breytingar á reglugerð þessari eru því aðeins gildar að þær hafi verið samþykktar af stjórn LÍ og aðalfundi LÍ.

Tillaga um að leggja Orlofssjóð LÍ niður þarf samþykki tveggja þriðju kjörinna fulltrúa á aðalfundi LÍ. Liggi fyrir lögmæt ákvörðun um að leggja sjóðinn niður renna eignir hans til Læknafélags Íslands.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica