Umræða fréttir

Smásjáin 2

Rannsókn hafin á meintri líffærasölu



Heilbrigðisráðherra Ísraels hefur skipað nefnd til að kanna ásakanir ísraelsks dagblaðs á hendur Greenberg stofnunni í réttarlæknisfræði í Tel Aviv. Stofnunin er sú eina á sínu sviði í Ísrael.

Blaðamennirnir Ronen Bergman og Gai Gavra á helgarútgáfu Yediot Aharonot dagblaðsins slógu upp á forsíðu nýverið að stofnunin sé bendluð við líffærasölu. Meðal þess sem blaðamennirnir studdust við í frásögn sinni voru "verðlistar" fyrir tiltekin líffæri og bein. Þessir líkamshlutar eru taldir hafa verið sendir til rannsóknastofnana við háskóla og til læknaskóla fyrir læknanema að æfa sig á. Erfitt er að nálgast líffæri til rannsókna í Ísrael vegna þess að trúarbrögð setja slíku verulegar hömlur. Einungis hefur verið heimilt að fjarlægja líffæri í því skyni að bjarga mannslífum, en ekki til rannsókna.

Talið er að þeir sem einkum hafa orðið fyrir barðinu á meintum líffærasölum séu erlent verkafólk sem átti enga ættingja í Ísrael. Líkin voru síðan fyllt með öðru efni, meðal annars bómull, í stað líffæranna.

Dr. Yitzhak Berlovich yfirmaður hjá ísraelska heilbrigðisráðuneytinu segir að fyrir tveimur árum hafi komið upp hliðstætt mál hjá réttarlæknisstofnuninni og þá hafi verið talið að skrúfað hafi verið fyrir þann leka. Hins vegar sé erfitt um vik að fá réttarlækna til að rannsaka slík mál því þeir séu allir tengdir stofnuninni á einn eða annan hátt þar sem hún sé sú eina sinnar tegundar í landinu. Almennt ber ástand stofnunarinnar vott um féleysi og niðurníðslu að mati greinarhöfunda. Flugur á sveimi og lasburða ísskápar, en hins vegar hafði heilbrigðisráðuneytið veitt fjármagni til að endurnýja skrifstofur starfsfólksins og kaffiteríuna myndarlega!

Yfirmaður stofnunarinnar, prófessor Yehuda Hiss, neitar því að um líffærasölu hafi verið að ræða en kvartar hins vegar undan því að fjármagn vanti til endurnýjunar á rannsóknaraðstöðu stofunarinnar. Það sé margfalt meira fjármagn en hafi verið varið til endurbóta á aðstöðu starfsfólksins.

Eftir að grein blaðsins birtist ákvað heilbrigðisráðuneytið að veita umtalsverðu fjarmagni (um einni milljón dollara) til endurbóta á rannsóknaraðstöðunni.



BMJ 2001; 322: 128.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica