Umræða fréttir

Samstarf um lungnamælingar

Lungnamælingar eiga aÐ vera sjálfsögð þjónusta sem hægt á að vera að framkvæma á öllum heilsugæslustöðvum landsins. Þetta er eitt af markmiðum samnings sem var undirritaður í húsakynnum Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur á dögunum, eins og segir í fréttatilkynningu. Landlæknisembættið, Tóbaksvarnarnefnd, Loftfélagið og GlaxoSmithKline ætla að starfa sameiginlega að aukinni fræðslu og upplýsingagjöf innan heilbrigðiskerfisins á sviði lungnasjúkdóma og greiningu á orsökum vaxandi tíðni þeirra hér á landi.

Það voru Sigurður Guðmundsson landlæknir, Þorsteinn Njálsson formaður Tóbaksvarnarnefndar, Gunnar Guðmundsson lungnalæknir fyrir hönd Loftfélagsins og Hjörleifur Þórarinsson fyrir hönd GlaxoSmithKline sem undirrituðu samstarfssamninginn. Við undirritunina kom fram að talið sé sérstaklega brýnt að víðtækt samstarf takist meðal aðila heilbrigðiskerfisins um að sporna gegn þeirri alvarlegu þróun sem felst í ört vaxandi tíðni langvinnra lungnateppusjúkdóma sem rekja má að stórum hluta til langvarandi tóbaksreykinga. Þessir sjúkdómar hafa stundum verið nefndir "hinir gleymdu sjúkdómar" sökum þess hversu lítillar athygli þeir hafa notið, bæði meðal heilbrigðisstarfsfólks og almennings.

Talið er að 16.000 til 18.000 manns þjáist af völdum langvinnrar lungnateppu hér á landi. Aðalorsökin er að fjölmennir árgangar áranna 1930 til 1965 eru að færast upp aldursstigann, en reykingar hafa verið nokkuð útbreiddar meðal þeirra. Um 90% þeirra sem þjást af völdum sjúkdómanna eru reykingafólk. Haldi fram sem horfir er talið að langvinnir lungnateppusjúkdómar verði þriðja algengasta dánarorsökin hér á landi á næstu 20 árum en í dag eru þeir sjötta algengasta dánarorsök Íslendinga.

Samningsaðilar ætla að beita sér fyrir markvissri notkun á lungnamælum til greiningar á lungnasjúkdómum og mun GlaxoSmithKline greiða kostnað af nýjum lungnamælum sem afhentir verða þeim 26 heilsugæslustöðvum sem samkvæmt niðurstöðum landlæknisembættisins þurfa á endurnýjun slíks tækjabúnaðar að halda. Úr fréttatilkynningu.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica