Umræða fréttir
Ályktanir aðalfundar Læknafélags Íslands 2001
1.
Aðalfundur Læknafélags Íslands, haldinn í Kópavogi dagana 12. og 13. október 2001, staðfestir sameiginlega yfirlýsingu stjórnar Læknafélags Íslands og Íslenskrar erfðagreiningar um gagnagrunn á heilbrigðissviði, sem formaður Læknafélags Íslands undirritaði f.h. stjórnar LÍ hinn 27. ágúst s.l., með fyrirvara um staðfestingu aðalfundar félagsins. 3.
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn 12. og 13. október 2001 í Kópavogi lýsir áhyggjum sínum yfir þeim glundroða og ómarkvissu uppbyggingu sem einkennt hefur sameiningarferli sjúkrahúsanna í Reykjavík.Fundurinn átelur stjórnvöld fyrir að hafa staðið slælega að sameiningu sjúkrahúsanna. Það er með öllu óásættanlegt að við sameiningu sjúkrahúsanna hafi ekki legið fyrir ákvörðun um framtíðarstaðsetningu og að í fjárlögum skuli ekki hafa verið gert ráð fyrir útgjöldum til að standa straum af umtalsverðum stofnkostnaði sem óhjákvæmilega hlýst af sameiningunni. Þetta hefur haft í för með sér óvissu hjá starfsfólki og öryggisleysi hjá sjúklingum og stórlega grafið undan virðingu starfsmanna fyrir vinnustaðnum.
Aðalfundurinn lýsir yfir óánægju sinni með hve yfirstjórn Landspítala háskólasjúkrahúss hefur haft forystumenn lækna á sjúkrahúsinu takmarkað með í ráðum varðandi grundvallarstefnumótun og fram-kvæmd sameiningarinnar. Aðalfundurinn hvetur forystumenn lækna til að styrkja innra stjórnskipulag sviða og skora og auka áhrif lækna í allri ákvarðanatöku varðandi sameininguna. Ennfremur hvetur aðalfundurinn lækna til að taka meiri þátt í uppbyggingu hins sameinaða sjúkrahúss og axla þá ábyrgð sem hver og einn hlýtur að bera í þessu þýðingarmikla máli.
4.
Á aðalfundi Læknafélags Íslands sem haldinn var í Kópavogi dagana 12. og 13. október 2001 skýrði heilbrigðisráðherra frá stjórnarfrumvarpi um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um almannatryggingar.Fundurinn krefst þess að fullt samráð verði haft við samtök lækna áður en þetta veigamikla mál verður afgreitt frá Alþingi.
5.
Aðalfundur Læknafélags Íslands haldinn dagana 12. og 13. október 2001 í Kópavogi heimilar áframhaldandi fjárstuðning til Læknafélags Akureyrar við uppbyggingu lækningaminjasafns í Gudmanns minde á Akureyri allt að kr. 1.000.000 árið 2002 enda komi sama upphæð á móti til verkefnisins með frjálsum framlögum frá öðrum. Þó er það skilyrði sett að þessi fjárveiting leiði ekki til hækkunar árgjalda félagsmanna. Greiðslan verði innt af hendi í árslok, þegar uppgjör ársins liggur fyrir.Aðalfundurinn skorar á Akureyrarbæ að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hægt verði að endurbyggja húsið ásamt viðbyggingu í upprunanlegri mynd.