Umræða fréttir

Samskipti Ríkisendurskoðunar og Læknasetursins

Það voru friðsamir læknar sem gengu á fund Ingibjargar Pálmadóttur, þegar hún var nýorðin ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála. Þar fóru formenn læknafélaganna og formenn samninganefnda. Menn vildu friðmælast við ráðuneytið eftir hatrammar deilur við Sighvat Björgvinsson.

Árin liðu af valdatíð Ingibjargar, en 21. nóvember 2000 fetaði hún í fótspor fyrirrenna síns, þegar hún ritaði Ríkisendurskoðun bréf og fór þess á leit við stofnunina að gerð yrði sérstök úttekt á greiðslum til lækna frá aðilum sem ríkissjóður veitir fjárframlög til.

Í framhaldi af þessu bréfi fékk Læknasetrið bréf frá Ríkisendurskoðun, dagsett 21. mars 2001, og var þess krafist að Læknasetrið sundurliðaði greiðslur til lækna með nafni, kennitölu, sérgrein og upphæð. Læknasetrið svaraði þessu bréfi á þann veg að um verktakagreiðslur væri að ræða, en ekki fjárframlög úr Ríkissjóði og það væri brot á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að veita umbeðnar upplýsingar og þau lög, nr. 77/2000, giltu einnig um lækna.

Læknasetrið vísaði málinu til Persónuverndar.

Í ljós kom að Ríkisendurskoðun hafði tilkynnt Persónuvernd um þessa athugun fyrirfram og sagt var að ætlunin væri að vinna með upplýsingar um laun lækna á tölfræðilegan hátt og gera grein fyrir niðurstöðum í opinberri skýrslu.

Þegar bréf Læknasetursins til Persónuverndar var sent Ríkisendurskoðun til umsagnar sagði stofnunin: "Það var mat Ríkisendurskoðunar sem segja má að hafi verið á misskilningi byggt að hér væri verið að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar. Við nánari skoðun má ljóst vera að í umræddri tilkynningu hefði verið rétt að vísa í 5. tl. 8. gr. laga um persónuvernd."

Í lögum um meðferð persónuupplýsinga og um persónuvernd stendur í 5. tl. 8. gr. að vinnsla með persónuupplýsingar sé heimil vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna.

Eftir bréf undirritaðs til Persónuverndar sagði Ríkisendurskoðun nú að rannsóknin væri gerð í þágu almannaheilla.

Helst virtist að læknar væru einhverjir vágestir í heilbrigðisþjónustunni og eina stéttin í þjóðfélaginu sem Ríkisendurskoðun telur sig þurfa að skoða. Samt eru margir verktakar sem vinna fyrir ríkissjóð án þess að Ríkisendurskoðun sé að hnýsast í laun starfsmannanna. Þar er um að ræða stóra verktaka eins og Ístak, sem veltir 60 milljörðum árlega. Enginn spyr um laun starfsmanna þeirra, enda kemur það engum við nema skattstjóranum.

Viðskipti undirritaðs við Ríkisendurskoðun í sumar verða ekki rakin frekar, en úrskurður Persónuverndar í þessu máli er sá, að Ríkisendurskoðun heyri undir Alþingi og eigi að endurskoða ríkisreikninga, reikninga þeirra aðila sem hafa með höndum rekstur og fjárvörslu á vegum ríkisins, skuli sinna stjórnsýsluendurskoðun, hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga og vera þingnefndum til aðstoðar við fjárlagagerð. Ekki verður séð að umrædd rannsókn á persónulegum högum lækna sé á verksviði Ríkisendurskoðunar heldur fara þessar persónunjósnir af stað eftir beiðni heilbrigðisráðuneytisins. Ekki verður séð að ráðuneytið hafi neina heimild í lögum til að fara fram á slíka rannsókn, enda heyrir Ríkisendurskoðun undir forsætisnefnd en ekki einstaka ráðherra. Ríkisendurskoðun getur í mesta lagi krafið Læknasetrið um sönnun þess að umsamin verktakavinna fyrir Tryggingastofnun ríkisins hafi verið framkvæmd. Slík sönnunargögn höfum við ekki neitað að leggja fram, enda væri slíkt brot á samningi okkar við Tryggingastofnun ríkisins, sem við höfum ávallt haldið í einu og öllu. Ef þar koma fram persónulegar upplýsingar um sjúklinga þyrfti þó að leggja slíka beiðni fyrir Persónuvernd.

Úrskurður Persónuverndar í þessu máli er afdráttarlaus og telst umrædd rannsókn ekki vera í þágu almannahagsmuna.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar kom síðan út í lok júlí án þess að Læknasetrið gæfi neinar upplýsingar og áður en úrskurður Persónuverndar var birtur. Heiðarlegur embættismaður hefði frestað rannsókninni eftir að deila um lögmæti hennar kom upp.

Ríkisendurskoðandi telur sig hafinn yfir lögin.

Það er ljóst að þegar stofnun eins og Ríkisendurskoðun fer fram á gögn frá fyrirtækjum í heilbrigðisþjónustu þá veita flestir umbeðnar upplýsingar, en nú eru breyttir tímar, komin lög sem vernda þegna landsins, enda hefur mikil umræða farið fram að undanförnu um meðferð persónuupplýsinga. Því miður hafa ýmsir aðilar veitt þessar upplýsingar umhugsunarlaust og því tekið þátt í lögbrotum Ríkisendurskoðunar og heilbrigðisráðuneytisins. Meðal þessara aðila eru sjúkrahúsin í Reykjavík. Að vísu er ávallt viss ógnun frá Ríkisendurskoðun, því stofnunin virðist telja vald sitt nánast takmarkalaust og því telja menn rétt að afhenda gögn þangað. Í síðasta bréfi Ríkisendurskoðunar til undirritaðs var hótað að stefna Læknasetrinu fyrir héraðsdóm til að fá gögnin afhent. Vissulega væri gott fyrir þjóðfélagið allt að fá úr því skorið hversu víðtækt valdsvið Ríkisendurskoðunar er. Við viljum ekki réttarfar eins og var í Austur-Evrópu fyrir áratug síðan, að yfirvöldin vaði yfir borgarana. Þessi krafa um gögn frá okkur snerist ekki um neinn grun um saknæmt athæfi heldur fól eingöngu í sér persónunjósnir. Ríkisendurskoðun getur ekki verið þátttakandi í slíku athæfi.

Þessi deila er reyndar deila um mannréttindi og mun þá fara í þann farveg.

Þessari skýrslu, sem reyndar er ómerkilegt plagg, fullt af ágiskunum, ber að eyða sem fyrst. Hún er þó skömminni skárri en skýrsla þeirra um ferliverk, sem er eins og slúðurdálkur. Ef ríkisendurskoðandi ber ekki meiri virðingu fyrir starfi sínu, hver ber þá einhverja virðingu fyrir þessu embætti?

Nær væri Ríksendurskoðun að sinna starfi sínu sem þeim er falið með lögum, að endurskoða fjárreiður ríkisfyrirtækja svo sem Þjóðleikhússins, heldur en að vera að eyða tíma sínum í að hnýsast í laun lækna og þar með að brjóta lög um meðferð persónuupplýsinga. Hefði stofnunin sinnt starfi sínu hefði mátt fyrirbyggja ýmis óheillamál, sem þar komu upp. Hvers vegna hefur enginn veitt því athygli að ríkisendurskoðandi stóð sig ekki í stykkinu í endurskoðun ríkisfyrirtækja og verkefna, greiddra með beinum fjárframlögum úr ríkssjóði (samanber lög um Ríkisendurskoðun)?

Lög um persónuvernd gilda aftur á móti um alla þegna þjóðfélagsins, líka lækna.

Ekki verður hjá því komist að gagnrýna heilbrigðisráðuneytið vegna þessara lagabrota og fregnir hafa borist af breytingum á almannatryggingalögum sem leggja á fyrir næsta þing, þar sem ætlunin er að afnema gildi samkeppnislaga í heilbrigðisþjónustu. Önnur lög eiga að gilda um lækna en aðra þegna þjóðfélagsins! Læknafélagið verður að svara slíkum breytingum af fullri hörku, þótt það kosti blóð svita og tár.

15. september 2001

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica