Umræða fréttir

Þýskir þingmenn í heimsókn hjá Læknafélagi Íslands

Á haustjafndægrum kom þýsk þingmannanefnd í heimsókn til Læknafélags Íslands. Erindi hennar var að afla upplýsinga um þróun mála á sviði læknisfræðirannsókna og meðhöndlunar hér á landi. Átti nefndin fund með Sigurbirni Sveinssyni formanni og Jóni G. Snædal varaformanni LÍ ásamt Tómasi Zoëga formanni stjórnar Siðfræðiráðs LÍ.

Nefnd þessi er það sem kallað er rannsóknarnefnd, en þær eru skipaðar af þýska sambandsþinginu til að vera þingmönnum til ráðgjafar. Er hlutverk þeirra að safna saman, vinna úr og skilgreina vísindalegar upplýsingar um flókin viðfangsefni sem þingmenn þurfa að taka afstöðu til. Verksvið þessarar nefndar er lagasetning og siðfræði í læknavísindum nútímans. Var hún skipuð vorið 2000 og gert að skila lokaskýrslu til þingsins næsta vor.

Í nefndinni eiga sæti 13 þingmenn frá öllum flokkum sem fulltrúa eiga á þýska sambandsþinginu en formaður hennar er læknirinn dr. Wolfgang Wodarg sem er þingmaður fyrir jafnaðarmenn. Með nefndinni starfa svo jafnmargir sérfræðingar: læknar, vísindamenn, lögfræðingar, guðfræðingar, heimspekingar og félagsvísindamenn. Nefndin hefur skipað þrjá þemahópa sem fjalla um afmörkuð svið, einn fjallar um æxlunarfræði og fósturvernd, annar um nýjar aðferðir í sjúkdómsgreiningu og meðferð og sá þriðji um erfðafræðiupplýsingar.

Nefndin kom til Íslands frá Bretlandi en tilgangur ferðarinnar var að afla upplýsinga um núverandi stöðu og framtíðarhorfur á sviði læknisfræðirannsókna og meðhöndlunar, setja sig inn í lagasetningu og pólitíska umgjörð slíkrar starfsemi og fá innsýn í umræður almennings og vísindasamfélagsins um siðfræðileg og félagsleg álitaefni. Auk fulltrúa lækna hittu nefndarmenn að máli þingmenn, sérfræðinga, vísindamenn og fulltrúa ríkisstjórnar, fyrirtækja, skóla og hagsmunahópa.

Að sögn læknanna sem fundinn sátu með þýsku þingmönnunum höfðu þeir einkum áhuga á að fræðast um afstöðu LÍ til starfsemi Íslenskrar erfðagreiningar og lagasetningar um gagnagrunn á heilbrigðissviði. -ÞH

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica