Umræða fréttir

Broshornið 19. Ferðaleiftur og leti

Rölt um Hornstrandir og Jökulfirði

Hópur fólks á miðjum aldri og þar um bil, alls 20 manns, ákvað að fara í gönguferð um Vestfirði í ágúst síðastliðnum undir leiðsögn Eiríks fararstjóra. Áætlunarstaðirnir voru Hlöðuvík á Hornströndum og Hesteyri, ásamt Grunnavík í Jökulfjörðum. Markmiðið var að fara í gönguferðir út frá þessum stöðum og ganga síðan eða trússa á milli þeirra á átta dögum. Þarna voru, svo einhverjir séu nefndir, kollegarnir Friðrik Vagn, Sveinn og Bjarni og betri helmingar þeirra. Þá voru einnig með í för fjórar lífsglaðar konur frá Akureyri, sem tilheyrðu föruneyti Friðriks Vagns.

Á öðrum degi var gengið í Hælavík, um Hælavíkurbjarg og til baka í Hlöðuvík. Farið var um vegleysur eins og snarbrattar brekkur, urðir, móa, snjóskafla og einstigi. Ganga þessi stóð í rúmar 10 klukkustundir og kostaði suma blóð, svita og tár. Ein konan frá Akureyri fékk slæm sár á báða hælana og þurfti af þeim sökum sérstaka aðhlynningu læknis í hópnum tveimur dögum seinna. Svo vildi til að hópurinn var þá staddur í Læknishúsinu á Hesteyri. Það kom í hlut læknis að sunnan að búa um það sem eftir var af hælum konunnar, en hann hafði af einhverri óskiljanlegri ástæðu vaselíngrisjur með í farteskinu. Í litlu samfélagi eins og gönguhópi fara lækningar, eins og þarna áttu sér stað, ekki leynt. Vegna athyglinnar og umhyggjunnar sem konan með löskuðu hælana varð aðnjótandi þurfti enga sérstaka næmni til að skynja vott af öfund og afbrýðisemi í garð hennar úr hópi lífsglöðu kvennanna að norðan, sem ekki þurftu á læknishjálp að halda. Þegar læknirinn var að festa síðasta plásturinn á konuna með hælana heyrðist ein tuldra: "Það er verstur andsk.... að það skuli ekki vera neitt að manni."Ertu læknir ?

Þjóðverjinn Dieter var 65 ára gamall og hafði dvalist á Íslandi í tæpt ár. Hann hafði meðal annars unnið sem kaupamaður til sveita og þekkti því orðið allvel til á Fróni. Hann skildi meira að segja hrafl í íslensku. Dieter hafði einsett sér að ganga á Vestfjörðum með sínum hætti. Hann gekk alltaf staflaus síðastur í röðinni og valdi yfirleitt aðra staði en þorri hópsins til að fara yfir ár og læki. Hann var allan tímann ótrúlega vel dúðaður og í þeirri einmuna blíðu sem einkenndi alla ferðina svitnaði samferðafólkið sumt hvert af því einu að horfa á manninn. Hann hafði mikinn áhuga á landi og þjóð og það var bókstaflega ekki hægt annað en að lenda í samræðum við hann ef maður lenti aftarlega í gönguröðinni. Hægt er að fullyrða, að á þeim átta dögum sem ferðin stóð varð Dieter margs vísari um hagi samferðamanna sinna.

Á síðasta degi var gengin gömul póstmannaleið frá Grunnavík yfir á Snæfjallaströnd. Þjóðverjinn gekk aftastur eins og venjulega og undirritaður næstaftastur. "Hvað starfar þú, Bjarni?," spurði Dieter á sinni auðskildu og ágætu ensku. "Ég er læknir, heimilislæknir," svaraði ég, minnugur þess að hafa stundað töluverðar lækningar í ferðinni, sem voru á flestra vitorði. Maðurinn horfði undrandi á viðmælanda sinn og virtist ekki vera með á nótunum. "General practitioner, Allgemeiner Arzt, Hausarzt," bætti ég við og reyndi að tína til allt sem mér datt í hug til að skýra málið. Dieter var nú orðinn eitt spurningamerki í framan. "Ertu læknir, í alvöru?," hváði hann og virtist vera öllum lokið, "og ég sem hélt að þú hefðir verið að grínast." ("Are you really a doctor. I thought it was a joke.") Stuttu síðar tróð ég mér framar í röðina.

Augnskoðun

Tékki, sem hélt að sjónin væri að versna, fór til augnlæknis. Læknirinn skoðaði augun fyrst og prófaði síðan sjónina á hefðbundinn hátt. Hann bað Tékkann að lesa stærstu stafina fyrst og svo minnkaði letrið. CRKBNWXSKZY ...

"Geturðu lesið þetta?," spurði læknirinn.

"Hvort ég get. Ég þekki meira að segja manninn!"Leti

Maður kom til læknis til að fá úr því skorið af hverju hann væri ekki jafn duglegur til verka heima við og áður. Þegar læknirinn hafði skoðað manninn sagði sá síðarnefndi:

"Jæja læknir, segðu mér nú umbúðalaust á hreinni íslensku hvað að mér gengur."

"Ef þú vilt að ég tali tæpitungulaust eins og Árni Björnsson þá er ekkert annað að þér en leti."

"Nú já," sagði maðurinn. "Værir þú ekki til í að segja mér hvernig það hljómar á læknamáli, ef konan færi að spyrja mig hvað þú hefðir sagt."

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica