Umræða fréttir
  • Ólafur Þ. Jónsson

Ólafur Þ. Jónsson heiðursfélagi Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands

Á aukaaðalfundi Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands, sem haldinn var laugardaginn 11. nóvember 2000, í tilefni 40 ára afmælis þess, var Ólafur Þ Jónsson yfirlæknir svæfinga- og gjörgæsludeildar Landspítala Fossvogi gerður að heiðursfélaga.

Ólafur er fæddur 1935 í Vík í Mýrdal. Hann lauk námi frá læknadeild HÍ 1962 og stundaði framhaldsnám í svæfingum og gjörgæslu við Massachusett´s General Hospital í Boston, Children´s Hospital of Philadelphia (barnasvæfingar) og Stanford University Medical Center í Kaliforníu (svæfingar og deyfingar við barnsfæðingar). Þá tók Ólafur einnig hluta sérnámsins við Serafimerlasarettet í Stokkhólmi.

Ólafur hóf störf sem sérfræðingur við svæfinga- og gjörgæsludeild Borgarspítalans í Fossvogi 1969 og var ráðinn yfirlæknir við deildina 1. janúar 1988.

Hann hefur einnig verið stundakennari, dósent og lektor við læknadeild HÍ.

Varðandi félags- og trúnaðarstörf hefur Ólafur verið formaður Svæfinga- og gjörgæslulæknafélagsins, í stjórn LR, hópslysanefnd landlæknis, stjórn Nordisk Anestesiologisk Förening, formaður læknaráðs og yfirlæknir Borgarspítalans og formaður Félags yfirlækna. Af öðrum störfum Ólafs má nefna að hann var læknisfræðilegur stjórnandi þyrlusveitar lækna 1987-1998. Ólafur hefur verið mikill áhugamaður um sögu læknisfræðinnar, verið í stjórn Félags áhugamanna um sögu læknisfræðinnar. Hvað varðar ritstörf hefur Ólafur einnig skrifað greinar í erlend læknarit og verið í ritstjórn ACTA Anaesthesiologica Scandinavica.

Ólafur er kvæntur Báru Þorgrímsdóttur hjúkrunardeildarstjóra háls-, nef- og eyrnadeildar Landspítala Fossvogi og eiga þau þrjá syni, Jón Árna rekstrarfræðing, Braga Þorgrím meistaranema við stjórnmálafræðiskor HÍ og Eirík Orra tónlistarnema.



Sveinn Geir Einarsson formaður

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica