Ágrip erinda

Ágrip erinda 1-27

E 01 Áhættuþættir sýkinga og horfur sjúklinga með blóðsýkingar af völdum sveppa

Lena Rós Ásmundsdóttir, Helga Erlendsdóttir, Már Kristjánsson,

Magnús GottfreðssonLandspítali Hringbraut, læknadeild HÍ

Netfang: magnusgo@rsp.isInngangur: Tíðni blóðsýkinga af völdum sveppa er talin vera vaxandi víða í hinum vestræna heimi. Algengasta orsök sýkinga af þessum toga er gersveppurinn Candida albicans, en aðrar tegundir Candida eru vaxandi vandamál. Dánartíðni sem rekja má beint til þessara sýkinga er há, allt að 45%. Upplýsingar um áhættuþætti og þætti sem hafa forspárgildi fyrir horfur eru nauðsynlegar til að unnt sé að bæta horfur sjúklinga.

Efniviður og aðferðir: Safnað var saman upplýsingum um allar blóðsýkingar af völdum sveppa á landinu á 20 ára tímabili, 1980-1999. Áhættuþættir voru kannaðir sem og upplýsingar um meðferð og horfur. Allir stofnar sem unnt var að safna saman voru stofngreindir að nýju. Beitt var einþátta- og fjölþátta aðhvarfsgreiningu til að greina forspárþætti um horfur.

Niðurstöður: Á þessu 20 ára tímabili greindust 164 blóðsýkingar af völdum sveppa hjá 157 sjúklingum. Nýgengi sýkinganna jókst stöðugt á rannsóknartímabilinu, úr 1,1 sýkingu á 100.000 íbúa á ári á fyrsta fimm ára tímabilinu upp í 4,9 sýkingar á 100.000 íbúa á ári á því síðasta. Flestir sjúklinganna voru eldri en 16 ára (93%). Algengir áhættuþættir voru notkun sýklalyfja (85%), miðbláæðaleggja (84%), nýlegar aðgerðir (58%) og hvítkornafæð (12%). Eftirtaldir þættir voru tengdir marktækt (p< 0,05) hærri dánartíðni sjö dögum og 30 dögum eftir greiningu sýkingarinnar samkvæmt lógistískri einþáttagreiningu: 1. Miðbláæðaleggur ekki fjarlægður innan tveggja sólarhringa. 2. Lungnabólga (innan tveggja vikna frá greiningu). 3. Notkun barkstera. 4. Lengd sjúkdómseinkenna fyrir greiningu. Í fjölþátta aðhvarfsgreiningu voru 1. Miðbláæðaleggur ekki fjarlægður innan tveggja sólarhringa (OR 3,55; p=0,006) og 2. sýklalost (lágþrýstingur) við greiningu (OR 5,30; p=0,003) martækir forspárþættir um hærri dánartíðni.

Ályktanir: Nýgengi blóðsýkinga af völdum sveppa hefur aukist verulega hérlendis á 20 ára tímabili. Ástæður þessarar aukningar tengjast auknum fjölda ónæmisbældra, umfangsmeiri skurðaðgerðum og fullkomnari gjörgæslumeðferð. Mikilvægt er að smitsjúkdómalæknar séu með í ráðum við meðferð þessara sýkinga og að djúpir æðaleggir séu fjarlægðir sem allra fyrst sé þess nokkur kostur.E 02 Ífarandi sýkingar af völdum pneumókokka á Íslandi

Magnús Gottfreðsson, Helga Erlendsdóttir, Már Kristjánsson,

Sigurður Guðmundsson, Karl G. KristinssonLandspítali Hringbraut, landlæknisembættið, Háskóli Íslands

Netfang: magnusgo@rsp.isInngangur: Pneumókokkar (Streptococcus pneumoniae) eru algengasta orsök lungnabólgu og næstalgengasta orsök heilahimnubólgu af völdum baktería hérlendis. Faraldsfræði ífarandi (invasive) pneumókokkasýkinga (blóð-, miðtaugakerfis- og liðsýkinga) hefur mest verið rannsökuð hjá ákveðnum hópum, oftast börnum og ónæmibældum. Nokkuð hefur skort á rannsóknir sem ná til heilla þjóða.

Efniviður og aðferðir: Niðurstöður sýklarannsókna fyrir landið allt (utan FSA) voru kannaðar fyrir árin 1980-1999. Skráðar voru upplýsingar um jákvæðar ræktanir á pneumókokkum úr blóði, mænuvökva og liðvökva. Upplýsingar um aldur sjúklinga og dánardag voru fengnar úr þjóðskrá.

Niðurstöður: Á þessu 20 ára tímabili greindust 624 sjúklingar með 657 ífarandi pneumókokkasýkingar á landinu (utan FSA). Börn voru 29% hópsins og fullorðnir 71%. Blóðsýking var algengasta sýkingarformið (90%), heilahimnubólga greindist hjá 8% og liðsýkingar hjá 2% sjúklinga. Hjá börnum undir 16 ára aldri voru sýkingar mun algengari meðal drengja (63%) en stúlkna (37%), en þessi munur milli kynjanna sást ekki hjá fullorðnum. Á rannsóknartímabilinu jókst nýgengi sýkinganna úr 9,4 sýkingum á 100.000 íbúa á ári í 16 sýkingar á 100.000 íbúa á ári (p<0,05). Þrátt fyrir aukinn fjölda blóðræktana þegar leið á rannsóknatímabilið jókst hlutfall jákvæðra blóðræktana (0,66% á þriðja fimm ára tímabili borið saman við 0,74% á síðasta fimm ára tímabili, p<0,05). Dánartíðni nýbura með blóðsýkingar var há (3/5), en horfur annarra barna voru góðar (eitt lést af 192). Meðal fullorðinna var greinileg fylgni milli hækkandi aldurs og dánartíðni. Dánartíðni var 15% fyrir aldursbilið 50-60 ára, en 30% fyrir sjúklinga eldri en 80 ára. Horfur sjúklinga með ífarandi pneumókokkasýkingar breyttust ekki marktækt á rannsóknartímanbilinu (10,6% létust á fyrri hluta en 11,3% á seinni hluta).

Ályktanir: Nýgengi ífarandi pneumókokkasýkinga hefur aukist á Íslandi á síðustu 20 árum. Ekki er ljóst hvort aukningin stafar af bættum greiningaraðferðum eða raunaukningu. Sérstaka athygli vekur að horfur sjúklinga með þessar sýkingar hafa ekki batnað þrátt fyrir miklar framfarir á mörgum sviðum læknisfræði á síðustu 20 árum.E 03 Hlutverk Vif í lífsferli mæði-visnuveiru

Valgerður Andrésdóttir, Bjarki Guðmundsson, Guðrún Agnarsdóttir,

Ólafur S. Andrésson, Sigríður MatthíasdóttirTilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: valand@hi.isInngangur: Eitt af þeim genum sem einkenna lentiveirur, meðal annars alnæmisveiruna HIV og mæði-visnuveiru (MVV) er vif

(viral infectivity factor; sýkingarþáttur veiru), en galli í þessu geni getur valdið allt að þúsundfaldri minnkun á vexti HIV í ýmsum frumugerðum. Amínósýrusamsvörun er milli Vif prótína úr öllum lentiveirum. Talið er að Vif virki á síðustu stigum lífsferils veiranna, það er við myndun nýrra veiruagna eða knappskot þeirra úr frumum. Komið hefur í ljós að úr frumum sem sýktar eru með vif - stofnum HIV myndast veiruagnir sem hafa óeðlilega byggingu hylkis. Ekki er þó vitað nákvæmlega hvernig Vif vinnur. Vif og Gag (hylkisprótín) eru bæði staðsett við frumuhimnu sýktra frumna, en deilt er um hvort tengsl eru á milli prótínanna eða ekki. Tveir klónar af mæði-visnuveiru hafa verið búnir til, báðir úr tilraunakindum á Keldum, og er aðeins 1% munur á amínósýruröð þeirra, en það vill svo til að önnur klónaða veiran hefur stökkbreytingar sem gera það að verkum að hún vex illa í hnattkjarnaátfrumum (macrophages), en vel í æðaflækju- (choroid plexus) frumum. Hún er því sem næst ósýkingarhæf í kindum. Til þess að kanna hvaða stökkbreytingar lægju að baki þessari svipgerð, skiptum við á erfðaefnisbútum milli klónanna tveggja og athuguðum vöxt endurraðaðra veira í hnattkjarnaátfrumum.

Efniviður og aðferðir: Klónuðu veirurnar KV1772kv72/67 og LV1-1KS1 og ýmsar afleiður þeirra voru notaðar í þessari rannsókn. Hnattkjarnaátfrumur og æðaflækjufrumur voru sýktar með endurröðuðum veirum, sýni tekin daglega og víxlritavirkni mæld og notuð sem mælikvarði á veirumagn.

Niðurstöður og ályktanir: Í ljós kom að munurinn á svipgerð klónanna er vegna tveggja stökkbreytinga, önnur er í CA hluta gag og hin í vif, og eru stökkbreytingarnar samvirkandi. Þessar niðurstöður benda til þess að tengsl séu milli Vif og CA í fjölgunarferli veirunnar í hnattkjarnaátfrumum.E 04 Lýsandi rannsókn á sameindafaraldsfræði Chlamydia trachomatis á Íslandi

Kristín Jónsdóttir1, Már Kristjánsson2, Ólafur Steingrímsson11Sýklafræðideild Landspítala Hringbraut, 2smitsjúkdómadeild Landspítala Fossvogi

Netfang: kristjo@rsp.isInngangur: Á Íslandi greinast árlega liðlega 1700 tilfelli af C. trachomatis sýkingum og eru þær sennilega ein algengasta orsök ófrjósemi hjá íslenskum konum. Sýkingar í kynfærum eru oft einkennalausar og því reynist erfitt að uppræta smit. Forsendur fyrirbyggjandi starfs er staðgóð þekking á faraldsfræði sýkilsins. Yfir 90% tilfella eru greind á sýklafræðideild Landspítala og þar eru því góðar aðstæður til að kortleggja faraldsfræðina en það má gera á grundvelli erfðabreytileika omp1 gensins sem skráir fyrir aðalmótefnavaka bakteríunnar. Rannsókn þessi kannar faraldsfræði klamydíusýkinga með tilliti til breytinga á stofngerð eins og hún birtist í geninu omp1. Ætlunin er að meta fjölda stofna í samfélaginu á hverjum tíma, hvort breytingar verði í omp1 geninu og ef svo verði með hvaða hraða það gerist.

Efniviður og aðferðir: Þvagsýni frá húð- og kynsjúkdómadeild Ríkisspítala sem greindust með C. trachomatis á sýklafræðideild Landspítalans á tímabilinu 1.1.99-31.12.99 eru notuð.

Erfðaefni er einangrað úr sýnunum og omp1 genið magnað með nested PCR hvarfi. PCR afurðin er raðgreind og basaraðir stofna bornar saman.

Niðurstöður: Alls bárust 4157 sýni og voru 715 af þeim jákvæð (17,2%). Af þeim hafa 148 stofnar frá janúar til apríl verið stofngreindir. Í janúar fundust 10 stofngerðir, 13 í febrúar, níu í mars og sex í apríl. Ein stofngerð af serótýpu E var ráðandi í öllum mánuðum (56%). Fjörutíu og fjórir einstaklingar (6,7%) áttu tvö eða fleiri jákvæð sýni á árinu og í 90% tilfella var um sama stofn að ræða í bæði skiptin.

Ályktanir: Fyrstu niðurstöður sýna að frá janúar til apríl er stofn E1a allsráðandi á meðan aðrar stofngerðir koma mun sjaldnar fyrir. Þetta bendir til að á hverjum tíma sé einn ráðandi stofn í samfélaginu. Viðvarandi eða endurtekna sýkingu af sama stofni eða nýrri stofngerð fá 6,7% einstaklinga.E 05 Verkun penicillíns in vitro á mismunandi næma pneumókokkastofna

Helga Erlendsdóttir, Magnús Gottfreðsson, Karl G. Kristinsson, Sigurður GuðmundssonSýklafræði- og lyflækningadeild Landspítala Hringbraut, landlæknisembættið

Netfang: helgaerl@rsp.isInngangur: Fjölgun penicillín ónæmra pneumókokka hefur leitt til aukinna rannsókna á verkun lyfja gegn þeim. Þekkt er, að verkun ß-laktamlyfja er háð tímalengd lyfs yfir hammörkum en ekki þéttni. Þannig fæst sama verkun in vitro við 2xMIC og 100xMIC þéttni (MIC=hammörk). Þær tilgátur eru uppi að fjölgun á penicillín ónæmum pneumókokkum verði vegna "úrvals", það er að ónæmir stofnar komist undan, ef lyfjaþéttnin sem þeir komast í snertingu við sé undir hammörkum þeirra. Ákveðið var að kanna in vitro verkun penicillíns á þrjá misnæma pneumókokkastofna, bæði sitt í hvoru lagi og í blöndu af öllum stofnunum.

Efniviður og aðferðir: Notaðir voru þrír pneumókokkastofnar, mismunandi næmir fyrir penicillíni. Stofnarnir voru allir af hjúpgerð 6B, en af þeirri hjúpgerð eru flestir penicillín ónæmir stofnar á Íslandi. Hammörk penicillíns voru: 0,016; 0,125 og 4 µg/ml. Penicillín í þéttninni 4xMIC hvers stofns og þéttninni 16 µg/ml (4xMIC ónæmasta stofnsins) var látið verka á pneumókokkana sitt í hvoru lagi. Hjá næmasta stofninum var um að ræða þéttnina 4x- og 1000xMIC, hjá miðstofninum var þéttnin 4x- og 128xMIC, en hjá ónæma stofninum var bara um eina þéttni að ræða, eða 4xMIC. Við sýklablönduna var notuð þéttnin 16 µg/ml. Tekin voru sýni í upphafi og eftir eina, tvær, fjórar og sex klukkustundir. Reiknuð var verkun lyfsins miðað við sýklamagn (CFU/ml) í upphafi.

Niðurstöður: Eins og við fyrri rannsóknir er ekki marktækur munur á verkun penicillíns við mismunandi þéttni. Það sem kom á óvart var stigminnkandi dráp penicillíns við hækkun á hammörkum, eða 4,4; 2,6 og 1,4 log CFU/ml á sex tímum. Í rannsókninni sást ekki munur á verkun stofnanna sitt í hvoru lagi og í blöndu.

Ályktanir: Niðurstöðurnar geta bent til þess, að hægara dráp ónæmra stofna geti skýrt yfirvöxt og úrval þeirra í blönduðum vexti. Penicillínónæmi pneumókokka stafar af breytingum á penicillín bindiprótínum. Skýringin á minnkuðu drápi er mögulega sú, að við stighækkandi MIC penicillíns eru fleiri bindiprótín stökkbreytt, þannig að penicillínið binst verr og verkunin verður minni. Ítarlegri rannsókna er þörf í dýralíkönum.E 06 Sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi baktería í öndunarvegi barna á Íslandi og í Litháen

Einar K. Hjaltested1, Þórólfur Guðnason2,3, Helga Erlendsdóttir1, Jolanta Bernatoniene4, Petras Kalteni4, Karl G. Kristinsson1,2, Ásgeir Haraldsson2,31Sýklafræðideild Landspítala Hringbraut, 2læknadeild HÍ,

3Barnaspítali Hringsins, Landspítala Hringbraut, 4Santariskiu barnasjúkrahúsið, Vilniuslnius

Netfang: asgeir@rsp.isInngangur: Sýklalyfjaónæmi baktería og útbreiðsla ónæmra stofna er víða vandamál. Ofnotkun sýklalyfja er talin ein aðalorsök vandans. Nauðsynlegt er að þekkja útbreiðslu ónæmra baktería. Markmið rannsóknarinnar var að meta og bera saman sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi á Íslandi og í Litháen.

Efniviður og aðferðir: Sýni voru tekin úr nefkoki eins til sjö ára barna á barnaheimilum í Reykjavík (Rvk) og í Vilnius (Vi). Sýnin voru ræktuð til að greina S. pneumoniae, H. influenzae og M. catarrhalis. Sýklalyfjaónæmi var metið og penicillín ónæmir pneumókokkar hjúpgreindir. Notkun sýklalyfja var metin með spurningalistum. Tvö hundruð níutíu og sjö börn á sex barnaheimilum í Reykjavík og 508 börn á 13 barnaheimilum í Vilnius voru rannsökuð.

Niðurstöður: S. pneumoniae ræktaðist frá 50% barna í Reykjavík og 51% í Vilnius. H. influenzae ræktaðist frá 59% og 67% barna í Reykjavík og Vilnius og M. catarrhalis frá 60% og 46% barna. Minnkað penicillínnæmi pneumókokka var 10,7% í Reykjavík en 5,4% í Vilnius. ß-lactamasa framleiðsla H. influenzae var 9,1% í Reykjavík, en 3,5% í Vilnius. ß-lactamasa framleiðsla M. catarrhalis var 95% í Reykjavík og 97% í Vilnius. Við sýnatökuna, notuðu 3% barna í Reykjavík sýklalyf en 9,6% í Vilnius. Ellefu prósent barna í Reykjavík höfðu fengið sýklalyf undangenginn mánuð, 24% í Vilnius. Penicillín-skyld sýklalyf voru mest notuð í Reykjavík en makrólíðar í Vilnius. Í Reykjavík var marktæk fylgni milli sýklalyfjanotkunar og þess að bera penicillínónæma pneumókokka í nefkoki.

Ályktanir: Sýklalyfjanotkun var meiri í Litháen en á Íslandi. Sýklalyfjaónæmi var þó meira á Íslandi. Á Íslandi fór sýklalyfjaónæmi pneumókokka hratt vaxandi á síðastliðnum áratug en hefur minnkað, ef til vill vegna minnkaðrar sýklalyfjanotkunar hjá börnum á Íslandi. Sýklalyfjanoktun í Vilnius fer vaxandi að því er talið er, en sýklalyfjaónæmi er enn lágt. Sýklalyfjaónæmi getur því aukist þar á næstu árum. Fylgjast verður áfram með þróun sýklalyfjaónæmis á Íslandi og í Litháen.E 07 Gerð hjúpprótíns mæði-visnuveirunnar

Benedikta S. Hafliðadóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Guðrún Agnarsdóttir, Valgerður AndrésdóttirTilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Netfang: bsh@hi.isInngangur: Mæði-visnuveiran tilheyrir lentiveirum, undirhópi retróveira. Mæði-visnuveiran veldur hæggengum sjúkdómi í sauðfé sem leggst aðallega á miðtaugakerfi og lungu. Hjúpprótín veira í þessum flokki eru ein af mest sykruðu prótínum sem finnast.

Við höfum sýnt að tegundasérhæft væki er innan 39 amínósýra á V4 svæði hjúpprótíns veirunnar. Afvirkjandi mótefni sem greinast stuttu eftir sýkingu beinast að þessu væki, sem bendir til þess að svæðið sé ríkjandi í mótefnasvari. Svæðið er mjög breytilegt en inniheldur þó varðveitt svæði auk cysteina sem eru varðveitt í stofnum mæði-visnuveirunnar og í stofnum geitaveirunnar, CAEV (Caprine arthritis-encephalitis virus). Cysteinin eru talin eiga þátt í að mynda byggingu prótínsins með myndun brennisteinsbrúa.

Efniviður og aðferðir: Til að skilgreina hlutverk varðveitta svæðisins í afvirkjun og vexti veirunnar voru gerðar stökkbreytingar þar sem cysteinum og varðveittu sykrunarseti var breytt. Breytta hjúpprótínið var síðan klónað inn í sýkingarhæfa klóninn KV1772kv72/67.

Niðurstöður og ályktanir: Þegar cysteini var breytt í týrósín óx veiran jafn vel og áður en tegundasérhæfð afvirkjandi mótefni gegn KV1772kv72/67 virkuðu ekki á breyttu veiruna. Hins vegar ef cysteinum var breytt í serin óx veiran ekki. Þegar sykrunarsetinu var breytt hafði það ekki áhrif á mótefnasvarið. Niðurstöðurnar styðja þá tilgátu að varðveittu cysteinin séu hluti af ríkjandi vaxtarhindrandi væki veirunnar, en hlutverk sykrunarsetsins er óljóst.E 08 Slímhúðarbólusetning með veikluðum visnuveiruklóni

Guðmundur Pétursson, Sigríður Matthíasdóttir, Agnes Helga Martin, Valgerður Andrésdóttir, Vilhjálmur Svansson, Ólafur S. Andrésson, Sigurbjörg ÞorsteinsdóttirTilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: gpet@hi.is

Inngangur: Bólusetningar með lifandi en veikluðum sýklum veita ágæta vörn gegn ýmsum smitsjúkdómum. Þróun bóluefna gegn lentiveirum hefur reynst miklum vandkvæðum bundin. Vegna mikillar útbreiðslu eyðni í þróunarlöndum er aðkallandi að reyna að þróa bóluefni gegn HIV en allar tilraunir til þess eru skammt á veg komnar og árangur næsta óviss. Þar sem veira smitar um slímhúðir eins og HIV og visnu-mæðiveira sauðfjár, er talið æskilegt að bólusetning örvi sérstaklega ónæmissvörun í slímhúðum.

Efniviður og aðferðir: Reynt var að sýkja kindur um slímhúð með veikluðum visnuveiruklóni (LV1-1KS1). Þessi veira fjölgar sér mjög takmarkað í kindum og veldur nánast engum sjúkdómseinkennum né vefjaskemmdum. Fjórar kindur voru sýktar í barka með 107 smiteiningum (TCID50) og sýkingin endurtekin eftir 17 vikur. Á 63. viku voru þessar kindur sýktar með 103 smiteiningum af náskyldum en mjög meinvirkum visnuveiruklóni (KV1772-kv72/67) í barka og fjórar óbólusettar kindur sýktar á sama hátt. Fylgst var með gangi sýkinga með mælingum á veirumótefnum (ELISA) og veiruræktunum úr blóði.

Niðurstöður: Bólusetning með veiklaðri veiru framkallaði lága mótefnasvörun sem hækkaði greinilega eftir sýkingu með þeirri meinvirku. Meinvirka veiran hafði ræktast úr blóði þriggja af fjórum bólusettum kindum en frá öllum fjórum í óbólusettum samanburðarhópi 20 vikum eftir sýkingu.

Ályktanir: Niðurstöðurnar sýna að bólusetning með þessari veikluðu veiru veitir litla sem enga vörn gegn endursýkingu með meinvirkri veiru en óvíst er hvort hún gæti haft áhrif á framvindu vefjaskemmda til lengri tíma.E 09 Bólusetninga- og sýkingatilraunir á lúðu og þorski

Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, Sigríður Guðmundsdóttir, Bergljót MagnadóttirTilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: bjarngud@hi.isInngangur: Nú er eldi nokkurra sjávarfisktegunda í þróun hér á landi. Mjög lítið er enn vitað um það fyrir hvaða sýklum þessar tegundir eru næmar og hver áhrif bólusetningar eru. Markmið rannsóknarinnar var að bólusetja lúðu og þorsk með mismunandi bóluefnum og mæla ónæmisvörn í tilraunasýkingum.

Efniviður og aðferðir: Lúðuseiði (36 g) í eldisstöðinni Fiskey í Þorlákshöfn og þorskseiði (53 g) í eldisstöð Hafrannsóknarstofnunar á Stað í Grindavík voru merkt með mislitum plastmerkjum og skipt í fjóra tilraunahópa, sem hver innihélt 150 seiði. Að lokinni bólusetningu var seiðum sömu tegundar komið fyrir í einu keri þar sem þau voru alin áfram. Bóluefnin sem notuð voru voru eftirfarandi: Sérlagað AAS (Aeromonas salmonicida undirtegund achromogenes bakteríustofn, sem einangraður var úr sjúkum þorski (F19/99), var ræktaður upp og notaður við gerð tilraunabóluefnisins) og bóluefnið ALPHAJECT 1200 (kýlaveikibóluefni frá ALPHARMA, sem notað er í íslenskum laxeldisstöðvum til varnar kýlaveikibróður). Viðmiðunarhópar voru sprautaðir með saltdúalausninni, PBS, eða saltdúalausn íblandaðri ónæmisglæði sem notaður var í bóluefnin. Átta vikum eftir bólusetningu var fiskurinn, ásamt 150 óbólusettum seiðum af sama uppruna, fluttur í kerasal á Fræðasetrinu í Sandgerði þar sem sýkingatilraunir voru framkvæmdar. Sýkt var með sprautun missterkra lausna stofns F19/99 í vöðva. Magn mótefna gegn vækjum A. salmonicida í blóðvatni óbólusettra og bólusettra fiska var mælt með ELISA-prófi.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður sýndu að lúðan þoldi bólusetningu mjög vel og að bæði sérlagað AAS og ALPHAJECT 1200 bóluefni veittu marktæka vörn í sýkingartilraunum. Mótefni gegn A. salmonicida voru til staðar í bólusettri lúðu. Þorskurinn þoldi hins vegar bólusetningu mjög illa og myndaði ekki mælanlega ónæmisvörn.E 10 Áhrif efnabyggingar glýseríða á ónæmisörfandi áhrif þeirra

Sveinbjörn Gizurarson, Jón Valgeirsson, Ana GuibernauLyfjafræðideild HÍ, Hofsvallagötu 53, 107 Reykjavík, Lyfjaþróun hf., Reykjavík

Netfang: sg@lyf.isInngangur: Blanda af mónó- og díglýseríðum af oktanóik og dekanóik sýrum hefur verið notuð sem ónæmisglæðir í bóluefna, gefin um nef. Blanda þessi hefur reynst sérlega góður ónæmisglæðir en hún er nokkuð flókin að gerð og inniheldur flesta mögulega ísómera af glýseríðum, nema 2-mónóglýseríð.

Efniviður og aðferðir: Til að skoða samhengið milli efnabyggingar glýseríðsins og áhrif þess á ónæmiskerfið, voru einstök glýseríð smíðuð úr 1,2,3-3H glýseróli og viðeigandi sýrum í réttum hlutföllum, með aðstoð efnahvata. Hreinleiki einstakra glýseríða var kannað með TLC, NMR, og RP-HPLC, aðferðir sérstaklega þróaðar í þessum tilgangi. Glýseríðarnir voru síðan gefnir inn um nef, 5 m l pr mús og áhrif þeirra á ónæmiskerfið kannað.

Niðurstöður og ályktanir: Rannsóknin sýndi að mikill munur var á áhrifum ónæmisglæðanna þó efnabygging þeirra væri svipuð. Þau glýseríð sem sýndu mestu áhrifin, reyndust hafa svipaða efnabyggingu og eterglýseríð, sem örfa átfrumur (macrophages) og griplufrumur (dentritic cells).E 11 Þjálfunarástand leikmanna og árangur knattspyrnuliða á Íslandi

Árni Árnason1,2,3, Stefán B. Sigurðsson2, Árni Guðmundsson3, Lars Engebretsen1, Roald Bahr11Oslo Sports Trauma Research Center, Norwegian University of Sport and Physical Education, Oslo, 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 3Gáski sjúkraþjálfun

Netfang: arniar@islandia.isInngangur: Fyrri rannsóknir þar sem fengist hefur verið við að kanna samband þjálfunarástands leikmanna og árangurs knattspyrnuliða hafa takmarkast af fáum þátttakendum. Markmið þessarar rannsóknar er að skoða mögulegt samband milli þjálfunarástands leikmanna og árangurs nær allra knattspyrnuliða í tveimur efstu deildum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur í rannsókninni voru leikmenn frá 17 af 20 knattspyrnuliðum karla í tveimur efstu deildum á Íslandi. Áður en keppnistímbilið 1999 hófst gengust leikmenn undir eftirfarandi próf: 1) VO2max próf á hlaupabandi. 2) Mæling húðfitu. 3) Hreyfanleikamæling fyrir vöðva framan-, aftan- og innanlæris, svo og beygjuvöðva mjaðmarliða (með MIE togmæli, JVC stafrænni myndavél, og KINE-View hreyfigreini forriti). 4) Lóðrétt hopp (mælt á "kontakt mottu"). 5) Sprengikraftur (mældur í hnébeygjutæki tengdu MuscleLab tæki). Á keppnistímabilinu 1999 voru meiðsli skráð af sjúkraþjálfurum knattspyrnuliðanna. Árangur liðanna var metinn eftir fjölda stiga við lok móts.

Niðurstöður: Það var enginn marktækur munur á VO2max, fituprósentu, þyngdarstuðli (body mass index), sprengikrafti, hopphæð eða hreyfanleika milli Landssímadeildar og fyrstu deildar. Meðal VO2max var 62,6 mL-1 í Landssímadeild og 61,1 mL-1 í fyrstu deild. Marktækt samband reyndist vera milli árangurs knattspyrnuliða og hopphæðar (p=0,009) Ekkert annað marktækt samband reyndist vera milli árangurs og mælds þjálfunarástands leikmanna.

Ályktanir: Gagnstætt því sem aðrar rannsóknir gefa til kynna, var ekki marktækur munur milli þols og árangurs innan- eða milli deilda. Þetta bendir til að þolástand íslenskra knattspyrnuliða sé það svipað að aðrir þættir séu ríkjandi varðandi árangur.E 12 Meiðsli og áhættuatvik í knattspyrnu á Íslandi

Árni Árnason1,2,3, Stefán B. Sigurðsson2, Árni Guðmundsson3, Lars Engebretsen1, Roald Bahr11Oslo Sports Trauma Research Center, Norwegian University of Sport and Physical Education, Oslo, 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 3Gáski sjúkraþjálfun

Netfang: arniar@islandia.isInngangur: Rannsóknir hafa sýnt háa tíðni meiðsla í knattspyrnu, en fremur lítið er vitað um leikaðstæður þegar meiðslin verða. Markmið þessarar rannsóknar er að finna og skilgreina leikaðstæður sem leitt gætu til meiðsla í knattspyrnu. Byggt er á myndbandsupptökum af leikjum.

Efniviður og aðferðir: Leikmenn frá níu af 10 knattspyrnuliðum í efstu deild karla tóku þátt í rannsókninni. Á keppnistímabilinu 1999 voru 79 leikir skoðaðir á myndböndum hjá Ríkissjónvarpinu. Safnað var á sérstakt mynband atvikum þar sem dómari stöðvaði leik vegna hugsanlegra meiðsla og leikmaður lá eftir á vellinum lengur en 15 sekúndur. Af 102 atvikum sem var safnað voru 30 meiðsli, það er leikmaður þurfti að yfirgefa völlinn, eða hann gat ekki tekið þátt í æfingu eða leik næsta dag. Meiðsli voru skráð af sjúkraþjálfurum liðanna. Atvikin og aðdragandi þeirra voru greind með aðferð sem þróuð hefur verið til þess að greina leikaðstæður.

Niðurstöður: Af 102 atvikum urðu 56 í sókn, en 46 í vörn. 91 atvik varð í návígi, flest við tæklingar (n=55), og þegar leikmaður hafði ekki fulla athygli á leikaðstæðum (n=49). Algengustu áhættuatvikin urðu við: 1) skyndisóknir, athygli leikmanns bundin við boltann, tækling frá hlið (n=22); 2) vörn, tækling, athygli á bolta eða skortur á knatttækni leikmanns (n=21); 3) skallaeinvígi, athygli á bolta eða olnbogaskot (n=11).

Ályktanir: Leikgreining getur verið mikilvæg aðferð til að finna og skilgreina áhættuatvik í knattspyrnu, slíkar upplýsingar geta haft mikið gildi í þróun aðferða til forvarna meiðsla í knattspyrnu.E 13 Áhættuþættir skýmyndunar í augasteinskjarna. Reykjavíkuraugnrannsóknin

Ársæll Arnarsson1, Friðbert Jónasson1, Kazuyki Sasaki2, Vésteinn Jónsson1, Masami Kojima2, Hiroshi Sasaki2 og íslensk-japanski samstarfshópurinn1Augndeild Landspítala Hringbraut, 2augndeild Kanazawa Medical University, Japan

Netfang: arsaell@thorlyf.isInngangur: Skýmyndun í augasteinskjarna er afar algeng meðal Íslendinga eldri en 70 ára. Stór hluti þeirra einstaklinga sem fara í aðgerð til augasteinsskipta eru með skýmyndun einmitt á þessu svæði. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna áhættuþætti skýmyndunar í augasteinskjarna.

Efniviður og aðferðir: Sautján hundruð Reykvíkingar, 50 ára og eldri, voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá og boðið að taka þátt. Eitt þúsund fjörtíu og fimm einstaklingar mættu til skoðunar; 583 konur og 462 karlar. Augasteinar voru skoðaðir með raufarsmásjá af tveimur vönum augnlæknum. Þátttakendur fylltu einnig út spurningalista um heilsufar og lífsvenjur. Niðurstöðurnar voru reiknaðar með lógistískri aðhvarfsgreiningu.

Niðurstöður: Aukin áhætta fyrir skýmyndun í augasteinskjarna kom fram hjá eldra fólki, þeim sem reyktu og þeim notuðu áfengi. Aðrir þættir sem skoðaðir voru og höfðu engin merkjanleg áhrif á áhættuna voru; útivera, tálflögnun, hjartasjúkdómar, vítamínneysla, lýsisdrykkja, fiskát, tölvunotkun og infrarautt ljós.

Ályktanir: Skýmyndun í augasteinskjarna er aldurstengd og afar algeng eftir sjötugt. Vegna fjölgunar í elstu aldurshópunum á komandi árum mun algengið enn aukast og aðgerðum fjölga. Niðurstöður benda til þess að áhættuþættir skýmyndunar í augasteinskjarna séu að nokkru leyti tengdir lífsvenjum fólks og því væri mögulega hægt að hafa áhrif á framgang og tíðni með forvörnum.E 14 Algengi augn- og munnþurrks á Íslandi með hliðsjón af heilkenni Sjögrens

Jórunn Atladóttir1, Ólafur Grétar Guðmundsson2, Peter Holbrook3, Ragnar Sigurðsson4, Björn Guðbjörnsson5,61Læknadeild og 3tannlæknadeild HÍ, 4augn- og 5lyflækningadeild FSA, 2augnlækningadeild og 6Rannsóknarstofan í gigtarsjúkdómum Landspítala Hringbraut

Netfang: bjorngu@landspitali.isInngangur: Heilkenni Sjögrens er samkvæmt erlendum rannsóknum einn af algengari fjölkerfasjúkdómunum. Sjúkdómurinn einkennist af dagsþreytu, stoðkerfisverkjum og þurrkeinkennum frá slímhúðum. Algengi augn- og munnþurrks er ekki þekkt hér á landi né heldur algengi heilkennis Sjögrens. Markmið rannóknarinnar var að kanna algengi helstu einkenna heilkennis Sjögrens og finna líklegar algengistölur fyrir heilkennið hérlendis.

Efniviður og aðferðir: Slembiúrtak var fengið úr tveimur aldurshópum; 40-49 ára og 70-75 ára Íslendingum búsettum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Notast var við spurningakver með 14 spurningum um algengustu einkenni heilkennis Sjögrens. Sjúklingum er játuðu einkennum augnþurrks var boðið til skoðunar með Schirmer-I prófi, mælingu á tárafilmurofstíma og Rose Bengal litun fyrir glæru- og tárabólgu. Ennfremur var gerð munnvatnsrennslismæling. Til samanburðar var einstaklingum er neituðu sömu einkennum einnig boðið til skoðunar.

Niðurstöður: Í úrtakinu var 621 einstaklingur, 300 karlar og 321 kona. Skilatíðni spurningakversins var 74%. Alls 24% þátttakenda höfðu einkenni um augnþurrk og 19% höfðu munnþurrk, hvort tveggja var marktækt algengara hjá konum (p<0,001). Fimm prósent kvörtuðu um öll þrjú aðaleinkenni heilkennis Sjögrens. Eitt hundrað og þremur einstaklingum með einkenni um augn- og/eða munnþurrk verður boðin skoðun, jafnframt verður samanburðarhópur einstaklinga er neituðu þurrkeinkennum skoðaður. Framkvæmdar verða mælingar á gigtarprófum meðal þátttakenda. Bráðabirgðaniðurstöður benda til að algengi heilkennis Sjögrens sé 0,5% hér á landi. Nánari niðurstöður verða kynntar á rannsóknaráðstefnunni.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að einkenni augn- og munnþurrks eru algeng hér á landi, sem og þrjú aðaleinkenni heilkennis Sjögrens. Því er nauðsynlegt að styðjast við ströng greiningarskilmerki þegar staðfesta skal sjúkdómsgreininguna heilkenni Sjögrens. Ekki er unnt að fullyrða um algengi heilkennis Sjögrens hér á landi fyrr en rannsókninni er að fullu lokið.E 15 Eitilfrumumein í aukalíffærum augna á Íslandi

Margrét Sigurðardóttir1, Haraldur Sigurðsson2, Sigrún Kristjánsdóttir1, Bjarni A Agnarsson11Rannsóknastofa Háskólans í meinafræði, 2augndeild Landspítala Hringbraut

Netfang: bjarniaa@rsp.isInngangur: Eitilfrumumein í aukalíffærum augna geta verið erfiðar í greiningu ef ekki koma til viðbótarrannsóknir til að skera úr um hvort meinin séu einstofna (monoclonal) það er illkynja eða fjölstofna (polyclonal) það er góðkynja. Til þess þarf hins vegar frystan vef sem oft er ekki fyrir hendi. Nýlega hefur komið fram PCR aðferð sem hægt er að beita á paraffín innsteyptan vef í því skyni að kanna hvort að um einstofna eða fjölstofna eitilfrumumein er að ræða. Tilgangur þessarar rannsóknar var að gera klíníska og meinafræðilega rannsókn á þessum meinsemdum á Íslandi og kanna hvort PCR rannsókn gæti nýst til að skera úr um góðkynja eða illkynja eiginleika þeirra.

Efniviður og aðferðir: Leitað var að upplýsingum um heilsufar, klínísk einkenni, staðsetningu meinsemdar, útbreiðslu sjúkdóms, meðferð og horfur sjúklinga og vefjasýni endurskoðuð auk þess sem gerð var PCR rannsókn á þessum sýnum.

Niðurstöður: Alls fundust 15 tilfelli (níu karlar og sex konur). Sjö fengu greininguna inflammatory pseudotumor, einn lymphoid hyperplasia (ótvírætt góðkynja útlit), fjórir atýpísk lymphoid hyperplasia (óvíst hvort góðkynja eða illkynja) og þrír lymphoma (ótvírætt illkynja útlit). Ellefu meinsemdir voru í augntóft, ein á augnlokum og þrjár annars staðar. PCR rannsókn var gerð á 14 sýnum. Ellefu sýni voru fjölstofna (tvö atýpísk hyperplasia, fimm inflammatory pseudotumor, þrjú lymphoma (tvö frá sama sjúklingi), eitt lymphoid hyperplasia), en þrjú sýni voru einstofna fyrir B frumum (eitt lymphoma, eitt atýpísk hyperplasia, eitt inflammatory pseudotumor).

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að PCR aðferð við rannsóknir á þessum meinum sé lítt gagnleg og verður því áfram að leggja áherslu á að sýni af þessari gerð berist fersk á rannsóknarstofu til að unnt sé að meta hvort þau séu einstofna eða fjölstofna.E 16 Einangrun örsmárra æða úr augnbotnum til að mæla áhrif carbonic anhydrasa blokkera

Atli Jósefsson, Þór Eysteinsson, Fífa Konráðsdóttir, Stefán B. SigurðssonLífeðlisfræðistofnun, læknadeild HÍ

Netfang: thore@rsp.isInngangur: Carbonic anhydrasa hamlarar eins og dorzólamíð

(Trusopt®, MSD) eru mikið notuð glákulyf til að lækka augnþrýsting. Nýlegar rannsóknir (1) gefa í skyn að þessi lyf geti aukið blóðflæði til bæði sjóntaugar og sjónhimnu. Ýmislegt hefur einnig komið fram sem bendir til minnkunar á blóðflæði og þar með súrefnisskorts í augnbotnum samfara gláku. Þessi blóðflæðisskortur gæti stafa af auknum þrýstingi inni í auganu það er eins konar utanaðkomandi þætti sem dregur úr blóðflæði inn í augað og/eða samdrætti í æðum í augnbotninum það er eins konar innri þætti sem hindri eðlilegt blóðflæði um æðarnar. Rannsóknir okkar beinist að síðarnefnda þættinum.

Efniviður og aðferðir: Undanfarna mánuði höfum við unnið að þróun aðferðar til að ná örsmáum æðum úr augnbotni. Æðar þessar eru um 80-200 µm í þvermál og krefst það töluverðar þjálfunar og lagni að ná þessum æðum óskemmdum og starfhæfum úr innsta lagi sjónhimnunnar. Sérstökum tækjabúnaði hefur verið komið upp og hann aðlagaður til að mæla samdráttarkraft í þessum örsmáum æðum. Hárfínir vírar eru þá þræddir í gegnum æðabútinn og þeir festir við mjög viðkvæman tognema.

Niðurstöður og ályktanir: Fyrstu niðurstöður okkar benda til að með því að nota 25 µm víra sé hægt að fá viðunandi niðurstöður varðandi skráningu á samdráttarkraftinum. Þessi aðferð lofar mjög góðu til rannsókna á áhrifum á carbonic anhydrasa blokkara og annarra lyfja sem gætu verkað gegnum breytingar á blóðflæði í augnbotnum og hefur hún vakið áhuga lyfjafyrirtækja á þessu sviði og þau óskað eftir samstarfi.Þór Eysteinsson1, Alma Möller1, Eiríkur Steingrímsson21Lífeðlisfræðistofnun læknadeild, 2lífefnafræði HÍ

Netfang: thore@rsp.isMarkmið: Markmið rannsóknarinnar var að meta starfsemi sjónhimnu músa með stökkbreytingar í microphthalmia (Mitf) geninu.

Efniviður og aðferðir: Sjónhimnurit (ERG) voru skráð frá 16 vikna gömlum músum með eftirfarandi arfgerðir: mi-bws/mi-bws, mi-sp/mi-sp, Mi-wh/mi-sp, Mi-wh/Mi-wh. Ketamín/xylazín svæfing var notuð. ERG var skráð með hornhimnuskautum, með bandvíddum 0,1-1000 Hz, eða 100-1000 Hz til að skrá sveifluspennur (OPs). Mýsnar voru aðlagaðar að rökkri í klukkustund fyrir mælingar. A-, b-, og c-bylgjur, OPs og 20 Hz flicker voru mæld.

Niðurstöður: ERG er mælanlegt í öllum stökkbreytingum nema wh/wh. Meðalsveifluvídd a-bylgju var mest í bws/bws (140 µV), en hjá sp/sp músum 119 µV og 96 µV hjá wh/sp. B-bylgjan er svipuð hjá bws/bws og sp/sp músum, eða 307 og 320 µV, en lægri að spennu hjá wh/sp (220 µV). Dvöl a- og b-bylgja hjá wh/sp músum er seinkuð. C-bylgja er stærst hjá sp/sp músum, eða 96 µV, en 66 µV hjá bws/bws. Hins vegar reyndist c-bylgja hjá wh/sp vera aðeins 31 µV. Sveifluspennur hjá wh/sp músum voru einnig lækkaðar, eða 45 µV, en 93 mV og 84 µV hjá bws/bws og sp/sp músum. Svar við blikkandi ljósi er lækkað hjá wh/sp músum. Enginn marktækur munur var á sjónhimnuriti keila milli stökkbreytinga.

Ályktanir: ERG wh/wh músa bendir til að þær séu sennilega algerlega blindar. ERG sp/sp músa virðist eðlilegt, meðan wh/sp mýs sýna marktæka lækkun í svörum þar sem stafir eru ríkjandi, og bendir til galla í litþekju/ljósnemum er einskorðast við stafi. Það kom á óvart að bws/bws mýs virðast hafa eðlilegt sjónhimnurit. Af því er ljóst að þótt bws/bws mýs hafi keimlíka svipgerð og mi-vitiligo mýs er verulegur munur á sjónhimnuriti þeirra, og því starfsemi sjónhimnu.E 18 Súrefnisþrýstingur sjóntaugar í svínum: áhrif hömlunar mismunandi ísóensíma kolanhýdrasa

Þór Eysteinsson1,2, Jens F. Kiilgaard3, Peter Koch Jensen3, Morten la Cour3, Kurt Bang4, Jens Dollerup4, Einar Stefánsson11Augndeild og 2Lífeðlisfræðistofnun HÍ, 3augndeild Kaupmannahafnarháskóla, 4MSD Inc, Glostrup, Danmörk

Netfang: thore@rsp.is

Markmið: Að reyna að ákvarða hvaða ísóenzým kolanhýdrasa eru mikilvæg varðandi áhrif kolanhýdrasahömlunar á súrefnisþrýsting sjóntaugar í svínum (ONPO2).

Efniviður og aðferðir: Skautað súrefnisskráningarskaut var staðsett í augnhlaupi fyrir ofan sjóntaug í 20 svæfðum svínum. Fylgst var með blóðgösum og lífeðlisfræði hjarta- og æðakerfis. ONPO2 var skráð samfellt. Acetazólamíð (15-1000 mg), dorzólamíð (6-1000 mg) og benzólamíð (200-500 mg) voru gefin í æð.

Niðurstöður: Dorzólamíð hefur meiri sækni í ísóensýmin CA II og IV en acetazólamíð, meðan benzólamíð hamlar nánast eingöngu CA IV ísóensými sem bundið er frumuhimnum, í utanfrumuvökva, og getur ekki borist inn í frumur um frumuhimnur. Óháð skömmtum hefur dorzólamíð þrisvar sinnum meiri áhrif en acetazólamíð á ONPO2. Inngjöf benzólamíðs (200-500 mg) í bláæð jók ONPO2 um aðeins 3,3 mmHg að meðaltali. Inngjöf dorzólamíðs (500 mg) í bláæð, meira en 30 mínútum eftir inngjöf benzólamíðs olli enn frekari hækkun ONPO2, sem þó var marktækt minni en án fyrri inngjafar með bensólamíði.

Ályktanir: Dorzólamíð veldur meiri hækkun ONPO2 en asetasólamíð, og er sá munur sambærilegur við mun í sækni þessara hamlara í CA IV. Eitt og sér bendir þetta til að CA IV sé mikilvægari varðandi áhrif kolanhýdrasahömlunar á ONPO2. Hins vegar sú staðreynd að benzólamíð hefur takmörkuð áhrif á ONPO2, og að eftir að búið er að hamla CA IV með benzólamíð veldur dorzólamíð samt sem áður hækkun ONPO2, bendir til að CA II sé mikilvægari ísóensým varðandi miðlun áhrifa kolanhýdrasahömlunar á ONPO2. Frekari rannsóknir með öðrum kolanhýdrasahömlurum, sem hafa ólíka sækni í ísóensým, eru nauðsynlegar til að greiða úr þessum mótsagnakenndu niðurstöðum.Sesselja Ómarsdóttir1, Elín Soffía Ólafsdóttir1, Jerzy Jaroszewski21Lyfjafræðideild HÍ, 2Dpt of Medicinal Chemistry, Royal Danish School of Pharmacy, Copenhagen, Denmark

Netfang: elinsol@hi.is.Inngangur: Alchemilla faeroënsis eða maríuvöttur, er eina háplantan sem vitað er um að vaxi einungis á Íslandi og í Færeyjum. Plantan hefur ekki verið rannsökuð áður með tilliti til efnainnihalds. Samanburður var einnig gerður á efnainnihaldi í tveimur öðrum Alchemilla tegundum A. alpina og A. vulgaris. Etanól extraktar þessara þriggja plöntutegunda voru prófaðar í in vitro and-malaríu prófi.

Efniviður og aðferðir: Plönturnar voru extraheraðar með petróleum eter í Soxhlet tæki, og síðan með köldu etanóli. Fimm tríterpenar voru einangraðir úr etanólextrakti maríuvattar með súluskiljun og aðgreining skoðuð með TLC. Efnabyggingin var greind með 13C-NMR kjarnsegulgreiningu þar á meðal DEPT-prófum og FAB-massagreiningu.

Niðurstöður: Tveir tríterpenanna eru tiltölulega algengir, það er ursolic acid og oleanolic acid, á meðan hinir þrír eru sjaldgæfir, það er tormentic acid, euscophic acid og 2a-hydroxy-ursolic acid. Sömu tríterpenar fundust í A. alpina og A. vulgaris, sem undirstrikar náinn skyldleika þessara þriggja plöntutegunda.

Aðeins ein fyrri rannsókn hefur lýst tríterpenum úr Alchemilla tegund það er betulinic acid og oleanolic acid úr A. pastoralis (1), en allar aðrar fyrri rannsóknir á efnainnihaldi lýsa flavonóíðum úr evrópskum Alchemilla tegundum (2-4), sem bendir til þess að munur geti verið á framleiðslu annars stigs plöntuefna eftir því hvort plantan vex á Íslandi eða annars staðar í Evrópu.

Etanól extrökt allra þriggja Alchemilla tegundanna voru prófuð í in vitro anti-malaríu prófi, og er sú rannsókn hluti af stærra verkefni. Ofanjarðarhluti A. alpina gaf sterkustu IC50 verkun á sníkilinn eða í 25 µg/ml styrk. A. faeroënsis og A. vulgaris sýndu einnig virkni í 50 µg/ml styrk. Íslensku Alchemilla tegundirnar innihalda því efni sem verka hemjandi á Plasmodium falciparum frumdýrið og eru það sennilega tríterpenarnir sem eru virkir.HeimildirÞórunn Ósk Þorgeirsdóttir1, Peter Holbrook2, Halldór Þormar3, Þórdís Kristmundsdóttir11Lyfjafræðideild HÍ, 2tannlæknadeild HÍ, 3Líffræðistofnun HÍ

Netfang:Inngangur: Ýmsar fitusýrur og mónóglýseríð af þeim hafa sýnt bakteríu- og veirudrepandi eiginleika in vitro. Vatnssækin hlaup sem innihalda mónókaprín, 1-mónóglýseríð af kaprínsýru, hafa sýnt mikla virkni gegn veirum og bakteríum in vitro. Tilraunir í dýrum hafa ekki sýnt fram á ertingu í slímhúð eftir notkun hlaupsins. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvaða áhrif lyfjaform sem innihalda mónókaprín sem virkt efni hafa á örveruflóru munnsins.

Efniviður og aðferðir: Hannað var munnskol til samanburðar við hlaupið. Búnar voru til tvær línur af mónókaprínmunnskolum þar sem A) própýlen glýkól var leysirinn annars vegar og B) glýkófúról hins vegar. Mismunandi magn af yfirborðsvirka efninu Tween 20 var síðan sett í hvora línu fyrir sig. Virkni lausnanna gegn HSV-1 var prófuð in vitro.

Þrjátíu og fimm heilbrigðir sjálfboðaliðar á aldrinum 18-65 ára tóku þátt í klínísku prófi sem samþykkt hafði verið af Vísindasiðanefnd og Lyfjanefnd ríkisins. Mónókaprínhlaup og munnskol af gerð B með 1% Tween 20 var notað í klíníska prófið.

Niðurstöður: Áhrif Tween 20 á virkni skolsins á HSV-1 in vitro sýndu að í línu B hélst full virkni hvaða Tween styrkur sem notaður var. Í línu A byrjaði virknin hins vegar að minnka þegar Tween 20 styrkur var orðin 3% og var alveg horfin við 5% styrk.

Virkni mónókaprínmunnskols á heildarbakteríufjölda, heildar- streptókokkafjölda og streptococcus mutans fjölda in vivo var kannaður og borin saman við virkni eins af þeim vatnssæknu hlaupum sem þegar hafði verið hannað. Munnskolin voru jafn virk in vitro og hlaupin og höfðu tölfræðilega meiri bakteríudrepandi áhrif in vivo heldur en hlaupið. Hvorki munnskolið né hlaupið höfðu marktæk ertandi áhrif á munnslímhimnuna.

Ályktanir: Niðurstöður sýna að bæði munnskol og vatnssækið hlaup geta verið hentug lyfjaform fyrir mónókaprín.E 21 Er hægt að auka ónæmissvar gegn lítt ónæmisvekjandi hjúpgerðum pneumókokka í 11-gildu prótíntengdu bóluefni með því að tengja fjölsykrur þeirra við tvö burðarprótín?

Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Þórólfur Guðnason2, Karl G. Kristinsson3, Sveinn Kjartansson2, Katrín Davíðsdóttir4, Gunnhildur Ingólfsdóttir1, Mansour Yaich5, Odile Leroy5, Ingileif Jónsdóttir11Ónæmifræðideild, 2barnadeild og 3sýkladeild Landspítala Hringbraut, 4barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, 5Aventis Pasteur, Frakklandi

Netfang: veiga@rsp.isInngangur: Þörf er á virku bóluefni gegn pneumókokkum til að minnka sjúkdóma og dauðsföll af þeirra völdum og til að sporna við sýklalyfjaónæmi þeirra. Tvö 11-gild prótíntengd bóluefni gegn pneumókokkum voru rannsökuð, F3 (hjúpgerðir 1, 3, 4, 5, 6B, 7F, 9V, 14, 18C, 19F og 23F tengdar tetanus eða diphtheria toxóíð) og F3bis (sömu hjúpgerðir en 6B, 9V, 18C og 23F tengdar báðum burðarprótínum). Spurt var hvort auka mætti ónæmissvar gegn 6B, 9V, 18C og 23F með því að tengja þær tveimur burðarprótínum. Eftir frumbólusetningu við þriggja, fjögurra og sex mánaða aldur var enginn munur á öryggi né IgG svari sem var í vegnu meðaltali (GMC, µg/mL) eftir F3/ F3bis; 0,87/0,98; 1,96/1,68; 1,91/1,96 og 1,43/1,2 fyrir 6B, 9V, 14 og 23. Til að meta betur hugsanleg áhrif af því að nota tvö burðarprótín fyrir sömu hjúpgerðir í F3bis var IgG metið eftir endurbólusetningu við 13 mánaða aldur.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað fjörutíu og sex heilbrigð íslensk börn voru bólusett með annað hvort F3 eða F3bis við þriggja, fjögurra, sex og 13 mánaða aldur. IgG mótefni gegn öllum hjúpgerðum voru mæld með ELISA við þriggja, sjö, 13 og 14 mánaða aldur.

Niðurstöður: Bæði bóluefnin voru jafn örugg. Marktæk hækkun IgG mótefna varð gegn öllum 11 hjúpgerðunum í báðum bóluefnunum. Niðrustöður eru gefnar í GMC µg/mL og % 1 µg/mL eftir 13 mánaða endurbólusetningu:

Tegund 1 3 4 5 6B 7F 9V 14 18C 19F 23F

F3 8,08 4,16 7,82 7,38 3,02 6,77 3,67 6,35 2,16 30,9 4,79

% >1,0 100 96 100 100 79 100 93 96 74 99 90

F3 bis 5,90 2,74 8,60 6,66 6,97 7,75 4,20 6,47 3,39 24,4 4,45

% >1,0 97 91 99 94 94 100 94 90 96 96 88Ályktanir: Bæði bóluefnin voru örugg og ónæmisvekjandi sem endurspeglaðist í marktæku IgG frum- og endursvari. Notkun tveggja burðarprótína fyrir lítt ónæmisvekjandi hjúpgerðir bætti ekki frumsvar en olli hærra endursvari gegn hjúpgerðunum 6B og 18C en ekki 9V og 23F.Ingileif Jónsdóttir1, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir1, Þórólfur Guðnason2, Sveinn Kjartansson2, Katrín Davíðsdóttir3, Karl G. Kristinsson4, Gunnhildur Ingólfsdóttir1, Odile Leroy51Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2barnadeild og 4sýkladeild Landspítala Hringbraut, 3barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, 5Aventis Pasteur, Frakklandi

Netfang: ingileif@rsp.is

Inngangur: Markmiðið var að rannsaka milliverkan prótíntengdra fjölsykrubóluefna gegn pneumókokkum, Pnc-T og Pnc-D (átta hjúpgerðir tengdar toxóíði stífkrampabakteríunnar (TT) eða barnaveikibakteríunnar (DT)) og bóluefna sem gefin voru samtímis; DT, TT og prótíntengd fjölsykra Haemophilus influenzae, PRP-D.

Efniviður og aðferðir: Eitt hundrað og sextíu heilbrigð ungbörn voru bólusett með Pnc-D eða Pnc-T og DTP/PRP-D við þriggja, fjögurra og sex mánaða aldur. Ónæmisvekjandi eiginleikar Pnc-T og Pnc-D voru metnir með því að mæla sértæk IgG mótefni

(ELISA) við þriggja og sjö mánaða aldur. Mótefni gegn DT, TT

(ELISA) og PRP (RIA) voru mæld við sjö mánaða aldur.

Niðurstöður: Bæði Pnc-D og Pnc-T vöktu marktæka mótefnamyndun. Við sjö mánuði var vegið meðaltal mótefnamagns (GMC, µg/mL) í Pnc-D og Pnc-T hópunum gegn hjúpgerðum: 3: 3,40 og 2,04; 4: 0,35 og 1,44; 6B: 1,01 og 1,24; 9V: 0,89 og 0,65; 14: 3,58 og 3,02; 18C: 0,85 og 0,49; 19F: 4,09 og 3,38 og 23F: 1,00 og 1,08. Mótefni (GMC, IU/mL) gegn TT voru 2,15 og 1,86, en gegn DT 1,91 og 1,98, í Pnc-D og Pnc-T hópunum (NS). Í báðum hópum höfðu 100% DT- og TT-mótefni >0,1 IU/mL. Hins vegar voru mótefni (GMC) gegn PRP marktækt lægri í Pnc-D hópnum eða 0,18 mv 0,34 µg/mL í Pnc-T hópnum (p=0,0079). Hlutfall þeirra sem höfðu PRP-mótefni >0,15 var einnig lægra í Pnc-D eða 47% mv 75% í Pnc-T hópnum (p=0,001) og >1,0 µg/mL 13% mv 23% (p=0,1392).

Ályktanir: Bæði Pnc-D og Pnc-T vöktu marktæka mótefnamyndun gegn öllum hjúpgerðum. Engin milliverkun sást milli Pnc-D eða Pnc-T og DT eða TT. Ungbörn bólusett með Pnc-D sýndu lægri mótefnasvörun gegn PRP en þau sem fengu Pnc-T. Þannig virðist milliverkun milli pneumókokkafjölsykra og fjölsykra Hemophilus influenzae, sem tengdar eru á sama burðarprótín, geta haft hamlandi áhrif á mótefnasvar. Hvort þetta hefur klíníska þýðingu er ekki vitað.E 23 Einn skammtur af prótíntengdu fjölsykrubóluefni gegn pneumókokkum vekur myndun virkra mótefna og minnisfrumna í smábörnum

Ingileif Jónsdóttir1, Gunnhildur Ingólfsdóttir1, Eiríkur Sæland1, Katrín Davíðsdóttir2, Mansour Yaich3, Odile Leroy3, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir11Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, 3Aventis Pasteur, Frakklandi

Netfang: ingileif@rsp.isInngangur: Smábörn eru oft útsett fyrir pneumókokkum, sem eru ónæmir fyrir sýklalyfjum, en þau geta ekki myndað mótefni gegn fjölsykrum pneumókokka. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort bóluefni úr prótíntengdum pneumókokkafjölsykrum geti vakið myndun virkra mótefna hjá smábörnum og myndun ónæmisminnis.

Efniviður og aðferðir: Tuttugu smábörn (17 mánaða) fengu einn skammt af 11-gildu bóluefni úr prótíntengdum fjölsykrum pneumókokka (F3bis) tengdum toxóíði stífkrampabakteríunnar (TT) og/eða barnaveikibakteríunnar (DT). Tuttugu og sjö mánaða voru 10 af 20 barnanna endurbólusett með fjölsykrubóluefni (FS). Magn og sækni IgG mótefna var mælt (ELISA) fyrir og einum mánuði eftir frumbólusetningnu með F3bis, en einni viku eftir endurbólusetningu með FS. Virkni mótefna (opsonic activity, OA) var mæld með upptöku átfrumna á geislamerktum pneumókokkum.

Niðurstöður: Marktæk hækkun IgG mótefna mældist eftir frumbólusetningu með F3bis (T1°) og endurbólusetningu með FS (T2°). Við T1° höfðu 15-90% IgG mótefni >1µg/mL, en 100% við T2° gegn öllum hjúpgerðum nema 6B (89%) og 19F (78%). Vegið meðaltal mótefnastyrks (GMC) í µg/mL.Tegund 1 3 4 5 6B 7F 9V 14 18C 19F 23F

T1° 0,74 2,97 4,64 1,11 0,32 4,14 2,61 0,58 1,88 1,10 1,44Eftir frumbólusetningu var OA gegn hjúpgerðum 6B, 9V, 18C, 19F og 23F; 23, 44, 58, 10 og 35 AU mv. 100 AU hjá bólusettum fullorðnum. Sækniþroskun mótefna jókst frá 17 til 27 mánaða. Strax einni viku eftir endurbólusetningu með FS mældist verulega aukin sækni og 6,5-70 föld hækkun á magni mótefna gegn mismunandi hjúpgerðum.

Ályktanir: Einn skammtur af prótíntengdum pneumókokkafjölsykrum vekur marktæka myndun virkra mótefna. Hröð og mikil aukning á IgG mótefnum eftir endurbólusetningu með fjölsykrum, svo og sækniþroskun mótefnanna, sýnir að minnisfrumur voru til staðar.E 24 Slímhúðarbólusetning með prótíntengdum pneumókokkafjölsykrum verndar mýs gegn pneumókokkasýkingum

Håvard Jakobsen1, Dominique Schulz2, Rino Rappuoli3, Ingileif Jónsdóttir11Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2Aventis Pasteur, Marcy l´Etoile, Frakklandi, 3Immunobiology Research Institute Siena, Siena, Ítalíu

Netfang: ingileif@rsp.isInngangur: Pneumókokkar valda mildum slímhúðarsýkingum, svo sem eyrnabólgu og alvarlegum ífarandi sýkingum eins og lungnabólgu, heilahimnubólgu og blóðsýkingu, aðallega í ungum börnum. Pneumókokkar eru hjúpaðir fjölsykrum og er fjölsykruhjúpurinn aðalsýkiþáttur þeirra. Helsta vörn líkamans gegn pneumókokkasýkingum er myndun IgG mótefna gegn fjölsykrunum sem, ásamt komplementum, opsónera bakteríuna og stuðla að upptöku af völdum átfrumna. Einnig geta ónæmissvör á slímhúðum, sérstaklega IgA, skipt máli. Pneumókokkafjölsykrur (PPS) hafa verið notaðar sem bóluefni en þær eru lélegir ónæmisvakar í börnum. Að auki leiðir bólusetning með fjölsykrum hvorki til ónæmisminnis né flokkaskipta B-frumna úr því að mynda IgM í það að framleiða IgG og IgA. Tenging pneumókokkafjölsykra við prótín gerir þær ónæmisvekjandi í ungbörnum og hafa prótíntengd fjölsykrubóluefni (PNC) sýnt sig vera mjög virk eftir hefðbundna stungubólusetningu, bæði í nýburum og ungbörnum. Virkni prótíntengdra fjölsykrubóluefna eftir slímhúðarbólusetningu hefur hins vegar lítið verið könnuð.

Efniviður og aðferðir: Við bólusettum mýs með prótíntengdu fjölsykrubóluefni af fjölsykruhjúpgerð 1 (PNC-1) eða 3 (PNC-3) um nef og notuðum stökkbrigði af gatatoxínum Escherichia coli (LT) sem ónæmisglæði. Mótefni gegn pneumókokkafjölsykrum voru síðan mæld í sermi og munnvatni. Eftir bólusetningu voru mýsnar sýktar um nef með pneumókokkum til að meta verndandi áhrif bólusetninganna.

Niðurstöður: Nefbólusetning með PNC-1 eða PNC-3 og LT-stökkbrigðinu olli bæði útbreiddu og staðbundnu ónæmissvari og var magn PPS-sértækra mótefna marktækt hærri eftir nefbólusetningu en eftir hefðbundna stungubólusetningu. Mýs bólusettar um nef með PNC-1 eða PNC-3 ásamt LT-stökkbrigðinu voru allar verndaðar bæði gegn blóð- og lungnasýkingu.

Ályktanir: Niðurstöðurnar benda því til þess að slímhúðarbólusetning geti verið fýsilegur kostur við bólusetningu gegn pneumókokkasýkingum í mönnum.E 25 Sterkt jákvæð fylgni er á milli sjúkdómsvirkni (PASI) og CLA+CD8+ T-eitilfrumna í blóði psoriasissjúklinga

Hekla Sigmundsdóttir, Ingileif Jónsdóttir, Jóhann Elí Guðjónsson, Björn Rúnar Lúðvíkson, Helgi ValdimarssonRannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði

Netfang: hekla@rsp.isInngangur: T-frumur gegna lykilhlutverki í meingerð psoriasis. Cutaneous lymphocyte antigen (CLA) er yfirborðssameind, sem tjáð er á hluta T-minnisfrumna og átfrumna og er ratvísir sem beinir þessum frumum úr blóðrás út í húð. Very late antigen (VLA-4) er önnur ratvísissameind sem beinir frumum út í hin ýmsu líffæri, þar á meðal út í húð og a -keðja viðtakans fyrir IL-2 (CD25) er sameind sem einkennir virkjaðar T-frumur. Markmið tilraunarinnar var að rannsaka hvort fylgni væri á milli undirhópa T-frumna í blóði psoriasissjúklinga og sjúkdómsvirkni þeirra (PASI).

Efniviður og aðferðir: T-frumur voru einangraðar úr 36 ómeðhöndluðum psoriasissjúklingum og 16 heilbrigðum og þær litaðar með einstofna mótefnum gegn yfirborðssameindum, sem einkenna undirhópa T-frumna og virkjunarástand þeirra. PASI sjúklinganna var metið blint, enginn þeirra var með psoriasis liðagigt.

Niðurstöður: Í heild höfðu psoriasissjúklingar hærra hlutfall CLA+ CD8 T-frumna en heilbrigðir einstaklingar (p=0,029), en hlutfall CLA+CD4 T-frumna þeirra og heilbrigðra var sambærilegt. Sterk fylgni var á milli hlutfalls CLA+ T-frumna í blóði psoriasissjúklinga og sjúkdómsvirkni þeirra (r=0,459, p=0,005). Fylgnin var mun hærri milli PASI og CLA+CD8+ T-frumna (r=0,635; p<0,001), CLA+CD4+ T-frumna (r=0,402; p=0,015). Hins vegar sást engin fylgni á milli sjúkdómsvirkni og hlutfalls T-frumna sem tjá VLA-4. Fylgni PASI og hlutfalls T-frumna sem tjá CD25 sást einungis í einstaklingum með hátt PASI (>10).

Ályktanir: Þessar niðurstöður styðja þá tilgátu að þó að CD4+ T-frumur virðist vera nauðsynlegar til að koma sjúkdómnum af stað, geti CD8+ T-frumur gegnt mikilvægu hlutverki í meingerð psoriasis.E 26 Meðhöndlun með metótrexati virðist bæla tjáningu á CLA á T-frumum í blóði einstaklinga með psoriasis

Hekla Sigmundsdóttir, Jóhann Elí Guðjónsson, Björn Rúnar Lúðvíkson, Ingileif Jónsdóttir, Helgi ValdimarssonRannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði

Netfang: hekla@rsp.isEfniviður og aðferðir: T-frumur voru einangraðar úr 16 psoriasissjúklingum, sem voru á metótrexatmeðferð og þær litaðar með einstofna mótefnum gegn yfirborðssameindum sem einkenna undirhópa T-frumna og virkjunarástand þeirra.

Niðurstöður: Gagnstætt ómeðhöndluðum psoriasissjúklingum kom fram neikvæð fylgni á milli hlutfalls CLA+ T-frumna og PASI þeirra psoriasissjúklinga sem tóku metótrexat. Neikvæð fylgni sást einnig á milli skammtastærðar metótrexats og hlutfalls CLA+ T-frumna. Eins og við mátti búast var jákvætt samband milli metótrexatskammta sem sjúklingar tóku og PASI, það er því alvarlegri sem sjúkdómurinn var, þeim mun hærri skammtar voru teknir. Ekki sást neikvæð fylgni milli hlutfalls VLA-4 eða CD25 jákvæðra T-frumna og sjúkdómsvirkni eða metótrexatskammta.

Ályktanir: Á þessu stigi er erfitt að útskýra ofangreindar niðurstöður en þær gefa tilefni til að rannsaka áhrif metótrexats á tjáningu mikilvægra yfirborðssameinda hvítfrumna.E 27 Forrannsókn á áhrifum inngjafar á Mannose Binding Lectin (MBL) í heilbrigða einstaklinga með MBL skort

Þóra Víkingsdóttir1, Jóhann E. Guðjónsson1, Sædís Sævarsdóttir1, Óskar Örn Óskarsson1, Claus Koch2, Helgi Valdimarsson11Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2Statens Serum Institut, Kaupmannahöfn

Netfang: thorav@rsp.isInngangur: Mannose Binding Lectin (MBL) er prótín sem getur bundist sykrum sem eru á yfirborði margra tegunda sýkla. Við slíka bindingu ræsist komplementkerfið og getur MBL þannig virkað sem opsónin sem auðveldar átfrumum að útrýma sýklum. MBL-skortur er algengur og tengist bæði stökkbreytingum í MBL-geninu sjálfu og breytileika í stýriröð þess. Meirihluti fólks með MBL-skort virðist hafa eðlilega sýkingarmótstöðu, en skortur getur þó leitt til alvarlegra sýkinga hjá einstaklingum með aðrar bilanir í ónæmiskerfi, til dæmis þær sem hljótast af notkun sterkra ónæmisbælandi lyfja. Þess vegna er áformað að kanna gagnsemi tímabundinnar MBL-gjafar þegar í hlut eiga sjúklingar sem hafa MBL-skort og þurfa að fara í harða ónæmisbælandi meðferð. Markmið þessarar rannsóknar var því að kanna hugsanlegar aukaverkanir MBL-gjafar og helmingunartíma efnisins í einstaklingum með MBL-skort.

Efniviður og aðferðir: MBL var einangrað og hreinsað úr plasma danskra blóðgjafa og gefið 20 heilbrigðum íslenskum sjálfboðaliðum með MBL-þéttni í sermi undir 600 ng/ml. Hver sjálfboðaliði fékk 6 mg af MBL í æð þrjá sunnudaga í röð. Fylgst var með lífsmörkum sjálfboðaliða og mörg blóðsýni tekin þann dag sem MBL var gefið og síðan daglega í fimm daga á eftir hverri gjöf.

Niðurstöður: Engar klínískar aukaverkanir komu fram og engin merki hafa fundist um ræsingu á komplementkerfi þátttakenda. MBL-þéttni mældist milli 1500-4000 ng/ml daginn sem MBL var gefið en helmingunartími efnisins er ekki nema þrír til fjórir dagar.

Ályktanir: Ekki hafa komið fram neinar aukaverkanir þegar hreinsuðu MBL er sprautað inn í heilbrigða einstaklinga. Ef kanna á hvort inngjöf þessa efnis getur komið í veg fyrir alvarlegar sýkingar hjá ónæmisbældum einsaklingum er líklega nauðsynlegt að gefa að minnsta kosti 12 mg vikulega eða 6mg tvisvar í viku.1. Sokolowska-Wozniak A, Krzaczek T. Herba Pol 1993; 39: 173.

2. D'Agostino M, Dini I, Ramundo E, Senatore F. Phytotherapy Res 1998; 12: 162.

3. Schimmer O, Häfele F, Krüger A. Mutation Res 1988; 206: 201.

4. Jonadet M, Meunier MT, Villie F, Bastide P, Lamaison LJ. J Parmacol 1986; 17: 21.

Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica