Ágrip erinda

Ágrip erinda 87-101

E 87 Aðgreining klínískra einkenna psoriasis eftir arfgerðum

Jóhann E. Guðjónsson1, Ari Kárason2, Arna Antonsdóttir2, Hjaltey Rúnarsdóttir2, Jeff Gulcher2, Kári Stefánsson2, Helgi Valdimarsson1



1Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 2Íslensk Erfðagreining, Reykjavík

Netfang: helgiv@rsp.is



Inngangur: Psoriasis er talinn vera einn af sjálfofnæmissjúkdómum húðar. Hann hefur flókið erfðamynstur og er talið að uppkoma hans stafi af samspili erfða og ákveðinna umhverfisþátta, þar á meðal (-hemolýtískra streptókokka. Við höfum gert genaleit á 369 psoriasissjúklingum innan 73 ætta og fundið sterk tengsl inn á MHC-svæði litnings 6 (lod score=11). Í öðru ágripi (Ari Kárason og fl.) er greint frá rannsókn sem sýnir að þessi tengsl einskorðuðust við 67% sjúklinganna sem höfðu vefjaflokkasameindina HLA-Cw6. Þeir sjúklingar sem voru með Cw6 sýndu einnig sterk tengsl inn á svæði á litningi 19 en slík tengsl voru ekki til staðar hjá þeim sjúklingum sem ekki höfðu Cw6. Klínísk einkenni þessara tveggja hópa voru borin saman.

Efniviður og aðferðir: Allir sjúklingarnir voru skoðaðir af sama lækninum (JEG) og einnig var tekin nákvæm sjúkrasaga. Aðeins voru þeir einstaklingar teknir inn sem höfðu psoriasisskellur við skoðun.

Niðurstöður: Verulegur munur var á klínískum einkennum milli þessara tveggja hópa. Sjúklingar með Cw6 voru yngri þegar sjúkdómur þeirra byrjaði (p=3*10-7), dropa-psoriasis einskorðaðist við þennan hóp (p=9*10-9) og þeir höfðu einnig dreifðari sjúkdóm (p=0,001) og verri (p=0,003). Hærri tíðni á Koebner fyrirbærinu var hjá þessum hópi (p=0,005), þeir fundu frekar fyrir bötnun í sól (p=0,008) og versnun í kjölfar sýkinga, sérstaklega hálsbólgu (p=0,02). Afmyndaðar neglur af psoriasis voru algengari í Cw6 neikvæða hópnum (p=0,002) og tilhneiging var fyrir psoriasis liðagigt að vera algengari í þessum hópi (p=0,135).

Ályktanir: Greining á erfðamynstri psoriasissjúklinga bendir til þess að tilurð sjúkdómsins byggist að minnsta kosti á tveimur mismunandi arfgerðum sem hafa mismunandi klínísk birtingarform.



E 88 Bygging og tjáning Mitf umritunarþáttarins í ávaxtaflugunni Drosophilu melanogaster

Jón H. Hallsson1, Chad Stivers2, Ward F. Odenwald2, Heinz Arnheiter2, Eiríkur Steingrímsson1



1Lífefna- og sameindalíffræði, læknadeild HÍ, 2National Institute of Neurological Disorder and Stroke, NIH, Bethesda, Maryland, USA

Netfang: eirikurs@hi.is



Microphthalmia (Mitf) prótínið er umritunarþáttur af fjölskyldu basic Helix-Loop-Helix Leucine zipper (bHLH-LZ) prótína og er nauðsynlegur fyrir eðlilega þroskun augna, litfrumna (melanocytes), mastfrumna og beinátsfrumna (osteoclasts) í mús. Prótín í þessari fjölskyldu geta bundist svokallaðri E-box DNA röð sem eins- eða mistvenndir og virkjað umritun. Mitf genið hentar vel fyrir rannsóknir á in vivo virkni umritunarþátta þar sem Mitf stökkbreyttar mýs ná fullorðinsaldri en bera sýnilega svipgerð. Virkni Mitf prótínsins er stjórnað af boðleið og veitir það tækifæri til að rannsaka áhrif boðleiða í lífverunni. Enn fremur þjóna mýsnar sem módel fyrir sjúkdóm í mönnum þar sem stökkbreytingar í Mitf geninu valda Waardenburg heilkenni af gerð IIA og Tietz heilkenni.

Auk stökkbreytinga í mönnum og mús eru Mitf stökkbreytingar þekktar í hamstri, hænu og sebrafiski og hafa þær allar áhrif á augnþroskun og litfrumur. Gen skyld Mitf eru einnig þekkt i C. elegans, gersveppum og ascidian, þó svo að ekki hafi verið lýst stökkbreytingum í geninu í þessum lífverum eða hlutverki. Þrátt fyrir þetta hafa rannsóknir á starfsemi og virkni Mitf hingað til einskorðast við músina. Athyglisvert er að eitt mikilvægasta tilraunadýr erfðafræðinnar hefur enn ekki komist á blað í þessum rannsóknum, það er ávaxtaflugan Drosophila melanogaster. Hér kynnum við Mitf gen í erfðamengi ávaxtaflugunnar og prótínafurð þess. Auk þess munum við lýsa tjáningarmynstri gensins í þroskun flugunnar og bera amínósýruröð prótínsins saman við önnur prótín í Mitf fjölskyldunni í öðrum lífverum. Að lokum munum við lýsa aðferðum sem notaðar verða til að greina hlutverk Mitf gensins í Drosophilu. Vonast er til að rannsóknir þessar veiti nýja innsýn í stjórnun, starfsemi, hlutverk og boðleiðir Mitf gensins.



E 89 Smíði genaferja byggðum á mæði-visnuveiru

Helga Bjarnadóttir1, Janus Guðnason1, Guðrún Dóra Clarke1, Hildur Helgadóttir1, Valgerður Andrésdóttir2, Jón Jóhannes Jónsson1



1Lífefna- og sameindalíffræðistofa læknadeilar HÍ, meinefnafræðideild Landspítala Hringbraut, 2Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: hbjarna@hi.is



Inngangur: Markmið verkefnisins er smíði genaferja byggðum á mæði-visnuveiru (MVV). Lentiveirur eins og mæði-visnuveirur hafa þann markverða eiginleika að geta sýkt og innlimað erfðaefni sitt í frumur sem ekki eru í skiptingu. Nokkur árangur hefur náðst með genaferjum byggðum á HIV. Kostir mæði-visnuveiru eru meðal annars þeir að erfðamengi hennar er einfalt og hún innheldur dUTPasa sem gæti lækkað stökkbreytitíðni. Með henni væri einnig hægt að búa til heilsteypt genaflutningstilraunakerfi í hentugu dýramódeli.

Efniviður og aðferðir: Við höfum búið til þriggja-plasmíða genaferjukerfi úr erfðaefni frá tímgunarhæfum mæði-visnuveiru klónum KV1772 og LV1-1KS2. Ferjuplasmíðið innheldur mæði-visnuveiru cis raðir ásamt ß-galaktósíðasa geninu undir stjórn cýtómegalóveiru stýrilsins (CMV). Pökkunarplasmíðin innhalda mæði-visnuveiru trans raðir og var mæði-visnuveiru stýriröðum skipt út fyrir CMV stýrilinn og SV40 large T polyA. Í fyrstu gerð genaferjukerfis voru gag, pol, vif og tat komið fyrir á einu pökkunarplasmíðinu en env og rev á hinu. Fetal ovine synovial (FOS) frumur og NIH 3T3 frumur voru innleiddar með plasmíðunum til að pakka genaferjunni.

Niðurstöður: Env tjáning olli frumuskemmdum í FOS en ekki í NIH 3T3 frumum. Hvorki tókst að sýna fram á veiruleiðslu í FOS né NIH 3T3 frumum með fyrstu gerð genaferjukerfis. Í annarri gerð genaferjukerfis var rev/env plasmíðinu skipt út fyrir G-hjúpprótínið frá vesicular stomatitis veirunni (VSV-G) og rev komið fyrir á gag-pol plasmíðinu. Þá var mæði-visnuveiru U3 stýrlinum skipt út fyrir CMV stýrilinn til að hægt væri að pakka kerfinu í 293T frumulínunni. Þetta genaferjukerfi framleiddi 6 x 105 ferju-RNA eintök/ml, mælt með rauntíma PCR sem byggist á vokorkuflutningi. Hins vegar var veiruleiðsla einungis um 200 veiruleiðslu einingar/ml.



E 90 Fríar kjarnsýrur í blóðvökva sjúklinga með skerta nýrnastarfsemi

Magnús Konráðsson1, Jónína Jóhannsdóttir1, Steinunn Kristjánsdóttir1, Runólfur Pálsson2, Jón Jóhannes Jónsson1



1Lífefna og sameindalíffræðistofa læknadeildar HÍ og meinefnafræðideild Rannsóknarstofnunar Landspítalans, 2lyflækningadeild Landspítala Hringbraut

Netfang: jonjj@hi.is

Inngangur: Vaxandi áhugi er fyrir mælingum á fríum kjarnsýrum í blóðvökva til marks um vefjaskemmdir eða æxlisvöxt, sérstaklega eftir tilkomu ofurnæmra aðferða sem leyfa mælingar á kjarnsýrum í attómólar styrk. Sýnt hefur verið fram á verulega hækkun frírra kjarnsýra í blóðvökva við aukna umsetningu frumna, til dæmis hjá sumum einstaklingum með krabbamein. Forsendur þess að mælingar á fríum kjarnsýrum verði nothæfar sem meinefnapróf eru aukin þekking á efnaskiptum þeirra og ferli útskilnaðar.

Efniviður og aðferðir: Til þess að skoða hvort nýru taki þátt í hreinsun frírra kjarnsýra úr blóðvökva voru þær mældar í blóðvökva sjúklinga með mikið skerta gaukulsíun (24 sjúklingar með langvinna nýrnabilun, þar af 11 í blóðskilun). Til samanburðar voru kjarnsýrur mældar í blóðvökva heilbrigðra (n=5) og sjúklinga með krabbamein (n=13). Við einangrun frírra kjarnsýra úr blóðvökva voru notaðar kísilbindisúlur en við magnmælingar var beitt nýtilkominni tækni sem byggir á PCR-hvarfi í hárpípum með flúrljómunargreiningu á rauntíma.

Niðurstöður: Ekki var mælanlegt magn kjarnsýra í blóðvökva fimm heilbrigðra einstaklinga en hjá tveimur af 14 krabbameinssjúklingum var magn kjarnsýra í blóðvökva verulega aukið eða >30 þúsund eintök í millilítra (ígildi 100 ng DNA/ml). Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem aðrir hafa fengið. Hjá einungis tveimur af 24 nýrnasjúklingum var magn frírra kjarnsýra í blóðvökva verulega aukið.

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að skert nýrnastarfsemi leiði að jafnaði ekki til verulegrar uppsöfnunar á fríum kjarnsýrum í blóðvökva og því ólíklegt að hún gegni mikilvægu hlutverki við hreinsun þeirra úr blóði.



E 91 Einkenni ættlægrar lófakreppu

Kristján G. Guðmundsson, Þorbjörn Jónsson, Reynir Arngrímsson



Heilbrigðisstofnun Blönduóss, Institute of Immunology, National Hospital, Oslo, erfðalæknisfræði HÍ

Netfang: reynirar@hi.is



Inngangur: Dupuytrens lófakreppa er algengt vandamál á meðal íbúa á norðlægum slóðum. Getgátur hafa verið um að hér sé um ræða algengasta arfgenga bandvefssjúkdóminn í mönnum. Rannsóknir á hegðun sjúkdómsins í fjölskyldum hafa þó verið fáar, en ókynbundnu ríkjandi erfðamynstri hefur verið lýst. Tilgangur rannsóknar þessarar var að kanna þá þætti sem einkenndu ættlæga lófakreppu og greindu hana frá stökum tilfellum af sama sjúkdómi.

Efniviður og aðferðir: Í áföngum hóprannsóknar Hjartaverndar á árunum 1981 og 1982 voru 1297 karlmenn skoðaðir sérstaklega með tilliti til einkenna um Dupuytens lófakreppu og greindust 249 með einhver merki hennar. Átján árum síðar var öllum greindum sjúklingum á lífi boðið til rannsóknar á ný eða 122 karlmönnum. Úr Hjartaverndarúrtakinu var valinn jafnstór aldursstaðlaður samanburðarhópur og þess gætt að reykingarvenjur væru sambærilegar í báðum tilvikum. Við komu voru hendur og iljar skoðaðar með tilliti til bandvefsbreytinga og flokkaðar í þá sem voru: F0: án einkenna, FI: með hnút (>5 mm), FII: með greinilegan bandvefsstreng og húðbreytingar, FIII: höfðu kreppu á fingrum og FIV: höfðu þurft á skurðaðgerð að halda.

Niðurstöður: Alls mættu 193 (79%) karlmenn til skoðunar og var meðalaldur þeirra 74 ár. Eitt hundrað þrjátíu og sjö voru með einkenni Dupuytrens sjúkdóms en 56 ekki. Af einstaklingum með einkenni voru 39 (28%) með jákvæða fjölskyldusögu en aðeins fjórir (7%) hjá hinum heilbrigðu (p<0,001). Fjölskyldusaga var fimm sinnum algengari hjá þeim sem höfðu þurft að gangast undir aðgerð (FIV) borið saman við þá sem eingöngu höfðu hnút í lófa (FI). Af þeim sem greindust með sjúkdóminn fyrir 50 ára aldur höfðu 61% jákvæða fjölskyldusögu en helmingi færri, eða 27% ef einkenni komu fyrst fram síðar á ævinni (p<0,001). Jafnframt tengdist fjölskyldusaga hraðari og verri þróun sjúkdómsins. Alls greindust 18 með hnúta í iljum og féllu þeir allir hópinn sem hafði jákvæða fjölskyldusögu, þar af voru 10 sem höfðu þurft á aðgerð á höndum að halda.

Ályktanir: Ættlægni í lófakreppu einkennist af því að sjúkdómurinn greinist fyrr á ævinni. Hann hefur verri og hraðari gang meðal annars með tilliti til skurðaðgerðartíðni og hnútamyndunar annars staðar í líkamanum.



E 92 Leit að psoriasisgenum í íslenskum sjúklingum

Ari Kárason1, Jóhann E. Guðjónsson2, Augustine Kong1,3, Michael L.

Frigge1, Steinunn Snorradóttir1, Joseph Nahmias1, Erla Ólafsdóttir1, Hjaltey Rúnarsdóttir1, Arna Antonsdóttir1, Kristbjörg Jónsdóttir1, Valdimar B. Hauksson1, Raluca Nicolae1,3, Sif Jónsdóttir1, Jeffrey R. Gulcher1, Helgi Valdimarsson2, Kári Stefánsson1



1Íslensk Erfðagreining, Reykjavík, 2Rannsóknastofa Háskólans í ónæmisfræði, 3Department of Human Genetics, University of Chicago

Netfang: helgiv@rsp.is



Inngangur: Psoriasis er þrálátur bólgusjúkdómur í húð sem einkennist af offjölgun keratínfrumna. Um 2% Vesturlandabúa þjást af sjúkdómnum en orsök hans eru óljós. Faraldsfræðilegar rannsóknir sýna greinilegt, en flókið erfðamunstur sem gæti endurspeglað samverkun gena (epistasis) og sjálfstæða verkun nokkurra gena (locus heterogeneity).

Efniviður og aðferðir: Skoðaðir hafa verið yfir 1000 einstaklingar, þar af 369 með psoriasis, í 73 fjölskyldukjörnum. Gerð var kembileit í öllu genamengi þessara einstaklinga á grundvelli arfgerða með tilliti til 900 fjölforma erfðamarka.

Niðurstöður og umræða: Staðfest voru sterk tengsl við MHC

(Major Histocompatability Complex) á litningi 6p21.3 (LOD =11). Fínkortlagning með 35 nýjum erfðamörkum á þessu svæði sýndi tengslaójafnvægi við nokkrar setraðir á svæðinu, þau sterkustu með p-gildi innan við 10-9. Líkt og í flestum svipuðum rannsóknum sem framkvæmdar hafa verið, fannst sterkasta tengslaójafnvægið við HLA-Cw6 samsætuna. Um 67% psoriasissjúklinga höfðu Cw6, miðað við 16% í samanburðarhópi sem samsvarar áhættuhlutfalli (risk ratio) 10,4 fyrir þá sem hafa Cw6 samsætuna miðað við þá sem ekki hafa hana. Sjúklingahópnum var skipt upp í þá sem hafa Cw6 og þá sem ekki hafa þessa samsætu og tengslagreining framkvæmd á hópunum sitt í hvoru lagi. Hópurinn allur sýndi óveruleg tengsl við svæði á q-armi litnings 19 (LOD=1.59), en þessi tengsl styrktust verulega (LOD=4.33) þegar Cw6 jákvæðir sjúklingar voru greindir sérstaklega. Hins vegar fundust engin tengsl við 19q svæðið hjá þeim Cw6 neikvæðu. Áætlað er að sýnd psoriasis í þeim sem eingöngu hafa Cw6 sé um það bil 7,4% en hækkar í 41% hjá þeim sem hafa bæði Cw6 og áhættusamsætu á litningi 19. Þetta bendir til þess að í sumum psoriasissjúklingum þurfi að minnsta kosti tvö gen, eitt á 6p21.3 og eitt á 19q, til þess að valda psoriasis.



E 93 Einbasa breytileiki í genum sem tengjast astma og ofnæmi á Íslandi

Hákon Hákonarson1, Unnur Steina Björnsdóttir2, Elínborg Ostermann1, Þór Árnason1, Elva Aðalsteinsdóttir1, Eva Halapi1, Illugi Birkisson1, Dana Shkonly1, Sigurbjörg Anna Guðnadóttir1, Mike Frigge1, Jeffrey Gulcher1, Kristleifur Kristjánsson1, Þórarinn Gíslason2, Davíð Gíslason2, Kári Stefánsson1



1Íslensk erfðageining, 2lungna og ofnæmisdeild Landspítala Vífilsstöðum

Netfang: hakonh@decode.is



Inngangur: Fjöldi astma- og ofnæmisgenasvæða (genetic loci) hefur verið birtur í rannsóknum sem sýnt hafa fram á tengsl (linkage) astmatengdra svipgerða eins og ofnæmis, hækkaðs IgE eða berkjuofvirkni við erfðamörk og einbasabreytileika (SNP) í genum sem framleiða mikilvæga bólgumiðla (cytokine/chemokine) og/eða stjórna framleiðslu á IgE. Þótt þessar rannsóknir séu áhugaverðar, eru fæstar þeirra tölfræðilega marktækar og engin þeirra samræmist Landers stöðlum. Við rannsökuðum tíðni og dreifingu á SNPs í 24 líklegum (candidate) astma- og ofnæmisgenum á Íslandi og skoðuðum tengl þeirra við sérstök erfðamörk.

Efniviður og aðferðir: Við raðgreindum samtals 11 kílóbasa af erfðaefni sem staðsett voru á stýrisvæðum (promoter) eða á tjáðum svæðum (exon) í þessum genum hjá 94 óskyldum sjúklingum með astma og ofnæmi og 94 heilbrigðum einstaklingum (það er 376 allelur) eða samtals 4,1 megabasa af erfðaefni sem einangrað var úr hvítum blóðkornum (PBMCs). Tengslagreining var gerð með því að bera saman erfðamörk sem staðsett voru nálægt genunum með erfðamengisskymun (GWS) hjá 269 astmasjúklingum sem tilheyrðu ofangreindum 94 astmafjölskyldum, auk ættingja.

Niðurstöður: Við fundum 42 SNPs í þessum 24 genum. Meðaltíðni SNPs var 19,9% í astma og 20.4% hjá heilbrigðum. Tuttugu (48%) SNPs voru staðsett á táknraðasvæðum og þar af leiddu 18 (90%) þeirra til breytinga á prótínafurðum genanna. Enginn munur fannst á tíðni SNPs í þessum 24 genum né heldur á dreifingu þeirra milli astmasjúklinga og heilbrigðra. Ennfremur fundust engin tengsl við erfðamörk sem staðsett voru í nálægð við þessi 24 gen.

Ályktanir: Við ályktum að það sé ólíklegt að erfðabreytileiki í þessum 24 líklegu astma- og ofnæmisgenum liggi til grundvallar svipgerð ofnæmis og astma eða auki líkur á þessum sjúkdómum.



E 94 Stökkbreytingar á IL-13 erfðavísinum hjá Íslendingum með astma og ofnæmi

Unnur Steina Björnsdóttir1, Emma McCullagh2, Gabriella Ann Bloom2, Illugi Birkisson2, Þór Árnason2, Dana Shkolny2, Elva Aðalsteinsdóttir2, Kristleifur Kristjánsson2, Jeffrey Gulcher2, Þórarinn Gíslason1, Davíð Gíslason1, Kári Stefánsson2, Hákon Hákonarson2



1Landspítali Vífilsstöðum, 2Íslensk Erfðagreining

Netfang: usb@rsp.is



Inngangur: Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl milli einbasabreytileika (SNPs) í ákveðnum genum sem stjórna framleiðslu á IgE og aukinnar tíðni ofnæmis og astma. Má þar nefna 5q31-33 litningasvæðið þar sem fjöldi gena í flokki IgE-ákvarðandi TH2-bólgumiðla er staðsettur. Lýst hefur verið einbasabreytileika í stýrisvæði IL-13 sem talinn er algengari hjá ofnæmis- og astmasjúklingum og geti haft áhrif á stjórnun á framleiðslu IgE, ofnæmishneigð, berkjuauðreitni og því hversu alvarlegur astmi er.

Aðferðir: Til að kanna hlutverk IL13 í ofnæmistengdum astma á Íslandi var DNA raðgreint frá 94 óskyldum sjúklingum með ofnæmisastma og 94 heilbrigðum einstaklingum. Jafnframt var gerð tengslagreining við erfðamörk í nálægð við IL13 genið hjá þessum 94 sjúklingum ásamt 175 viðbótarsjúklingum sem tengdust fyrrgreindum sjúklingahóp í 94 fjölskyldum (2-12 sjúklingar/fjölskyldu), auk 230 heilbrigðra ættingja. Sex mismundandi einbasabreytileikar voru skoðaðir hjá báðum hópunum.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar eru sýndar í töflu sem tíðni (%) fyrir áhættu-basabreytingu fyrir þessar sex einbasabreytingar í IL-13 erðavísinum:



Mut** 1512A>C 1112C>T +2749C>T +2580C>A +2525G>A 1923C+>T

CO C:14,7% T:14,8% C:17,9% T:15,8% C:16,7% G:17,4%

AA C:11,8% T:7,1% C:15,6% T:14,9% C:14,5% G:16,5%

**=einbasastökkbreyting



Engin tengsl fundust við erfðamörk sem staðsett voru í nálægð við IL-13 erfðavísinn á litningi 5q31 hjá þessum 269 sjúklingum með ofnæmisastma og fjölskyldum þeirra.

Ályktanir: Rannsóknin sýnir að 1. Tíðni á IL-13 áhættu-basabreytingum eru sjaldgæfar á Íslandi. 2. Enginn munur fannst á tíðni þeirra sex einbasabreytinga sem skoðaðar voru milli astmasjúklinga og viðmiðunarhóps. Við teljum ólíklegt að einbasabreytileiki í IL-13 erfðavísinum hafi áhrif á myndun ofnæmisastma hjá Íslendingum.



E 95 Rannsókn á barksteranæmum, cýtokínframkölluðum breytingum í tjáningu gena í sléttum vöðvafrumum sem tengjast breytingum í svörun öndunarvöðvans við örvun á G-prótíntengdum viðtökum

Hákon Hákonarson1,2, Eva Halapi1, Jeffrey Gulcher1, Kári Stefánsson1



1Íslensk erfðagreining, 2lungnadeild Barnaháskólaspítala Fíladelfíu, Pennsylvania, USA

Netfang: hakonh@decode.is



Inngangur: Cýtokín gegna mikilvægu hlutverki í sjúkdómsferli astma. Við sýndum nýlega fram á að öndunarvöðvavefur (ASM) sem er útsettur fyrir astmasermi (með hækkuðu IgE) eða rhínóveirusýkingu sýnir astmakenndar breytingar í samdráttarsvörun sem eru af völdum cýtokínanna, IL-1ß og TNFa. Til að skilgreina gen og boðleiðir gena sem liggja til grundvallar ofangreindum breytingum í svörun ASM sem örvaður er með cýtokínum, skoðuðum við: 1. Áhrif IL-1ß og TNFa á tjáningu gena í ASM frumum með Affymetrix (6800 gen), 2. áhrif barksteragjafar (GC) á tjáningu gena sem breytast við meðferð ofangreindra cýtokína og 3. hvort áhrif barksteragjafar á tjáningu ofangreindra gena tengist stjórnun barksteragjafar á cýtokínframkölluðum breytingum í samdrætti ASM.

Efniviður og aðferðir: 1. + 2. voru rannsökuð með cDNA-tengdri Affymetrix genatjáningu á 6800 gena kubbum. Samdráttur ASM var mældur í tölvutengdu líffærabaði.

Niðurstöður: 1. Fjögurra klukkustunda meðferð með IL-1ß og TNFa framkallaði breytingar í tjáningu hundruða gena (3-250 x aukning/minnkun), þar af >70 gena sem taka þátt í boðleiðum innan frumna og skrá fyrir cýtokínum/kemokínum, genastjórnunar-, viðloðunar-, vaxtar- og frumustjórnunarþáttum. 2. Meðferð með barksteragjöfum leiddi til skammtaháðrar hömlunar á IL-1ß- og TNFa-framkölluðum breytingum í tjáningu gena (0-100%). 3. Þessar genabreytingar fóru saman með GC-tengdri bælingu á G-protín/viðtaka-miðluðum breytingum á svörun ASM.

Ályktanir: Niðurstöðurnar færa nýjar sannanir fyrir að barksterar hamla IL-1ß- og TNFa-útleystum breytingum í genatjáningu í ASM sem tengjast breytingum á G-prótín/viðtaka-miðlaðri svörun ASM. Við álítum að þau gen sem sýna barksteranæmar, cýtokínframkallaðar breytingar í tjáningu í ASM, sem tengjast boðleiðum fruman, skilgreini gen sem eru áhugaverð til frekari rannsókna og þróunar nýrra lyfja.



E 96 Stjórneining (R domain) klóríðjónagangna cystic fibrosis (cystic fibrosis transmembrane conductance regulator, CFTR) getur bæði stöðvað og örvað klóríðstraum

Ólafur Baldursson, Lynda S. Ostedgaard, Tatiana Rokhlina, Joseph F. Cotten, Michael J. Welsh



Howard Hughes Medical Institute, lyflækningadeild og lífeðlisfræðideild Háskólasjúkrahússins í Iowa City, Iowa, BNA

Netfang: Huldoli@aol.com

Inngangur: Cystic fibrosis transmembrane conductance regulator (CFTR) er 1480 amínósýra prótín sem myndar klóríðjónagöng í þekjuvef lungna, meltingarfæra og húðar. Stökkbreytingar í geni CFTR valda cystic fibrosis sem er banvænn arfgengur sjúkdómur. Lögun CFTR er ekki þekkt en vitað er að tvennt er nauðsynlegt til að göngin opnist og klóríð streymi í gegn; í fyrsta lagi þarf fosfórun serína í stjórneiningu (R domain) og í öðru lagi þarf ATP bindingu og hýdólýseringu í kjarnsýrutengjum (nucleotide binding domains, NBD). Fyrri rannsóknir okkar sýna að einstök fosfóserín í stjórneiningu gegna mismunandi hlutverki í starfsemi CFTR.

(Baldursson, et al. Am J Physiol Lung Cell Mol Physiol 2000; 279: Nov.). Hlutverk amínósýra umhverfis þessi fosfóserín og á milli þeirra er að mestu óþekkt.

Efniviður og aðferðir: Hér lýsum við áhrifum þess að fella brott og flytja til margar amínósýrur úr stjórneiningu CFTR.

Niðurstöður: Eðlilegt CFTR (E-CFTR) hleypir engu klóríði í gegn án fosfórunar.

Séu amínósýrur 708-835 fjarlægðar, myndast göng sem hleypa klóríðjónum í gegn án fosfórunar. Amínósýrur 708-835 í stjórneiningu virðast þar með stöðva klóríðstraum í E-CFTR (hamlandi áhrif). Sömu amínósýrur geta einnig örvað straum mikið, séu þær fosfórýleraðar. Orsök þessarar tvöfeldni er óþekkt. Okkur tókst að skilja betur hegðun smærri svæða innan 708-835. Með notkun bútþvingunar (excised inside-out patch clamping) kom í ljós að amínósýrur 760-835 voru nauðsynlegar til að stöðva straum og að þessi hamlandi áhrif hurfu ef 760-835 voru fluttar til innan sameindarinnar. Hamlandi áhrif 760-835 voru því háð nákvæmlega réttri staðsetningu þeirra. Örvandi áhrif 708-835, 708-759 og 760-835 voru hins vegar ekki háð staðsetningu. Þrátt fyrir flutning þessara hluta innan CFTR, varð talsverð örvun á klóríðstraum eftir fosfórun.

Ályktanir: Niðurstöðurnar bæta skilning á starfsemi CFTR og eru í samræmi við nýlega framsett líkan (Ostedgaard, Baldursson, et al. PNAS 2000; 97: 5657-62.) sem gerir ráð fyrir að fleiri en eitt fosfóserín geti örvað straum og að straumurinn í gegnum CFTR ráðist af samspili eða tengingu margra staða í stjórneiningu við aðra hluta CFTR. Hönnun lyfja sem hamla CFTR gæti bætt meðferð sjúklinga með sekretórískan niðurgang og blöðrunýru. Lyf sem örva CFTR gætu gengt lykilhlutverki í meðferð sjúklinga með cystic fibrosis.



E 97 Niðurstöður allsherjarleitar að erfðavísum tengdum áhættu á háþrýstingsheilkenni í meðgöngu sýna fylgni við litningasvæði 2p13

Reynir Arngrímsson, Sigrún Sigurðardóttir, Mike L. Frigge, Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Þorlákur Jónsson, Hreinn Stefánsson, Ásdís Baldursdóttir, Anna S. Einarsdóttir, Birgir Pálsson, Sigrún Snorradóttir, Guus Lachmeijer, Dan Nicholae, Birkir Þór Bragason, Augustine Kong, Jeffrey R. Gulcher, Reynir Tómas Geirsson, Kári Stefánsson



Erfðalæknisfræði HÍ, kvennadeild Landspítala Hringbraut, Íslensk erfðagreining

Netfang: reynirar@hi.is



Inngangur: Háþrýstingsheilkenni í meðgöngu getur verið alvarlegur sjúkdómur sem hrjáir 2-5% verðandi mæðra í síðari hluta meðgöngu og einkennist af hækkuðum blóðþrýstingi og í alvarlegri tilfellum prótíni í þvagi, fæðingarkrömpun, truflun á blóðstorku og efnaskiptum svo og vaxtarseinkun hjá fóstri. Fjölskyldutilhneiging er vel þekkt en erfðafræðilegar orsakir eru óskýrðar.

Efniviður og aðferðir: Fjölskyldum með ættlægt háþrýstingsheilkenni í meðgöngu var safnað á árunum 1994-1996. Alls greindust 124 fjölskyldur með 343 veikum konum. Veikum konum var skipt í tvo flokka. Í öðrum voru allar 343 konurnar en í undirflokki voru eingöngu konur með alvarleg einkenni sjúkdómsins, svo sem prótín í þvagi eða fæðingarkrampa auk hækkaðan blóðþrýsting. Leit að erfðavísum sem tengdust aukinni áhættu á hækkuðum blóðþrýstingi var framkvæmd með allsherjarskanni (GWS). Allsherjarskannið náði til 440 erfðamerkja með 9cM meðalfjarlægð á milli merkja. Tölfræðiúrvinnsla var með GENEHUNTER plus. Þéttnileit fór svo fram með 22 viðbótarerfðamerkjum.

Niðurstöður: Við allsherjaleit greindist eitt litningasvæði með lod stig >2. Í öllum hópnum reyndist það vera 2.42 á svæði 98.68 cM og á meðal kvenna með alvarlegt háþrýstingsheilkenni 3.14 á svæði 110 cM. Við þéttnileit á þessu svæði hækkaði lod stig í 4,77 við D2S286 ( situr í 94 cM) í öllum hópnum en 3,43 hjá alvarlegri tilfellunum. Tvær meðalstórar fjölskyldur lögðu verulega til þessara niðurstaðna.

Ályktanir: Marktæk fylgni fannst við svæði á litningi 2 við háþrýstingsheilkenni í meðgöngu. Bendir það til að hugsanlegt áhættugen fyrir hækkaðan blóðþrýsting í meðgöngu megi finna á þessu svæði, sérstaklega í þeim tilfellum sem um sterka fjölskyldusögu er að ræða.



E 98 Erfðamynstur beinþynningar

Hildur Thors1, Unnur Styrkársdóttir2, Kristján Jónasson2, Siv Oscarsson3, Björn Guðbjörnsson4, Gunnar Sigurðsson1



1Landspítali Fossvogi, 2Íslensk erfðagreining, 3Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna, 4Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri

Netfang: gunnars@shr.is



Inngangur: Lýst hefur verið að beinþéttni ákvarðast að stórum hluta, 60-80%, af erfðum. Hins vegar hefur það ekki verið skýrt hvernig þessum erfðum sé háttað í þjóðfélaginu í heild eða innan einstakra ætta. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna erfðamynstrið innan nokkurra íslenskra ætta.

Efniviður og aðferðir: Gagnagrunnur yfir 2000 einstaklinga hefur verið myndaður vegna erfðafræðilegrar rannsóknar á beinþynningu á Íslandi. Út úr þessum grunni voru dregnar ættir þar sem beinþynning var áberandi í fleiri en einni kynslóð. Í þessari rannsókn var eintaklingur talinn með osteopeniu ef beinþéttni (BMD) hans var meira en einu staðalfráviki neðan við aldurs- og kynbundið meðaltal (Z score). Útilokaðir voru þeir einstaklingar sem höfðu aðra þekkta orsök fyrir lágri beinþéttni. Með tilliti til beinþéttni í hverri kynslóð fyrir sig var líklegt erfðamynstur hverrar ættar metið.

Niðurstöður: Eftir skoðun á þeim ættum þar sem beinþynning var mest áberandi í fleiri kynslóðum var niðurstaðan sú að beinþynning erfist ókynbundið og ríkjandi milli kynslóðanna í þessum ættum.

Ályktanir: Þar sem beinþynning erfist líklega ókynbundið og ríkjandi í þessum ættum má álykta að um sjúkdóm sé að ræða með sterkum áhrifum eins gens en þau gen kunna að vera mismunandi milli ætta. Nánari rannsóknir standa yfir til að greina þessi gen.



E 99 Tengsl Sp1-COLIA1 breytingarinnar við beinþéttni og beinþynningu á Íslandi

Vala Jóhannsdóttir1, Kristján Jónasson1, Katrín Guðjónsdóttir1, Gunnar Sigurðsson2, Unnur Styrkársdóttir1



1Íslensk Erfðagreining, 2Landspítali Fossvogi

Netfang: unnurst@decode.is



Inngangur: Bein er að mestu leyti samsett úr kollageni. Ákveðin breyting í COLIA1 geninu hefur verið tengd við lága beinþéttni og brot sem einkenna beinþynningu. Þessi breyting er á einu kirni,

G -> T, í kenniseti gensins fyrir umritunarþáttinn Sp1. Fjöldi rannsókna hefur bent til þess að sambandið á milli Sp1-COLIA1 breytingarinnar og beinþynningar sé mismunandi eftir þjóðum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að athuga hvort þessi breyting tengist beinþéttni og brotum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Ellefu hundruð sjötíu og einn einstaklingur með þekkta heilsufarssögu og beinþéttnimælingar var arfgerðargreindur með tilliti til þessarar ákveðnu breytingar. Rannsóknarhópurinn samanstóð af einstaklingum með beinþynningu og fjölskyldumeðlimum þeirra. Fyrir tölfræðilega útreikninga voru beinþéttnigildi reiknuð með því að leiðrétta mæligildi fyrir aldri, þyngd, kyni og hormónanotkun.

Niðurstöður: Tíðni arfgerða var svipuð og í öðrum þjóðfélögum (G/G 68,0%; G/T 29,3%; T/T 2,7%) og eru í Hardy-Weinberg jafnvægi. Niðurstöður okkar sýna fram á tölfræðilega marktæk tengsl ´T´ samsætunnar og beinþéttni í hrygg kvenna fyrir tíðahvörf

(p =0,04). Marktæk tengsl fundust ekki við beinþéttni í mjöðm fyrir þennan hóp kvenna. Engin tölfræðilega marktæk tengsl Sp1-COLIA1 breytingarinnar fundust við beinþéttni í mjöðm eða hrygg hjá konum eftir tíðahvörf, en mögulegt er að þessar niðurstöður séu skekktar vegna óáreiðanlegri beinþéttnimælinga í hrygg hjá eldri einstaklingum. Engin tengsl fundust hjá karlmönnum. Við könnuðum einnig samband breytingarinnar við brot sem einkenna beinþynningu, en engin tölfræðilega marktæk tengsl fundust.

Ályktanir: Í samantekt benda niðurstöður okkar til þess að Sp1-COLIA1 breytingin hafi áhrif á beinþéttni í hrygg hjá íslenskum konum.





E 100 Alfa1-antitrypsín meðal Íslendinga. Tíðni M, S, og Z arfgerðar í sjúklingum með lungnateppusjúkdóma (COPD) og skyldmennum þeirra

Leifur Þorsteinsson1, Hjalti Andrason1, Andrés Sigvaldason2, Emilía Soebeck1, Þórarinn Gíslason2, Vilmundur Guðnason3, Kári Stefánsson1, Juergen Laufs1, Jeffrey Gulcher1



1Íslensk Erfðagreining, 2lungnadeild Landspítala Vífilsstöðum, 3Rannsóknarstöð Hjartaverndar, Reykjavík.

Netfang: leifur@decode.is



Inngangur: Langvinnir lungnateppusjúkdómar (Chronic obstructive pulmonary disease, COPD) er samheiti lungnaþembu (emphysema) og langvinnrar berkjubólgu (chronic bronchitis). Þeir eru ört vaxandi vandamál á Vesturlöndum. Sterkasti áhættuþáttur þessara sjúkdóma eru reykingar. Þrátt fyrir augljós tengsl eru aðeins 15-20% þeirra sem reykja sem fá einkenni um lungnateppu. Þetta þykir benda til að erfðir leggi talsvert af mörkum við meinmyndun sjúkdómsins. Eini þekkti orsakavaldur lungnateppu er skortur á alfa1-antitrypsíni (AAT) sem veldur fyrst og fremst lungnaþembu. Meginhlutverk alfa1-antitrypsíns er að letja virkni elastasa sem er ensím myndað af kjörnungum (granulocytes). Talið er að það gegni lykilhlutverki í meinmyndun lungnaþembu. Misvægi alfa1-antitrypsíns og elastasa leiðir til ofvirkni ensímsins sem hefur í för með sér niðurbrot bandvefs í lungnablöðrunum.

Efniviður og aðferðir: Til að gera okkur grein fyrir þýðingu alfa1-antitrypsínskorts í meinmyndun lungnateppu var tíðni M, S, og Z arfgerðar ákvörðuð í íslenskum sjúklingum og hún borin saman við tíðnina í einkennalausum, óskyldum einstaklingum, alls rúmlega 700 manns.

Niðurstöður: Niðurstöðurnar sýna að tíðni þeirra arfgerða sem leiða til minnkaðrar virkni alfa1-antitrypsíns er hærri í sjúklingum heldur en heilbrigðum skyldmennum.

Ályktanir: Þetta bendir til að misvægi alfa1-antitrypsíns og elastasa geti átt þátt í meinmyndun lungnateppu í íslenskum sjúklingum.
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica