Ágrip erinda

Ágrip veggspjalda 1-34

V 01 Aspergillus sýkingar á Íslandi á árunum 1984-1999

Fjalar Elvarsson1, Jónas Hallgrímsson2, Sigrún Reykdal2, Anna Þórisdóttir3, Ingibjörg Hilmarsdóttir2



1Læknadeild HÍ, 2rannsóknastofur í vefjameinafræði, blóðmeinafræði og sýklafræði, Landspítala Hringbraut, 3smitsjúkdómadeild Landspítala Fossvogi

Netfang: ingibjh@rsp.is



Tilgangur: Myglusveppir af ættvíslinni Aspergillus valda lífshættulegum sýkingum í ónæmisbældum sjúklingum; vægari, staðbundnar sýkingar sjást í heilbrigðum einstaklingum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna nýgengi og aðra faraldsfræðilega þætti sýkinganna hér á landi.

Efniviður og aðferðir: Gerð var afturskyggn rannsókn á nýgengi, áhættuþáttum, meðferð og útkomu sýkinga af völdum Aspergillus sveppa. Leitað var að sjúkratilfellum í gögnum sýklafræðideildar Landspítalans og Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði frá árunum 1984-1999. Sjúkraskýrslur sjúklinga sem greindust með aspergillus í ræktun eða þráðsveppi í vefjarannsókn voru rannsakaðar og tilfelli metin með tilliti til sýkingar.

Niðurstöður: Úrtakið taldi 114 sjúkratilfelli og reyndist unnt að meta 107 þeirra. Aspergillus ræktaðist úr 172 sýnum frá 93 sjúklingum og vefjarannsókn greindi þráðsveppi í 34 sýnum (þar af 18 úr krufningu) frá 19 sjúklingum. Tuttugu og einn sjúklingur (19,6%) hafði sannaða sýkingu, sex (5,6%) líklega og fjórir (3,7%) mögulega. Í þremur tilfellum (2,8%) voru jákvæðar ræktanir metnar sem sýklun og hjá 73 sjúklingum (68,2) sem mengun. Af 27 sönnuðum og líklegum sýkingum voru 14 djúpar, ífarandi sýkingar hjá sjúklingum með krabbamein eða langvinna lungnasjúkdóma. Tólf þeirra létust með eða vegna sýkingarinnar; sex höfðu fengið meðferð. Aðrar sýkingarmyndir voru aspergilloma og lungnakýli hjá fimm sjúklingum, húðsýking hjá einum og skútabólgur hjá sjö.

Lokaorð: Allar algengustu sjúkdómsmyndir Aspergillus sýkingar komu fram í rannsókninni. Dánartíðni var há hjá sjúklingum með djúpar, ífarandi sýkingar (86%), og eru ástæður þessa meðal annars vandasöm greining og lélegur árangur meðferðar hjá ónæmisbældum sjúklingum. Nýgengi virðist lægra hér en víða annars staðar, og væri æskilegt að kanna það nánar með framskyggnum hætti.



V 02 Trichobilharzia blóðögður í álftum Cygnus cygnus á Íslandi

Karl Skírnisson1, Libuse Kolarova2



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2smitsjúkdómadeild Charles Háskólasjúkrahússins í Prag, Tékklandi

Netfang: karlsk@hi.is



Inngangur: Haustið 1997 tókst að upplýsa að kláðabólur á fótum barna sem höfðu verið að vaða í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins í Laugardal voru af völdum sundlirfa blóðagða af ættkvíslinni Trichobilharzia sem lifðu í tjörninni. Sundlirfurnar komu úr vatnabobbum Lymnaea peregra en í þeim fjölga lirfurnar sér kynlaust. Reyndist hér á ferðinni áður óþekkt tegund og var henni lýst (L. Kolarova, K. Skirnisson. J Helminthology 1999; 73: 215-20). Ekki er þekkt hvaða fugl hýsir fullorðinsstig lirfunnar en sennilegast er að um sé að ræða einhvern vatnafugl. Markmið þessarar samantektar er að kynna nýlegan fund blóðagða í álftum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Fimm álftir, sem voru frystar eftir að hafa fundist dauðar á árunum 1996 og 1997, voru krufnar árið 1998 til að freista þess að upplýsa dánarorsök. Meltingarvegur fuglanna var rannsakaður með tilliti til sníkjudýra.

Niðurstöður: Nokkrar tegundir agða, bandorma og þráðorma fundust í meltingarvegi fuglanna. Auk þess fundust blóðögður í bláæðum sem liggja frá aftasta hluta meltingarvegar í tveimur fuglanna (40%). Rannsókn leiddi í ljós að þær voru með tvær mismunandi tegundir blóðagða af ættkvíslinni Trichobilharzia. Unnið er að nánari tegundagreiningu. Rannsókn á vefjasneiðum staðfesti bæði karl- og kvenögður í bláæðum álftanna. Mikið sást af eggjum í þarmatotum og þarmavegg og var hýsilviðbrögðum lýst.

Ályktanir: Hugsanlega er önnur hvor þessara blóðagða sú hin sama og lýst var nýlega á lirfustigi í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins í Reykjavík. Fyrirhugað er að kanna með sameindafræðilegum aðferðum hvort svo geti verið.



V 03 Rannsókn á einkennalausum kindum í riðuhjörð með samanburði á arfgerðum príongensins og niðurstöðum þriggja mismunandi greiningaraðferða riðu

Stefanía Þorgeirsdóttir, Sigurður Sigurðarson, Guðmundur Georgsson, Ástríður Pálsdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: stef@hi.is



Inngangur: Mismikið næmi kinda fyrir riðusmiti hefur verið rakið til þriggja breytilegra amínósýra í príonprótíni (PrP) þeirra (númer 136, 154 og 171). Umbreytt, smitandi form þessa prótíns (PrPSc) er talið vera orsök príonsjúkdóma, en auk riðu í sauðfé má nefna kúariðu og Creutzfeldt-Jakob sjúkdóm í mönnum. Arfgerðagreining príongensins í íslensku sauðfé hefur sýnt að VRQ arfgerðin (valín í seti 136) er tengd auknu næmi fyrir riðusmiti, en arfgerðin AHQ (histidín í seti 154) virðist bera í sér lága áhættu á riðusmiti. Þessar upplýsingar má nota við kynbætur til útrýmingar á riðu, sem er enn landlæg í nokkrum landshlutum. Í þessari rannsókn var athugað hvort fé með lágt riðunæmi gæti hugsanlega verið einkennalaus smitberi með því að skoða samhengið milli sýndar smásærra einkenna riðu, svo sem myndun safabóla og uppsöfnunar PrPSc í heila, og mismunandi PrP arfgerða.

Efniviður og aðferðir: Heilasýni úr heilli riðuhjörð (n=65) voru skoðuð með þremur mismunandi greiningaraðferðum riðu, vefjameinafræði, ónæmislitun og Western-blottun fyrir PrPSc. Auk þess voru PrP arfgerðir greindar með skerðibútameltu, bræðslugeli og DNA raðgreiningu.

Niðurstöður: Fimm kindur greindust með klínísk einkenni riðu, en fjórar þeirra báru áhættuarfgerðina VRQ. Af þeim sem ekki höfðu nein ytri einkenni, var 21 sem sýndi væg einkenni vefjaskemmda sem gætu bent til byrjunarstigs riðusjúkdómsins. Af þeim sem greindust jákvæðar fyrir PrPSc, voru allar nema ein arfhreinar eða arfblendnar hvað varðar VRQ.

Ályktanir: Athyglisvert er að engin af þeim kindum sem greindust jákvæðar fyrir PrPSc, báru arfgerðina AHQ, sem er talin valda lágu næmi fyrir riðusmiti. Þessar niðurstöður benda því til að íslenskt fé með AHQ arfgerðina sé ekki einkennalaus smitberi riðu.



V 04 Um mannaóværu á Íslandi að fornu og nýju

Karl Skírnisson



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: karlsk@hi.is

Tuttugu tegundir hryggleysingja eru þekktar af því að erta, bíta eða sjúga blóð úr mönnum á Íslandi. Fjórar þessara tegunda eru hýsilsérhæfð mannasníkjudýr. Þær eru mannakláðamaur Sarcoptes scabiei, flatlús Phthirus pubis, höfuðlús Pediculus humanus capitis og fatalús P.h. humanus. Síðastnefndu tegundinni var útrýmt um miðbik 20. aldarinnar en hinar þrjár eru enn landlægar en fáséðar. Óhýsilsérhæfðar óværutegundir eru mannaflóin Pulex irritans og veggjalúsin Cimex lectularius en báðar geta einnig lifað á blóði annarra tegunda. Mannaflónni var útrýmt um miðbik 20. aldarinnar en veggjalúsinni á áttunda áratugnum. Ofangreindar óværutegundir, að veggjalúsinni undanskilinni, eru taldar hafa verið hér mjög algengar allt frá landnámi. Veggjalúsin barst til Vestfjarða með norskum hvalföngurum undir lok 19. aldar og dreifðist þaðan til allra landshluta.

Nokkrar tegundir hryggleysingja geta við tilteknar aðstæður ert húð manna hér á landi en lifa að öllu jöfnu annað hvort frítt, eða sem sníkjudýr annarra hryggdýra. Hér ber að telja þrjár blóðsugutegundir (Hirudinea) sem að jafnaði lifa þó á blóði vatnafugla. Haustið 1997 fannst sundlirfa fuglablóðögðu (Schistosomatidae) í vaðtjörn Fjölskyldugarðsins í Reykjavík og hefur hún valdið útbrotum á fótum barna sem þar hafa verið að vaða. Þá skulu nefndar fimm tegundir maura: Lundalúsin Ixodes uriae sem er hér mjög algeng á sjófuglum, skógarmaurinn I. ricinus sem hingað berst árlega með farfuglum, rottumaurinn Ornithonyssus bacoti sem stundum berst inn í hýbýli frá rottubælum og katta- og hundamaurarnir Cheyletiella parasitovorax og C. yasguri sem stundum angra hunda- og kattaeigendur. Einnig eru tvær tegundir fuglaflóa (Ceratophyllus gallinae og C. garei), tvær tegundir spendýraflóa (Nosopsyllus fasciatus og Ctenopthalmus agyrtes) og bitmý Simulium vittatum sólgnar í mannablóð og valda stungur þeirra iðulega ofnæmisviðbrögðum.



V 05 Ormar í meltingarvegi sauðfjár á Íslandi, tíðni þeirra, magn og landfræðileg útbreiðsla

Sigurður H. Richter



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: shr@hi.is



Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna tegundir, tíðni, magn og landfræðilega útbreiðslu þeirra orma sem finnast í meltingarvegi sláturlamba að hausti.

Efniviður og aðferðir: Í sláturtíðinni í september-október 1992 og 1993 var safnað meltingarvegum úr alls 94 eðlilegum og heilbrigðum lömbum, fjögurra til sex mánaða gömlum, frá 94 bæjum dreifðum um landið.

Leitað var í meltingarvegunum að fullþroska ormum. Lengd allra bandormsbúta var mæld. Allir þráðormar stórvaxnari tegunda voru tegundagreindir og taldir. Til að áætla fjölda smávaxnari þráðormategunda voru tekin hlutasýni (1/25), karldýr tegundagreind og talin og margfaldað með tveimur vegna kvendýra.

Niðurstöður: Bandormur: Moniezia expansa (tíðni 67,0% / meðalheildarlengd orma í sýktum lömbum 8,08 m / mesta heildarlengd orma í lambi 56,37 m).

Stórir þráðormar: Bunostomum trigonocephalum (tíðni 2,1% / meðalfjöldi í sýktum lömbum 1 / hámarksfjöldi í lambi 1); Chabertia ovina (39,4% / 7,5 / 39); Oesophagostomum venulosum (27,7% / 4,3 / 22); Trichuris ovis (35,1% / 2,7 / 11).

Litlir þráðormar: Teladorsagia circumcincta (+ T. trifurcata og T. davtiani) (fundin tíðni 98,9% / meðalfjöldi ef sýking fannst 1749 / hámarksfjöldi í lambi 7050); Trichostrongylus axei (6,4% / 200 / 700); T. capricola (51,1% / 299 / 1700); T. vitrinus (12,8% / 299 / 650); Nematodirus filicollis (80,9% / 1509 / 15750); N. spathiger (67,0% / 582 / 4850); Cooperia oncophora (3,2% / 67 / 100).

Útbreiðslukort var gert fyrir hverja tegund.

Ályktanir: Allar þær tegundir sem áður hafa fundist með vissu í meltingarvegi sauðfjár á Íslandi, fundust í þessari rannsókn. Allar algengari tegundirnar fundust í flestum héruðum lantisins en magn sumra tegundanna virðist vera breytilegt eftir landshlutum. Ormalyfjagjöf tíðkast að vetrarlagi og tegundir sem eiga erfitt með að lifa veturinn af utan kindarinnar eru sjaldgæfari.



V 06 Hvers vegna eru sníkjudýr sjaldgæf í brúnrottum í holræsakerfi Reykjavíkurborgar?

Karl Skírnisson, Erlín Jóhannsdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: karlsk@hi.is



Inngangur: Tekist hefur að útrýma brúnrottum Rattus norvegicus í Reykjavík ef undan er skilinn stofn sem nú lifir einangraður í holræsakerfi elstu bæjarhverfanna. Hreiður rottnanna eru í lokuðum kjöllurum eða í afkimum undir húsum og gólfum þar sem holræsi hafa bilað eða eru opin. Fæðu er aflað í holræsunum. Hér er gerð grein fyrir sníkjudýrum þessa einangraða stofns.

Efniviður og aðferðir: Rannsökuð voru sníkjudýr 24 stálpaðra og fullorðinna rottna sem náðust inni í húsum árin 1997 og 1999 eftir að dýrin höfðu komist þangað inn í gegn um opin eða biluð holræsi.

Niðurstöður: Níu tegundir sníkjudýra fundust: Einfrumungarnir Eimeria falciformis, E. nieschulzi og Cryptosporidium parvum; bandormurinn Hymenolepis nana; þráðormarnir Trichuris muris, Syphacia sp. og Heterakis spumosa; maurinn Radfordia sp. og nit lúsarinnar Polyplax spinulosa.

Ályktanir: Allar tegundirnar sem fundust hafa beina lífsferla. Engin þeirra hafði áður fundist í brúnrottum hérlendis, enda slíkt ekki áður verið rannsakað. Tvær tegundanna geta lifað í mönnum; C. parvum og H. nana.

Í brúnrottum í nágrannalöndunum hafa fundist amk. 80 tegundir sníkjudýra. Einungis lítill hluti þeirra (11%) fannst í holræsarottum í Reykjavík. Ástæðan er margþætt. Einangrun landsins gæti hindrað ákveðnar tegundir í því að berast til landsins. Verulegu máli skiptir að í lokuðu vistkerfi holræsanna vantar millihýsla svo sem snigla, krabbadýr og skordýr sem fjölmargar tegundir rottusníkjudýra þurfa að fjölga sér í til þess að geta lokið lífsferli sínum. Sníkjudýr með flókna lífsferla eru því dæmd til að deyja út í holræsakerfinu. Skipulögð eitrunarherferð í holræsabrunna yfir sumarmánuðina veldur árlega mikilli fækkun í rottustofninum og staðbundinni útrýmingu. Sjaldgæf sníkjudýr gætu því hafa dáið út við fækkunaraðgerðir.



V 07 Innri sníkjudýr/sýklar í þorskseiðum á fyrsta og öðru aldursári við Ísland

Matthías Eydal, Árni Kristmundsson, Slavko H. Bambir, Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir, Sigurður Helgason



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: meydal@hi.is



Tilgangur: Markmið verkefnisins er að kanna hvenær innri sníkjudýr/sýklar taka að berast í þorskseiði á fyrsta og öðru aldursári og hver framvinda sýkingar verður.

Efniviður og aðferðir: Lokið er skoðun á um 1000 seiðum, tveggja, fjögurra, sex, 10 og 18 mánaða gömlum, sem safnað var 1998-1999. Seiðin voru ýmist rannsökuð strax; sett í formalín-dúa til vefjarannsóknar og sníkjudýraskoðunar eða fryst til sníkjudýra- eða veirurannsóknar síðar. Blóðsýni voru tekin til veiru- og sníkjudýrarannsókna úr seiðum sex mánaða og eldri.

Niðurstöður: Eftirtalin innri sníkjudýr hafa fundist: Frumdýr (Protozoa): Hnísildýr (Coccidia), Loma sp. og Myxosporea. Ögður (Digenea): Brachyphallus crenatus, Derogenes varicus, Lepidapedon elongatum, Podocotyle atomon, Prosorhynchoides gracilescens, Stephanostomum sp. Bandormar (Cestoda): Pseudophyllidea og aðrar "plerocercoid" lirfur. Þráðormar (Nematoda): Anisakis simplex, Cucullanus cirratus, Hysterothylacium aduncum, Pseudoterranova decipiens. Krókhöfðar (Acanthocephala): Corynosoma sp., Echinorhynchus gadi. Innri sníkjudýr fundust fyrst í tveggja mánaða gömlu seiði. Að minnsta kosti sex tegundir sníkjudýra hafa fundist í fjögurra mánaða seiðum, 11 í sex mánaða, 11 í 10 mánaða og 17 í 18 mánaða seiðum. Sumar tegundir sníkjudýra (D. varicus, P. atomon, A. simplex) náðu 100% tíðni og fjöldi varð allt að 270 (L. elongatum) í seiði. Aðrar sýkingar: Ichthyophonus hoferi sveppasýking í ýmsum líffærum, epitheliocystis í tálknum (bakteríusýking) og æxli í gervitálknum. Þessar sýkingar fundust fyrst í sex mánaða seiðum. Í blóðsýnum fundust engin merki sýkingar. Niðurstöður veirurannsókna liggja ekki enn fyrir.

Tíðni einstakra tegunda sníkjudýra svo og einstaklingsfjöldi þeirra í hverju seiði jókst jafnan með aldri seiðanna, en þó var munur eftir veiðisvæðum og milli ára.

Þakkir: Verkefnið er styrkt af Rannsóknarráði Íslands og Lýðveldissjóði.



V 08 Ormar í meltingarvegi og lungum geita á Íslandi, tíðni þeirra og magn

Árni Kristmundsson, Sigurður H. Richter



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: shr@hi.is



Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka hvaða ormategundir fyndust í geitum, tíðni þeirra og magn. Þetta er fyrsta skipulega rannsóknin á sníkjudýrum í geitum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Í sláturtíðinni í september-október 1998 var safnað meltingarvegum úr alls 15 kiðum, frá alls átta bæjum á Vestur- og Norðurlandi.

Leitað var í meltingarvegunum að fullþroska ormum. Lengd allra bandormsbúta var mæld. Allir þráðormar stórvaxnari tegunda voru tegundagreindir og taldir. Til að áætla fjölda smávaxnari þráðormategunda voru tekin hlutasýni (1/25), karldýr tegundagreind og talin og margfaldað með tveimur vegna kvendýra. Leitað var í lungnaberkjum að fullþroska þráðormum og í saur að lirfum þráðorma sem lifa í lungum.

Niðurstöður: Bandormur: Moniezia expansa (tíðni 20% / meðalheildarlengd orma í sýktum kiðum 3,31 m / mesta-heildarlengd orma í kiði 6,25 m).

Stórir þráðormar: Chabertia ovina (tíðni 27% / meðalfjöldi í sýktum kiðum 5,3 / hámarksfjöldi í kiði 16); Oesophagostomum venulosum (7% / 2/ 2); Trichuris ovis (53% / 2,3 / 7).

Litlir þráðormar: Teladorsagia circumcincta (+ T. trifurcata og T. davtiani) (fundin tíðni 100% / meðalfjöldi ef sýking fannst 2238 / hámarksfjöldi í kiði 5250); Trichostrongylus capricola (40% / 117 / 250); Nematodirus filicollis (87% / 177 / 450); N. spathiger (60% / 261 / 500).

Lungnaþráðormur: Muellerius capillaris lirfur í saur (tíðni 46% / meðalfjöldi í g saurs í sýktu kiði 21 / hámarksfjöldi í g saurs í kiði 53).

Ályktanir: Ormategundirnar, tíðni þeirra og magn er ekki ólíkt því sem vænta mætti í lömbum á Íslandi á sama aldri og árstíma. Aðrar ormategundir, sem fundist hafa í meltingarvegi og lungum sauðfjár á Íslandi en fundust ekki í þessari rannsókn, eru sjaldgæfari og er það líklega meginorsök þess að þeirra varð ekki vart.



V 09 Campylobacter faraldur í mönnum á Íslandi 1998-2000

Hjördís Harðardóttir1, Haraldur Briem2, Karl G. Kristinsson1



1Sýklafræðideild Landspítala Hringbraut, 2landlæknisembættið

Netfang: hjordish@rsp.is



Inngangur: Frá 1980 hefur verið leitað að Campylobacter í öllum saursýnum, sem borist hafa sýklafræðideild Landspítala Hringbraut frá sjúklingum með niðurgang. Árið 1996 varð leyfilegt að selja ferskt fuglakjöt í verslunum hér á landi. Í kjölfar þess jókst neysla fersks kjúklingakjöts verulega. Mikil aukning Campylobacter sýkinga í mönnum árið 1998 leiddi til umfangsmikillar faraldsfræðilegrar könnunar.

Efniviður og aðferðir: Rannsóknastofur og læknar tilkynna sóttvarnalækni jafnóðum um Campylobacter tilfelli. Kannað er hvort sjúklingur hafi smitast innanlands eða erlendis, hver sé líkleg uppspretta smits og hvort um hópsýkingu geti verið að ræða. Haft var náið samstarf við yfirdýralæknisembættið og Hollustuvernd, sem hafa eftirlit með útbreiðslu Campylobacter í dýrum og matvælum.

Niðurstöður: Nýgengi Campylobacter sýkinga í mönnum hélst mjög lágt allt fram til ársins 1996 (meðaltal 14,6/105). Upp úr því fór það vaxandi og var 33,1; 34,7; 80,4 og 157 árin 1996, 1997, 1998 og 1999. Aukningin var mest áberandi í aldurshópnum 20-29 ára og yfir sumarmánuðina. Langflestar sýkinganna reyndust innlendar og tengdust oftast neyslu á kjúklingum. Við rannsókn á matvælum í stórmörkuðum fannst Campylobacter í 44% sýna af kjúklingakjöti, en ekki í öðrum matvælum. Vorið 1999 var gripið til íhlutandi aðgerða. Séu bornir saman fyrstu átta mánuðir áranna 1999 og 2000 hefur orðið 73% fækkun á innlendum og 51% fækkun á heildarfjölda tilfella.

Ályktanir: Árin 1998 og 1999 varð faraldur Campylobacter sýkinga í mönnum á Íslandi. Íhlutandi aðgerðir hófust vorið 1999 og var höfuðáhersla lögð á að draga úr Campylobacter mengun í kjúklingakjöti og að fræða starfsfólk í matvælaiðnaði og almenna neytendur um rétta meðhöndlun matvæla. Í kjölfarið hefur sýkingum fækkað marktækt.



V 10 Rafeindasmásjárrannsókn á virkni mónókapríns gegn hópi B streptókokka

Guðmundur Bergsson1, Jóhann Arnfinnsson2, Ólafur Steingrímsson3, Halldór Þormar1



1Líffræðistofnun HÍ, 2Rannsóknastofa í líffærafræði læknadeild HÍ, 3sýklafræðideild Landspítalans

Netfang: gudmundb@hi.is

Inngangur: Sýnt hefur verið fram á breiða sýkladrepandi virkni meðallangra, mettaðra og langra, ómettaðara fitusýra og 1-mónóglýseríða af þeim. Til að athuga nánar í hverju virkni fituefna á bakteríur er fólgin voru frumur hóps B streptókokka meðhöndlaðar með mónókapríni og þær síðan skoðaðar í smásjá og rafeindasmásjá.

Efniviður og aðferðir: Miklu magni af bakteríum var blandað saman við mónókaprín sem leyst hafði verið upp í Todd Hewitt broði. Eftir ákveðinn tíma var virkni mónókapríns stöðvuð og sýni undirbúin fyrir skoðun í flúrljómandi smásjá og skönnunarrafeindasmásjá, auk þess sem skornar voru sneiðar af bakteríunum og þær skoðaðar í rafeindasmásjá.

Niðurstöður: Bakteríur sem meðhöndlaðar voru með 5 mM mónókapríni í 10 mínútur lituðust rauðar sem þýðir að frumurnar eru dauðar og himnur þeirra gegndræpar fyrir litarefninu propidium iodide sem kemst aðeins í gegnum skaddaðar frumuhimnur. Í skönnunarrafeindasmásjánni sást enginn munur á yfirborði, stærð eða lögun baktería fyrir og eftir meðhöndlun með 10 mM mónókapríni í 10 mínútur. Eftir meðhöndlun í 30 mínútur með 10 mM mónókapríni og skoðun á örþunnum sneiðum af frumum í rafeindasmásjá sást greinilega að frumuhimnan var horfin auk þess sem forðakorn virtust leysast upp og hverfa.

Ályktanir: Af þessum smásjárrannsóknum má ráða að lítill styrkur mónókapríns drepur hóp B streptókokka eftir stuttan meðhöndlunartíma. Mónókaprín hefur engin sjáanleg áhrif á vegg bakteríunnar, stærð hennar eða lögun, sem stafar sennilega af því hversu sterkur og stífur frumuveggur gram-jákvæðra baktería er. Virkni mónókapríns við að drepa hóp B streptókokka virðist því vera fólgin í því að fituefnið smýgur í gegnum þéttriðið peptídóglýkanlag í vegg bakteríunnar og leysir upp frumuhimnu hennar.



V 11 Innlagnir á Landspítala Hringbraut vegna Campylobacter sýkinga á tímabilinu 1995-1999

Sigríður Björnsdóttir1, Hjördís Harðardóttir2, Sigurbjörn Birgisson1



1Lyflækningadeild og 2sýkladeild Landspítala Hringbraut

Netfang: sigurbjb@rsp.is



Inngangur: Campylobacter jejuni er algengasta orsök niðurgangs af völdum baktería hérlendis og hefur nýgengi sýkingarinnar á Íslandi tífaldast á tímabilinu 1995-1999. Lítið er vitað um fjölda og afdrif þeirra sjúklinga sem leita á sjúkrahús með Campylobacter sýkingu. Aðeins ein rannsókn hefur verið birt varðandi sjúkrahúsinnlagnir af völdum Campylobacter sýkinga.

Efniviður og aðferðir: Sjúkraskrár sjúklinga sem lögðust inn á Landspítala Hringbraut vegna Campylobacter sýkingar á tímabilinu 1995-1999 voru kannaðar með tilliti til ýmissa þátta.

Fjöldi innlagna vegna Campylobacter sýkinga á Landspítala var athugaður.

Niðurstöður: Á tímabilinu lögðust 104 sjúklingar með Campylobacter sýkingu á Landspítala Hringbraut og á árunum 1997-1999 lögðust að meðaltali 18% sjúklinganna inn á sjúkrahús. Kynjahlutfall var jafnt. Meðalaldur sjúklinga var 32 ár (bil 0,5-87 ára), 82,7% sjúklinga voru yngri en 40 ára. Flestar (47%) innlagnir voru yfir sumarmánuðina og í 77% tilvika var um innlent smit að ræða. Flestir (61,5%) sjúklinganna voru útskrifaðir af bráðamóttöku eftir um eins sólarhrings legu. Um 50% lögðust inn á lyflækningadeild og var legutími innlagðra (fimm dagar í 72,5% tilfella. Algengustu einkennin voru niðurgangur (92,3%), kviðverkir (71,2%) og hiti (70,2%). Nær 80% sjúklinga fengu vökvagjöf í æð og 67,3% sjúklinga fengu sýklalyf, ýmist cíprófloxacín (61,4%) eða erýþrómýcín (38,6%). Vegna óljósrar greiningar fóru 10 sjúklingar í ristilspeglun, sex í ómskoðun af kviði, fimm í yfirlitsmynd af kvið, tveir í botnlangatöku, tveir í magaspeglun, tveir í tölvusneiðmynd af kvið og tveir í mjógirnismyndatöku.

Ályktanir: Um einn af hverjum fimm sjúklingum með staðfesta Campylobacter sýkingu leggst inn á sjúkrahús og um þriðjungur þarf innlögn á legudeild. Hluti þeirra fer í kostnaðarsamar og erfiðar rannsóknir.



V 12 Lífsferlar og útbreiðlslumynstur agða sem lifa sníkjulífi í sjó- og fjörufuglum

Karl Skírnisson1, Kirill V. Galaktionov2



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Dýrafræðistofnun rússnesku Vísindaakademíunnar í Pétursborg

Netfang: karlsk@hi.is



Markmið: Að rannsaka tegundir og lífsferla ögðulirfa (Digenea) í vistkerfi fjöru og grunnsævis við suðvesturströnd Íslands og bera niðurstöðurnar saman við erlendar athuganir.

Efniviður og aðferðir: Krufnir voru 2556 fjöru- og grunnsævissniglar úr Skerjafirði og frá Grindavík og lirfur í þeim (sporocysts, rediae, cercariae, metacercariae) greindar til tegundar.

Niðurstöður: Lirfur 23 ögðutegunda fundust. Flestar tegundir (12) fundust í þangdoppum, níu fundust í klettadoppum, sex í baugasnotru, sex í stranddoppu, tvær í nákuðungi og ein í þarastrút. Fimm agðanna hafa tveggja hýsla (snigill-fugl) lífsferil án frítt lifandi lirfustiga (G1). Hér berast egg sníkjudýranna í sjó með fugladriti og eru étin þar af sniglum. Hinar tegundirnar 18 hafa flókna tveggja eða þriggja hýsla lífsferla (snigill-annar hryggleysingi-fugl), (G2). Hér eru eitt eða fleiri frítt lifandi lirfustig í lífsferlinum. Úr eggi klekst bifhærð lirfa sem syndir um í vatni og leitar uppi snigil, snigilinn yfirgefur sundlirfur sem leita uppi aðra hryggleysingja til að fjölga sér í eða mynda þolhjúp á fæðutegundum lokahýsils.

Ályktanir: Flóknir lífsferlar (G2) reyndust vera algengari í sniglum við suðvesturströnd Íslands heldur en á strandlengju norður Noregs og Barentshafs þar sem einfaldir lífsferlar (G1) eru ráðandi. Munur á fjölbreytileika og einstaklingsfjölda millihýsla (hryggleysingja) og lokahýsla (fugla) í vistkerfum þessara svæða skýrir þetta mynstur en víðtæk áhrif Golfstraumsins við Suðvesturland gegna lykilhlutverki í að skerpa þessar andstæður.

Íslenskar stranddoppur lifa í litlum, einangruðum tjörnum á sjávarfitjum hér á landi þar sem mikilla sveiflna gætir í seltu- og hitastigi. Í þeim viðhaldast einkum tegundir sem hafa einfalda lífsferla (G1).



V 13 Salmónella í sauðfé á Íslandi

Sigríður Hjartardóttir1, Jakobína Sigurðardóttir2, Signý Bjarnadóttir1, Guðbjörg Jónsdóttir1, Eggert Gunnarsson1



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2embætti yfirdýralæknis

Netfang: sigrhj@hi.is



Inngangur: Árið 1995 varð vart matareitrunar hjá fólki sem rakin var til salmónellusmits í sviðum. Að því tilefni var gerð úttekt á salmónellusmiti í sauðfé og var markmið þeirrar úttektar að kanna nánar algengi salmónellusmits í sauðfé og hvar og hvernig smit ætti sér stað.

Efniviður og aðferðir: Rannsakað var sauðfé frá 50 bæjum á Suðvesturlandi en á því landsvæði hafði salmónellusmits orðið vart. Rannsökuð voru saursýni úr lambám og saursýni, svið og hálskirtlar úr sláturfé. Til samanburðar voru athuguð saursýni og hálskirtlar úr sláturfé frá fimm bæjum á Vestfjörðum. Við salmónellugreininguna var beitt hefðbundnum ræktunaraðferðum auk lífefnafræðilegra prófa og greiningar í sermisflokka.

Niðurstöður: Salmónellusýklar greindust ekki í saur lambáa. Þeir greindust aftur á móti í hálskirtlum sláturfjár frá þremur bæjum á Suðvesturlandi og frá tveimur bæjum frá Vestfjörðum. Salmónellusýklar fundust einnig í saursýnum sláturfjár frá þremur bæjum á Vestfjörðum.

Ályktanir: Salmónellusmit er fremur sjaldgæft í sauðfé hérlendis. Salmónellusýklar fundust bæði í saur og hálskirtlum. Heilbrigðir smitberar geta því auk þess að skilja sýkilinn út með saur borið hann í hálskirtlum. Þar sem salmónellusýklar fundust ekki í frárennsli frá sláturhúsum virðist smit sem fundist hefur í sviðum ekki verða við slátrun. Líklegast er að sauðfé smitist á afrétti þar sem salmónellusýklar fundust ekki í saur lambáa að vori áður en rekið var á afrétt. Sennilegast er að mávar og hrafnar mengi vatsból á afrétti. Hærri tíðni salmónellusmits í sauðfé á Vestfjörðum, þar sem afréttur er mjög þröngur, styður þá ályktun.

Þakkir: Yfirdýralæknisembættið greiddi kostnað við framkvæmd þessarar rannsóknar.



V 14 Boðefni og efnatogar í RSV sýkingu ungbarna

Stefanía P. Bjarnarson1, Ingileif Jónsdóttir1, Michael Clausen3, Áslaug Pálsdóttir3, Inger María Ágústsdóttir3, Þorgerður Árnadóttir2, Göran Wennergren5, Ásgeir Haraldsson3, Sigurður Kristjánsson3



1Rannsóknastofa í ónæmisfræði, 2veirufræði og 3barnadeildir Landspítala, 4barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur, 5barnadeild Barnaspítalans Queen Silvia, Háskólinn í Gautaborg

Netfang: ingileif@rsp.is



Inngangur: Respiratory syncytial veira (RSV) er ein algengasta orsök veirusýkinga í neðri öndunarvegi ungbarna og sýkjast tveir þriðju barna innan eins árs af RSV. RSV sýking í ungbörnum hefur verið talin auka líkur á astma eða ofnæmi síðar á ævinni. T drápsfrumur eru nauðsynleg vörn gegn veirusýkingum, Th2 frumur hafa verið tengdar sjúkdómseinkennum í RSV sýktum ungbörnum og eósínfíklafjöld (eosinophilia) í lungum tengd við staðbundna minnkun á IFN-g og aukningu á IL-4.

Efniviður og aðferðir: Þessi boðefni ásamt eótaxíni voru mæld í nefskoli (ELISA) og ECP (UniCap) (N-ECP) sem einnig var mælt í sermi (S-ECP).

Tólf heilbrigð ungbörn og 27 (sjö mánaða eða yngri) með RSV sýkingu voru valin. Sýking var staðfest með ræktun og flúrskinslitun.

Niðurstöður: Enginn marktækur munur mældist milli RSV og viðmiðunarhóps í IL-4 (0,69 miðað við 0,86 pg/mL) og IFN-g (0,67 miðað við 0,73 pg/mL). N-ECP var hærra í RSV sýktum en viðmiðunarhópi (795,8 miðað við 61,5 µg/L, p=0,003) en S-ECP var sambærilegt (3,9 miðað við 5,5 pg/L). Í RSV hópnum var fylgni milli IL-4 og N-ECP (R=0,65; p<0,001) og neikvæð fylgni milli IFN-g og N-ECP (R=-0,39; p=0,043). IL-4 og IFN-g framleiðsla fór ekki saman, hvorki í RSV hópnum (R=-0,29; p=0,154) né í viðmiðunarhópnum (R=-0,76; p=0,003). Neikvætt samband var milli IL-4 og eótaxíns (R=-0,47; p=0,015). Eótaxín jókst með aldri í RSV hópnum (R=0,52; p=0,005) en IL-4 var fremur hærra í ungbörnum þriggja mánaðar eða yngri.

Aukning var á N-ECP í RSV sýktum ungbörnum, en ekki S-ECP. Í RSV hópnum var fylgni milli N-ECP og IL-4 en neikvæð við IFN-g og í ungbörnum með hátt IL-4 var IFN-g lágt eða nær ómælanlegt. Aukning á eótaxíni með aldri greindist meðal RSV sýktra ungbarna. Ekki fannst aukin framleiðsla á Th2 boðefnum og/eða minnkuð á Th1 boðefnum í RSV sýktum ungbörnum miðað við heilbrigð.

Ályktun: Við drögum þá ályktun að aukning sé á N-ECP í flestum RSV sýktum ungbörnum sem tengist aukningu á framleiðslu Th2 boðefna.



V 15 Ytri sníkjudýr á þorskseiðum á fyrsta og öðru aldursári við Ísland

Árni Kristmundsson, Matthías Eydal, Slavko H. Bambir, Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir, Sigurður Helgason



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: arnik@hi.is



Inngangur: Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvenær þorskseiði á fyrsta og öðru aldursári byrja að sýkjast af ytri sníkjudýrum og fylgjast með framvindu þeirra sýkinga.

Efniviður og aðferðir: Á árunum 1998-2000 voru um það bil 720 þorskseiði, fjögurra, sex, 10 og 18 mánaða gömul, rannsökuð með tilliti til ytri sníkjudýra. Að auki hafa þrjátíu 22 mánaða nú þegar verið skoðuð með tilliti til krabbadýrsins illu (Lernaeocera branchialis).

Niðurstöður: Bifdýrið (Ciliata) Trichodina sp. fannst aðeins á sex og 18 mánaða gömlum fiski og var tíðnin lág eða innan við 7% (fjöldi í seiði 1-29). Gyrodactylus sp. (agða (Monogenea)) fannst á fáeinum sex mánaða gömlum seiðum og var tíðnin innan við 4% (1-11). Lirfustig krabbadýrsins Caligus sp. fannst á öllum aldurshópum. Árið 1998 fundust engar Caligus-lirfur á fjögurra mánaða seiðum en 1999 var tíðni jafnfngamalla seiða 20% (1-3). Á sex mánaða seiðum var tíðnin yfir 98% (1-51); 53% (1-8) á 10 mánaða seiðum og 36% (1-2) á 18 mánaða seiðum. Tíðni krabbadýrsins Clavella adunca var innan við 12% (1) á sex mánaða seiðum, 22% (1-3) á 10 mánaða seiðum og 46% (1-6) á 18 mánaða seiðum. Illa (L. branchialis) fannst aðeins á 18 og 22 mánaða seiðum og var tíðni sýkinga 10% (1) og 37% (1-2).

Ályktanir: Fjölbreytileiki ytri sníkjudýra eykst með aldri. Trichodina sp. og Gyrodactylus spp. fundust aðeins á fáum einstaklingum en trúlegt er að tíðni þeirra sé vanmetin sökum þess hve sníkjudýrin tapast auðveldlega við söfnun seiðanna. Tíðni L. branchialis og C. adunca hækkar með aldri seiðanna. Tíðni og einstaklingsfjöldi Caligus sp. lirfa fylgir ákveðnu mynstri þar sem hámarkstíðni er náð við sex mánaða aldur seiðanna og í kjölfarið fylgir stiglækkandi tíðni með hækkandi aldri.

Þakkir: Rannsókn þessi er styrkt af Rannsóknarráði Íslands og Lýðveldissjóði.



V 16 Eðlis- og efnafræðilegir eiginleikar blóðkekkjunnar hjá Prevotella melaninogenica

Gunnsteinn Haraldsson, Peter Holbrook



Tannlæknadeild HÍ

Netfang: gah@hi.is



Inngangur: Þó margir sykurkljúfandi stofnar Prevotella ættkvíslarinnar búi yfir sýkiþáttum hafa þeir aldrei tengst tannholdssjúkdómum sterklega. Á rannsóknastofu tannlæknadeildar hafa einagrast, eingöngu úr tannholdssjúklingum, stofnar Pr. melaninogenica sem kekkja rauðar blóðfrumur (RBF). Í rafeindasmásjá sáust festiþræðir (fimbria) á stofnunum, en ekki á viðmiðunarstofnum. Blóðkekkjandi stofnarnir eru ekki af sértegund (Haraldsson, Holbrook. Oral Microbiol Immunol 1998; 13: 362-7). Í þessu verkefni var reynt að skilgreina ýmsa efna og eðlisfræðilega þætti blóðkekkjunar Pr. melaninogenica.

Efniviður og aðferðir: Stofnar voru ræktaðir á FAA blóðagar í þrjá daga og leystir í fosfat-salt dúa (PBS, pH 7,2) og þéttnijöfnuð, OD við 550 nm, að 1,0. Manna rauðar blóðfrumur voru þvegnar þrisvar í PBS og leystar í 2% styrk í sama dúa. Blóðkekkjunarpróf voru framkvæmd í 96 holu bakka með V-botni. Stofnarnir voru þynntir tvöföldum þynningum og jöfnu rúmmáli af 2% rauðum blóðfrumum bætt í hvern brunn og látið standa í fjórar klukkustundir við 4°C. Næmni blóðkekkjunar fyrir sex sykrum var prófuð.

Niðurstöður: Raffinósi, galaktósi og laktósi hindruðu blóðkekkjun Pr. melaninogenica en enginn sykranna hindraði blóðkekkjun Porph. gingivalis. Við hitun baktería að 80°C í 15 mínútur hvarf blóðkekkjun algerlega. Ef bakteríur voru hristar á vortex hristara í 15 mínútur minnkaði blóðkekkjunarhæfileiki bakteríufrumnanna til muna, en flot af hristum frumum hafði sama blóðkekkjunarhæfileika og óhristar bakteríur. Meðhöndlun baktería með trypsíni og chymótrypsíni minnkaði styrk blóðkekkjunar en engin áhrif sáust af meðhöndlun rauðra blóðfrumna með sömu ensímum. Meðhöndlun rauðra blóðfrumna með neuraminíðasa jók styrk blóðkekkjunar.

Ályktanir: Blóðkekkjandi þátturinn á Pr. melaninogenica er prótín sem er hægt að losa frá bakteríufrumunni. Viðtakinn á blóðfrumunum virðist vera sykra sem inniheldur raffinósa, laktósa og galaktósa.



V 17 Taugameinvirkni mæði-visnuveiru ákvarðast ekki einvörðungu af V4 lykkju í hjúpprótíni veirunnar

Benedikta S. Hafliðadóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Agnes Helga Martin, Guðmundur Georgsson, Guðrún Agnarsdóttir, Robert Skraban, Valgerður Andrésdóttir, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: bsh@hi.is



Inngangur: Mæði-visnuveiran (MVV) er lentiveira í kindum náskyld HIV í mönnum og SIV í öpum. Aðalhýsilfrumur mæði-visnuveiru eru hnattkjarna átfrumur en gagnstætt HIV og SIV sýkir hún ekki T-eitilfrumur og veldur ekki ónæmisbælingu. Allar þessar veirur geta sýkt miðtaugakerfið. Veirur sem einangraðar hafa verið úr miðtaugakerfi í HIV og SIV sýkingu eru átfrumusæknar og ræðst sú sækni að einhverju marki af eiginleikum hjúpprótíns veiranna.

Efniviður og aðferðir: Til að kanna hvað ákvarðar meinvirkni mæði-visnuveiru notuðum við blendingsveiru, (VR1) þar sem breytilegasta svæði (bösum 7613-7770) hjúpprótíns veirunnar, hafði verið skipt út, en þar er ríkjandi vækiseining fyrir vaxtarhindrandi mótefni. Þessi bútur var tekinn úr veiru sem veldur litlum vefjaskemmdum í miðtaugakerfi (LV1-1KS1) og settur inn í veiru (KV1772-kv72/67) sem var sérstaklega valin fyrir meinvirkni í miðtaugakerfi. Tvær kindur sem voru sýktar í heila með blendingsveirunni fengu fremur vægar vefjaskemmdir í heila. Þannig að ákveðið var að gera sýkingartilraun til að ganga úr skugga um hvort þessi 157 basapara bútur valdi þeim mun sem er á meinvirkni móðurveiranna í miðtaugakerfi. Sýktar voru sex kindur í heila með blendingsveirunni (VR1) og fimm með taugasækinni samanburðarveiru (VR1-72). Eftir sex mánaða sýkingu voru hóparnir bornir saman með tilliti til veirueinangrunar úr blóði og líffærum, mótefnasvörunar og vefjaskemmda í miðtaugakerfi.

Niðurstöður og ályktanir: Í ljós kom að ekki var marktækur munur á hópunum hvað varðaði vefjaskemmdir í miðtaugakerfi. Taugameinvirkni mæði-visnuveiru ákvarðast því ekki einvörðungu af breytileika í ríkjandi vækiseiningu hjúpprótínsins.



V 18 Vatnssækin hlaup sem innihalda veirudrepandi fituefni fyrirbyggja HSV-2 sýkingu í músum

Johan Neyts1, Þórdís Kristmundsdóttir2, Halldór Þormar3, Erik De Clercq1



1Rega Institute for Medical Research, Katholieke Universiteit Leuven, Belgíu, 2lyfjafræðideild HÍ, 3Líffræðistofnun HÍ

Netfang: thordisk@hi.is



Inngangur: Fyrri rannsóknir hafa sýnt að hlaup sem innihalda mónóglýseríð af kaprínsýru (mónókaprín) eru mjög virk gegn hjúpuðum veirum svo sem vesicular stomatitis veiru (VSV), herpes simplex veiru (HSV), cýtómegalóveiru, respiratory syncytial veiru, visnuveiru og alnæmisveirunni HIV í frumuræktaræti í tilraunaglösum. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort mónókaprínhlaup gætu hindrað HSV-2 smit um leggöng (intravaginal) eða í húð (intracutaneous) í músum, en HSV-2 hefur í in vitro rannsóknum sýnt jafn mikla næmni gegn mónókapríni og HIV veiran.

Efniviður og aðferðir: Við rannsóknir á sýkingu um húð voru 50 míkrólítrar af hlaupi settir á húð deyfðra hárlausra músa. Rispur voru gerðar í húð músanna á um 1 cm2 svæði og sáð (inoculated) með HSV-2 (103,7 PFU/0,05 ml). Við rannsóknir á sýkingu um leggangaslímhúð voru notaðir 50 ml af vírusdreifu (104 PFU/µl) bæði með og án hlaups.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að 20 mM mónókaprínhlaup hindraði leggangasýkingu með HSV2. Einnig hindraði nærvera hlaupsins sáramyndun í húð ef notað var 10 mM eða 20 mM mónókaprínhlaup. Engin erting eða eitrunareinkenni voru sjáanleg eftir að hlaupið var sett á húð eða slímhúð.

Ályktanir: Langtímamarkmið þessarar rannsóknar er að þróa sýkladrepandi lyfjaform sem innihalda fitusýrur, mónóglýseríð og afleiður af þeim sem virk efni. Slík lyfjaform má nota sem forvörn gegn smiti af völdum HIV og annarra veira og baktería sem smita um slímhimnur. Niðurstöður verkefnisins benda til þess að mónókaprínhlaup geti gegnt því hlutverki.



V 19 Sermisþættir sem hindra vöxt mæði-visnuveiru

Valgerður Andrésdóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Benedikta St. Hafliðadóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: valand@hi.is



Inngangur: Sermi úr ýmsum spendýrum hafa hindrandi áhrif á vöxt mæði-visnuveiru. Sýnt hefur verið fram á að þessi veiruhindri er ekki mótefni. Í þessari tilraun athuguðum við áhrif lamba- og kálfasermis á tvo klónaða mæði-visnustofna, stofnana KV1772kv72/67 og LV1-1KS1, sem báðir eru einangraðir úr tilraunakindum á Keldum og eru mjög líkir; aðeins 1% munur er á erfðaefni þeirra.

Efniviður og aðferðir: Æðaflækjufrumur voru sýktar með röð af tvöföldum veiruþynningum og ræktaðar í æti með 5% lambasermi eða 5% kálfasermi, og vöxturinn borinn saman við sömu veiruþynningar í 1% lambasermi.

Niðurstöður og ályktanir: Í ljós kom að bæði lambasermi og kálfasermi hafði hindrandi áhrif á vöxt mæði-visnuveiru og var hindrunin 10-100 falt meiri í kálfasermi en lambasermi. Mæði-visnustofninn LV1-1KS1 var um það bil 100 falt næmari fyrir sermi en stofn KV1772kv72/67. Ýmsar blendingsveirur af þessum tveimur stofnum voru einnig prófaðar og kom í ljós að sermisnæmið fylgdi erfðaefnisbút sem náði yfir vif, tat og hluta af env geni. Ekki er vitað hvaða efni þessi sermishindri er, en tilgáta okkar er sú að þetta gæti verið náttúrulegur bindill á nemann sem veirurnar nota til þess að komast inn í frumur, og að þeir keppi um þessa nema við veirurnar. Munurinn á sermisnæmi veirustofnanna væri þá vegna mismunandi sækni stofnanna í nemann.



V 20 Vaxtarhindrandi mótefnasvar í mæði-visnuveiru sýkingu

Valgerður Andrésdóttir, Robert Skraban, Guðrún Agnarsdóttir, Sigríður Matthíasdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: valand@hi.is



Inngangur: Mæði-visnuveira helst eins og aðrar lentiveirur ævilangt í líkamanum þrátt fyrir öflugt ónæmissvar. Bæði frumubundið og vessabundið ónæmissvar virkjast, en deilt er um hvort vessabundna mótefnasvarið sé virkt í skepnunni við að hefta útbreiðslu veirunnar. Vaxtarhindrandi mótefni, sem eru sérhæfð fyrir stofninn sem sýkir dýrið, myndast tveimur til sex mánuðum eftir sýkingu. Önnur vaxtarhindrandi mótefni, sem eru breiðvirk, en venjulega ekki eins öflug og hin fyrri, myndast 2-48 mánuðum seinna í flestum kindum. Sama mynstur sést í HIV. Við höfum kortlagt ríkjandi vaxtarhindrandi væki á breytilegu svæði í hjúpprótíni veirunnar. Markmið þessarar rannsóknar var að komast að því hvort val væri fyrir veirustofna sem væru ekki óvirkjaðir af sérvirku mótefnasvari (og mótefnin því virk in vivo).

Efniviður og aðferðir: Sautján kindur voru sýktar með visnuveiru K1514. Veirur voru ræktaðar úr blóði á ýmsum tímum og athugað hvort sérhæfð mótefni gegn K1514 hindraði þær. Breytilega svæðið sem við höfum kortlagt vaxtarhindrandi væki á, var magnað með PCR upp úr 10 veirustofnum sem höfðu komist undan sérhæfða mótefnasvarinu og 24 stofnum sem voru hindraðir af sérvirku mótefnunum. PCR afurðirnar voru raðgreindar.

Niðurstöður og ályktanir: Allir veirustofnarnir sem höfðu komist undan sérvirka mótefnasvarinu höfðu stökkbreytingar á vækissvæðinu, en aðeins einn af 24 stofnum sem voru hindraðir af sérvirku mótefnunum. Allar stökkbreytingarnar nema ein voru amínósýrubreytingar, en það bendir til þess að um val sé að ræða. Einnig kom í ljós að allar veirurnar sem höfðu komist undan sérvirku mótefnunum voru einangraðar úr kindum sem aðeins höfðu sérvirk mótefni en ekki breiðvirk. Niðurstöðurnar benda til þess að vaxtarhindrandi mótefni séu virk í kindum sem eru sýktar með mæði-visnuveiru.



V 21 Hvernig kemst mæði-visnuveiran inn í taugakerfið?

Þórður Óskarsson, Guðrún Agnarsdóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Valgerður Andrésdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: valand@hi.is



Inngangur: Mæði-visnuveira (MVV) tilheyrir flokki lentiveira og er því náskyld eyðniveirunni (HIV-1 og HIV-2). Veiran veldur aðallega lungnabólgu, en oft veldur hún einnig heilabólgu, og var taugasjúkdómur (visna) aðaleinkenni í sumum kindahjörðum, þegar veiran gekk hér á landi á árunum 1933-1965. Sett hefur verið fram sú tilgáta, að sumir mæði-visnuveiru stofnar séu heilasæknari en aðrir, og hafa slíkar tilgátur einnig verið settar fram um HIV-1 stofna. Mæði-visnuveiru stofnar úr mæðilungum og visnuheilum hafa verið rannsakaðir á Keldum, og hefur fundist endurtekin núkleotíðröð í stjórnröðum (LTR; long terminal repeats) sem er nauðsynleg til þess að veiran geti vaxið í æðaflækjufrumum, liðþelsfrumum og fíbróblöstum. Í þessari tilraun voru útbúnar veirur sem eru með ýmsar úrfellingar úr þessari endurteknu röð til þess að athuga hvaða basar væru nauðsynlegir fyrir vöxt í þessum frumum.

Einnig var magnað upp veiru-DNA úr formalín-fixeruðum heila- og lungnasýnum úr kindum sem höfðu verið með visnu eða mæði og athugað hvort þessi tvöföldun fannst í þessum sýnum.

Efniviður og aðferðir: Fjórar gerðir af úrfellingum, 5-20 basar, voru gerðar með PCR aðferð í annað eintak tvöföldunar í LTR í klónuðu veirunni KV1772kv72/67. Æðaflækjufrumur og hnattkjarna átfrumur voru sýktar með stökkbreyttu veirunum sýni tekin daglega til víxlritamælinga. DNA var einangrað úr vaxkubbum á hefðbundinn hátt og PCR afurðir raðgreindar. Tvö heilasýni (úr visnukindum), annað frá 1949 en hitt frá 1962, og eitt lungnasýni (úr mæðikind) frá 1962 voru athuguð.

Niðurstöður og ályktanir: Við fundum fimm basapara úrfellingu sem nægir til að hindra vöxt veiranna. Átfrumur eru aðalmarkfrumur mæði-visnuveira í náttúrulegri sýkingu, en veirurnar þurfa ekki þessa tvöföldun í LTR til þess að sýkja átfrumur. Í ljós kom að bæði visnusýnin úr náttúrulegri sýkingu höfðu þessa fimm basa tvöfalda, en ekki mæðisýnið. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um að veirurnar þurfi ef til vill að vaxa í öðrum frumugerðum en átfrumum til þess að komast inn í heila.



V 22 Vif prótín (viral infectivity factor) er nauðsynlegt fyrir vöxt mæði-visnuveiru

Helga Bryndís Kristbjörnsdóttir, Sigríður Matthíasdóttir, Stefán R. Jónsson, Ólafur S. Andrésson, Valgerður Andrésdóttir



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: valand@hi.is



Inngangur: Lentiveirur eru flokkur retróveira sem valda langvinnum sjúkdómum í spendýrum. Meðal lentiveira eru alnæmisveiran (HIV) í mönnum og mæði-visnuveiran (MVV) í kindum. Allar retróveirur hafa sams konar gen fyrir byggingarprótín og ensím, það er gag, pol og env. Auk þessara gena hafa lentiveirur stjórn- og aukagen, sem hafa áhrif á lífsferil veirunnar. Eitt þessara gena er vif (viral infectivity factor). Prótínið sem þetta gen skráir er nauðsynlegt fyrir vöxt HIV-1 og SIV í flestum frumum og fyrir sýkingu in vivo. Hlutverk Vif er óþekkt en nokkrar hugmyndir eru uppi. Talið er að Vif verki á síðustu stigum lífsferils veiranna, það er við myndun nýrra veiruagna eða knappskot þeirra úr frumum. Í þessari rannsókn var gerð úrfelling í vif gen mæði-visnuveiru og vöxtur athugaður í ýmsum frumugerðum.

Efniviður og aðferðir: Klipptur var út StyI bútur úr vif geni klónuðu veirunnar KV1772kv72/67. Þessi bútur er 451 basi, sem er um það bil tveir þriðju hlutar gensins. Æðaflækjufrumur, liðþelsfrumur og hnattkjarna átfrumur voru sýktar með þessari nýju veiru og sýni tekin daglega til víxlritamælinga, en virkni víxlrita í frumufloti var tekið sem mælikvarði á veirumagn.

Niðurstöður og ályktanir: Í ljós kom að mæði-visnuveirur með óvirkt Vif prótín uxu illa í öllum frumugerðum. Líklegt er því að Vif virki eins í mæði-visnuveiru og í HIV og SIV.



V 23 Notagildi mælinga á sértækum Mycoplasma pneumoniae IgM mótefnum í sermi til greiningar á sýkingu

Guðrún Baldvinsdóttir, Auður Antonsdóttir, Ester Hafsteinsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Guðrún S. Hauksdóttir1



Rannsóknastofa í veirufræði Landspítala Hringbraut, 1nú við störf í Noregi

Netfang: geb@rsp.is



Inngangur: Mycoplasma pneumoniae er algeng orsök öndunarfærasýkinga, sérstaklega hjá börnum og ungu fólki og veldur þá oft neðri loftvegasýkingu. Skjótrar greiningar er þörf þar sem aðrir sýklar geta valdið sömu einkennum og bakterían er ónæm fyrir ß-lactam sýklalyfjum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna notagildi mælinga á sértækum M. pneumoniae IgM mótefnum í sermi, samanborið við mótefnamælingar með komplementbindingsprófi (KBP). Næmi komplementbindingsprófs er lágt í upphafi sýkingar og erfitt er að túlka vægt hækkuð mótefni.

Efniviður og aðferðir: Afturvirk rannsókn. Notað PLATELIA M. pneumoniae IgM (Sanofi Diagnostics Pasteur).

I. Sjúklingahópur: Allir sjúklingar sem greindust með marktæka hækkun mýkóplasmamótefna í komplementbindingsprófi á rannsóknastofu Landspítala í veirufræði frá janúar 1989 til júlí 1999, alls 132. Mæld voru blóðsýnapör (264 sýni). Kynjadreifing var jöfn (64/68), miðgildi aldurs var 24,5 (2-70) ár.

II. Viðmiðunarhópur: a) Einkennalausir blóðgjafar, alls 101, (101 sýni). b) Sjúklingar sem greindust með aðra orsök öndunarfærasýkingar, alls 65 (130 sýni).

Niðurstöður: Í sjúklingahópnum greindust 104/132 (79%) með jákvætt mýkóplasma IgM, þar af voru 58/59 (98%) jákvæðir í aldurshópnum 20 ára eða yngri. Í sýni I í sjúklingahópnum voru 11/132 (8%) með háan KBP títra 1/64 en 50/132 (38%) greindust með jákvætt IgM, þar af 31/59 (52%) í aldurshópnum 20 ára eða yngri. Samanborið við sögulengd var IgM prófið jákvætt að minnsta kosti tveimur til þremur dögum áður en hækkun fékkst í KBP títra. Í viðmiðunarhópnum voru 3/101 blóðgjöfum IgM jákvæðir og 2/130 sýnum með aðra orsök sýkinga. Sértækni reyndist 98%.

Ályktanir: Mýkóplasma IgM mæling bætir greiningu, sérstaklega hjá sjúklingum 20 ára eða yngri en kemur ekki í staðinn fyrir komplementbindingspróf hjá eldri aldurshópum. Prófið greinir sýkingu fyrr í sjúkdómsferlinu og eykur líkur á greiningu með einu blóðsýni í stað blóðsýnapars. Sértækni prófsins var góð.



V 24 29 kDa prótínkljúfur, AsaP2, er úteitur Aeromonas salmonicida undirtegundar achromogenes

Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir1, Íris Hvanndal1, Antony Willis2, Valgerður Andrésdóttir1



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2MRC Immunochemistry Unit, Biochemistry, University of Oxford, UK

Netfang: bjarngud@hi.is



Inngangur: Aðalúteitur Aeromonas salmonicida undirtegund achromogenes er 20 kDa málmháður kaseínasi. Annar málmháður prótínasi með 29 kDa mólþunga, AsaP2, hefur greinst í seyti bakteríunnar. Markmið rannsóknarinnar var að einangra og skilgreina virkni AsaP2 prótínasans.

Efniviður og aðferðir: Utanfrumuafurðir A. salmonicida undirtegund achromogenes voru framleiddar og AsaP2 einangrað með útskiljun úr SDS-geli. Hreinu ensími var sprautað í lax. Í ljós kom að ensímið var ekki banvænt í skammtinum 100µg/fisk (LD50 fyrir AsaP1 = 0,03 µg/fisk) en framkallaði vefjaskemmdir umhverfis stungustað. Fimmtán amínósýrur (AS) á N-enda auk þriggja innri AS raða úr prótíninu voru greindar úr tryptic peptíðum, þreifarar smíðaðir og notaðir í PCR prófi. PCR afurðin var síðan raðgreind.

Niðurstöður og ályktanir: Raðgreiningin leiddi í ljós mikinn skyldleika við eprA1 gen A. hydrophila stofns sem einangraður var úr sjúkum manni. EprA1 genið skráir 29 kDa málmháðan prótínkljúf. Asa P2 genið var allt raðgreint. Niðurstöður sýndu 89% samsvörun við AS röð eprA1 prótínsins. Hundrað prósent samsvörun var á milli basaraða genanna á svæði sem skráir AS röð virknisvæða prótínasanna.



V 25 Rannsókn á útbreiðslu salmónellasýkla í búfé á Suðurlandi

Guðbjörg Jónsdóttir, Signý Bjarnadóttir, Kolbrún Birgisdóttir, Kristín Grétarsdóttir, Vala Friðriksdóttir, Eggert Gunnarsson



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum

Netfang: eggun@hi.is



Inngangur:
Í lok septembermánaðar 1999 greindist sýking af völdum

Salmonella typhimurium við krufningu á folaldi frá bæ í Vestur Landeyjum í Rangárvallasýslu. Í nóvemberlok greindist S. typhimurium í saursýni frá kú á stóru kúabúi í Djúpárhrepp í sömu sýslu. Við nánari rannsókn fannst salmónella í um 40% sýna úr nautgripum á bænum. Á næstu mánuðum greindist S. typhimurium til viðbótar í sýnum úr hrossum frá þremur bæjum í Rangárvallasýslu. Öll sýnin voru tekin vegna rannsókna á orsökum veikinda eða dauða viðkomandi dýra. Jafnframt var farið að fylgjast með salmónella mengun í sláturhúsum á Suðurlandi. Í einu tilviki mátti rekja salmónella mengun í sláturhúsi til hrossa á bæ í Hvolhreppi. Bæir sem salmónella greindist á voru settir í farbann og undir sérstakt eftirlit héraðsdýralæknis. Við rannsókn hefur salmónella greinst í nautgripum, sauðfé, hrossum og hundum á þessum bæjum. Dæmi er um að heimilisfólk hafi veikst. Í framhaldi af þessu var hrundið af stað yfirgripsmikilli rannsókn á útbreiðslu salmónella í búfé á Suðurlandi.

Efniviður og aðferðir: Á tímabilinu 17. mars til 25. júní 2000 voru tekin saursýni á býlum í Rangárvallasýslu neðan þjóðvegar 1 milli Þjórsár og Markarfljóts. Sýni voru tekin af eftirlitsdýralæknum yfirdýralæknisembættisins. Tekin voru sýni úr 1635 nautgripum frá 60 bæjum, 350 hrossum frá 26 bæjum, 140 sauðkindum frá 10 bæjum og 104 svínum frá fjórum bæjum. Oftast voru sýni frá 5-10 gripum sett saman í safnsýni til ræktunar. Til þess að fylgjast með salmónella mengun í sláturhúsum voru settir vöndlar í niðurföll og tekin stroksýni af skrokkum. Notaðar voru hefðbundnar ræktunaraðferðir til einangrunar og staðfestingar á salmónella. Sermisgreining var framkvæmd á sýkladeild Landspítalans.

Niðurstöður: S. typhimurium fannst í nautgripum á einum bæ í Rangárvallahreppi og á einum bæ í Austur-Landeyjum. S. typhimurium fannst einnig í hrossum á öðrum bæjanna og til viðbótar á einum bæ í Ásahreppi.

Ályktanir: Aukin tíðni sjúkdóma í búfé á Suðurlandi af völdum salmónellasýkla gaf fulla ástæðu til að óttast að ef til vill væru salmónellasýklar útbreiddari á þessu landsvæði en menn höfðu áður gert sér grein fyrir. Niðurstöður þessarar athuganar benda ekki til að svo sé. Í mörgum tilvikum hefur mátt finna tengsl á milli þeirra bæja þar sem salmónella hefur greinst.

Þakkir: Yfirdýralæknisembættið greiddi kostnað við framkvæmd þessarar rannsóknar.



V 26 Sýklalyfjaleit í sláturdýrum

Signý Bjarnadóttir1, Sigríður Hjartardóttir1, Guðbjörg Jónsdóttir1, Vala Friðriksdóttir1, Sigurður Örn Hansson2, Eggert Gunnarsson1



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2embætti yfirdýralæknis

Netfang: eggun@hi.is



Inngangur: Gerðar eru sífellt meiri kröfur um hollustu og heilnæmi matvæla. Eftirlit með sýklalyfjaleifum í sláturafurðum eru liður í áætlun yfirdýralæknisembættisins um reglubundnar athuganir á gæðum og hreinleika búfjárafurða. Óhófleg og/eða röng notkun sýklalyfja í alidýraeldi getur haft alvarlegar afleiðingar, bæði fyrir umhverfi mannsins og heilsu. Reglubundnu eftirliti með sýklalyfjaleifum er ætlað að stuðla að réttri notkun sýklalyfja í alidýraeldi.

Efniviður og aðferðir: Á árunum 1991-1999 voru tekin 3432 sýni úr fimm dýrategundum í sláturhúsum víðs vegar um landið til athugunar á sýklalyfjaleifum. Við rannsóknina var beitt agardreifiprófi (agar diffusion test) sem byggir á næmi tveggja bakteríustofna fyrir hinum ýmsu flokkum sýklalyfja.

Niðurstöður: Sýklalyfjaleifar fundust ekki í saufé, hrossum, nautgripum og holdahænsnum. Aftur á móti reyndust 6,5% innsendra sýna úr svínum innihalda sýklalyfjaleifar árið 1994 og 9,8% árið 1995. Sýklalyfjaleifar fundust ekki svínaafurðum hin árin sem rannsóknin náði til.

Ályktanir: Niðurstöður gefa til kynna að íslenskar búfjárafurðir séu almennt lausar við sýklalyfjamengun og er það í samræmi við þá ímynd sem menn vilja gjarnan að íslenskar landbúnaðarafurðir hafi. Helst virðist þörf aðgæslu í notkun sýklalyfja í svínabúskap. Með réttum leiðbeiningum um notkun og útskilnað lyfja má einnig koma í veg fyrir sýklalyfjaleifar í þessum afurðum.



V 27 Campylobacter í dýrum á Íslandi

Kolbrún Birgisdóttir1, Vala Friðriksdóttir1, Guðbjörg Jónsdóttir1, Signý Bjarnadóttir1, Eggert Gunnarsson1, Jarle Reiersen2



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2yfirdýralæknisembættinu

Netfang: eggun@hi.is



Inngangur: Mikil aukning hefur orðið á Campylobacter sýkingum í mönnum á Íslandi á síðustu árum og þá sérstaklega á sýkingum sem eiga uppruna sinn innanlands. Því var ráðist í að kanna útbreiðslu Campylobacter í dýrum á Íslandi.

Efniviður og aðferðir: Við ræktun var notað forræktunaræti og ræktun á sérhæfðum ætum. Við greiningu til tegunda var notað hippurate hydrolysis próf og næmi fyrir nalidixic acid og cephalothin.

Niðurstöður: Í þessari rannsókn fannst Campylobacter í 11 dýrategundum af þeim 15 sem voru athugaðar. Tíðni Campylobacter var 25% í eldishópum kjúklinga og 20% í eldishópum kalkúna. Campylobacter fannst á öllum nautgripabúum sem athuguð voru og reyndust 78% allra nautgripa frá þessum bæjum hafa Campylobacter. Á 69% svínabúa fannst Campylobacter og tíðni Campylobacter í sauðfjárhjörðum var 28%. Campylobacter fannst í 43% máva og einnig fannst Campylobacter í aligæsum, villigæsum, villiöndum og hröfnum. Aftur á móti tókst ekki að einangra Campylobacter úr hundum, köttum, músum og rjúpum. Þær Campylobacter tegundir sem fundust voru Campylobacter jejuni, C. coli, C. lari og C. hyointestinalis.

C. jejuni fannst í öllum þeim dýrategundum sem Campylobacter fannst í á annað borð og reyndist einnig algengasta tegundin því hún fannst í 68% af jákvæðum sýnum.

Ályktanir: Þessi rannsókn sýnir að Campylobacter er algeng í lífríkinu og finnst bæði í búfé og villtum fuglum. Því er full ástæða til að fara varlega við meðhöndlun á matvælum og ómeðhöndluðu yfirborðsvatni.

Þakkir: Verkefnið er hluti af samvinnuverkefni Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, yfirdýralækisembættisins, Hollustuverndar ríkisins, sýklafræðideildar Landspítalans, landlæknisembættisins og Rannsóknastofu fiskiðnaðarins. Verkefnið er styrkt af RANNÍS og Umhverfisráðuneytinu.



V 28 Rafeindasmásjárskoðun á saursýnum úr hrossum með smitandi hitasótt

Vilhjálmur Svansson1, Eggert Gunnarsson1, Guðmundur Georgsson1, Guðmundur Pétursson1, Sigríður Björnsdóttir2, Sigríður Matthíasardóttir1, Sigurður Sigurðarson1, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1, Steinunn Árnadóttir1



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2embætti yfirdýralæknis, Hólaskóla í Hjaltadal, Skagafirði

Netfang: eggun@hi.is



Inngangur: Smitandi hitasótt er nýr sjúkdómur í hrossum hérlendis. Fyrstu tilfelli hitasóttar greindust á Reykjavíkursvæðinu í febrúar 1998 og það ár fór sóttin um landið. Síðustu tilfellin sáust á einangruðum bæjum austanlands í byrjun árs 1999.

Eins og nafn sjúkdómsins bendir til fengu hross hita, oft >41°C. Hitanum fylgdi oft átleysi og deyfð. Sjúkdómseinkenni voru í flestum tilvikum væg og vöruðu oftast í stuttan tíma, eða einn til fjóra daga. Sum hross fengu skitu. Öll hross virtust vera næm fyrir smitefninu. Dánartíðni var lág <0,2% og drápust hross af fylgikvillum, það er hrossasótt (colic) og klumsi (eclampsia). Við krufningar fundust aðallega sjúkdómsbreytingar í meltingarvegi.

Ekki hefur enn tekist að greina orsök sóttarinnar en margt bendir til að um veirusjúkdóm sé að ræða. Mótefnaprófanir gegn þekktum og óþekktum veirusýkingum í hrossum hafa verið neikvæðar og einnig allar tilraunir til að einangra smitefnið í frumurækt. Þegar hitasóttin gekk um landið benti ýmislegt til þess að hún gæti smitast með saur.

Efniviður og aðferðir: Ákveðið var að skoða í rafeindasmásjá öll tiltæk saursýni frá hrossum með hitarsótt. Rafeindasmásjá hefur á liðnum áratugum reynst öflugt hjálpartæki við greiningu á áður óþekkum veirum í meltingarvegi manna og dýra. Skoðuð voru alls 22 saursýni í neikvæðri litun (uranyl acetat).

Niðurstöður og ályktanir: Þrenns konar agnir fundust sem líkjast veirum sem sýkja spendýr. Í fimm hestum fundust agnir sem líkjast kórónaveirum. Stærð þessara agna var á bilinu 100-250 nm með yfirborðstitti (spikes) af stærðinni 19,5-23,5 nm. Í þremur hestum fundust kalicíveirulíkar agnir. Stærð agnanna var 35-38 nm í tveimur hestanna en í einum hesti sáust um það bil 45 nm agnir af þessari gerð. Smáagnir 28-33 nm sem að stærð og lögun mætti líkja við veirur úr píkornaveirufjölskyldunni fundust í sex hestum.



V 29 Samband eðlilegs og afbrigðilegs sýklagróðurs í munni og leggöngum í þungun

Theódór Friðjónsson1, Ásta Óskarsdóttir1, Hrólfur Einarsson2, Arnar Hauksson3, Reynir Tómas Geirsson2, Peter Holbrook1



1Tannlæknadeild HÍ, 2læknadeild HÍ, 3Heilsuverndarstöð Reykjavíkur

Netfang: phol@hi.is



Inngangur: Afbrigðilegur sýklavöxtur í leggöngum, bakteríal vaginósos (BV), hefur tengst síðkomnum fósturlátum, fyrirburafæðingum og fæðingu léttbura (FFL). Tannholdsbólga getur einnig tengst FFL. Innfærsla baktería í blóðrás eða smitun úr leggöngum eru líklegar leiðir.

Efniviður og aðferðir: Kannað var samband á milli eðlilegs og afbrigðilegs bakteríuvaxtar á þessu svæði við upphaf lokaþriðjungs meðgöngu. Níutíu og sex konum í mæðraeftirliti við 30±4 tóku þátt. Úr leggöngum voru tekin strok í ræktun ásamt sýni í pH mælingu, smásjárskoðun og KOH-próf til að greina BV. Sýni úr munni voru tekin milli tanna og tannholds. Spurt var um áhættuþætti fyrirburafæðinga. Ræktaðar voru bakteríur sem eru ríkjandi á þessum svæðum og greindir sveppir og þekktir tannholdssýklar. Hlutfallstölur fyrir sýklana voru fundnar og samanburður gerður milli hópa með tilliti til reykinga, aldurs og barneigna.

Niðurstöður: Meðalmeðgöngutími var 39,6 vikur. Sex konur fæddu börn fyrir tímann. Meðalþyngd barna við fæðingu var 3697 g. Einn léttburi fæddist. Frumbyrjur voru voru 43,9%, fjölbyrjur 56,1%. Á meðgöngu reyktu 22,6%. Mjólkursýrugerill (Lactobacillus) ræktaðist úr tannholdi hjá 48,3% en hjá 79,8% í leggöngum. Sveppir ræktuðust úr tannholdi hjá 30,3% en úr leggöngum hjá 25,8%. Af þátttakendum voru 16,8% með þrjá af fjórum þáttum til greiningar á bakteríal vaginósis jákvæða og önnur 16,8% voru með tvo af fjórum þáttum jákvæða. Ekki var marktækur munur á milli þáttanna sem voru bornir saman milli kvenna sem fæddu létt- eða fyrirbura og þeirra sem fæddu börn í eðlilegri þyngd.

Ályktanir: Fyrri rannsóknir hafa sýnt tengsl á milli tannholdbólgna og fyrir-, léttburafæðinga. Þó að okkar rannsókn styðji ekki þessar niðurstöður komu nokkrir áhugaverðir þættir fram:

1. Hátt hlutfall kvenna (22,8%) reykti á meðgöngu.

2. Hátt hlutfall sveppa fannst í tannholdi.

Þessar rannsókn sýna tilhneigingu til þess að BV sé áhættuþáttur fyrir fyrir- og léttburafæðingar.



V 30 Anti-inflúensu HA mótefni hindra dreifingu inflúensu í nefholi

Ana Araujo1,3, Sverrir Harðarson2, Sveinbjörn Gizurarson1,3



1Lyfjafræðideild HÍ, 2læknadeild HÍ, rannsóknastofa í vefjafræði, Landspítala Hringbraut, 3Lyfjaþróun hf., Geirsgötu 9, 101 Reykjavík

Netfang: sg@lyf.is



Inngangur: Inflúensuveiran binst við sialýl-glýkóprótín og glýkólípíð á yfirborði frumna. Sýnt hefur verið fram á að veiran binst helst við bifhársfrumur í efri og neðri öndunarvegi.

Efniviður og aðferðir: Vefjafræðileg skoðun á nefholi músa, fimm og 30 mínútum eftir innúðun rauðkornakekkja (haemagglutinin, HA) mótefnavaka, sýnir að vakinn hefur náð að dreifast verulega um nefholið, þar með talið inn á taugaþelið (lyktarsvæðið) og inn í kirtlagöng Bowmans (Bowman's channels).

Niðurstöður: Þegar mýs voru bólusettar með HA mótefnavaka, áður en innúðun var framkvæmd, kom í ljós að ónæmiskerfið hindraði dreifingu þess um nefholið. Í þessum músum var dreifing vakans takmörkuð við ákveðið svæði í neðri hluta nefholsins og lítil sem engin dreifing á lyktarsvæðinu eða í kirtlagöngum Bowmans. Lítil sem engin flutningur sást yfir í epithelfrumur á taugaþelinu. Rannsóknin sýndi að bólusetning verndar lyktarsvæðið gegn sýkingingum og hindrar sjúkdómsvaldinn að bindast við taugaþelið í nefholinu.



V 31 Ónæmissvar í kindum bólusettum með DNA bóluefni gegn visnuveiru

Helga María Carlsdóttir, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, Vilhjálmur Svansson, Guðmundur Pétursson



Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.

Netfang: helgamc@hi.is



Markmið verkefnisins er að þróa nýja gerð bóluefnis gegn visnu í sauðfé, bólusetningu með DNA. Sjúkdómurinn orsakast af visnuveirunni sem er af flokki lentiveira. Hefur gengið afar illa að þróa bóluefni gegn lentiveirum, jafnt í mönnum sem dýrum; enn hafa engin bóluefni verið markaðssett gegn þeim. Í verkefninu var byrjað með genin gag og env sem segja fyrir um aðalbyggingarprótín visnuveirunnar.

Gag forveraprótín visnuveirunnar sem framleitt er í veirusýktum frumum er klippt af sérhæfðum visnuveirupróteasa í þrjú þroskuð byggingarprótín veirunnar, capsid, matrix og nucleocapsid. Gag genið var klónað inn í tvær tjáningarferjur, VR1012 og pcDNA3.1(+) og til að auka tjáningu þess var DNA bútnum CTE (constitutive transport element) úr aparetróveirunni MPMV komið fyrir í ferjunum rétt fyrir aftan genið. Tjáning nýju ferjanna var reynd í apanýrnafrumum (COS-7) og liðþelsfrumum úr kindum (FOS) í rækt og var tjáningin mæld með ónæmisblettun (Western blot). Tjáning fékkst á geninu í báðum ferjunum, þó í fremur litlum mæli í kindafrumunum. CTE búturinn jók tjáninguna umtalsvert í COS-7 en hafði engin áhrif í kindafrumunum. Verið er að vinna að því að auka tjáningu gensins í kindafrumum jafnframt því sem unnið er með env genið í sömu tjáningarferjum.

Þrátt fyrir fremur litla tjáningu á gag geninu í kindafrumunum var ákveðið að bólusetja fjórar kindur í forkönnun, tvær með hvorri ferju, VR1012-gag-CTE og pcDNA-gag-CTE. Kindurnar voru bólusettar fimm sinnum, með þriggja vikna millibili. Hver kind fékk 300-500 µg af DNA í hvert sinn, í húð og vöðva. Mótefnasvörun í sermi var mæld með ónæmisblettun gegn heilli visnuveiru og svöruðu allar kindurnar á þroskað capsid prótínið (p25); ein kindin svaraði auk þess á matrix (p16). Þrjár kindanna svöruðu einnig á heila visnuveiru í eitilfrumuörvunarprófi (proliferation assay).



V 32 Athugun á virkni tilraunabóluefna gegn Moritella viscosa sýkingum í laxi

Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir1, Íris Hvanndal1, Gísli Jónsson2, Christian Syvertsen3



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2dýralæknir fisksjúkdóma að Keldum, 3Alpharma AS, Harbitsalleen 3, N-0275 Oslo 2

Netfang: bjarngud@hi.is



Inngangur: Kuldakæra bakterían Moritella viscosa er landlæg í sjó við Íslands strendur. Í laxi orsaka sýkingar roðsár, sem geta verið þrálát og leitt til töluverðra affalla á eldisfiski. Sýkingar hafa einkum verið vandamál á norðurslóð, það er við Ísland, Noreg og Skotland. Þeir M. viscosa stofnar sem hafa einangrast úr íslenskum laxi hafa verið flokkaðir í þrjá hópa (bíótýpur) og hafa vandamál í eldisstöðvum fyrst og fremst verið af völdum baktería úr tveimur hópum (bíótýpa 1 og 2).

Efniviður og aðferðir: Bóluefni sem innihéldu væki ýmist bíótýpu 1 eða 2 (eingild bóluefni), eða þessara stofna auk vækja frá fleiri fisksýklum (fjölgild bóluefni) voru notuð með mismunandi skammtastærðum vækja. Einnig var PBS og tveir mismunandi ónæmisglæðar notaðir til viðmiðunar. Bólusett var með i.p. sprautun svæfðra seiða. Ónæmisvörn var metin í tilraunasýkingum átta vikum eftir bólusetningu. Stofnar af báðum bíótýpum voru notaðir í sýkingartilraunum. Magn mótefna gegn M. viscosa í blóðvatni óbólusettra og bólusettra fiska var mælt með ELISA-prófi.

Niðurstöður og ályktanir: Niðurstöður sýndu að laxinn myndaði ónæmisvörn gegn sýkingu og að það var ekki munur á bíótýpunum tveimur í þessu sambandi. Fjölgild bóluefni mynduðu betri vörn en eingild en ekkert bóluefni veitti góða vörn í tilraunasýkingu. Mótefni gegn M. viscosa mældust í bólusettum laxi.



V 33 Greining á sýkiþáttum 84 Aeromonas salmonicida stofna, tveggja A. hydrophila stofna og einkennisstofna fjögurra undirtegunda A. salmonicida

Íris Hvanndal1, Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir1, Ulrich Wagner2



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Institute for Zoology, University of Leipzig, Talstr. 33, 04103 Leipzig, Germany

Netfang: bjarngud@hi.is



Inngangur: Bakterían Aeromonas salmonicida veldur kýlaveiki og skyldum sjúkdómum í laxfiskum. Fjórum undirtegundum hefur verið lýst, undirtegund salmonicida (týpískir stofnar) og undirtegund achromogenes, masoucida og smithia (atýpískir). Með auknu fiskeldi fjölgar sýkingum af völdum A. salmonicida og stofnar sem ekki lúta skilgreiningu undirtegundanna fjögurra eru að finnast. Fjórum útensímum A. salmonicida hefur verið lýst sem sýkiþáttum: 70 kDa serín prótínasa, P1; 27 kDa glycerophospholipid: cholesterol acyltransferasi, GCAT; 20 kDa málmháðum kaseínasa, AsaP1; og málmháðum gelatínasa, P2.

Markmið rannsóknarinnar var að greina sýkiþætti í seyti 84 A. salmonicida stofna, sem voru einangraðir úr mismunandi fisktegundum og bera saman við utanfrumusýkiþætti einkennisstofna undirtegunda A. salmonicida og tveggja A. hydrophila stofna.

Efniviður og aðferðir: Utanfrumuafurðir hvers stofns voru einangraðir frá bakteríum sem ræktaðar voru á sellófanþöktum agarskálum. ELISA próf byggt á einstofna mótefnum gegn ofangreindum fjórum sýkiþáttum var notað við greininguna. Tvö til sex mismunandi einstofna mótefni voru notuð til að greina mismunandi bindistaði mótefna á viðeigandi mótefnavaka.

Niðurstöður og umræður: Niðurstöður sýndu að stofnarnir mynduðu níu hópa eftir seyti þeirra á utanfrumusýkiþáttunum fjórum. Stærstu hóparnir (27% stofnanna) voru annars vegar sá sem innihélt einkennisstofn undirtegund achromogenes og hins vegar hópur sem svaraði öllum prófum neikvætt. Með undirtegund salmonicida flokkuðust 14% stofnanna, 8% með undirtegund masoucida en aðins 5% með undirtegund smithia. A. hydrophila stofnarnir tveir, sem báðir voru einangraðir úr laxfiskum hér á landi, voru flokkaðir í sinn hvorn hópinn, annar þeirra var í hópi með undirtegund smithia, en hinn í hópi sem ekki innihélt einkennisstofn A. salmonicida.



V 34 Gammaherpesveirur í íslenskum hestum

Vilhjálmur Svansson1, Einar G. Torfason2, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir1



1Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, 2Rannsóknastofa Landspítalans í veirufræði, Ármúla 1a, Reykjavík

Netfang: eggun@hi.is



Árið 1998 geisaði nýr og áður óþekktur smitsjúkdómur í hrossum hérlendis, er fékk heitið smitandi hitasótt. Sjúkdómsorsökin er enn óþekkt, en margt bendir til að um veirusýkingu hafi verið að ræða.

Í tilraun til ræktunar á hitasóttarveirunni í hestafósturnýrnafrumum ræktaðist veira við samrækt með hnattkjarna hvítfrumum úr blóði. Veiran ræktaðist frá þremur af fjórum hitasóttarhrossum. Ennfremur hefur veiran verið ræktuð frá 11 af 12 hrossum með fóðurtengda listeríusýkingu og frá tveimur heilbrigðum hestum. Frumubreytingarnar í nýrnafrumunum voru lengi að koma fram og sáust fyrst eftir þrjár til fjórar vikur í rækt. Eðli frumubreytinganna gat bent til þess að um herpesveiru væri að ræða. Þetta var staðfest við rafeindasmásjárskoðun. Það, hvað sýkingin í nýrnafrumunum var hæggeng, þótti benda til þess að um gamma-herpesveiru væri að ræða. Komið var upp DNA-mögnun (PCR) sem greinir báðar gerðir gammaherpesveira sem þekktar eru í hrossum það er equine herpesvirus 2 og 5 (EHV-2, 5). Rannsóknir með DNA-mögnun á 14 veiruræktunum benda til þess að hross hérlendis séu sýkt bæði með EHV-2 og EHV-5. Af 14 veiruræktunum svöruðu tvö þeirra DNA-mögnun með EHV-5 sértækum vísi. Við athugun í óbeinni flúorljómandi mótefnalitun á 20 sermum sem safnað var úr hrossum hérlendis á árunum 1990-1994, það er fyrir hitasótt, reyndust 19 hestanna hafa mótefni gegn gammaherpesveirum.

Óljóst er hvenær þær gammaherpesveirur sem hér eru í hrossum bárust til landsins. Mótefnamælingar sýna að veirurnar hafa að minnsta kosti verið hér allan síðastliðinn áratug. Mikilvægur þáttur í faraldsfræði herpesveira er sá eiginleiki þeirra að valda dulsýkingum og hestur sem smitast er líkast til ævilangt smitaður. Ekki er óvarlegt að ætla að veirurnar hafi borist með þeim hestum sem fluttir voru til Íslands í upphafi byggðar.
Til baka Senda grein



Þetta vefsvæði byggir á Eplica