Ágrip erinda

Ágrip veggspjalda 100-117

V 101 Raddþjálfun fyrir Parkinsonssjúklinga

Elísabet ArnardóttirEndurhæfingarmiðstöð Reykjalundi

Netfang: Talmeina@REYKJALUNDUR.isInngangur: Mjög algengt vandamál hjá Parkinsonssjúklingum er kraftlítil rödd. Hópur Parkinsonssjúklinga fékk sérstaka raddþjálfun sem var liður í hópþjálfunarprógrammi á Reykjalundi. Tilgangur rannsóknar var að gera úttekt á áhrifum þessa meðferðarforms.

Efniviður og aðferðir: Um er að ræða 34 einstaklinga (24 karla, 10 konur; meðalaldur 65,3 ár) sem komu á Reykjalund á árunum 1998-2000. Meðferð fólst í raddþjálfun þrisvar til fimm sinnum í viku, hálftíma í senn. Meðferðarform þetta byggist að stórum hluta á bandarísku kerfi (Lee Silverman Voice Treatment). Bornar voru saman tvenns konar mælingar fyrir og eftir útskrift; raddstyrkur í tali og raddstyrkur á löngu /a/ hljóði. Mælingar á raddstyrk við eftirfylgd þremur mánuðum eftir útskrift voru gerðar fyrir fimm þessara einstaklinga.

Niðurstöður: Notað var parað t-próf til bera saman raddstyrk fyrir og eftir þjálfun. Í töflu hér að neðan má sjá niðurstöður.Fyrir þjálfun Við útskrift

Raddstyrkur á löngu /a/ hljóði (dB) 74,2 +/-10,5 90,2 +/-6,9*

Raddstyrkur í tali (dB) 66,3 +/-2,7 70,2 +/-2,9*

*p<0,0001. Raddstyrkur eftir þjálfun borinn saman við raddstyrk fyrir þjálfun.Meðaltöl fimm einstaklinga voru við útskrift á löngu /a/ hljóði 86,0 dB og við eftirfylgd 87,2 dB og í tali við útskrift 69,2 dB og við eftirfylgd 69,8.

Ályktanir: Raddþjálfun fyrir Parkinsonssjúklinga sem beinist að því að auka raddstyrk skilar árangri sem yfirfærist í tal þeirra. Vísbendingar eru um langtímaáhrif þessa meðferðarforms.V 102 Endurhæfing sjúklinga með Parkinsonseinkenni

Ólöf H. Bjarnadóttir, Hafdís Gunnbjörnsdóttir, Margrét Sigurðardóttir, Kristín Reynisdóttir, Elísabet ArnardóttirReykjalundur endurhæfingarmiðstöð

Netfang: OlofB@REYKJALUNDUR.isInngangur: Á Reykjalundi hefur endurhæfing fólks með Parkinsonseinkenni farið fram í hópum síðan 1998. Tilgangur könnunarinnar er að meta árangur meðferðar og einnig reyna að skilgreina mikilvæga endurhæfingarþætti. Fyrstu niðurstöður eru kynntar hér.

Efniviður og aðferðir: Gerð var framskyggn könnun. Teknar voru saman niðurstöður hjá 12 sjúklingum með Hoehn og Yahr stig 2-3 (n=7+5). Meðalaldur var 66 ár og meðalsjúkdómslengd átta ár. Sjúklingar tóku þátt í sérhæfðu endurhæfingarprógrammi en að auki voru ákveðnar mælingar gerðar fyrir meðferð, í lok meðferðar og þremur mánuðum eftir að meðferð lauk. Þessar mælingar voru meðal annars: UPDRS (Unified Parkinson´s Disease Rating Scale), heilsutengd lífsgæði (HL), sex mínútna göngupróf, prófun á raddstyrk (talað mál og langt /a/) og handstyrkur.Niðurstöður:
Fyrir meðferð Eftir meðferð Eftir þrjá

mánuði

UPDRS 30(12)s 24(12)s 26(9)

HL 40(12) 43(12) 43(9

Göngupróf (metrar) 468,8(11)s 514,4(11)s 522,4(9)

Raddstyrkur(tal) (dB) 65,7(10)s 70,2(10)s 69,9(5)

Raddstyrkur (a) (dB) 64,7(10)s 87,9(10)s 87,1(5)

Handstyrkur hægri 85,1(9) 91,2(9)

Handstyrkur vinstri 72,8(9)s 82,5(9)s

s = marktækur munur; tölur í sviga = fjöldi einstaklinga; HL = heilsutengd lífsgæði; UPDRS = Unified Parkinson´s Disease Rating ScaleÁlyktanir: Hjá sjúklingum með Parkinsonseinkenni hefur endurhæfing jákvæð áhrif er varðar almenn einkenni sjúkdóms, göngugetu, raddstyrk, handstyrk og lífsgæði. Þessar niðurstöður hvetja til áframhaldandi rannsókna á þessu sviði.V 103 Leit að arfgengum áhættuþáttum heilablóðfalls

Sólveig Grétarsdóttir1, Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir2, Hjörtur Jónsson1, Finnbogi Jakobsson3, Elísabet Einarsdóttir1, Uggi Agnarsson4, Herdís M. Guðjónsdóttir1, Gísli Einarsson2, Ólafur B. Einarsson1, Radinka Hadzic1, Einar M. Valdimarsson3, Sif Jónsdóttir1, Guðmundur Þorgeirsson4, Sigríður Þ. Reynisdóttir1, Sigrún M. Bjarnadóttir1, Þórunn Guðmundsdóttir1, Jesus Sainz1, Augustine Kong1, Mike Frigge1, Vilmundur Guðnason4, Kári Stefánsson1, Jeffrey Gulcher11Íslensk erfðagreining, 2Landspítali Hringbraut, 3Landspítali Grensás, 4Hjartavernd

Netfang: solveig@decode.isInngangur: Heilablóðfall er ein algengasta ástæða langvinns líkamlegs sjúkleika og örorku og er þriðja algengasta dánarorsökin á Vesturlöndum. Orsök heilablóðfalls er talið vera flókið samspil umhverfis og erfða. Til þessa hafa rannsóknir á arfgengum áhættuþáttum heilablóðfalls aðallega beinst að sjaldgæfum eingena sjúkdómum (til dæmis arfgenga íslenska heilablæðingin, CADASIL og fleira) eða leit að genagöllum í þekktum áhættugenum (svo sem gen sem taka þátt í blóðþrýstingsstjórnun eða blóðstorknun).

Efniviður og aðferðir: Samstarfsverkefni Íslenskrar erfðagreiningar, Landspítalans og Hjartaverndar, um leit að arfgengum áhættuþáttum heilablóðfalls hófst vorið 1998. Ættartengsl um 2500 sjúklinga, sem greinst höfðu á fimm ára tímabíli með heiladrep, TIA eða blæðingu voru athuguð. Meirihluti reyndust eiga einn eða fleiri ættingja sem fengið höfðu heilablóðfall. Um helmingur sjúklinganna var látinn í byrjun rannsóknar en tæplega 900 sjúklingar, sem áttu ættingja með heilablóðfall, voru beðnir um að taka þátt í rannsókninni.

Niðurstöður: Blóðsýnasöfnun hófst í júlí 1998 og hafa rúmlega 800 sjúklingar (úr 180 fjölskyldum) auk 2200 ættingja tekið þátt. Erfðaefni tæplega 500 sjúklinga og 600 heilbrigðra ættingja þeirra hefur að fullu verið skimað með 900 fjölbreytilegum erfðamörkum. Tölfræðigreining á gögnunum var framkvæmd með stikaóháðri tengslagreiningu (non-parametric linkage analysis) og sýndu niðurstöður að svæði á litningi 5 var með lod score yfir 3. Til þess að sannreyna röð erfðamarkanna á svæðinu kortlögðum við um 20 cM (centi Morgan) svæði (með physical og genetískri kortlagningu). Þeirri erfðamarkaröð sem við fundum bar ekki saman við þekkt erfðamarkakort svo sem Marshfield og Genethon en með okkar röð fór lod score á svæðinu upp í 4,03 og var hægt að þrengja svæðið í 6 cM.

Ályktanir: Við höfum fundið svæði á litningi 5 sem sýnir tölfræðilega marktæk tengsl (genome-wide significance) við sjúkdóminn. Áhugaverða svæðið hefur verið þrengt með "fín-kortlagningu" (fine-mapping) úr 20 cM niður í 6 cM (rúmlega sex milljónir basar). Nú stendur yfir raðgreining svæðisins og greining gena.V 104 Að standa upp af stól krefst nákvæmrar samhæfingar

María H. ÞorsteinsdóttirSjúkraþjálfunarskor

Netfang: mth@hi.isInngangur: Að standa upp af stól er algeng dagleg hreyfing sem sumum reynist erfið. Hreyfingin felur í sér tilfærslu á líkamsmassanum fram og upp, sem gerir kröfur um krafta og skriðþunga. Á sama tíma þarf að hafa nákvæma stjórn á jafnvægi, sérstaklega þegar fært er af stórum undirstöðufleti (sitjanda) yfir á lítinn (fæturna). Markmiðið með þessari rannsókn var að skoða eðlilega stjórn þessarar hreyfingar.

Efniviður og aðferðir: Þátttakendur voru sjö heilbrigðir, ungir einstaklingar. Sjö endurteknar hreyfingar voru greindar hjá hverjum þeirra, alls 49. Myndgreining var gerð út frá 14 endurskinsmerkjum á hægri hlið líkamans (tvær CCD myndavélar, ELITE) og viðnámskraftar jarðar greindir með fjórum kraftplötum (AMTI), tvær undir sitjanda og tvær undir fótum. Merkin voru stillt saman í tíma, umbreytt á stafrænt form, síuð og sérstakt forrit (Axograph) notað til að reikna út tímasetningar, stærðir og hraða á hreyfingu og kröftum.

Niðurstöður og ályktanir: Hreyfingin hófst með aukningu krafta undir rassi í áttina aftur og niður (atlag) og síðan færslu fram á bol (skriðþungi fram). Hraði á massamiðju líkamans fram á við náði hámarki stuttu áður en rass lyftist frá sætinu og lóðrétt hröðun upp átti sér stað samfara því. Þungi hafði þá færst yfir á fætur og láréttir kraftar í áttina fram á við mældust undir fótum sem náðu hámarkshraða um leið og færsla líkamsmassans fram á við. Ályktað er að hlutverk þessara krafta sé að dempa skriðþungann fram og þannig hafa stjórn á jafnvægi. Dempunin verður að vera nákvæmlega tímasett og hæfilega mikil til að stýra færslu massans og beina færslunni upp á við án þess að stöðva skriðþungann. Þannig fæst hagkvæm og örugg hreyfing.V 105 Tengsl álagsverkja í sköflungi við styrk og þol í tibialis vöðvum

Abigail G. SnookSjúkraþjálfunarskor læknadeild HÍ

Netfang: abigail@hi.isInngangur: Verkur í sköflungi við áreynslu er almennt talin vera einkenni um ofálag en ýmsar orsakir geta legið að baki. Ekki er vitað hvernig starfsgeta vöðva (invertora í ökkla) er tengd þessu vandamáli. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða samband styrks og þols í tibialis vöðvum (isokínetískt) við álagsverki framanvert á fótlegg sem tengdust "high-impact" áreynslu (æfingum þar sem báður fætur eru einhvern tímann á lofti samtímis, eins og við hlaup).

Efniviður og aðferðir: Fjörutíu þáttakendur á aldrinum 21-38 ára sem ekki voru með verki í hægri fótlegg á þeim tíma sem rannsóknin var gerð. Styrkur var mældur sem hámarkskraftvægi staðlað með líkamsmassa. Vinna vöðvans var reiknað sem margfeldi af meðaltalskraftvægi og snúningshorni ökklahreyfingar (hraði 30°/sek). Þol var prófað með 50 endurteknum "concentrískum" og "eccentrískum" samdráttum á hraðanum 160°/sek og mælt sem 1) hlutfall vinnu í síðustu 10 samdráttum og þeim fyrstu 10, annars vegar og sem 2) hlutfall vinnu í síðustu 10 samdráttum og vöðvavinnu hins vegar. Þátttakendur svöruðu spurningum um sköflungsverk tengdan áreynslu.

Niðurstöður og ályktanir: Þátttakendur sem höfðu sögu um áreynsluverk reyndust hafa minna þol bæði "concentrískt" og "eccentrískt" en þeir sem ekki höfðu sögu um slíkan verk, en ekki samsvarandi minni styrk. Niðurstöður bendu því til að sterkur vöðvi hafa ekki endilega gott úthald. Erfitt er að segja til um hvort minnkað þol er orsök eða afleiðing sköflungsverkja, en enginn þátttakenda fékk verk meðan á mælingu stóð eða á eftir. Meðferð eða forvörn sköflungsverkja ætti að fela í sér þolþjálfun tibialis-vöðvanna.V 106 Fólk sækist eftir aukinni hreyfingu heilsunnar vegna

Svandís Sigurðardóttir, Þórarinn SveinssonSjúkraþjálfunarskor læknadeild HÍ

Netfang: svandis@hi.isInngangur: Það virðist tiltölulega einfalt að tileinka sér hæfilega reglubundna hreyfingu en það vefst þó mjög fyrir fólki. Reynslan af því að hvetja fólk til reglubundinnar hreyfingar sýnir að það er ekki auðvelt verkefni. Það virðist vanta betri áætlanir og aðferðir, sem byggðar eru á ítarlegum rannsóknum. Í þessari könnun voru margir þættir skoðaðir í von um að geta veitt almenningi markvissari leiðbeiningar. Könnunin er gerð að fyrirmynd finnskrar rannsóknar og í náinni samvinnu við UKK-stofnunina í Tampere í Finnlandi.

Efniviður og aðferðir: Spurningalisti var sendur til 1650 Íslendinga í apríl 1997. Úrtakið var slembiúrtak úr þjóðskrá úr aldurshópunum 20-80 ára. Á listanum eru 49 ítarlegar spurningar, meðal annars um hvetjandi og letjandi áhrif á hreyfingu fólks. Ítrekunarbréf voru send út þrisvar.

Niðurstöður: Nettó svörun í könnuninni var um 53%. Þegar spurt var um hvaða áhrif fólk teldi að trimm (almenningsíþróttir) hefði á sig var notaður sjónrænn kvarði (VAS) frá 0 og upp í 10. Í ljós kom að þeir sem eru að hugsa um að auka sína hreyfingu líta svo á að hreyfingin bæti heilsuna (8,3), að það sé hressandi og endurnærandi (7,9) og róandi (7,5). Útivera vegur þungt hjá þessum hópi líka (8,2) en heldur minna máli skiptir að halda þyngdinni í skefjum (6,3). Einnig var spurt um hvort fólk teldi sig hafa nægilegan tíma fyrir sjálft sig. Fram kom að nær helmingur yngra fólksins (20-44 ára) hefur aðeins nægjanlegan tíma af og til eða næstum aldrei.

Ályktanir: Þeir sem hafa hug á að að auka hreyfingu sína gera það til að bæta heilsuna og auka vellíðan. Tímaskortur er áberandi hjá yngra fólkinu sem er líkleg ástæða þess að það hreyfir sig ekki meira en raun ber vitni.V 107 Áhrif hreyfingar á 10 ára og 20 ára aldri á hreyfingu síðar á ævinni

Þórarinn Sveinsson, Svandís SigurðardóttirSjúkraþjálfunarskor læknadeild HÍ

Netfang: thorasve@hi.isInngangur: Gildi hreyfingar sem forvörn gegn ýmsum kvillum er ótvírætt. Margt er það sem hefur áhrif á það hvort og hversu mikið fólk hreyfir sig. Eitt af því sem oft er talið skipta máli er hvað fólk hefur vanist á, á unglingsárum. Við gerðum könnun meðal Íslendinga 1997 í samvinnu við UKK-stofnunina í Tampere í Finnlandi og leituðum við meðal annars svara við því hvort hreyfing á yngri árum hafi áhrif á hreyfingu síðar meir á ævinni.

Efniviður og aðferðir: Spurningarlisti var sendur til 1650 Íslendinga í apríl 1997. Úrtakið var slembiúrtak úr þjóðskrá úr aldurshópnum 20-80 ára. Á listanum eru 49 ítarlegar spurningar um heilsu, þrek og hreyfingu.

Niðurstöður: Þátttakendur voru beðnir að meta hreyfingu sína og íþróttaiðkun á árum áður á sjónrænum kvarða (VAS) frá 0 og upp í 10. Fyrir aldurinn 10 ára var niðurstaðan 7,91 (± 0,17; 95%CL). Ekki er neinn marktækur munur á þeim sem eru kyrrsetufólk og þeim sem stunda reglulega hreyfingu né heldur á þeim sem hafa mismunandi viðhorf til almenningsíþrótta. Það var heldur ekki marktækur munur á mismunandi aldurshópum eða kynjunum. Í sambærilegri finnskri rannsókn kemur í ljós að Finnar meta sig 7,22 (±0,13; 95%CL) sem er marktækt minna en Íslendingar. Niðurstöður Íslendinga fyrir aldurinn 20 ára er 6,79 (±0,19; 95%CL) og hér var heldur ekki marktækur munur á mismunandi hreyfingarhópum né viðhorfi til almenningsíþrótta. Eins og fyrir 10 ára aldurinn er þessi niðurstaða marktækt hærri en er hjá Finnum sem mátu sig 6,27 (±0,14; 95%CL).

Ályktanir: Hreyfing og iðkun íþrótta á yngri árum hefur lítið með það að gera hve fólk hreyfir sig mikið seinna á æfinni. Íslendingar meta hreyfingu sína og íþróttaiðkun fram að tvítugu meiri en Finnar gera.V 108 Þættir sem hafa áhrif á starfsemi þindar við og eftir áreynslu á láglendi og hálendi

Marta Guðjónsdóttir1,3, Lorenzo Appendini2, Antonio Patessio2, Stefán B. Sigurðsson3, Claudio F. Donner21Reykjalundur, 2Salvatore Maugeri-stofnunin, Verona, Ítalíu, 3læknadeild HÍ

Netfang: Marta@REYKJALUNDUR.isInngangur: Það hefur verið leitt að því líkum að "vinnuumhverfi" þindarinnar geti haft mikil áhrif á þá þreytu sem kemur fram hjá henni eftir mikla áreynslu (ARRD 1993;148:1571-5).

Efniviður og aðferðir: Til að rannsaka þá þætti sem gætu haft áhrif á þindarþreytu við og eftir áreynslu mældum við hjá átta heilbrigðum sjálfboðaliðum (38±2 ára) hámarksþindarþrýsting (Pdi,max) með "sniff" aðferðinni, öndunarmunstur og laktat (La) í hvíld, við hámarksálag (Whám) á þrekhjóli og í 60 mínútna afturbata (Afb) bæði við sjávarmál (LL) og í 3325 m hæð yfir sjávarmáli (HL). Súrefnisupptaka (V'O2), koldíoxíðútskilnaður (V'CO2) og mínútöndun (V'E) voru mæld andardrátt fyrir andardrátt í álaginu.

Niðurstöður: Hámarks V'O2 var 2,9±0,3 L/mín í LL og 2,5±0,2 L/mín í HL. Taflan hér að neðan sýnir niðurstöður úr mælingum á Pdi,max, V'E og La í hvíld, við Whám og í Afb eftir álagsprófið (meðaltal±SEM).

Pdi,max (cm H2O) V'E (L/mín) La (mEq/L)

LL HL LL HL LL HL

Hvíld 153,8±9,1 148,5±7,1 12,8±1,6 15,3±2,3 0,9±0,1 0,9±0,1

Whám 111,4±7,1* 91,0±7,1* 87,7±34,9* 98,0±32,8* - -

5'Afb 131,3±13,4* 124,5±10,1* 32,5±3,4* 39,2±3,9* 6,2±0,7* 6,7±0,6*

45'Afb 136,5±6,3* 129,8±10,4* 11,4±3,5 11,5±1,0 1,3±0,1* 1,7±0,3*

60'Afb 146,9±8,5 132,5±10,2* 9,5±2,0 12,7±2,1 1,0±0,1 1,3±0,2*

*p< 0,05 mæligildi við Whám og í Afb borin saman við mæligildi í hvíld við sömu hæðarskilyrði (ANOVA).Á LL voru mæligildi fyrir Pdi,max og La komin aftur í hvíldargildi eftir 60 mínútna Afb en í HL voru þau ennþá frábrugðin eftir þann Afb tíma. V'E jafnaði sig hraðar þannig að innan 45 mínútna Afb var V'E komin niður í hvíldargildi að nýju.

Ályktanir: Hærri styrkur La og hugsanlega annarra metbolíta í "vinnuumhverfi" þindarinnar við áreynslu eiga sinn þátt í að valda þindarþreytu og tefja fyrir afturbata.V 109 Verkir frá hálshrygg eftir áverka og álag. Forkönnun á fimm prófum til að meta hreyfiskyn hálshryggjar

Eyþór Kristjánsson1, Paul Dall'Alba2, Gwendolen Jull21Læknadeild HÍ, 2sjúkraþjálfunardeild Queensland Háskóla, Ástralíu

Netfang: eythork@simnet.isInngangur: Gerð var frumathugun á því hvort tveir mismunandi hópar sjúklinga með líkamseinkenni frá hálshrygg hefðu mismikla skerðingu á stöðu- og hreyfiskyni.

Efniviður og aðferðir: Sextíu og þrír sjálfboðaliðar tóku þátt og var þeim skipt í þrjá álíka hópa með tilliti til fjölda, kyns og aldurs. Rannsóknarhóparnir, hópur 1 og hópur 2 voru annars vegar með sögu um svipuólaáverka á hálsi og hins vegar álagseinkenni. Hópur 3 var einkennalaus viðmiðunarhópur. Fimm ólík próf voru framkvæmd þar sem viðföngin reyndu að finna eðlilega höfuðstöðu við mismunandi aðstæður: 1) Eftir að hafa framkvæmt hreyfingu í einu hreyfiplani. 2) Eftir að hafa framkvæmd flókna hreyfingu með höfðinu. 3) Á meðan höfuðið var hreyft á flókinn hátt. Einnig áttu þátttakendurnir að reyna að finna fyrirfram ákveðna stöðu í hreyfiferlinum við tvær mismunandi aðstæður. Segulsviðstæki með hreyfiskynjurum sem mælir hreyfingar í þrívídd var notað til að mæla frávikið frá réttri staðsetningu.

Niðurstöður: Tölfræðilega marktækur munur var á milli hópa í prófi 1 (p = ,001), þar sem viðföngin áttu að reyna að finna aftur eðlilega höfuðstöðu eftir að hafa framkvæmt hreyfingu í einu plani. Paraður eftirsamanburður sýndi að marktækur munur (p = ,04) var á milli einkennalausa hópsins annars vegar og hvors einkennahópsins um sig hins vegar. Munurinn á milli hópanna með einkenni var ekki marktækur (p =,07). Ekkert hinna prófanna sýndi tölfræðilega marktækan mun á milli hópa.

Ályktanir: Stöðu- og hreyfiskyn er mismunandi hjá sjúklingum með einkenni frá hálshrygg. Flókin hreyfipróf voru of erfið fyrir alla þátttakendur. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til að fólk með einkenni eftir svipuólahögg sé með skertara skyn en aðrir og einföld hreyfipróf geti aðgreint milli hópa. Þetta þarf að sannreyna í stærri rannsókn.V 110 Glerungsbreytingar hjá átta ára gömlum íslenskum börnum tengdar sjúkdómssögu þeirra í æsku

Inga B. Árnadóttir, Halla Sigurjóns, Peter HolbrookTannlæknadeild HÍ

Netfang: iarnad@hi.isInngangur: Glerungsflekkir voru greindir í 34% tilfella við skoðun átta ára barna árið 1970 áður en almenn notkun flúors hófst hér á landi (Möller P [monograph]. Univ Alabama School of Dentistry; 1981).

Efniviður og aðferðir: Sem hluti af sjö landa evrópskri rannsókn var handahófskennt úrtak 290 átta ára barna búsettra í Reykjavík skoðuð 1997-1998. Þar sem tíðni afmarkaðra glerungsflekkja var skráð myndrænt með notkun staðlaðrar ljósmyndatækni af þjálfuðum og samhæfðum skoðendum. Tilskilin leyfi lágu fyrir hendi. Foreldrar voru spurðir hvort barnið hefði haft (i) magakrampa (colic) sem ungabarn; (ii) fengið lyf við magakrampa; og (iii) hvort barnið hefið haft endurteknar eynabólgur.

Niðurstöður: Afmarkaðir glerungsflekkir, ótengdir flúorflekkjum, sáust í 41% tilfella þegar tennur voru myndaðar rakar en stigu í 51% er tennur voru myndaðar þurrar. Glerungsgöt greindust í 11% þar sem tennur voru myndaðar rakar og 15% þurrar. Foreldrar 94/288 barna (33%) svöruðu að barn þeirra hefði haft magakrampa og 52/94 (55%) þeirra hefðu fengi lyf við því. Eitt hundrað tuttugu og þrjú af 290 (42%) börnum höfðu fengið eyrnabólgu oftar en þrisvar sinnum á ári.

Ályktanir: Glerungsflekkir ótengdir flúornotkun eru algengir hjá íslenskum börnum, einkum hjá þeim sem hafa haft eyrnabólgu oftar en þrisvar á ári fyrstu ár ævi sinnar. Án sérstakrar aðgæslu er hætt við að slíkir flekkir séu misgreindir sem flúorflekkir.

Þakkir: Rannsóknin var styrkt af Rannís og Biomed 2 EU.V 111 Tannvöntun lagfærð með ígræðslu framjaxla og tannréttingum

Teitur Jónsson1, Þórarinn J Sigurðsson21Tannlæknadeild HÍ, 2heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri

Netfang: tj@hi.isInngangur: Markmið rannsóknarinnar var að kanna endingu framjaxla, afkomu tannkviku, græðslu tannvegar og rótarvöxt eftir ígræðslu og tannréttingameðferð.

Efniviður og aðferðir: Fjörutíu framjaxlar í 32 einstaklingum á aldrinum 11-16 ára, voru færðir milli munnfjórðunga til að fylla í skörð vegna tannvöntunar í öðrum framjaxlasvæðum. Tennurnar voru röntgenmyndaðar og ástand tanna og tannvegs skoðað og skráð kerfisbundið einum, tveimur, sex, 12 og 60 mánuðum eftir ígræðslu og síðan eftir ástæðum. Fylgst var með tönnunum í 2-19 ár, að meðaltali í sjö ár. Festingar voru límdar á 85% tannanna og þær látnar mæta álagi af venjulegri tannréttingu í eitt til tvö ár.

Niðurstöður: Tannvegur ígræddu tannanna greri í öllum tilvikum eðlilega og engin tannholdsvandamál komu upp. Ein tannanna brotnaði og var fjarlægð fjórum árum eftir ígræðslu, en 39 eða 97,5% voru í lagi við síðustu skoðun. Fullmyndaðar tennur með lokaðan rótarenda voru allar rótfylltar strax. Einnig reyndist nauðsynlegt að rótfylla síðar 12 af 35 tönnum sem höfðu opinn eða hálfopinn rótarenda við ígræðslu, þar af tvær vegna vísbendinga á röntgenmyndum um bólgueyðingu. Væg eyðing á yfirborði róta sást á flestum tannanna eftir tannréttinguna, en engin merki sáust um samvöxt (ankylosu) rótaryfirborðs og beins í tannholum.

Ályktanir: Mælingar á endanlegri lengd róta og aðrar niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að besti tíminn til ígræðslu sé þegar þrír fjórðu hlutar rótarinnar hafa myndast. Niðurstaðan er sú að aðgerðin sem lýst er í rannsókninni ætti að vera fyrsti valkostur þegar framjaxl vantar og annan slíkan má taka úr öðrum munnfjórðungi til ígræðslunnar.V 112 Tannlæknafælni á Íslands og tengsl við mat á eigin útliti. Faraldsfræðileg spurningakönnun

Eiríkur Örn Arnarson1, Björn Ragnarsson2, Sigurjón Arnlaugsson2, Karl Örn Karlsson2, Þórður Eydal Magnússon21Geðdeild Landspítala Hringbraut, 2tannlæknadeild HÍ

Netfang: eirikur@rsp.isInngangur: Í þessari rannsókn var litið á tíðni tannlæknafælni og tengsl hennar við mat á eigin útliti í úrtaki Íslendinga. Á árunum 1972-1973 var lagskipt úrtak 1641 skólabarns valið til skoðunar á bitskekkju auk tann-, bein- og kynþroska. Í spurningakönnun 22 árum síðar (1995) voru sömu einstaklingar spurðir um ýmsar breytur sem tengjast munnheilsu svo sem munn- og kjálkaverki, álagstengd mein í kjálkum, sjálfsmat á útliti almennt sem og tanna.

Efniviður og aðferðir: Faraldsfræðileg könnun á tíðni tannlæknafælni var gerð á lagskiptu úrtaki Íslendinga. Í könnuninni voru notaðar spurningar grundaðar á skilmerkjum Bandaríska geðlæknafélagsins (DSM-IV) fyrir afmarkaða fælni. Af 1529 einstaklingum, sem unnt reyndist að finna, svöruðu 1192 (svarhlutfall 78%).

Niðurstöður: Tuttugu og einn þátttakandi uppfyllti skilmerki DSM-IV mælikvarðans fyrir tannlæknafælni, en 75 sýndi mörg einkenni tannlæknahræðslu. Marktækur munur fannst á heildarfjölda (96) tannlæknahræddra og hinna (1096) sem viðurkenndu lítinn eða engan tannlæknaótta, hvað varðar útlit tanna þeirra. Hinir hræddu reyndust óánægðari með tennur sínar bæði einar sér og miðað við útlit andlits heldur en þeir óhræddu. Tannlæknahræddi hópurinn hafði marktækt meiri áhyggjur af heildarútliti sínu en hópurinn sem hafði engan tannlæknaótta og einnig höfðu þeir sem voru í tannlæknahrædda hópnum marktækt meiri áhyggjur af útlit tanna sinna en þeir í hópnum sem hafði engan tannlæknaótta.V 113 Erlend ættleiðingarbörn rannsökuð á Barnaspítala Hringsins 1981-1999

Gestur I. PálssonBarnaspítali Hringsins, Landspítala Hringbraut

Netfang: gesturip@rsp.isInngangur: Þrátt fyrir stöðugar framfarir hvað tæknifrjógvanir varðar má gera ráð fyrir að um það bil 2-3% hjónabanda hér á landi séu barnlaus. Vegna þess að erfiðlega hefur gengið að fá íslensk börn til ættleiðingarö, hefur færst í vöxt að börn séu ættleidd erlendis frá. Fyrst og fremst er um að ræða börn frá þróunarlöndum, þar sem heilbrigðishættir eru með öðru móti en hér tíðkast, sjúkdómar meðal barna tíðir og dánartala há. Á tímabilinu sem um ræðir hafa langflest erlend ættleiðingarbörn verið rannsökuð á Barnaspítalanum. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna fjölda, uppruna og heilbrigðisástand barnanna við komu til landsins.

Efniviður og aðferðir: Sjúkraskrár allra erlendra ættleiðingarbarna, sem rannsökuð voru á Barnaspítalanum á 19 ára tímabilinu 1981-1999 voru yfirfarnar. Öll höfðu þau gengist undir læknisskoðun og rannsóknir samkvæmt ákveðnum staðli.

Niðurstöður: Alls reyndist um að ræða 306 börn (181 stúlku og 125 drengi) frá 23 löndum. Fjöldi barna á ári var breytilegur (þrjú til 67). Meðalaldur við komu til landsins reyndist 5,5 mánuðir (einnar viku til 13 ára), 58% barnanna voru sex mánaða eða yngri og 81% 12 mánaða eða yngri. Á fyrri hluta rannsóknartímabilsins komu flest barnanna frá Suðaustur-Asíu (27% frá Sri-Lanka og 17% frá Indónesíu). Á síðari hlutanum komu flest frá Indlandi (32%), Austur-Evrópu og Suður-Ameríku. Við komu til landsins var almennt ástand í flestum tilvikum (93%) gott en í nokkrum tilvikum (4%) reyndist sjúkrahúsinnlögn nauðsynleg, aðallega vegna iðrarbólgu og þurrks. Önnur alvarleg vandamál voru berklasmit (8%), meðfædd sárasótt (1%), langvinn lifrarbólga-B (1%) og ýmsir meðfæddir gallar (6%). Blóðskortur greindist hjá 72 (24%) barnanna. Mörg reyndust hafa orma (19%) eða sjúkdómsvaldandi sýkla (54%) í meltingarvegi. Ekkert barnanna hafði jákvætt eyðnipróf. Fjögur barnanna reyndust hafa óeðlilega taugakerfisskoðun.

Ályktanir: Fjöldi og uppruni erlendra ættleiðingarbarna var mjög breytilegur á rannsóknartímabilinu. Í flestum tilvikum var almennt heilbrigðisástand barnanna gott. Mörg áttu við vandamál að etja, sem aðeins í fáum tilvikum reyndust alvarleg og kröfðust skjótrar úrlausnar. Því er nauðsynlegt að skoða og rannsaka börnin ýtarlega við komu til landsins og hafa í huga, að þau geta haft sjaldgæfa sjúkdóma. Það er því mikilvægt að læknisskoðun, rannsóknir og meðferð sé í höndum þeirra, sem reynslu hafa á þessu sviði.V 114 Líðan starfsmanna á leikskólum

Kristinn Tómasson, Hólmfríður K. Gunnarsdóttir, Berglind Helgadóttir, Þórunn Sveinsdóttir, Svava Jónsdóttir, Guðbjörg Linda RafnsdóttirVinnueftirlit ríkisins

Netfang: kristinn@ver.isMarkmið: Finna þætti sem nota má við að skipuleggja geðverndarstarf á vinnustað.

Efniviður og aðferðir: Um 320 starfsmenn á leikskólum í Reykjavík svöruðu spurningalista, um lýðfræðileg og vinnuvistfræðileg atriði og andlega, líkamlega og félagslega vellíðan jafnfram spurningum um fyrri heilsu. Svarhlutfall var 90%.

Niðurstöður: Giftir starfsmenn, starfsmenn í hærri stöðum og með betri menntun bjuggu við betri andlega líðan. Staða innan leikskólans tengist einnig starfsánægju en menntun tengist bæði starfs-ánægju og hversu ánægðir starfsmenn eru með fjölskyldulíf sitt. Reglubundin líkamsrækt bætir bæði andlega og líkamlega vellíðan en tengist ekki starfsánægju. Notkun tóbaks og áfengis tengist verri andlegri líðan. Tíðar ferðir til lækna og margir veikindadagar tengjast slæmri andlegri líðan og lítilli starfsánægju. Andleg líðan, ánægja með vinnu og fjölskyldu batnar með hækkandi aldri.

Ályktanir: Rannsóknin vekur athygli á að við skipulagningu geðverndarstarfs á vinnustað þarf að taka tillit til breytilegra þarfa misunandi hópa á vinnustöðum.V 115 Geðheilsa og starf fimmtugra kvenna

Kristinn Tómasson1, Bryndís Benediktsdóttir2, Þórarinn Gíslason31Vinnueftirlit ríkisins, 2Heilsugæslan í Garðabæ, læknadeild HÍ, 3lungnadeild Landspítala Vífilsstöðum

Netfang: kristinn@ver.isInngangur: Ýmsir siðir og félagslegir þættir tengjast geðheilsu. Til þess að reyna að bæta geðheilsu á vinnustöðum er mikilvægt að greina þessa þætti. Í þessu erindi verður geðheilsa 50 ára kvenna skoðuð með tilliti til starfa.

Efniviður og aðferðir: Allar konur fæddar árið 1947 og búsettar á Stór-Reykjavíkursvæðinu (N=956) fengu sendan ítarlegan spurningalista varðandi félagslega stöðu, lífsstíl og heilsufar. Til þess að fá betri svörun voru tvö áminningarbréf send.

Niðurstöður: Svarhlutfall var 72,2%. Geðheilsa einhleypra kvenna var til muna slakari en giftra (31% á móti 14%). Þetta var eins þegar tekið var tillit til starfsgreina, hvort sem slíkt var byggt á sögu um meðhöndlun eða á þunglyndis- og kvíðaskala (HAD) Að vísu voru konur í stjórnunarstöðum með heldur færri kvíðaeinkenni en aðrar konur. Á hinn bóginn höfðu þessar konur, sem og háskólamenntaðar konur, meiri áhyggjur af vinnu sinni en konur í öðrum starfsgreinum. Konur í stjórnunarstöðum drukku oftast áfengi. Skortur á svefni var mestur meðal kvenna í störfum sem krefjast fag- eða tæknimenntunar (38%), en minnstur meðal skrifstofukvenna (22%). Þessi munur skýrðist ekki af vaktavinnu. Ekki var munur á tóbaksnotun milli hópanna. Stjórnendur stunduðu oftast reglubundna líkamsrækt, 44%, en ófaglærðar sjaldnast 29%. Almennt svipaði geðheilsu og lífsstíl heimavinnandi húsmæðra mest til þessa meðal ófaglærðra kvenna.

Ályktanir: Rannsókn þessi sýnir að meðal miðaldra kvenna þarf markvisst geðverndarstarf á vinnustað að vera sniðið eftir þörfum mismunandi stétta og þjóðfélagshópa.V 116 Mæling blóðblöndunar milli fósturs og móður við fæðingu, samanburður tveggja aðferða

Kristjana Bjarnadóttir1, Guðrún Svansdóttir1, Soili Erlingsson1, Þóra Fischer2, Sveinn Guðmundsson11Blóðbankinn, 2kvennadeild Landspítala Hringbraut

Netfang: krissa@rsp.isInngangur: Til að fyrirbyggja myndun á anti-D hjá RhDneg. (Rhesus D neikvæðum) mæðrum eftir fæðingu RhDpós. barns hefur þessum konum frá árinu 1969 verið gefið 300µg anti-D ónæmisglóbúlín. Þetta magn nægir til að hlutleysa 12 ml af fósturblóðkornum. Blæðing frá fóstri til móður (feto-maternal hemorrhage) FMH er <3ml hjá 99% og <10 ml hjá 99,7% mæðra. Í flestum tilvikum nægir að gefa 100µg af anti-D en það dugar til að hlutleysa 4 ml af RhDpós. fósturblóðkornum. Markmiðið var að finna aðferð sem gæti greint þetta með nægjanlegu næmi. Nauðsynlegt er að aðferðin geti greint að minnsta kosti 4 ml FMH hjá móður sem jafngildir 0,18% hlutfalli fósturblóðkorna í blóðrás móður.

Efniviður og aðferðir: Mæling með frumuflæðisjá: Flúorljómandi mótefni, BRAD-3 gegn rhesus D mótefnavakanum var notað og hlutfall RhDneg./RhDpós. blóðkorna mælt með frumuflæðisjá. Útbúin var 10% þynning af RhDpós. naflastrengsblóðkornum í RhDneg. blóðkornum og gerðar raðþynningar að 0,018%. Mæld gildi voru borin saman við reiknuð gildi.

Mæling með gelaðferð: Þekktu magni af anti-D var bætt útí rauðkornalausn frá móður. Magn anti-D sem festist á fósturfrumur var mælt með því að athuga hversu mikið anti-D sat eftir í lausn eftir upptöku. RhDpós. frumum var bætt út í flotið og svörunin borin saman við svörun frumulausnar með þekktu hlutfalli RhDneg./RhDpós. blóðkorna.

Sýni úr RhDneg. konum sem fætt höfðu RhDpós. barn voru mæld með báðum aðferðum.

Niðurstöður og ályktanir: Þynning með reiknuðu gildi 0,037%, gaf 0,04% ±0,01 á frumuflæðisjá sem jafngildir 0,8 ml FMH. Þessi aðferð er ákjósanleg til að meta blóðblöndun milli fósturs og móður við fæðingu. Samanburður mælinga með gelaðferð og frumuflæðisjá verður kynntur.V 117 Þrávirk klórlífræn efni og frjósemi íslenskra karlmanna

Elín V. Magnúsdóttir1, Kristín Ólafsdóttir1, Tanja Þorsteinsson2, Sigríður Þorsteinsdóttir2, Unnur Egilsdóttir21Lyfjafræðistofnun, Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði HÍ, 2tæknifrjóvgunardeild Landspítala Hringbraut

Netfang: elinmag@hi.isInngangur: Margar rannsóknir hafa bent til þess að gæði og magn sæðis manna hafi minnkað á síðustu áratugum, hugsanlega vegna hækkandi styrks mengunarefna í umhverfinu. Mörg þrávirk klórlífræn efni hafa hormónatruflandi eiginleika og gætu því mögulega haft áhrif á frjósemi manna.

Efniviður og aðferðir: Um það bil 11 PCB-afleiður og 14 klórlífræn varnarefni (pesticides) eru greind í plasma manna sem leita til tæknifrjóvgunardeildar Landspítalans. Í hópi 1 eru menn með sæðisvandamál, svo sem lítinn fjölda sæðisfrumna. Í hópi 2 eru menn sem eiga við ófrjósemi að stríða af óþekktum ástæðum. Þriðji hópurinn er samanburðarhópur, en í honum eru menn sem hafa eðlilegt sæði og ástæða fyrir ófrjóseminni finnst hjá konu þeirra. Að auki eru efnin greind í sýni af sæðisvökva nokkurra þessara manna.

Niðurstöður: Búið er að greina plasma frá 60 mönnum og sæðisvökva frá níu mönnum. Engin klórlífræn efni voru í marktækt hærri styrk (p>0,05) í plasma manna með sæðisvandamál (n=22) en í samanburðarhópnum (n=27). Einungis er búið að greina 11 sýni úr hópi manna með óþekktar ástæður fyrir ófrjósemi, sem er full lítið fyrir marktækan samanburð. Styrkur efnanna í sæðisvökva stendur í beinu sambandi við styrk í plasma, en er 20-50 sinnum lægri. Enginn mismunur var á reykinga- og neysluvenjum hópanna, en tíðni offitu (BMI>30 kg/m2) reyndist 38% í hópi manna með sæðisvandamál á móti 11% í samanburðarhópnum. Þegar allir hóparnir voru sameinaðir fékkst samband milli sæðisfrumuþéttleika og BMI (n=66; r=-0,377 og p=0,0018).

Ályktanir: Þar sem samband fannst á milli BMI og sæðisfrumuþéttleika, en ekki á milli styrks klórlífrænna efna og sæðisvandamála, er hugsanlegt að minnkandi frjósemi manna síðustu áratugi megi frekar rekja til aukinnar tíðni offitu heldur en til uppsöfnunar mengunarefna.
Til baka Senda greinÞetta vefsvæði byggir á Eplica