Lyflæknaþing

Ágrip veggspjalda

V 01 Hjartabilun og endurhæfing

Sólrún Jónsdóttir1, Karl Andersen2, Axel Sigurðsson3, Stefán B. Sigurðsson1, Hans Jakob Beck3, Marta Guðjónsdóttir3

Frá 1læknadeild HÍ, 2hjartadeild Landspítala Fossvogi, 3hjartadeild Landspítala Hringbraut, 3Reykjalundi endurhæfingarstöð

andersen@shr.is

Inngangur: Endurhæfing er mikilvægur þáttur í meðferð sjúklinga með kransæðasjúkdóm. Áhrif markvissrar endurhæfingar meðal þeirra sem hafa hjartabilun eru minna þekkt.

Efniviður og aðferðir: Við könnuðum áhrif hjartaendurhæfingar meðal 43 sjúklinga með greininguna hjartabilun. Eftir grunnmælingar var hópnum slembiraðað í tvo jafn stóra undirhópa, þjálfunarhóp og viðmiðunarhóp. Þjálfunarhópurinn fékk markvissa endurhæfingu tvisvar í viku undir leiðsögn sjúkraþjálfara ásamt fræðslu. Viðmiðunarhópurinn fékk enga sérstaka meðferð, en fylgst var með þeim símleiðis. Í upphafi og við lok sex mánaða rannsóknartímabils voru meðal annars gerðar mælingar á súrefnisupptöku við stigvaxandi álag, útfallsbroti vinstri slegils við hjartaómun, sex mínútna gönguþolspróf, öndunarmælingar, vöðvastyrksmælingar, blóðrannsóknir og mat á heilsutengdum lífsgæðum með stöðluðum spurningalista.

Niðurstöður: Enginn hefur hætt þjálfun vegna aukaverkana. Niðurstöður grunnmælinga liggja fyrir og verða kynntar á lyflæknaþingi. Útfallsbrot fyrir þjálfun mældist að meðaltali 41±13,4%. Þrektala fyrir þjálfun var 15,3±3,3 ml/kg/mín.

Ályktanir: Á þinginu verða kynntar niðurstöður grunnmælinga og mismunandi mælikvarðar á starfsþreki hjartabilunarsjúklinga bornir saman.V 02 Rannsókn á skyldleika sjúklinga með þarmabólgusjúkdóm á Íslandi

Inga Reynisdóttir1, Daníel F. Guðbjartsson1, Jóhann Heiðar Jóhannsson2, Kristleifur Kristjánsson1, Sigurður Björnsson3

Frá 1Íslenskri erfðagreiningu, 2Landspítala Hringbraut, 3Landspítala Fossvogi

johannjh@rsp.is

Inngangur: Sáraristilbólga (colitis ulcerosa, UC) og svæðisgarnabólga (Crohns sjúkdómur, CD) eru alvarlegir bólgusjúkdómar í þörmum, sem oft ganga undir samheitinu þarmabólgusjúkdómur (inflammatory bowel disease, IBD). Erlendar rannsóknir benda til þess að erfðir og umhverfi eigi þátt í myndun þessara sjúkdóma. Markmiðið var að finna skyldleika íslenskra sjúklinga með þarmabólgusjúkdóm og bera saman með tölfræðilegum aðferðum við viðmiðunarhópa.

Efniviður og aðferðir: Niðurstöður rannsókna á nýgengi þarmabólgusjúkdóms á Íslandi á 47 ára tímabilinu 1950-1996 hafa verið birtar. Þá greindust 1.163 einstaklingar með þarmabólgusjúkdóm. Í ættfræðigagnagrunni Íslenskrar erfðagreiningar eru skráðir rúmlega 600.000 Íslendingar og ættartengsl þeirra. Gagnagrunnurinn var notaður til þess að kanna skyldleika sjúklinganna, annars vegar fyrir hópinn í heild og hins vegar fyrir undirhópana tvo (UC og CD), sem síðan var borinn saman við skyldleika innan viðmiðunarhópa.

Niðurstöður: Skyldleikarannsóknin bendir til þess að ættartengsl séu meiri meðal sjúklinganna en meðal einstaklinga í viðmiðunarhópum. Einnig eru meiri líkur á að sjúkdómurinn finnist hjá nánu skyldfólki sjúklings heldur en hjá nánu skyldfólki einstaklings í viðmiðunarhópi. Áhættustuðullinn l er 5,6; 6,6 og 4,3 fyrir systkini sjúklinga með þarmabólgusjúkdóm, sáraristilbólgu og svæðisgarnabólgu. Þegar ættir þarmabólgusjúklinga eru raktar til sameiginlegra forfeðra (minimum founder test) er fjöldi þeirra minni en meðalfjöldi sameiginlegra forfeðra viðmiðunarhópa (p <10-6). Skyldleikastuðullinn (kinship coefficient) fyrir þarmabólgusjúkdómshópinn er 1,94x10-4 sem er 11 staðalfrávikum hærri en skyldleikastuðullinn fyrir viðmiðunarhópa (p <10-6). Sömu niðurstöður fengust hvort sem prófin voru gerð fyrir sjúklingahópinn í heild eða fyrir undirhópana tvo.

Ályktanir: Rannsóknin bendir til þess að þarmabólgusjúklingar á Íslandi séu mun skyldari en einstaklingar í viðmiðunarhópum og styrkja þá kenningu að erfðir eigi gildan þátt í tilurð sjúkdómanna.V 03 Greining á úrfellingu á C4 geninu með nýrri LR-PCR aðferð. Skimun í íslenskum fjölskyldum með ættlægan SLE sjúkdóm

Helga Kristjánsdóttir, Kristján Steinsson

Frá rannsóknastofu í gigtsjúkdómum Landspítala Hringbraut

helgak@rsp.is

Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að greina erfðafræðilegan grunn C4A prótínskorts (C4AQ0) í íslenskum fjölskyldum með ættlægan SLE sjúkdóm. Að staðfesta C4A prótínskort vegna úrfellingar á C4A geninu með því að skima fyrir úrfellingunni með nýrri langdrægri PCR (long range PCR) aðferð.

Inngangur: Með prótínrafdrætti höfum við áður greint skort á komplímentþætti 4A (C4AQ0) hjá 50% íslenskra SLE sjúklinga. Það er hins vegar tæknilega erfitt að staðfesta C4AQ0 hjá arfblendnum einstaklingum, þar sem stuðst er við styrkleika prótínbanda í rafdrætti til að meta hvort einstaklingur er arfblendinn eða eðlilegur með tilliti til C4A prótíns. Fjölskyldurannsókn með greiningu á MHC setröðum í tengslum við C4A er nauðsynleg til að greina arfblendna einstaklinga með góðri vissu. Erfðafræðilegur grunnur C4A skorts er breytilegur, en stór úrfelling sem nær yfir nánast allt C4A genið er grunnur C4AQ0 hjá allt að 2/3 hvítra SLE sjúklinga með C4AQ0. Úrfellingin finnst í tengslum við MHC setröðina HLA-B8-C4AQ0-C4B1-HLA-DR3. Vegna mikillar samsvörunar C4A og C4B genanna (99%) hefur til þessa ekki verið mögulegt að nota venjulegar PCR aðferðir til að greina úrfellingu á C4A geninu.

Efniviður og aðferðir: Ný PCR aðferð til greiningar á úrfellingu á C4A geninu var þróuð. Aðferðin byggir á tveimur LR-PCR hvörfum, einu sértæku fyrir úrfellingu á C4A geninu og einu sértæku C4A án úrfellingar. Staðfesting á úrfellingunni er því möguleg jafnt hjá arfblendum sem arfhreinum einstaklingum. Rannsóknin náði til 156 einstaklinga úr níu íslenskum fjölskyldum með ættlægan SLE sjúkdóm og voru þátttakendur skimaðir fyrir úrfellingu á C4A geninu. Úrfelling á C4A geninu var staðfest hjá arfblendnum eða arfhreinum einstaklingum. Niðurstöður LR-PCR greiningar voru bornar saman við C4A prótínrafdrátt og MHC setraðagreiningu.

Niðurstöður: Með þessari nýju LR-PCR aðferð höfum við staðfest úrfellingu á C4A geninu í íslenskum SLE fjölskyldum. Úrfellingin er til staðar hjá 57% SLE sjúklinga með C4A prótínskort. Úrfellingin fannst í tengslum við 4 MHC setraðir: 1. klassísku C4A úrfellingar setröðina HLA-B8-C4AQ0-C4B1-HLA-DR3 og þrjár afleiður hennar 2. HLA-B8-C4AQ0-C4B1-HLA-DR2, 3. HLA-B8-C4AQ0-C4B1-HLA-DR7 og 4. HLA-B8-C4AQ0-C4B1-HLA-DR10.

Ályktanir: Við höfum þróað nýja LR-PCR aðferð til að greina úrfellingu á C4A geninu. Aðferðin gerir mögulega hraða og nákvæma greiningu á C4A úrfellingu og greinir á milli arfblendinna og arfhreinna einstaklinga. Í íslenskum SLE fjölskyldum fannst úrfellingin í tengslum við 4 MHC setraðir.V 04 Gigtarbreytingar í beinum þjóðveldismanna

Hildur Gestsdóttir1, Juliet Rogers2, Jón Þorsteinsson3, Helgi Jónsson3

Frá 1Fornleifastofnun, 2Bristol Royal Infirmary, 3Landspítala Hringbraut

helgijon@rsp.is

Tilgangur: Að leita eftir merkjum um gigtarsjúkdóma í gömlum beinum, einkum með tilliti til bólgusjúkdóma og slitgigtar. Einnig að bera saman niðurstöður rannsókna með nútímaaðferðum við rannsóknir Jóns Steffensens prófessors frá 1939.

Efniviður og aðferðir: Beinagrindur 54 fullorðinna úr kirkjugarðinum á Skeljastöðum í Þjórsárdal voru skoðaðar með tilliti til gigtarbreytinga. Notaðar voru aðferðir Rogers við greiningu slitgigtar, en til þess að setja greininguna þurfti annað hvort greinilega fílabeinsáferð (eburnation), eða bæði beinnabba (osteophytes) og holótt (porous) yfirborð brjósks.

Niðurstöður: Engin merki fundust um iktsýki eða aðra bólgugigtarsjúkdóma, en slitgigt var til staðar í 17 af 54 (31,5%) og níu af 24 konum (37,5%). Átta beinagrindur báru merki um slitgigt á meira en einum stað (14,8%). Slitgigt var algengust í lendarliðum (14,8%), hálsliðum (11,1%) og mjaðmarliðum (7,4%). Gott samræmi var á milli núverandi rannsóknar og rannsóknar Jóns Steffensens frá 1939, en Jón notaði greininguna polyarthritis yfir slitgigt á fleiri en einum stað.

Ályktun: Slitgigt virðist hafa verið algeng í Íslendingum til forna, og algengi virðist hærra en í sambærilegum rannsóknum í Englandi. Einkum virðist algengi slitgigtar í lendarliðum og mjaðmarliðum hafa verið hátt, en þetta er í góðu samræmi við þekkingu okkar á algengi slitgigtar á Íslandi í dag.V 05 Hækkuð TNFµ og IL-10 framleiðsla hjá ættingjum sjúklinga með iktsýki

Brynja Gunnlaugsdóttir, Helga Kristjánsdóttir, Gerður Gröndal, Anna Guðrún Sigurðardóttir, Jón Þorsteinsson, Kristján Steinsson

Frá rannsóknastofu í gigtsjúkdómum Landspítala Hringbraut

brynja@rsp.is

Inngangur: Markmið verkefnisins var að mæla framleiðslu á boðefnunum tumor necrosis factor alpha (TNFµ) og interleukin-10 (IL-10) í sjúklingum með iktsýki, fyrsta stigs ættingjum þeirra og heilbrigðum einstaklingum.

Efniviður og aðferðir: Hvítfrumur (PBMC) voru einangraðar úr blóði og ræktaðar í sólarhring án örvunar. Boðefni í frumuræktarfloti voru mæld með ELISA aðferð. Tuttugu sjúklingar (meðalaldur 58 ár (33-80) tveir karlar, 18 konur), 20 fyrsta stigs ættingjar (meðalaldur 43 ár (13-79), fimm karlar, 15 konur) og 19 heilbrigðir einstaklingar (meðalaldur 57 (33-84), tveir karlar, 18 konur) tóku þátt í rannsókninni.

Niðurstöður: Styrkur TNFµ og IL-10 mældist hærri hjá ættingjum en heilbrigðum viðmiðum (TNFµ; p=0,045 og IL-10; p=0,025). Þessi boðefni mældust einnig hækkuð hjá sjúklingum en munurinn var ekki marktækur (TNFµ; p=0,261 og IL-10; p=0,273).

Ályktanir: Þessar niðurstöður benda til þess að framleiðsla og/eða upptaka boðefna sé afbrigðileg í fyrsta stigs ættingjum sjúklinga með iktsýki. Athyglisvert er að lægri boðefnastyrkur mælist hjá sjúklingum en ættingjum. Lyfjameðferð skýrir ef til vill þennan mun.V 06 Brjóstholsspeglarnir sem greiningartæki

Friðrik E. Yngvason

Frá lyflækningadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

fridrik.yngvason@fsa.is

Tilgangur: Að athuga árangur og annmarka á brjóstholsspeglunum, sem gerðar hafa verið í greiningarskyni hjá 14 sjúklingum.

Efniviður og aðferðir: Á 11 árum (maí 1987-apríl 1999) hafa verið gerðar 14 brjóstholsspeglanir hjá sjúklingum á FSA. Gerð hefur verið brjóstholsspeglun með beinum spegli í gegnum eitt op með sjúklinginn vakandi í staðdeyfingu. Ábending hefur í öllum tilvikum verið stór (yfir 1000 ml) vökvasöfnun í fleiðru öðrum megin, þar sem ástunga hefur sýnt að vökvi fyllir skilmerki Lights um vilsu (exudat).

Niðurstöður: Fleiðrusýni voru tekin undir stjórn augans úr sjúklegustu svæðum fleiðru. Í 10 tilfellum staðfestist illkynja æxli í fleiðru. Gott samræmi var milli útlits við speglunina og lokagreiningu úr vefjasýni. Tveir sjúklingar höfðu miðþekjuæxli. Meinvörp höfðu þrír frá lunga, tveir frá brjósti, einn frá eggjastokk, einn frá nýra og einn frá reði. Þrír sjúklinganna höfðu áður greinst með illkynja mein (brjóst og reður). Vefjagreining lá fyrir innan tveggja daga.

Fjórir sjúklingar höfðu ekki illkynja breytingar í fleiðrusýnum. Einn þeirra hafði miðlægt flöguþekjukrabbamein í lunga. Tveir höfðu ósértæka fleiðrubólgu með áberandi eósínsæknum frumum af völdum lungnareks og lungnadreps í báðum tilfellum. Sýni úr lunga í öðru tilvikinu samrýmdist drepi.

Þannig voru 11 af 14 sjúklingum með langt genginn illkynja sjúkdóm og voru horfur slæmar samkvæmt því. Skemmst lifun var tveir mánuðir, skemmst lifun með krabbamein var fjórir mánuðir.

Frumuskoðun var sjaldan beitt, en var þó neikvæð í tveimur tilvikum, þar sem krabbamein fannst í fleiðrusýni.

Sjálf brjóstholsspeglunin gekk vel í öllum tilvikum jafnvel þótt almennt ástand sjúklinga væri oft slakt. Sjúklingar finna til sársauka við töku vefjasýnis úr veggfleiðru, því meir sem fleiðran er eðlileg. Yfirleitt eru tekin fjögur til átta sýni. Fylgst var með sjúklingum í sírita (monitor) og pulsoximeter og þeim gefið súrefni meðan á aðgerð stóð. Verkir vegna brjóstholskera voru meðhöndlaðir með bólgueyðandi gigtarlyfjum. Kerinn notaður til fleiðrulokunarmeðferðar (pleurodesis) hjá þeim sem greindust með krabbamein.

Ályktanir: Hjá sjúklingum með stóra fleiðruvilsu öðrum megin gefur brjóstholsspeglun skjóta greiningu. Samræmi var gott milli útlits og niðurstöðu úr fleiðrusýnum. Brjóstholsspeglun er greiningaraðferð sem er sjaldan beitt en þolist ágætlega og á vel við í þessu þýði.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica