Lyflæknaþing

XIV. þing Félags íslenskra lyflækna á Egilsstöðum 9.-11. júní 2000

Félag íslenskra lyflækna heilsar nýrri öld með því að halda þing sitt, hið 14. í röðinni á Austurlandi.

Þing félagsins hafa frá upphafi verið kærkominn og verðugur vettvangur, þar sem mönnum hefur gefist tækifæri til þess að kynna rannsóknir sínar á hinum ýmsu sviðum lyflæknisfræðinnar og leggja þær undir dóm kolleganna. Um leið gefst hinum almenna þátttakanda kostur á að kynnast því sem er efst á baugi í fræðunum hverju sinni.

Á Egilsstaðaþinginu verða nýjustu rannsóknaniðurstöður kynntar í 81 erindi og á sex veggspjöldum. Að venju verða veitt verðlaun fyrir framúrskarandi rannsókn og erindi ungs læknis og fyrir besta framlag stúdents.

Á undanförnum þingum hefur skapast sú hefð að bjóða íslenskum læknum, sem eru að gera garðinn frægan erlendis, að halda gestafyrirlestur. Að þessu sinni varð fyrir valinu dr. med. Guðmundur Jóhannsson, Gautaborg, en hann mun fjalla um þýðingu vaxtarhormóns hjá fullorðnum.

Notkun rafrænnar sjúkraskrár fer ört vaxandi í heilbrigðiskerfinu. Því er það við hæfi að á þessu þingi verður sérstakt málþing um þetta mikilvæga efni. Þá er einnig við hæfi að minnast þess að það var einmitt á Egilsstöðum að upphaf rafrænnar sjúkraskráningar hér á landi átti sér stað fyrir tæpum aldarfjórðungi eða árið 1976 með Egilsstaðarannsókninni, sem svo var kölluð.

Að vanda verða á vettvangi þingsins sýningarbásar, þar sem hin ýmsu lyfjafyrirtæki kynna úrval lyfja, sem þeir hafa upp á að bjóða. Ljúft og skylt er að þakka þeim fyrir þeirra framlag.

En lífið er ekki bara vinna og vísindi. Að afloknum degi með stífri vísindadagskrá liggur leiðin með Lagarfljótsorminum í Atlavík og Hallormsstaðaskóg, þar sem gefst tækifæri til þess að slaka á og njóta kyrrlátrar fegurðar íslenskrar náttúru.


Hittumst heil á Egilsstöðum.

Ástráður B. Hreiðarsson

formaður Félags íslenskra lyflækna


Stjórn Félags íslenskra lyflækna

Ástráður B. Hreiðarsson formaður

Þórður Harðarson ritari

Ásgeir Jónsson gjaldkeri

Runólfur Pálsson

Sigurður Guðmundsson

Sigurður B. Þorsteinsson



Framkvæmdastjóri þingsins

Birna Þórðardóttir

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica