Umræða fréttir

Starfsemi landsbyggðarsjúkrahúsa

Þegar kom að mér að skrifa grein undir fyrirsögninni Af sjónarhóli stjórnar var sjálfgefið að fjallað yrði um landsbyggðarsjúkrahúsin þar sem ég sit í stjórn Læknafélags Íslands sem fulltrúi landsbyggðarinnar.

Málefni þessara sjúkrahúsa hafa lítið verið á dagskrá síðastliðið ár, enda hafa tvö önnur mál eðlilega tekið mestan tíma stjórnarinnar. Það er að segja gagnagrunnsmálið og sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík. Ekki verður hjá því komist að drepa stuttlega á þessi mál hér í upphafi enda varða þau alla lækna hvar sem þeir vinna á landinu. Því miður hefur enn ekki tekist að ná viðunandi niðurstöðu í gagnagrunnsmálinu en mikilvægt er að það mál verði leitt til lykta með þátttöku félagsins.

Í tilefni af fyrirhugaðri sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík sendu stjórnir LÍ og LR frá sér sameiginlega yfirlýsingu um málið þann 8. febrúar síðastliðinn. Þar er meðal annars lögð áhersla á að ákvarðanir um aukna samvinnu og/eða sameiningu deilda verði teknar í fullu samráði og í sátt við starfsfólk. Að mati sumra hefur á þetta skort og ber að harma það.

Á þetta atriði er sérstaklega minnst því tillögur sem litið hafa dagsins ljós á undanförnum árum um breytingar á skipan heilbrigðismála á landsbyggðinni hafa oftar en ekki komið fram án samráðs við starfsfólk viðkomandi stofnana. Fram hafa komið tillögur eingöngu byggðar á tölulegum upplýsingum. Alkunna er hversu varasamt það getur verið að draga ályktanir af tölulegum upplýsingum um mannlegar athafnir án þess að hafa staðgóða þekkingu á raunveruleikanum sem að baki liggur. Á meðan sameiningarumræður í Reykjavík hafa staðið sem hæst, hafa stjórnendur landsbyggðarsjúkrahúsa fengið frið fyrir tillögugerðarmönnum. Það hefur gefið starfsfólki margra minni sjúkrahúsa andrúm til að huga að tímabærum breytingum á eigin rekstri.

Verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi flestra landsbyggðarsjúkrahúsa undanfarin ár. Sum minnstu sjúkrahúsin hafa hætt skurðstofustarfsemi og önnur hafa tekið upp nána samvinnu við stærri sjúkrahús um þann þátt starfseminnar. St. Fransiskusspítalinn í Stykkishólmi hefur haslað sér völl á nýju sviði við meðferð baksjúklinga með mjög góðum árangri. Á öðrum stöðum hafa menn lagt meiri áherslu en áður á að byggja upp aðstöðu fyrir sérfræðinga á sviði lyflæknisfræði og má þar nefna Sjúkrahús Húsavíkur. Þannig hafa mörg sjúkrahúsanna á landsbyggðinni verið að hverfa frá þeirri ofuráherslu sem lögð var á skurðlækningar, þar sem smæð viðkomandi stofnana og fámenni leyfðu ekki nauðsynlega þróun á því sviði.Heilbrigðisþjónustu í nánd heimabyggðar

Það er skylda okkar að tryggja öllum landsmönnum heilbrigðisþjónustu eins nálægt heimabyggð og mögulegt er. Ekki er síður mikilvægt að fólk hafi val og geti leitað annað falli þeim ekki í geð sú þjónusta sem í boði er á einum stað. Annað sættir fólk sig ekki við í nútíma þjóðfélagi.Vera má að litlu sjúkrahúsin í námunda við Reykjavík komi til með að gegna því hlutverki að einhverju leyti í framtíðinni þegar sameining sjúkrahúsanna þar er um garð gengin.

Þegar nátturuhamfarir eiga sér stað er veðurfar oft þannig að hjálp verður ekki sótt á stuttum tíma til annarra landshluta eins og best sannaðist er snjóflóðin féllu á Vestfjörðum fyrir fáum árum. Þá skipti tilvist Sjúkrahússins á Ísafirði sköpum í björgunarstarfinu. Jarðskjálftarnir sem riðu yfir Suðurland nú í sumar minntu okkur á að náttúruhamfarir gætu gert sjúkrahús á Reykjavíkursvæðinu óstarfhæf um lengri eða skemmri tíma. Þess vegna er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri aðalvarasjúkrahús landsins með tilliti til almannavarna. FSA er nú þegar öflugt fjölgreinasjúkrahús, á íslenskan mælikvarða, sem þjónar stórum hluta Norður- og Austurlands. Það hníga mjög mikilvæg rök til þess að þjóðin verði að geta staðið undir tveimur vel búnum hátæknisjúkrahúsum, öðru í Reykjavík og hinu á Akureyri. Að sjálfsögðu verður Landspítalinn - háskólasjúkrahús okkar langstærsta sjúkrahús og ber að hafa yfir að ráða þeirri sérfræðiþekkingu, rannsóknar- og meðferðartækni sem ekki er skynsamlegt af faglegum og/eða fjárhagslegum ástæðum að hafa nema á einum stað í landinu.Tækniframfarir á minni sjúkrahúsum

Miklar tækniframfarir hafa orðið í heilbrigðisþjónustunni á síðustu árum. Sem dæmi má nefna þær breytingar sem orðið hafa í skurðlækningum með tilkomu holsjáraðgerða.Við upphaf þeirrar þróunar hreyrðust þær raddir í hópi lækna að nú væru skurðlækningar orðnar svo tæknilega háþróaðar að ekkert vit væri í því að minni sjúkrahús væru að fikta við slíkt. Hver hefur raunin orðið? Reynslan sýnir að sjúklingar eru ekki jafn veikir eftir þessar aðgerðir og gera þess vegna ekki sömu kröfu um gæslu og meðferð og oft er nauðsynleg eftir hefðbundnar aðgerðir. Enda hafa minni sjúkrahús tileinkað sér þessa nýju tækni með miklum ágætum. Sjúkrahús Akraness hefur lagt sérstaka áherslu á að nýta sér þessa nýju tækni enda er óvíða meiri fjölbreytni í holsjáraðgerðum en þar. Af sömu ástæðu hafa slíkar aðgerðir verið að flytjast út af sjúkrahúsunum í Reykjavík og til einkarekinna læknastöðva. Þessi þróun hlýtur að vera fagnaðarefni á nýjum Landspítala. Það gefur starfsfólki hans tækifæri til að einbeita sér að stærri og flóknari verkefnum sem ekki verða leyst á minni sjúkrahúsum eða læknastöðvum. Auðvitað getur þessi þróun haft það í för með sér að Háskóli Íslands þurfi að sækjast eftir auknu samstarfi við minni sjúkrahús og jafnvel læknastöðvar um menntun heilbrigðisstarfsfólks. Þeirri málaleitan yrði örugglega vel tekið.Akranesi 20. ágúst 2000

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica