Umræða fréttir

Úrskurður Gerðardóms Læknafélags Íslands

Í viðauka við lög Læknafélags Íslands segir um Gerðardóm, að forsendur og dómsorð skuli birta í Læknablaðinu samkvæmt ákvörðun dómsins.



Ár 2000, ÞriÐjudaginn 18. júlí, var fundur haldinn í Gerðardómi Læknafélags Íslands á skrifstofu formanns dómsins á Landspítalanum og hófst fundurinn kl. 16. Fundinn sátu fastir dómarar Gerðardómsins, Þórður Harðarson læknir, formaður, Sigursteinn Guðmundsson læknir og Sverrir Bergmann læknir auk tveggja dómara sérstaklega tilkvaddra í neðangreindu máli, Vilhjálmur Rafnsson læknir, tilkvaddur af sóknaraðila málsins, og Hannes Pétursson læknir, tilkvaddur af hinum föstu dómurum fyrir hönd Siðanefndar Læknafélags Íslands. Einnig sat fundinn lögfræðilegur ráðgjafi Gerðardómsins, Jónatan Þórmundsson prófessor.



Fyrir var tekið mál nr. 1/2000:



Bogi Andersen

gegn

Siðanefnd Læknafélags Íslands



og í því kveðinn upp svohljóðandi



ÚRSKURÐUR



Með kæru, dagsettri 10. maí 2000, skaut sóknaraðili máls þessa, Bogi Andersen læknir, til Gerðardómsins úrskurði Siðanefndar Læknafélags Íslands frá 28. apríl 2000. Krafa hans fyrir Gerðardóminum var sú, að aðalmenn í Siðanefnd, Allan V. Magnússon, Ásgeir B. Ellertsson og Runólfur Pálsson víki sæti við meðferð Siðanefndar á kæru Högna Óskarssonar læknis á hendur honum, sbr. bréf sóknaraðila 29. febrúar sl. til stjórnar Læknafélags Íslands. Í greinargerð frá 20. júní sl. eru endanlegar dómkröfur sóknaraðila í máli þessu þær sem hér segir:

felldur verði úr gildi úrskurður Siðanefndar Læknafélags Íslands frá 28. apríl 2000 um að aðalmenn í nefndinni víki ekki sæti við meðferð kæru Högna Óskarssonar á hendur kæranda.

dæmt verði að aðalmenn í Siðanefnd Læknafélags Íslands skuli víkja sæti er nefndin fjallar um kæru Högna Óskarssonar á hendur kæranda.

Krafa sóknaraðila á hendur Siðanefnd og aðalmönnum í Siðanefnd styðst einkum við tvær málsástæður, eins og þeim er lýst í bréfi hans til stjórnar Læknafélags Íslands, dags. 29. febrúar 2000, og í greinargerð hans frá 20. júní sl., er lögmaður hans lagði fram á fundi Gerðardómsins sama dag.

Fyrri málsástæða sóknaraðila byggist á því sjónarmiði, að Siðanefnd sé vanhæf til þess að fjalla um kæru Högna Óskarssonar, þar sem kæra Högna lúti m.a. að því, að sóknaraðili hafi vegið að Siðanefnd Læknafélagsins með ósæmilegum hætti og að þeir Allan Vagn Magnússon, Ásgeir B. Ellertsson og Runólfur Pálsson, auk Högna sjálfs, séu þannig orðnir "fórnarlömb afbrota minna", þ.e. sóknaraðila. Dómari hljóti að víkja sæti í málum, þar sem hann er sjálfur fórnarlamb glæpsins. Af sama toga eru þau rök sóknaraðila, að vegna ýmissa efnisatriða í kæru Högna Óskarssonar hljóti hluti af málsvörn hans að fela í sér harða gagnrýni á störf Siðanefndar og þar með ofannefndra aðalmanna í Siðanefnd.

Síðari málsástæða sóknaraðila er á því byggð, að væntanleg málsvörn hans við meðferð Siðanefndar á kæru Högna Óskarssonar krefjist þess, að farið sé ofan í kjölinn á grunngögnum málsins, þ.á m. ýmsum málsgögnum frá Héraðsdómi og Hæstarétti. Högni byggi sína kæru m.a. á efnislegri niðurstöðu Siðanefndar frá 13. desember 1999. Siðanefnd taki hins vegar fram í úrskurði sínum frá 28. apríl 2000, að þar sem úrskurði hennar frá 13. desember hafi verið unað, verði þau álitaefni, sem þar er fjallað um, ekki til efnislegrar meðferðar við umfjöllun um kæru Högna Óskarssonar.

Um málsmeðferð hlítir Gerðardómur þeim réttarfarsreglum, sem tíðkast hér á landi á hverjum tíma, svo fremi málsaðilar hafi ekki komið sér saman um annað, sbr. 26. lið viðauka við lög Læknafélags Íslands frá 1992. Samkvæmt 11. lið viðaukans gilda sömu reglur um málsmeðferð fyrir Siðanefnd, eftir því sem við á. Í hinum kærða úrskurði vísar Siðanefnd til reglna um sérstakt hæfi dómara til að fara með mál hverju sinni, sbr. 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í úrskurðinum er sérstaklega fjallað um g-lið ákvæðisins, sem hefur að geyma almenna vanhæfisreglu byggða m.a. á því, hvort einhver ytri atvik eða aðstæður gefi réttmætt tilefni til að efast um óhlutdrægni dómara. Sóknaraðili byggir kröfu sína einnig á umræddu ákvæði g-liðar 5. gr. og auk þess á c-lið greinarinnar.

Sóknaraðili hefur lagt fram skriflega greinargerð, dagsetta 20. júní 2000. Engin greinargerð hefur borist frá varnaraðila málsins, Siðanefnd Læknafélags Íslands. Alls hafa 10 málsskjöl verið lögð fyrir Gerðardóminn.

Lögmaður sóknaraðila, Dögg Pálsdóttir hrl., kom á fund Gerðardóms 20. júní sl. til þess að leggja fram greinargerð umbjóðanda síns og tjá sig um málsmeðferðina. Á fundi 3. júlí sl. gerði lögmaðurinn munnlega grein fyrir kröfum umbjóðanda síns, málsástæðum og lagarökum. Siðanefnd óskaði ekki að leggja fram gögn eða tjá sig með öðrum hætti fyrir Gerðardóminum. Að svo búnu var málið tekið til úrskurðar.

Atvik málsins eru rakin í úrskurði Siðanefndar 13. desember 1999 og hinum kærða úrskurði frá 28. apríl sl.

Um fyrri málsástæðu sóknaraðila segir í hinum kærða úrskurði: "Við meðferð þess máls kann að vera að Bogi láti í ljós skoðanir á framangreindum úrskurði Siðanefnar frá 13. desember sl. og enda þótt vera kunni að hann sé ekki sammála efnistökum nefndarinnar eða niðurstöðu hennar veldur það ekki því að óhlutdrægni nefndarmanna verði með réttu dregin í efa."

Tekið er undir þessi orð í úrskurði Siðanefndar að því viðbættu, að það er skýr dómvenja í íslenskri réttarframkvæmd, að jafnvel hörð gagnrýni frá aðilum máls eða skammaryrði og níð í garð dómara valda ekki vanhæfi dómarans sem slík, enda hljóta bæði sjálfsögð eðlisrök og grundvallarreglan um tjáningarfrelsi að mæla gegn vanhæfi dómara og annarra úrskurðaraðila af þeim sökum. Ekki er því fallist á kröfu sóknaraðila á þessum grundvelli.

Um síðari málsástæðu sóknaraðila segir svo í hinum kærða úrskurði: "Í úrskurði sínum frá 13. desember sl. komst nefndin að þeirri niðurstöðu að álitaefni sem snerti faglegt mat, umfjöllun og efnistök læknis í tilviki sem því sem þar var til úrlausnar heyri ekki undir hana og benti á ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um læknaráð. - Úrskurði þessum var unað og er þetta álitaefni ekki til efnislegrar meðferðar hér heldur hvort Bogi Andersen hafi með ummælum sínum um starfsbróður sinn, Högna Óskarsson, gerst brotlegur við siðareglur lækna."

Í kæru Högna Óskarssonar, dagsettri 18. janúar sl., á hendur sóknaraðila, Boga Andersen, er sóknaraðili talinn hafa brotið siðareglur lækna (codex ethicus) með margvíslegum hætti. Í kærunni segir m.a.: "Í viðtalinu [í kvöldfréttatíma og fréttaspegli Ríkisútvarpsins] fór Bogi Andersen mjög hörðum og ærumeiðandi orðum um undirritaðan, auk þess sem hann rangfærði ýmislegt, sem í álitsgerð undirritaðs stendur. Ætti ekki að leika nokkur vafi á því að með þessum ummælum sínum hafi Bogi Andersen vegið mjög að starfsheiðri undirritaðs og þverbrotið ýmis ákvæði Codex Ethicus" (bls. 1). Í átta sérgreindum kæruliðum, er á eftir fylgja í kærubréfinu, er alls staðar vitnað til 1. eða 2. mgr. 29. gr. siðareglna Læknafélagsins, er lúta að samskiptum lækna. Kjarni þessa ákvæðis er bann við því, að læknir eigi hlut að því að skerða atvinnuöryggi annars læknis eða kasti rýrð á þekkingu eða störf annarra lækna. Slíkt athæfi er í eðli sínu ærumeiðandi, jafnframt því sem það getur haft í för með sér beinan atvinnu- eða tekjumissi.

Sóknaraðili í máli þessu, sem sakaður er um brot gegn 29. gr. og fleiri ákvæðum siðareglnanna, á rétt til þess samkvæmt almennum réttarfarsreglum, sem vísað er til í 11. og 26. lið viðauka við lög Læknafélags Íslands, að færa fram hvers konar lögheimilar varnir og andmæli í því skyni að sýna fram á réttmæti eða sannindi þeirra ummæla, sem hann hefur viðhaft um Högna Óskarsson lækni, sbr. reglur um jafnræði aðila í dómsmálum samkvæmt lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt aðila í stjórnsýslumálum. Það segir sig sjálft, að geti aðili sýnt fram á réttmæti ummæla, sem gagnaðili telur meiðandi í sinn garð, verður hann yfirleitt ekki látinn sæta ábyrgð samkvæmt landslögum eða siðareglum einstakra starfsstétta.

Í forsendum Siðanefndar í úrskurði hennar 28. apríl sl. kemur fram, að nefndin telur faglegt mat, umfjöllun og efnistök Högna Óskarssonar læknis ekki eiga að koma til efnislegrar meðferðar í nýju máli út af meintum brotum sóknaraðila, Boga Andersens, gegn siðareglum Læknafélagsins. Telja má ljóst, að Siðanefndin sé með þessum orðum að binda hendur sóknaraðila og þrengja varnarkosti hans óeðlilega vegna kæru Högna Óskarssonar á hendur honum. Samkvæmt hinni almennu vanhæfisreglu í g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 verður að telja forsendur og niðurstöðu Siðanefndar í úrskurði hennar frá 28. apríl 2000 falla undir ytri aðstæður, sem gefa réttmætt tilefni til að efast um óhlutdrægni Siðanefndar og aðalmanna í Siðanefnd í kærumáli því, sem Högni Óskarsson hefur hafið fyrir nefndinni. Á grundvelli síðari málsástæðu sóknaraðila ber því að taka kröfur hans til greina.





ÚRSKURÐARORÐ



Úrskurður Siðanefndar Læknafélags Íslands frá 28. apríl 2000 er felldur úr gildi.

Aðalmenn í Siðanefnd Læknafélags Íslands skulu víkja sæti, þegar nefndin fjallar um kæru Högna Óskarssonar á hendur Boga Andersen.



Þórður Harðarson, formaður

Sigursteinn Guðmundsson

Sverrir Bergmann

Vilhjálmur Rafnsson

Hannes Pétursson

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica