Umræða fréttir

Könnun á tölfræðiþekkingu heilbrigðisstétta

NÝlega voru kynntar niðurstöður könnunar sem heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri stóð fyrir sumarið 1998. Könnunin var gerð samtímis í sex Evrópulöndum og fjallaði um starfsþjálfun heilbrigðisstétta í tölfræði. Þáttakendur voru frá Englandi, Írlandi, Finnlandi, Belgíu og Grikklandi auk Íslands. Verkefnisstjóri á Íslandi var Hermann Óskarsson.

Markmið rannsóknarinnar var kanna þörf á aukinni tölfræðikunnáttu og þjálfun meðal heilbrigðisstétta. Leitað var eftir svörum við því hvers konar tölfræðikennsla hentaði helst.

Könnunin náði til fagfólks og stjórnenda á heilbrigðissviði. Ákveðið var að hafa könnunina allviðamikla hér á landi. Spurningalistar voru sendir til tíunda hvers starfandi læknis og hjúkrunarfræðings og meira en 40 af hundraði sjúkraþjálfara og iðjuþjálfara. Allir faglegir stjórnendur þriggja stærstu heilbrigðisstofnana landsins fengu sérstakan spurningalista sendan, en þeir bera ábyrgð á endurmenntun starfamanna hver hjá sinni stofnun. Svörun var lítil, einungis 28% meðal fagstéttanna en 42% stjórnenda svöruðu. Þrátt fyrir þessa litlu svörun er talið að svörin gefi nokkuð góða vísbendingu um afstöðu þessara stétta til starfsþjálfunar í tölfræði.

Meginniðurstöður könnunarinnar voru að notkun á tölfræði yrði vaxandi í framtíðinni. Tölfræðiþekking og tölfræðinotkun íslenskra heilbrigðisstétta er í meðallagi miðað við önnur lönd en víðast hvar telja fagstéttir þekkingu sína frekar slaka. Mestur áhugi reyndist á stuttum námskeiðum á vinnustað eða sveigjanlegu fjarnámi. Athygli vakti að aðgangur íslenskra heilbrigðisstétta að netinu er mun almennari en meðaltal þátttökulandanna, 94 á móti 66 af hundraði. Spurt var um netið sérstaklega með notkun þess til miðlunar fræðslu í tölfræði í huga.

Könnunin var liður í samstarfsverkefni sem styrkt er af Leonardo starfsþjálfunaráætlun Evrópusambandsins.Þetta vefsvæði byggir á Eplica