Umræða fréttir

Aðalfundur Læknafélags Íslands árið 2000

AÐalfundur Læknafélags Íslands var haldinn á Ísafirði 25.-26. ágúst síðastliðinn. Fundurinn var vel sóttur og fyrir honum lágu allmörg mál til umfjöllunar. Umræðan um gagnagrunnsmálið setti verulegan svip á fundinn. Fyrir honum lágu þrjár tillögur um málið sem aðalfundarfulltrúum var ætlað að taka afstöðu til. Formaður LÍ, Sigurbjörn Sveinsson, rakti ítarlega þær viðræður sem Læknafélagið og Íslensk erfðagreining stóðu í frá febrúarmánuði og fram i ágúst. Nánar er greint frá þeim í viðtali við Sigurbjörn annars staðar í blaðinu. Umræður voru málefnalegar en endurspegluðu þann grundvallarágreining sem er á milli fylgismanna og andstæðinga laganna um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þeir sem höfðu ekki gert upp hug sinn að fullu settu einnig svip á umræðuna. Það vakti óneitanlega athygli að einn þeirra sem til máls tóku lýsti yfir efasemdum sínum um miðlægan gagnagrunn en jafnframt því að hann ætti hagsmuna að gæta sem eigandi 1000 eininga í Íslenskri erfðagreiningu. Margir fylgdu fordæmi hans og gerðu grein fyrir efnahagslegum og/eða starfslegum tengslum sínum við Íslenska erfðagreiningu eða Urði, Verðandi, Skuld.

Sigurbjörn Sveinsson formaður LÍ var nokkuð ánægður með ályktun þá sem samþykkt var um mögulegt framhald viðræðnanna við ÍE. ,,Þessi ályktun dregur saman samstöðu lækna um það að breyta þurfi vinnubrögðum hvað varðar notkun heilsufarsupplýsinga í rannsóknarskyni, það er að afla þurfi leyfis einstaklinga til notkunar upplýsinga um þá og að möguleiki verið fyrir hendi að eyða upplýsingum samkvæmt ósk einstaklinganna.

Með því að vísa til tveggja skjala, sem eru öndverð hvað varðar meðferð upplýsinga, sem til eru eða verða til fram að tilteknum degi skilur fundurinn það eftir fyrir stjórn að leiða þau álitamál til lykta og bera þá niðurstöðu undir dóm félaga í LÍ."

Meðal efnis á aðalfundinum var málþingið: Læknar á frjálsum markaði. Framtíð í ljósi útboða og samkeppnisreglna? Um það verður fjallað í næsta blaði.

Nýr ritari var kjörinn í stjórn Læknafélags Íslands, Hulda Hjartardóttir, og kom hún í stað Arnórs Víkingssonar sem gaf ekki kost á sér.

Ályktanir þær sem lágu fyrir fundinum voru flestar samþykktar, sumar með allmiklum breytingum eftir meðferð í starfshópum. Þær ályktanir sem samþykktar voru fylgja hér á eftir en umræðu aðalfundarins verður fylgt eftir í Læknablaðinu síðar.



Samþykktir aðalfundarins

AÐalfundur Læknafélags Íslands, haldinn á Ísafirði dagana 25.-26. ágúst 2000, heimilar stjórn félagsins að kaupa eða leigja á fjárhagsárinu 2001 fjarfundabúnað til nota í fundarsölum læknafélaganna í Hlíðasmára 8.



AÐalfundur Læknafélags Íslands, haldinn á Ísafirði dagana 25.-26. ágúst 2000, ítrekar afstöðu aðalfundar félagsins á fyrra ári þess efnis, að lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði sé áfátt, þar sem ekki sé gert ráð fyrir skriflegu samþykki sjúklings og lögin geta því grafið undan þeim trúnaði, sem ríkja þarf milli læknis og sjúklings. Fundurinn hvetur löggjafarvaldið til að snúa þessu til betri vegar.



AÐalfundur Læknafélags Íslands, haldinn á Ísafirði dagana 25.-26. ágúst 2000, lýsir yfir fullum stuðningi við stjórn félagsins við þá vinnu sem hún hefur lagt í að fá leyfishafa miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði til að afla gagna í grunninn með viðunandi hætti. Fundurinn staðfestir þá skoðun stjórnar félagsins að ekki verði við annað unað en að aflað verði persónulegrar heimildar til flutnings heilbrigðisupplýsinga um þá einstaklinga, sem grunninn eiga að mynda.



AÐalfundur Læknafélags Íslands haldinn dagana 25. og 26. ágúst 2000 á Ísafirði heimilar stjórn félagsins að leita nýrra leiða við öflun samþykkis til læknisfræðilegra rannsókna á upplýsingum í sjúkraskrám. Hún taki mið af því að eftir tiltekinn dag gildi skrifleg heimild sjúklinga til að nota megi upplýsingar úr sjúkraskrám til læknisfræðilegra rannsókna og að þróaðar verði aðferðir til að eyða upplýsingum úr gagnagrunnum samkvæmt ósk einstaklinga eða forráðamanna þeirra.

Aðalfundurinn felur stjórninni að hafa að öðru leyti í huga við vinnu sína sjónarmið, sem fram koma í þeirri ályktunartillögu landlæknis, sem fyrir fundinum liggur og meðfylgjandi greinargerð og tillögur formanns Læknafélags Íslands, dagsettar 25. maí 2000, samþykktar á stjórnarfundi þann 30. sama mánaðar.



AÐalfundur Læknafélags Íslands, haldinn á Ísafirði dagana 25.-26. ágúst 2000, telur biðlista innan heilbrigðisþjónustunnar óviðunandi. Töf á meðferð mun fyrr en síðar leiða til aukins kostnaðar í heilbrigðiskerfinu, versnunar sjúkdóma, vinnutaps, þjáninga og tvísýnni endurhæfingar. Læknafélag Íslands skorar á heilbrigðisyfirvöld og fjárveitingarvaldið að leysa þennan vanda.



AÐalfundur Læknafélags Íslands haldinn á Ísafirði dagana 25.-26. ágúst telur að skipulag stjórnunar í heilbrigðiskerfinu þarfnist endurskoðunar. Fundurinn felur stjórn félagsins að leita eftir viðræðum við heilbrigðisyfirvöld um þetta mál, þannig að reynsla og fagleg þekking lækna nýtist til stjórnunarstarfa.



AÐalfundur LÍ haldinn á Ísafirði dagana 25.-26. ágúst 2000 skorar á stjórnvöld mennta- og heilbrigðismála að endurskoða menntakerfi heilbrigðisstétta, með það að markmiði að skilgreina þarfir samfélagsins í framtíðinni á þessari þjónustu og leita leiða til að mæta þeim með nægu, vel menntuðu starfsfólki. Jafnframt lýsir LÍ sig tilbúið til að taka þátt í þeirri vinnu.



AÐalfundur Læknafélags Íslands haldinn dagana 25. og 26. ágúst 2000 á Ísafirði samþykkir að leggja ekki að svo stöddu frekari fjármuni úr sjóðum félagsins til Nesstofusafns. Fellur niður það sem ónýtt er af fjárveitingu samkvæmt ályktun aðalfundar félagsins 1998 til Nesstofusafns.

Ennfremur beinir aðalfundur því til stjórnar, að erindi verði sent bæjarstjórn Seltjarnarness þess efnis að lóð, sem var úthlutað fyrir lækningaminjasafn í Norðurtúni verði haldið til haga fyrir byggingu væntanlegs safns.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica