Umræða fréttir

Ræða Sigurbjörns Sveinssonar

Menntamálaráðherra, fjármálaráðherra, þjóðminjavörður og aðrir góðir gestir.

Þegar Jón Steffensen, þá prófessor emeritus en áður prófessor í líffærafræði við Læknadeild Háskóla Íslands, lést árið 1991, gaf hann Læknafélagi Íslands aðrar eigur sínar en húseign og bókasafn. Skyldi læknafélagið ráðstafa erfðafénu til hagsbóta fyrir lækningaminjasafn í Nesstofu. Um langt skeið hafði áhugamenn um sögu læknisfræðinnar dreymt um veglega endurreisn Nesstofu og nýtt hlutverk hennar og þessarar fallegu jarðar í Nesi við Seltjörn við varðveislu og sýningu minja, sem tengjast sögu lækninga hér á landi. Fór vel á því að draumurinn snerist um Nes, þar sem Bjarni Pálsson, landlæknir, hóf störf við lækningar og lyfsölu fyrir tæpum 240 árum. Er sú saga kunn og óþarfi að rekja hér.

Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar var stofnað í desember 1964 og var Jón Steffensen formaður þess frá upphafi og til æviloka. Jón var prófessor í líffæra- og lífeðlisfræði, en hafði um langan aldur bæði sem fræði- og áhugamaður lagt sig eftir viðfangsefnum eins og mannfræði, uppruna Íslendinga og sögu læknisfræðinnar. Hann tók þátt í fornleifarannsóknum og annaðist rannsóknir á fundnum mannabeinum fyrir Þjóðminjasafnið um áratugi. Hann safnaði lengi fornum lækningatækjum og hafði forgöngu um endurreisn Nesstofu og stofnun lækningaminjasafns hér. Jón hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín heima og heiman. Hann var meðal annars kjörinn dr. med. honoris causa frá Háskóla Íslands 1971, kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Íslands 1983 og stórriddari hinnar íslensku fálkaorðu 1972.

Prófessor Steffensen var um margt sérstæður maður og eftirminnilegur kennari. Muna flestir íslenskir læknar, sem komnir eru á miðjan aldur og umfram það, vel eftir þessum kennara sínum, sem leiddi þá fyrstu árin í læknadeild. Hann var læknissonur frá Akureyri; foreldrar hans voru Valdemar Steffensen, læknir á Akureyri og Jenny Petra Steffensen, fædd Larsen. Hún var af dönsku foreldri. Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1924 og og kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1930. Hann sótti sér framhaldsmenntun til Þýskalands og síðar til Bretlands og var skipaður prófessor í líffæra- og lífeðlisfræði við Háskóla Íslands 1937. Fékk hann lausn 1970 en kenndi þó við læknadeildina í nokkur ár til viðbótar. Jón birti fjölda ritgerða í innlendum og erlendum vísindaritum og öðrum ritum og fjölluðu flestar ritgerðirnar um þau hugðarefni hans, sem áður er getið.

Sigurður Nordal sagði eitthverju sinni að maðurinn lifði ekki af brauði einu saman, brauðið héldi einungis í honum lífinu, maðurinn lifði af ævintýrununum. Með dánargjöf Jóns Steffensens hófst eitt lítið ævintýri af þessu tagi. Sjóðurinn frá Jóni nemur um 44 milljónum króna sem nú er ráðstafað "til hagsbóta fyrir lækningaminjasafn" eins og Jón orðaði það sjálfur. Læknafélagið heldur eftir nægjanlegri fjárhæð til greiðslu óhjákvæmilegs kostnaðar, sem gerður verður upp á næsta ári, en því, sem umfram verður, mun félagið skila til Nesstofusafns.

Eftir ítarlegt samráð við áhugamenn um sögu læknisfræðinnar sérstaklega formann þeirra, Halldór Baldursson lækni, og að höfðu samráði við forráðamenn Þjóðminjasafns og Menntamálaráðuneytið og með samþykki ríkisstjórnarinnar festi stjórn Læknafélags Íslands kaup á húsi hér í grennd Nesstofu við Bygggarða 7 og nam kaupverð hennar 33.000.000,- króna. Ljóst var að húsnæði þetta gæti fullnægt bráðri þörf lækningaminjasafnsins fyrir viðunandi geymsluhúsnæði og starfsaðstöðu minjavarðar og ef til vill sýnaingaraðstöðu, þegar fram í sækti.

Til viðbótar verða ríkissjóði afhentar í dag 10.600.000,- krónur af reiðufé úr dánargjöfinni til nauðsynlegra endurbóta á umræddri húseign. Auk þess leggur Læknafélag Íslands sjálft til tvær milljónir króna úr félagssjóði sínum til að liðka fyrir þessu verkefni. Aðalfundir Læknafélags Íslands hafa sýnt þessu málefni mikinn áhuga um árabil og hefur vilji félagsmanna komið fram í samþykktum aðalfunda um fjárframlög til byggingar lækningaminjasafns.

Í dag afhendir Læknafélag Íslands safnverði Nesstofusafns jafnframt fimm myndverk úr búi Jóns Steffensen.

Sérhver vegferð hefst með fyrsta skrefinu. Allir gera sér grein fyrir að ekki er verið að leysa húsnæðismál lækningaminjasafnsins til frambúðar að þessu sinni. Við ríkjandi aðstæður er þetta skref hins vegar óhjákvæmilegt. Það er trú mín og von að draumurinn um veglegt og sæmandi lækningaminjasafn í Nesi við Seltjörn verði að veruleika í fyllingu tímans og verði ævintýri komandi kynslóðum til andlegrar næringar.

Með þessum orðum vil ég biðja háttvirta ráðherra um að undirrita með mér gjafagerning til lúkningar þessu máli eins og áður hefur verið lýst.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica