Umræða fréttir

Eineygðir Samverjar ... En læknar eru umboðsmenn sjúklinga og ber að standa á rétti þeirra

Fyrir rúmum 20 árum skrifaði ég greinarkorn í Læknablaðið um þögn lækna á þingum. Hvatti ég lækna til þess að loka sig ekki inni á stofnun en taka virkan þátt í þjóðmálaumræðunni. Margar ákvarðanir er hafa veigamikil áhrif á heilsufarið eru teknar utan heilbrigðisgeirans. Má vera að læknar hafi á stundum komið með tillögur en síðan vart söguna meir. Enginn læknir situr við pólitíska borðið þar sem ákvarðanir eru teknar og afgreiddar. Í samræmi við lagabreytingar "bandormsins" fyrir þremur árum hafa læknar lækkað í sessi í stjórnarstiga sjúkrastofnana. Enda grasserar nú tilskipunarstjórnunarstíllinn. Læknar sem sýna frumkvæði eru taldir "óþægir" og því gjarnan sniðgengnir í stjórnarstöður.

Fjármögnun og framtíðaráætlanir um skipulag heilbrigðisþjónustunnar dregur dám af þessu áhrifaleysi lækna. Þetta einskorðast ekki við Ísland samanber tilvitnanir í formann norsku læknasamtakanna á bls. 457 í Læknablaðinu 6/2000. Hann telur, að í Noregi "ríki breið samstaða um að sjálfstætt starfandi læknar verði að beygja sig undir ákvarðanir þar til kjörinna pólitískra stjórnvalda sem setja starfsemi þeirra skipulagslegan og efnahagslegan ramma".

Læknar verða vissulega að fylgja reglum lýðræðisins en mega ekki gleyma því, að samkvæmt landslögum (læknalögum og lögum um heilbrigðisþjónustu) er þeim skylt að veita þá bestu læknisfræðilega þjónustu sem völ er á hverju sinni. Forgangsröðun á að vera að mestu á höndum lækna. Að mínu mati bregðumst við sjúklingum ef við framfylgjum ekki framangreindum lögum. Að vísu tekur fyrrnefndur formaður undir þá skoðun.

Menn virðast hafa gleymt því að læknar eru í raun umboðsmenn sjúklingsins. Ekki væri úr vegi að talsmenn Læknablaðsins hefðu þær skyldur lækna í huga. Ég hefi í endurminningum mínum og víðar minnst á að nýlega gengu tvö mál á Norðurlöndum sem lýsa réttum viðbrögðum heilbrigðisstarfsfólks ef fjárveitingavaldið þrengir um of að heilbrigðisþjónustunni.

Foldamálið í Noregi: Heilbrigðisstarfsfólk sætti sig ekki við niðurskurð varðandi umönnun sjúkra, aldraðra í Folda.

Biðlistamálið í Danmörku: Yfirlæknir taldi niðurskurð í fjármálum skaða sjúklinga og mótmælti og fór fram úr fjárveitingu. Sjúkrahúsforstjórinn taldi að yfirlæknir yrði að víkja.

Í báðum þessum málum fóru heilbrigðisstarfsmenn með deilurnar fyrir dómstóla og þeir úrskurðuðu málshefjendum í vil. Þannig ber umboðsmönnum að haga sér ef gengið er á rétt sjúklinga að þeirra mati. Lýðræðisleg leið er fundin til þess að standa vörð um hag sjúklinga.

Ég fagna því að stjórnendur Elliheimilisins Grundar og DAS hafa uppi mótaðgerðir í svipuðum málum.

En læknar verða að ná aftur sætum við borð stjórnmálamanna ef ekki á illa að fara.

Aðalspurningin er: Eiga læknar að þjóna peninga- og markaðsvaldinu betur en sjúklingum? Mér er kunnugt um marga sjúklinga sem beðið hafa tjón á heilsu vegna seinkunar á aðgerð í skjóli manneklu og aðstöðuleysis (fjárskorts).

Að lokum: Ekki fannst mér nægilega vel gengið úr skugga um vilja frú Svendsen fyrir aðgerð, sjá bls. 456 í Læknablaðinu 6/2000.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica