Umræða fréttir
Smásjá 1
Bæklingur um heilsufar kvenna
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur gefið út bækling um heilsufar kvenna. Efni bæklingsins er álit nefndar sem skipuð var vorið 1995 til að kanna breytingar á heilsufari kvenna og gera tillögur um úrbætur.Í ávarpi ráðherra sem birt er í bæklingnum segir að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu "að vísbendingar séu um að konur búi að nokkru leyti við lakara heilsufar en karlar". Jafnframt bendir nefndin á að konur noti heilbrigðisþjónustu meira en karlar, séu sendar í fleiri rannsóknir, séu oftar sjúkdómsgreindar og settar í meðferð auk þess sem þær fái meira af lyfjum en karlar. Síðan segir í ávarpi ráðherra:
"Athyglisvert er að nefndin telur að margt bendi til þess að úrlausnir sem konur fái séu ekki sambærilegar við þær úrlausnir sem karlar fá og fyrir liggur að konur leita á ríkara mæli en karlar eftir óhefðbundnum lækningaaðferðum. Nefndin leggur mikla áherslu á hlutverk heilsugæslunnar og leggur til að unnið verði að því að veita þar fjölbreyttari þjónustu m.a. með því að ráða starfsmenn úr fleiri heilbrigðisstéttum og að aukin áhersla verði lögð á teymisvinnu. Þess utan er lagt til að nám heilbrigðisstétta verði endurskoðað með tilliti til kynjamunar. Bent er sérstaklega á heimilisofbeldi og stöðu nýbúakvenna, reykingar, atvinnusjúkdóma, geðræn vandamál og áfengismeðferð þar sem taka þurfi í auknum mæli tillit til þarfa kvenna. ... Fjölmörg atriði í tillögunum byggjast á breyttu hugarfari okkar allra og heilbrigðisstétta, nýrri nálgun, aukinni samvinnu, breyttri forgangsröðun og aukinni áherslu á forvarnir..."
Bæklingurinn er 36 blaðsíður í stærðinni A4. Hann er hægt að nálgast í ráðuneytinu og á heimasíðu þess en slóðin þangað er www.stjr.is/htr