Umræða fréttir

Sjálfskipuðum siðapostula svarað

Árni Björnsson læknir hefur nú um alllangt skeið birt reglulega pistla sína, "tæpitungulaust", í Læknablaðinu. Helsta höfundareinkenni hans virðist mótast af því að Árni hefur skipað sig í hlutverk siðapostula, sem gagnrýnir og áminnir lækna og stjórnendur þessa lands. Til þess að valda hlutverki siðapostulans þarf traustan siðfræðigrunn, yfirsýn, hlutlægni og réttsýni. Siðapostulum er ekki ósjaldan mikið niðri fyrir, jafnvel reiðir, enda telja þeir sig hafa mikilvægan boðskap að flytja. Umfjöllun Árna um almenn mál er oft fróðleg, jafnvel skemmtileg, eins og vangaveltur hans um The Asilomar Process í síðasta tölublaði Læknablaðsins. Þegar Árni fjallar hins vegar um erfðarannsóknir á Íslandi, og þá sérstaklega þegar þær tengjast einu ákveðnu fyrirtæki á því sviði, þá slær heldur betur í bakseglin hjá honum. Sé ég ekki betur en að Árni láti þá reiðina eina og ofstæki ráða, en glati með öllu öðrum eiginleikum til þess að vera trúverðugur siðapostuli. Kemur þetta glögglega fram í sömu grein.

Þar fer Árni mjög niðrandi orðum um erfðarannsókn á kvíða, sem undirritaður stendur að ásamt læknunum Jóni G. Stefánssyni og Halldóri Kolbeinssyni sem unnin er í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu. Telur hann skimunarlista okkar (SSQ) harla ómerkilegan, vísindalega aðferð okkar setur hann innan gæsalappa í háðungarskyni, segir að rannsóknin hafi ekki skýr markmið og gefur í skyn að kvíðasjúkdómur sé ekki alvarlegt heilsufarsvandamál. Klikkir hann út með að tölvunefnd og vísindasiðanefnd hafi brugðist hlutverki sínu og fer niðrandi orðum um hátt á annað hundrað íslenskra lækna sem stunda rannsóknir í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu.

Þegar menn reiða hátt til höggs, er eins gott að menn hafi styrk til að fylgja atlögunni eftir. Telji Árni sig hafa fullgild rök fyrir ásökunum sínum, þá ber honum að fylgja þeim eftir með athugasemd eða kæru til réttra yfirvalda. Mun ég auðvelda honum heimavinnuna með því að svara nokkrum ásakana hans, en lýsi mig að öðru leyti reiðubúinn til að fara yfir vísindalegan bakgrunn rannsóknarinnar með Árna, kæri hann sig um slíkt.

o Kvíðasjúkdómar eru alvarlegt heilsufarsvandamál. WHO spáir því að kvíði verði í hópi 10 mestu (burden of disease) heilbrigðisvandamála allrar heimsbyggðar innan 15 ára.

o Um alllangt skeið hafa rannsóknir verið stundaðar á sameindaerfðafræði kvíða, austan hafs og vestan.

o Umsókn okkar til tölvunefndar og vísindasiðanefndar er studd 45 tilvitnunum í vísindagreinar úr viðurkenndum vísindaritum.

o Rannsóknarmarkmið okkar er að kanna erfðir kvíðasjúkdóma á Íslandi og að einanagra erfðaþætti sem orsaka eða eru meðvirkandi við myndun þeirra. Eru þessi markmið í sama anda og annarra vísindarannsókna á þessu sviði.

o Spurningalisti okkar (SSQ) er skimunarlisti, hannaður af Wittchen og félögum við Max Planck Institut í München. Er hann víða notaður við skimunarleit að kvíða.

o Allir sem greinast þannig með kvíða og uppfylla önnur skilyrði rannsóknarinnar fara í nánari greiningu. Þar verður stuðst við CIDI, sem er staðlaður spurningalisti, gefinn út af WHO, og mjög víða notaður sem rannsóknartæki. Á þann hátt verður endanleg kvíðagreining að uppfylla ströngustu skilmerki.

o Tölvunefnd og vísindasiðanefnd unnu sína vinnu vel, eins og marka má af þarflegum ábendingum og kröfum sem frá þeim komu.

Ætti þetta eitt að nægja til að sýna fram á hversu yfirborðsleg umfjöllun Árna er og hve hvatirnar að baki skrifum hans hafa lítt með siðfræði að gera, hvorki almenna né læknisfræðilega. Kemur þetta ekki síst fram í nöldri Árna yfir því að við leggjum okkur fram við að lýsa vel persónuverndarferli rannsóknarinnar í bréfi til væntanlegra þátttakenda.

Það þykir skynsamlegt að leiða svona skrif hjá sér. Á ég frekar von á því að aðrir þeir aðilar sem Árni slæmir hendinni til, munu gera það þó að ég hafi kosið að svara Árna í þetta skiptið. Ég hef alltaf talið Árna sóma sér vel í læknisslopp, en íklæddur kufli siðapostula gerir hann ekki annað í þetta skiptið en að bletta kuflinn og hrukka. Því miður.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica