Umræða fréttir

Brýnt að læknar fylgist með sameiningarferli sjúkrahúsanna

Í marshefti Læknablaðsins á þessu ári birtist sameiginleg yfirlýsing stjórna LÍ og LR um sameiningu stóru sjúkrahúsanna í Reykjavík. Það telst til tíðinda að stjórnir þessara félaga sendi frá sér sameiginlegar yfirlýsingar en einnig hefur hún kallað fram viðbrögð samstarfsfólks okkar og borið hefur við að yfirlýsingin hafi verið rangtúlkuð. Það er því rétt að staldra við og skoða nánar hvað hér er á ferðinni.

Þeir sem fylgst hafa með umræðunni meðal lækna um sameiningarmál vita að meðal þeirra hafa verið deildar meiningar um það hvort sameina beri sjúkrahúsin eða auka frekar samvinnu þeirra til að nýta sem best þá sérhæfingu sem sífellt er í þróun. Það væri því sérkennilegt ef stjórnir félaganna tækju afdráttarlaust afstöðu með öðrum hópnum. Ummæli heilbrigðismálaráðherra á síðasta aðalfundi LÍ ásamt þeirri umræðu sem verið hefur meðal lækna leiddi til þessarar yfirlýsingar. Á fundinum varpaði ráðherra fram þeirri hugmynd að í framtíðinni ætti að byggja eitt hátæknisjúkrahús sem rúmi starfsemi sjúkrahúsanna í Reykjavík og á aðalfundinum urðu síðar miklar umræður um ályktun um þessi mál, en henni var vísað til stjórnar til frekari vinnslu. Yfirlýsingin er svo afrakstur þeirrar umræðu sem fram hefur farið í vetur.

Kjarninn í yfirlýsingu læknafélaganna er að bygging nýs sjúkrahúss sé forsenda þess að sjúkrahúsin verði sameinuð. Stjórnirnar hafa þannig ekki stutt þá sameiningu sem nú er í gangi í þessari yfirlýsingu, enda deildar meiningar innan þeirra. Það sem hins vegar skiptir máli í þessu sambandi eru þær forsendur sem gefnar eru í yfirlýsingunni og varnaðarorð. Svo vitnað sé til hennar er rétt að benda á eftirfarandi staðhæfingar: "Allar ákvarðanir um aukna samvinnu og/eða sameiningu deilda verði teknar í fullu samráði og í sátt við starfsfólk." "Sérstakar ráðstafanir verði viðhafðar til að fyrirbyggja faglega einokun og stöðnun." Og: "Flytja þarf verkefni frá sjúkrahúsum til læknastöðva og heilsugæslustöðva ...."

Svo sem alþjóð veit hafa sjúkrahúsin nú verið sameinuð án þess að nokkur ákvörðun hafi verið tekin um nýja byggingu og ekki séð að slíkt sé í deiglunni. Það er einnig álitamál hversu vel hefur verið fylgt anda þeirrar yfirlýsingar sem hér er gerð að umtalsefni. Það er því afar brýnt að læknar fylgist grannt með því sameiningarferli sem hafið er og þótt menn hafi mismunandi skoðanir á því hvað rétt sé að gera í þessum efnum hljóta allir læknar að vera sammála um ofnagreind atriði.

Eitt atriðið í yfirlýsingunni hefur kallað á hörð viðbrögð hjúkrunarfræðinga en það er fjórði liðurinn: "Afnema þarf með lagabreytingu tvískiptingu faglegrar stjórnunar á milli lækninga og hjúkrunar og árétta forræði lækna á faglegri yfirstjórn deilda." Erindi hefur borist til stjórnar LÍ vegna þessa og ljóst að um þetta atriði verður rætt nánar þótt það hafi verið afstaða stjórnar LÍ að blanda þessu ekki of mikið saman við umræðu um sameiningu sjúkrahúsanna. Ástæðan er einfaldlega sú að þetta mál snertir miklu fleiri vinnustaði þar sem læknar og hjúkrunarfræðingar vinna og þetta lagaákvæði gildir. Þó eru nokkur atriði ljós sem eðlilegt er að komi til skoðunar í þeirri umfjöllun sem framundan er. Tvöföld fagleg stjórnun á heilbrigðisstofnunum er ekki mjög útbreidd meðal annarra þjóða og því ekkert "náttúrulögmál". Það er ennfremur staðreynd að áhrif hjúkrunarfræðinga hafa aukist verulega frá því þetta ákvæði kom inn í lögin, að mestu á kostnað lækna. Þetta kemur meðal annars fram í því að á stórum vinnustöðum eins og á sjúkrahúsunum eru margir hjúkrunarfræðingar starfandi eingöngu við stjórnun, en nánast allir læknar í stjórnunarstöðum sinna einnig klínískri vinnu. Að endingu má einnig benda á að það heyrir til undantekninga í stórum fyrirtækjum, bæði innan hins opinbera og í einkarekstri, að um slíka tvískiptingu sé að ræða. Þar með er ekki sagt að þetta fyrirkomulag sé slæmt, en ekkert er athugavert við að nú sé staldrað við og skoðað hvernig það stjórnunarfyrirkomulag sem var sett í lög fyrir nærfellt aldarfjórðungi hafi reynst.Þetta vefsvæði byggir á Eplica