Umræða fréttir

Norrænir læknanemar funda í Reykjavík Stjórnunarfræðsla, rannsóknir og reglur um lífsiðfræði voru helstu dagskrárefni fundarins

Íslenskir læknanemar taka þátt í alþjóðasamstarfi og um síðustu mánaðamót héldu þeir ársfund alþjóðanefnda norrænu læknanemasamtakanna hér í Reykjavík. Fundinn sóttu 57 gestir og 20 íslenskir læknanemar og fjölluðu í þrjá daga um stjórnunarmál, læknisfræðilegar rannsóknir og lífsiðfræði svo fátt eitt sé nefnt af því sem bar á góma á fundinum.

Brynja Ragnarsdóttir gegndi formennsku í FINO - en svo er nafn norrænu alþjóðanefndanna skammstafað - starfsárið 1999-2000. Hún sagði í samtali við Læknablaðið að alþjóðanefndir læknanema störfuðu á öllum Norðurlöndum og skipaði hver læknaskóli sína nefnd. Í hinum löndunum eru á bilinu 50-200 manns í þessum nefndum en skiljanlega öllu færri hér á landi.

Starfi nefndanna er skipt í vinnuhópa sem fjalla um ýmsa málaflokka. Hér á landi fjalla vinnuhópar um stúdenta- og rannsóknaskipti og um forvarnastarf gegn kynsjúkdómum, alnæmi og ótímabærum þungunum. Í öðrum löndum er einnig fjallað um menntun lækna á Norðurlöndum, lýðheilsu og málefni flóttamanna svo dæmi séu nefnd.

Það er eitt af markmiðum alþjóðasamtaka læknanema að efla stjórnunarþekkingu læknanema og að þessu sinni var aðalefni fundarins stjórnunarnámskeið. Þar var fjallað um það sem á ensku er nefnt "personal management" og felst eiginlega í því að skipuleggja eigið líf og starf. Auk þess fengu þátttakendur innsýn í fjáröflun og fundarstjórn.

Á morgni sunnudagsins 2. apríl hlýddu fundarmenn svo á fyrirlestra um þemað læknisfræðilegar rannsóknir og lífsiðfræði. Fyrirlesarar voru Kári Stefánsson sem sagði frá gagnagrunninum og Örn Bjarnason sem fjallaði um reglur um rafrænar heilbrigðisupplýsingar.

Heiðursgestur fundarins var Jóhann Ágúst Sigurðsson forseti læknadeildar Háskóla Íslands. Fundinn sóttu einnig tveir stjórnarmenn úr alþjóðasamtökum læknanema og gestur frá Eistlandi en fyrirhugað er að útvíkka norræna samstarfið og veita læknanemum úr Eystrasaltslöndunum aðild að því.

Brynja lét vel af fundinum og sagði hann hafa gengið afskaplega vel. Hún sagði að íslenskir læknanemar gætu sótt mikinn drifkraft og nýtt sér reynslu Norðurlandaþjóðanna af alþjóðastarfi. Það væri líka tilgangur þessa samstarfs að styrkja samheldni norrænna læknanema og gera þá að sterkari heild á fundum alþjóðasamtakanna.

-ÞH

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica