Umræða fréttir

Staða læknisins hefur breyst. Danskir læknar hafa haldið úti stuðningsneti fyrir kollega í vanda í hartnær áratug

Í Danmörku komu læknar á fót stuðningsneti við kollega sem eiga í vanda og hefur það verið starfandi frá árinu 1991. Árlega setja um 2% af starfandi læknum í Danmörku sig í samband við ráðgjafa stuðningshópsins með ýmiss konar vandamál.

Í Ugeskrift for læger 3. apríl í ár er viðtal við Michael Andreassen sem nýlega er tekinn við sem læknisfræðilegur ráðgjafi í Kollegial Netværk for Læger eins og stuðningsnetið nefnist. Andreassen hefur þó verið viðloðandi stuðningsstarfið frá því það hófst og segir að stofnun netsins hafi verið eðlilegur hlutur eftir að læknasamtökin horfðust í augu við þá staðreynd að læknar eru hvorki óskeikulir né ósæranlegir.

Nú eru ráðgjafar í sjálfboðaliðsstarfi fyrir stuðningsnetið í öllum umdæmum danska læknafélagsins, þar með töldu m Færeyjum og Grænlandi. Erindin sem læknar bera upp við þá eru af ýmsum toga, klögumál sem læknar hafa orðið fyrir, sumir eru haldnir óöryggi og kvíða andspænis ábyrgð læknisins, öðrum finnst þeir útbrunnir eða eiga við ofneyslu að etja, jafnvel sálræn vandamál og fjármála- og hjónabandsvandi koma við sögu.

Andreassen segir að hlutverk og staða læknisins hafi breyst töluver t í áranna rás frá því að vera allt að því alföðurlegur yfir í það að vera einhvers konar blanda af embættismanni og lækni sem miklar siðferðiskröfur eru gerðar til. Samfélagið geri þá kröfu til læknisins að hann geri það sem hægt er í ljósi aðstæðna en lækninum er innprentað að gera alltaf það sem er rétt og nauðsynlegt. Þegar þetta tvennt stangast á lendir læknirinn í klemmu.

Þegar læknir finnur að hann á undir högg að sækja stendur hann oftast einn, þótt læknar séu smám saman að verða færari um að leita eftir ráðum og stuðningi hjá kollegum sínum. En læknisstarfið er svo nátengt sjálfsmynd læknisins sem manneskju að hann tekur gagnrýni nær sér en flestar aðrar starfsstéttir, að mati Andreassen. Auk þess séu læknar upp til hópa einstaklingshyggjumenn sem eru þjálfaðir í því að taka sjálfstæðar ákvarðanir og starfa sjálfstætt, ólíkt öðrum starfsstéttum í heilbrigðiskerfinu þar sem hefð er fyrir meiri samstöðu.

"Reglan er sú að læknirinn tekur ákvörðun að höfðu samráði við aðra hópa starfsfólks - hann er yfirleitt einn en aðrir koma fram sem hópur. Þessi staða - miklar faglegar kröfur og að læknirinn stendur oftast einn - gerir lækna viðkvæmari fyrir kærum og klögumálum," segir Andreassen.

Hann segir einnig að starf stuðningshópsins verði að vera opið og sýnilegt, að öðrum kosti nýtist sú reynsla sem þar aflast ekki allri læknastéttinni. En starfsemi þess stendur og fellur með áhuga ráðgjafanna sem leggja sitt af mörkum án þess að þiggja laun, segir Michael Andreassen.

-ÞH endursagði

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica