Umræða fréttir
  • Mýri í Litla-Skerjafirði

Reykjavíkurborg kaupir Mýri

Um miðjan marsmánuð var gengið frá sölu húseignarinnar Mýri í Litla-Skerjafirði sem verið hefur í eigu Læknafélags Reykjavíkur í rúman áratug. Kaupandi er Reykjavíkurborg sem hyggst starfrækja þar áfram leikskóla með óbreyttu sniði, í bili að minnsta kosti.

Læknafélag Reykjavíkur keypti húsið árið 1989 en árið áður höfðu konur í röðum unglækna gert kröfu til félagsins um að það brygðist við ófremdarástandi sem þá ríkti í dagvistarmálum í borginni. Magni Jónsson var þá formaður og stjórn hans brá við hart, lét gera könnun á ástandinu meðal félagsmanna og í ljósi hennar var ráðist í kaupin á húsinu. Þetta var ekki óumdeilt en húsið var engu að síður keypt og meðal annars fjármagnað með aukaálagi sem lagðist ofan á félagsgjöld lækna.

Húsið var innréttað og settur þar á stofn leikskóli. Gerður var samningur við Reykjavíkurborg til 10 ára um kaupin en foreldrafélag leikskólans sá um reksturinn. Þegar samningurinn rann út síðastliðið haust höfðu aðstæður lækna breyst sem og staðan í dagvistarmálum í borginni. Þá voru einungis tvö læknabörn í leikskólanum og forsendur fyrir þátttöku LR í rekstrinum brostnar að flestra mati.

Húsið var sett á söluskrá og bárust tvö tilboð í það, bæði frá fólki sem hugðist halda áfram rekstri leikskóla í húsinu. Á endanum gekk Reykjavíkurborg inn í hærra tilboðið og keypti húsið fyrir 32 milljónir króna.

Að sögn Ólafs Þórs Ævarssonar formanns LR ríkir mikil ánægja með þessa sölu í röðum félagsmanna. "Eftir að áhvílandi skuldir hafa verið gerðar upp verður til sjóður sem nemur rúmlega 20 milljónum króna. Honum hefur ekki verið ráðstafað en við höfum hug á að nýta hann til að styrkja starf félagsins að kjaramálum, svo sem með því að kaupa ráðgjöf og annan stuðning við samninganefnd félagsins," sagði Ólafur Þór. -ÞH

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica