Ritstjórnargreinar

Þing Skurðlæknafélags Íslands og Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands

Skurðlæknafélag Íslands var stofnað 19. mars 1957 og gátu félagar þeir einir orðið "... sem hafa sérfræðiviðurkenningu í skurðlækningum, beina- og liðasjúkdómum, kvensjúkdóma- og fæðingafræði og þvagfæraskurðlækningum svo og þeir sem eru að ljúka framhaldsnámi í þessum greinum", svo vitnað sé í stofnlög félagsins. Af 36 stofnfélögum voru flestir almennir skurðlæknar. Þess ber að geta að á þeim árum er félagið var stofnað var aðgerðaefnisskrá almennra skurðlækna æði fjölbreytt og innihélt meðal annars bæklunaraðgerðir, aðgerðir á grindar-, kviðar- og brjóstholslíffærum svo og aðgerðir á höfði, hálsi og miðtaugakerfi.

Með vaxandi sérhæfingu komu til starfa skurðlæknar, er einvörðungu fengust við aðgerðir á ákveðnum líffærakerfum og með vaxandi fjölda þeirra, litu undirsérgreinafélög dagsins ljós. Þessi undirsérgreinafélög eru þær grunneiningar er standa að Skurðlæknafélagi Íslands sem líta má á sem einskonar regnhlífasamtök þeirra lækna er beita skurðaðgerðum sem meginmeðferðarformi. Í dag eru samtök almennra skurðlækna, æðaskurðlækna, barnaskurðlækna, lýtalækna, bæklunarskurðlækna, hjarta- og brjóstholsskurðlækna, handarskurðlækna, þvagfæraskurðlækna, heila- og taugaskurðlækna, innkirtlaskurðlækna og háls-, nef- og eyrnaskurðlækna aðilar að Skurðlæknafélagi Íslands.

Fyrir utan að tilheyra hópi skerandi lækna eru þessir hópar harla ólíkir. Þarfir þeirra, vinnufyrirkomulag og starfsvettvangur innan sjúkrahúsa og utan eru með mismunandi hætti og því næsta víst að bein aðkoma Skurðlæknafélags Íslands að kjaramálum félagsmanna myndi blása regnhlífina öfuga. Því hefur meginþungi félagsstarfsins verið að sinna fræðigreininni sem slíkri og fræðslumálum skurðlækna, enda var hvatinn að stofnun félagsins sá að mynda félag er gæti staðið fyrir norrænu þingi skurðlækna hér á landi og standa þannig fyrir fræðilegum tengslum íslenskra skurðlækna við skurðlækna erlendis. Einnig var talið brýnt að hlúa að málefnum skurðlækna innanlands eins og fram kom í tilgangi félagsins er skráður var í lögum, "að hafa afskipti af þeim málefnum er snerta íslenska skurðlækna almennt".

Þannig hefur Skurðlæknafélag Íslands staðið vörð um og verið vettvangur fræðilegrar umræðu um sérgreinina meðal skurðlækna, lækna almennt og annarra. Skurðlæknafélagið hefur einnig bent á sérstöðu skurðlækna, svo sem að sérnám og aðgerðaþjálfun skurðlækna er með því lengsta sem þekkist ásamt því að allt starfsumhverfi skurðlækna er krefjandi á hönd og huga og því takmarkað í eldri endann. Sá liður í starfsemi félagsins sem mest hefur verið áberandi eru fræðslumál skurðlækna og eru hin árlegu fræðsluþing félagsins undirstaða þess vettvangs.

Fyrsta þing Skurðlæknafélagsins var haldið dagana 28. til 30. mars 1972 á Akureyri. Í fyrstu eða til ársins 1986 voru þingin haldin annað hvert ár, jafnt úti á landi sem í Reykjavík en frá árinu 1993 hefur þinghald verið í Reykjavík og hefur það gefist betur, sérstaklega með tilliti til þátttöku. Frá árinu 1998 hafa Félög svæfinga- og gjörgæslulækna og skurðlækna staðið saman að þinghaldi enda starfsemi þessara sérgreina samtvinnuð inni á skurðstofum.

Dagana 6. og 7. apríl næstkomandi verður ársþing Skurðlæknafélags Íslands haldið í 22. sinn í tengslum við þing Svæfinga- og gjörgæslulæknafélags Íslands og er dagskrá ásamt ágripum erinda birt í þessu tölublaði Læknablaðsins. Þingið sem haldið er á Hótel Sögu er öllum opið og er vert að benda á sameiginlegan dagskrárlið félaganna er að þinginu standa, föstudagsmorguninn 7. apríl en þá verður haldið málþing um dæguraðgerðir sem eru að verða snar þáttur aðgerðaforms í dag en voru nánast óþekktar er Skurðlæknafélag Íslands var stofnað fyrir 43 árum.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica