Umræða fréttir

Íslensk erfðagreining fær leyfi til rekstrar á miðlægum gagnagrunni

Laugardaginn 22. janúar afhenti Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra Kára Stefánssyni forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar ehf. rekstrarleyfi til gerðar og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði í 12 ár. Við það tækifæri sagði Kári að nú myndu hefjast samningaviðræður fyrirtækisins við heilbrigðisstéttir og vonaðist hann til að þær yrðu komnar á það góðan rekspöl innan nokkurra mánaða að hægt yrði hefjast handa við gerð gagnagrunnsins. Þess má geta að fyrir rekstrarleyfið greiðir Íslensk erfðagreining 70 milljónir króna á ári auk hlutdeildar í hagnaði sem verður þó aldrei meiri en 70 milljónir.

Rekstrarleyfið er mikið að vöxtum, einar 800 blaðsíður þegar allt er talið. Í því er meðal annars að finna lýsingar á þeim upplýsingum sem flytja má í grunninn og öryggiskerfinu sem viðhaft verður við dulkóðun upplýsinga. Engin leið er að birta þetta efni hér í blaðinu en benda má á að Morgunblaðið birtir stærstan hluta þessara upplýsinga í vefútgáfu sinni sem nálgast má um veffangið www.mbl.is

Í útvarpsfréttum var haft eftir Sigurbirni Sveinssyni formanni LÍ að engin ástæða væri fyrir læknasamtökin að endurskoða afstöðu sína til gagnagrunnsins að rekstrarleyfinu útgefnu. Ekkert tillit hefði verið tekið til gagnrýni lækna eða annarra á lögin um gagnagrunn við gerð rekstrarleyfisins.

Einnig kom fram í fréttum að nú mætti búast við lögsóknum á hendur ráðuneytinu vegna rekstrarleyfisins. Samtökin Mannvernd vilja láta reyna á það fyrir dómstólum hvort það standist ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífsins og alþjóðlega samninga sem íslenska ríkið hefur undirritað.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica