Umræða fréttir

Broshornið 1: Nýr pistill - nýr vettvangur

Eitt af Því ljúfasta sem ég veit er að heyra "einn góðan". Ég get ekki neitað því að mér þótti það nokkuð fyndið, þegar Birna og Þröstur fóru þess á leit við mig að taka þátt í að ýta úr vör pistli um læknaskop í Læknablaðinu. Því ekki, maður hefur hvort eð er svo lítið fyrir stafni þessa dagana!

Ætlunin er að skapa hér vettvang fyrir lækna og jafnvel aðra lesendur Læknablaðsins til að birta efni sem tengist læknum, starfsumhverfi þeirra, samstarfsfólki og bara heilbrigðiskerfinu yfirleitt. Það sem kemur mönnum hér fyrir sjónir á helst að vera skemmtilegt og vekja jákvæðar tilfinningar. Það má aldrei vera særandi eða meinlegt. Efnið getur verið margs konar, til dæmis gamansögur, brandarar, ljósmyndir, teikningar, kveðskapur og síðast en ekki síst smellinn texti. Við erum að tala um læknaskop (á erlendum málum "medical humour" og "medisinsk humor"). Eftir áratuga starf sem læknir get ég vitnað um það, að fáar ef nokkrar starfsgreinar geta státað af jafn mörgum og jafn miklum húmoristum og læknar. Ég get fullyrt, að eftir öll árin í starfi hef ég aldrei hitt leiðinlegan kollega. Dagsatt! Þeir geta hins vegar verið misskemmtilegir, en það er allt annar handleggur! Efniviðurinn ætti því að vera nægur til að halda úti pistli í þessum anda. Af stað höldum við, ágætu kollegar, undir merkjum léttleika og bjartsýni. Ég treysti á ykkur að senda efni í Broshornið, því án ykkar aðstoðar er ég hræddur um að þetta geti orðið þunnur þrettándi.Hláturgas - læknaskop frá vöggu til grafar

Í byrjun janúar var öllum læknum á Íslandi send vegleg bók upp á 76 blaðsíður með þessum titli. GlaxoWellcome er aðalstyrktaraðili við útgáfuna og Íslenska menningarsamsteypan Art.is framleiðandi. Þá er varaforseti Nordisk Selskap for Medisinsk Humor ráðgjafi um efnisval. Aðaluppistaðan er teiknaðar skopmyndir með texta eftir fjölmarga listamenn, bæði erlenda og innlenda. Hér gefst kjörið tækifæri til að kynnast ákveðinni tegund læknaskops. Þegar þetta er ritað er ekki ljóst hvaða viðtökur bókin hefur fengið, en hauspokinn er hafður við hendina!

Hláturgas 2000

Rúmlega 60 myndir úr bókinni Hláturgas - læknaskop frá vöggu til grafar hafa verið valdar til stækkunar og eru uppistaðan í sýningunni Hláturgas 2000, sem opnuð var á Landspítalanum 14. janúar síðastliðinn að viðstöddum fulltrúum úr Heilbrigðisráðuneytinu og öðrum meginstoðum heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi. Ráðherra gat því miður ekki verið við opnunina og var sárt saknað. Hún á hrós skilið fyrir það hve jákvæð hún hefur verið í garð læknaskops, enda góður húmoristi sjálf. Áhugi heilbrigðisyfirvalda á mikilvægi þess að nota skopið innan heilbrigðisgeirans er lofsverður og ber vott um víðsýni. Á tímabilinu 14. janúar til 16. desember 2000 mun sýningin Hláturgas 2000 verða hengd upp á 10 sjúkrastofnunum um allt land. Þá mun starfsfólki og öllum þeim sem heimsækja þessar stofnanir gefast færi á að njóta teiknimyndahetjunnar Hermanns og félaga. Enginn verður svikinn af því.

Mús í munninum

Kona nokkur hringdi í öngum sínum til læknisins og bar sig illa. "Þú verður að hjálpa mér, læknir," æpti hún í símann. "Maðurinn minn sofnaði, fór svo að hrjóta og þá skaust mús upp í munninn á honum." "Vertu róleg," sagði læknirinn, "skerðu bara vænan bita af osti og haltu honum fyrir vitum bóndans. Það ætti að duga." "Allt í lagi," sagði konan, "en ég held ég reyni nú með fiskbita fyrst." "Það held ég að dugi nú skammt, því ég er hræddur um að músin líti ekki við fiskinum." "Ég er svo sem alveg sammála því," sagði konan, "en ég held að músin hreyfi sig alls ekki, ef við náum ekki kettinum út fyrst."

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica