Fræðigreinar

Doktorsvörn í læknisfræði

Alma D. Möller varði doktorsritgerð við Háskólann í Lundi, Svíþjóð hinn 4. desember síðastliðinn. Ritgerðin, sem er á sviði svæfinga- og gjörgæslulæknisfræði, ber heitið: "Low-dose prostacyclin. Physiological and pathophysiological implications of its effects on microvascular fluid permeability and perfusion".

Ritgerðin byggist á rannsóknum á prostasýklíni sem er efni sem myndast í æðaþeli og er þýðingarmikið fyrir starfsemi blóðrásarinnar. Lífeðlisfræðileg áhrif prostasýklíns á háræðagegndræpi voru könnuð og benda niðurstöðurnar til að prostasýklín sé mikilvægt við stjórnun eðlilegs gegndræpis í háræðum. Þýðing köfnunarefnisoxíðs (NO) og beta2-örvunar á gegndræpi var einnig rannsökuð. Ennfremur voru athuguð áhrif lágskammta prostasýklíns á smáæðablóðrás í mjógirni við svæsnar blóðsýkingar og á smáæðablóðrás í heila hjá sjúklingum með alvarlega höfuðáverka.

Niðurstöðurnar benda til að notkun prostasýklíns geti verið gagnleg við meðferð ákveðinna alvarlegra sjúkdóma þar sem truflanir á smáæðablóðrás eru áberandi einkenni. Ritgerðin fjallar einnig um nýja aðferð til að mæla efni í millifrumuvökva, svokallaða örskiljun (microdialysis).

Rannsóknir voru unnar undir handleiðslu dr. Per-Olof Grände sem þekktur er fyrir að hafa þróað nýja meðferð á heilabjúg eftir höfuðáverka. Andmælandi var Prófessor Sven-Erik Ricksten frá Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg.

Alma er fædd á Siglufirði 1961 og er dóttir hjónanna Jóhanns G. Möller (d. 1997) og Helenu Sigtryggsdóttur. Alma lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1981, læknaprófi frá Háskóla Íslands 1988, sérfræðinámi í svæfingum og gjörgæslu við Háskólasjúkrahúsið í Lundi 1995 og prófi Evrópsku svæfingalæknasamtakanna 1996. Hún hefur starfað meðal annars á svæfinga- og gjörgæsludeildum Borgarspítala og Landsspítala, á þyrlu Landhelgisgæslunnar og er nú starfandi sérfræðingur við Háskólasjúkrahúsið í Lundi.

Tengd skjöl




Þetta vefsvæði byggir á Eplica