Fræðigreinar
Algengi augn- og munnþurrks á Íslandi með hliðsjón af heilkenni Sjögrens
Ágrip
Inngangur: Heilkenni Sjögrens er samkvæmt erlendum rannsóknum einn af algengari fjölkerfasjúkdómum. Sjúkdómurinn einkennist af dagsþreytu, stoðkerfisverkjum og þurrkeinkennum frá slímhúðum. Algengi augn- og munnþurrks er ekki þekkt hér á landi né algengi heilkennis Sjögrens. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi helstu einkenna heilkennis Sjögrens og finna líklegar algengistölur fyrir sjúkdóminn hérlendis.Efniviður og aðferðir: Handahófskennt úrtak var fengið úr tveimur aldurshópum; 40-49 ára og 70-75 ára Íslendingum, búsettum á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Notast var við spurningakver með 14 spurningum um algengustu einkenni heilkennis Sjögrens. Völdu úrtaki samkvæmt svarmynstri var boðið til skoðunar með Schirmer-I prófi, mælingu á tárafilmurofstíma og Rose Bengal litun fyrir glæru- og tárabólgu. Ennfremur var gerð munnvatnsrennslismæling í hvíld.
Niðurstöður: Í úrtakinu var 621 einstaklingur, 300 karlar og 321 kona. Skilatíðni spurningakversins var 74%. Alls höfðu 20% þátttakenda einhver einkenni augnþurrks og 12% höfðu munnþurrk, hvort tveggja var marktækt algengara hjá konum (p<0,05). Tuttugu og þrír einstaklingar (3%) kvörtuðu um öll þrjú aðaleinkenni heilkennis Sjögrens og var þeim boðið til skoðunar. Af þeim mældust sex (26%) með óeðlilega táraframleiðslu og níu (39%) með óeðlilega lítið munnvatnsrennsli. Tvær konur uppfylltu greiningarskilmerkin um heilkenni Sjögrens eða 0,2% úrtaksins (0-0,5%; 95% öryggisbil). Í einkennalausa samanburðarhópnum höfðu sín hvor 17% hlutlæg einkenni augn- eða munnþurrks og ein kona hafði hvort tveggja.
Ályktun: Niðurstöður sýna að einkenni augn- og munnþurrks eru algeng hér á landi, sem og þrjú aðaleinkenni heilkennis Sjögrens. Því er nauðsynlegt að styðjast við ströng greiningarskilmerki þegar staðfesta skal sjúkdómsgreininguna heilkenni Sjögrens. Til að hægt sé að fullyrða um algengi heilkennis Sjögrens á Íslandi verður þó að gera ítarlegri ónæmisfræðilegar rannsóknir með stærri skoðunarhóp.
English Summary |
Atladóttir J, Guðmundsson ÓG, Holbrook P, Sigurðsson R, Guðbjörnsson B The prevalence of sicca symptoms in Iceland Læknablaðið 2000; 86: 859-65 Objectives: Sjögren´s syndrome is one of the most common inflammatory systemic rheumatic disorders. The syndrome is characterised by tiredness, pain problems and mucosal dryness. The goal of this study is to elucidate the prevalence of sicca symptoms in the Icelandic population and to calculate the preliminary prevalence value for Sjögren´s syndrome in Iceland. Material and methods: Random sample was retrieved from two age groups; 40-49 and 70-75 years Icelandic inhabitants of Reykjavík and Akureyri. Questionnaire with 14 questions of the most common symptoms of Sjögren´s syndrome was mailed to those sampled. A small sample was evaluated by Schirmer-I test, tear film break up time (BUT) and Rose Bengal score for keratoconjunctivitis sicca (KCS) and unstimulated salivary flow rate was performed. Results: The questionnaire was sent to 621 subjects, 300 male and 321 female. The response rate was 74%. Of those 20.3% had subjective symptoms of dry eyes and 12.0% of dry mouth according to the six questions used in the European classification criteria (EEC). The prevalence of both was higher in females (p<0.05). Of the 23 subjects who reported sicca symptoms, fatigue and pain problems; 26% had abnormal Shirmer-I test, 13% had abnormal BUT and 39% had abnormal salivary flow rate, two of those individuals fulfilled the EEC criteria for Sjögren´s syndrome (0.2%; 0-0.5%, 95% CI). None in the age and sex matched control group fulfilled the EEC criteria. Conclusion: The subjective symptoms of dry eye and dry mouth are common in Iceland, as are the three major symptoms of Sjögren´s syndrome. Standardised objective diagnostic criteria is necessary when the diagnosis of the syndrome is made. Key words: keratoconjunctivitis sicca, prevalence, sicca symptoms, Sjögren's syndrome, xerostomia. Correspondence: Jórunn Atladóttir. E-mail: jorunn@hi.is |
Inngangur
Heilkenni Sjögrens er langvinnur fjölkerfasjúkdómur af ónæmisfræðilegum toga, sem einkennist af óeðlilegri dagsþreytu, stoðkerfisverkjum og þurrki í öllum slímhúðum líkamans, auk þess sem þriðji hver sjúklingur með heilkenni Sjögrens fær einkenni frá innri líffærum (1). Sjögrens heilkennið fylgir oft öðrum bandvefssjúkdómum, svo sem rauðum úlfum eða iktsýki (secondary Sjögren's syndrome), en það kemur þó oftar fyrir sem sjálfstætt fyrirbæri, það er án annarra bandvefssjúkdóma (primary Sjögren's syndrome) (2,3).Tiltölulega fáar faraldsfræðilegar rannsóknir eru til sem hafa kannað algengi heilkennis Sjögrens í almennu þýði. Niðurstöður þessara rannsókna eru mismunandi, en sýna þó allar að heilkenni Sjögrens er mun algengara en aðrir fjölkerfasjúkdómar, til dæmis rauðir úlfar, eða á bilinu 0,3-4,6% (4-7). Ósamræmi í rannsóknarniðurstöðum byggist fyrst og fremst á tvennu: Í fyrsta lagi eru rannsóknarhóparnir ólíkir og í öðru lagi eru mismunandi greiningarskilmerki notuð í fyrrnefndum rannsóknum. Engin ein alþjóðleg greiningarskilmerki eru til fyrir heilkenni Sjögrens, eins og notuð eru fyrir rauða úlfa (8) og iktsýki (9). Hins vegar eru í notkun að minnsta kosti fjögur greiningarskilmerki fyrir Sjögrens sjúkdóminn; Kaupmannahafnar (10), grísku (11), kalifornísku (12) og japönsku (13) skilmerkin, sem hvert er notað í sínum heimshluta. Greiningarskilmerki þessi eru það ólík að erfitt er að bera saman rannsóknir sem nota mismunandi greiningaraðferðir. Vegna þessa hefur evrópska faraldsfræðiráðið (EEC-COMAC Epidemiology Committee) unnið að því að hanna greiningarskilmerki (EEC-skilmerkin) fyrir heilkenni Sjögrens með framvirkum faraldsfræðilegum aðferðum, með það að markmiði að fá fram alþjóðleg greiningarskilmerki fyrir heilkenni Sjögrens (14).
Heilkenni Sjögrens einkennist fyrst og fremst af augn- og munnþurrki. Augnþurrkur veldur roða, kláða, sviða eða sandkornstilfinningu í augum og tár myndast ekki eðlilega við grát. Einstaklingur með augnþurrk þolir illa reyk, skæra dagsbirtu eða kaldan blástur og hann á erfitt með að nota augnlinsur (15). Munnþurrkur veldur talerfiðleikum, næturþorsta, tíðum sveppasýkingum og breyttri munnflóru sem leiðir til ótímabærra tannskemmda. Þá eiga einstaklingar með munnþurrk í erfiðleikum með að nota gervitennur. Ennfremur valda breytt bragðskyn og kyngingarörðugleikar vegna munnþurrks erfiðleikum við máltíðir (16).
Erlendar rannsóknir sýna að einkenni um augn- eða munnþurrk eru mjög algeng. Allt að 28% einstaklinga hafa einkenni um augnþurrk (17) og allt að fjórðungur fullorðinna kvartar yfir munnþurrki (18). Hins vegar er ekki gott samræmi á milli huglægra einkenna um augn- og munnþurrk og hlutlægra mælinga á táraflæði (19) og munnvatnsframleiðslu (20). Hvorki er þekkt hversu algengt heilkenni Sjögrens er hérlendis né er þekkt hversu algeng helstu einkenni heilkennisins eru hér á landi.
Markmið þessarar rannsóknar er fyrst og fremst að kanna algengi augn- og munnþurrks hér á landi. Ennfremur að fá fram algengistölur um önnur algeng einkenni heilkennis Sjögrens og framreikna þannig algengistölur fyrir heilkennið á Íslandi.
Efniviður og aðferðir
Með aðstoð Hagstofu Íslands var fengið slembiúrtak, eftir að faraldsfræðilegum reikniaðferðum var beitt. Stærð úrtaksins var ákveðið þannig að hægt væri að finna algengi heilkennis Sjögrens með 4% fráviksbili og 95% öryggisbili (confidence interval, CI). Valdir voru tveir aldurshópar; 40-49 ára og 70-75 ára, með búsetu á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Aldurstölur voru ákveðnar í samræmi við faraldsfræðilegar rannsóknir sem verið er að framkvæma á hinum Norðurlöndunum.Þátttakendur fengu póstsendan spurningalista ásamt kynningarbréfi og frímerktu svarumslagi. Þegar niðurstöður úr spurningakverinu lágu fyrir var ákveðnu úrtaki svarenda boðið til áframhaldandi þátttöku með viðtali og skoðun með tilliti til glæru- og tárabólgu (keratoconjunctivitis sicca, KCS) ásamt munnþurrki.
Spurningakver: Spurningalistinn samanstóð af 14 spurningum (tafla I). Fyrstu sex spurningarnar voru valdar í samræmi við EEC skilmerkin fyrir heilkenni Sjögrens (tafla II) (21). Spurningar 7-9 eru viðbótarspurningar varðandi munnþurrk og spurningar 10-14 varða önnur einkenni sem eru algeng meðal sjúklinga með Sjögrens sjúkdóminn. Þessi spurningalisti hefur áður verið notaður í rannsóknum með tilliti til heilkenna Sjögrens (22,23). Ítrekunarbréf var sent til allra sem ekki höfðu svarað mánuði eftir að fyrra bréfið var sent út.
Skoðunarhópur: Við val í skoðunarhópinn var aðallega stuðst við EEC skilmerkin fyrir Sjögrens sjúkdóm. Svarendum sem uppfylltu eftirfarandi fjögur skilyrði samkvæmt spurningakverinu var boðið til áframhaldandi þátttöku í rannsókninni:
Þetta rannsóknarúrtak samanstóð því af einstaklingum sem höfðu allir einkenni um augn- og munnþurrk ásamt því að hafa stoðkerfisverki og líða óeðlilega dagsþreytu að eigin mati, en þetta eru algengustu einkenni Sjögrens sjúkdómsins.
Staðlað viðtal fór fram í upphafi skoðunarinnar. Almennra heilsufarsupplýsinga var aflað og spurt var um lyfjanotkun með tilliti til slímhúðareinkenna. Einnig var athugað hvort viðkomandi reykti, notaði gervitennur eða augnlinsur.
Augnskoðun: Skoðunin fór fram á augnlæknastofu og fólst í eftirfarandi þremur atriðum sem voru framkvæmd í eftirtaldri röð:
Munnvatnsrennslismæling: Að lokinni augnkoðuninni var gerð munnvatnsrennslismæling í hvíld. Þátttakendur voru beðnir um að vera fastandi í tvo tíma fyrir skoðun og hvorki reykja né setja nokkuð annað upp í sig sem gæti haft áhrif á munnvatnskirtlana. Munnvatni var safnað í 10 mínútur í framálútandi sitjandi stellingu. Munnvatnsmagn minna en 0,1 mL/mín var talið óeðlilegt.
Aðferðafræði og viðmiðunargildi í ofannefndum skoðunarþáttum eru öll samkvæmt EEC skilmerkjunum fyrir heilkenni Sjögrens (25), að viðbættum roftíma tárafilmu sem er úr Kaupmannahafnargreiningarskilmerkjunum (10). Rannsóknin takmarkast því við þá þætti EEC skilmerkjanna sem eru án inngrips, myndgreininga eða ónæmisfræðilegra rannsókna, það er við liði I, II, III og V3 samanber EEC skilmerkin fyrir Sjögrens (25).
Samanburðarhópur: Til samanburðar voru valdir jafnmargir einstaklingar af sama kyni og aldri og í skoðunarhópnum, sem sögðust hvorki finna fyrir augnþurrki né munnþurrki, það er þeir sem svöruðu öllum spurningum 1-8 neitandi og spurningu 9 játandi. Viðmiðunarhópurinn var eingöngu skoðaður með Schirmer-I prófi og munnvatnsrennslismælingu á sama hátt og lýst er að ofan.
Reikniaðferðir: Úrvinnsla var gerð í Excel töflureikni. Í rannsókninni er algengi metið í hópi sem er samsettur úr fleiri en einu þýði og er úrtak tekið úr hverju þýði óháð hinu. Til að meta algengið í samsetta hópnum er reiknað vegið meðaltal algengis í hverjum hópi og er fjöldi í þýði notaður sem vog. Þegar algengi er metið er notast við að mögulegar útkomur hjá hverjum einstaklingi eru aðeins tvær. Útkoman fylgir því Bernoullidreifingu, og fjöldi jákvæðra einstaklinga í sýni fylgir happadreifingu (hypergeometric distribution) og er það nýtt til að reikna 95% öryggisbil. Til að meta hvort marktækur munur sé á algengi milli tveggja hópa er notast við p-gildi, sem mælir hversu miklar líkur eru á að hafna tilgátu um að ekki sé neinn munur á hópunum ef tilgátan er rétt. Út frá þessu er p-gildið reiknað. Marktæknimörk voru sett p<0,05.
Rannsóknarleyfi: Rannsóknaráætlun var samþykkt af Siðanefnd Landspítalans (19.02.00) og Tölvunefnd Dómsmálaráðaneytisins (02.03.00).
Niðurstöður
Stærð úrtaks og skilatíðn: Í úrtaki Hagstofu Íslands var alls 621 einstaklingur, 300 karlar og 321 kona (tafla III). Úrtakið endurspeglar bæði aldur og búsetu á landssvæðunum tveimur, miðað við faraldsfræðilegt markmið rannsóknarinnar.Samtals svöruðu 460 einstaklingar spurningakverinu; 216 karlar og 244 konur, það er skilatíðnin var 74% (tafla IV). Svarhlutfallið var marktækt hærra á Akureyri (81%) en í Reykjavík (68%; p0,001). Marktækt hærra svarhlutfall var einnig meðal eldri einstaklinga (81%) miðað við yngri hópinn (68%; p0,001). Þessi munur, það er svarskil miðað við aldur, var hins vegar ekki marktækur innan hvors svæðis fyrir sig. Skilahlutfall kynja var svipað í báðum aldurshópum á hvorum búsetustaðnum. Meðalaldur þeirra sem svöruðu í hvorum hópi fyrir sig var hinn sami á báðum landssvæðum, eða 44 ár og 72 ár.
Átta bréf komu endursend með pósti, fjögur vegna rangs heimilsfangs í þjóðskrá, ættingjar tveggja einstaklinga tilkynntu að þeir væru þess ekki megnugir að taka þátt í rannsókninni og tveir einstaklingar neituðu þátttöku. Eitt hundrað fimmtíu og þrjú bréf skiluðu sér ekki eða 25% útsendra bréfa.
Niðurstöður úr spurningakveri: Marktækt fleiri konur svöruðu játandi einkennum um augnþurrk (29% á móti 13%; p<0,01) og munnþurrk (18% á móti 7%; p<0,05) ef eingöngu var notast við spurningarnar þrjár úr EEC skilmerkjunum (tafla V). Konur svöruðu marktækt oftar játandi að þær hefðu þurra húð (58% á móti 30%; p<0,001) og stoðkerfisverki (52% á móti 33%; p<0,01) miðað við karla.
Einkenni um munnþurrk og stoðkerfisverki voru marktækt alengari hjá konunum á aldrinum 70-75 ára miðað við yngri konurnar (tafla VI). Eldri karlar svöruðu tveimur spurningum marktækt oftar játandi miðað við yngri karla. Þeir höfðu oftar kyngingarörðugleika vegna munnþurrks (2% á móti 9%; p<0,05) og þeir drukku oftar vökva á nóttunni (27% á móti 7%; p<0,01). Ekki var munur á milli hlutfalls jákvæðra svara meðal íbúa á Akureyri eða Reykjavík, hvort sem miðað var við aldur eða kyn, að frátöldu því að konur á Reykjavíkursvæðinu áttu í meiri erfiðleikum með að borða þurrt kex en konur á Akureyri (39% á móti 22%; p<0,05).
Ef miðað er við fyrstu tvo liði evrópsku greiningarskilmerkjanna fyrir heilkennum Sjögrens (tafla II), svöruðu 108 (20,3%; 14,3-26,3%; 95% öryggisbil) einstaklingar játandi einni eða fleiri spurningum um augnþurrk (spurningar 1-3) og 75 (12,0%; 7,4-16,6%; 95% öryggisbil) einstaklingar svöruðu játandi einni eða fleiri spurningum um munnþurrk (spurningar 4-6). Samtals höfðu 42 einstaklingar, 31 kona og 11 karlar, bæði einkenni um augn- og munnþurrk eða 6,4% úrtaksins (2,8-10,0%; 95% öryggisbil)
Skoðunarhópur: Tuttugu og þrír einstaklingar (3,2%; 0,6-5,8%; 95% öryggisbil), 17 konur og sex karlar, svöruðu játandi öllum þremur aðaleinkennum Sjögrens heilkennisins, það er slímhúðaþurrk, verkjum og þreytu. Þessi einkenni voru algengari hjá eldri konunum (11 á móti sex), en jafnmargir karlar í hvorum rannsóknarhópnum játuðu þessum þremur einkennum Sjögrens sjúkdómsins. Ekki var marktækur munur milli Reykjavíkur og Akureyrar hvað þetta varðar.
Sex eða 26% (einn karl og fimm konur) höfðu skerta táraframleiðslu metið með Schirmer-I prófi. Þrír einstaklingar höfðu óeðlilega stuttan tárafilmurofstíma. Ein kona í þeim hópi hafði óeðlilegt Schirmer-I próf hinir tveir höfðu eðlilegt próf, það er að segja einn þátttakandi hafði glæru- og tárabólgu samkvæmt greiningarskilmerkjunum frá Kaupmannahöfn (10). Allmargir einstaklingar höfðu væga litun með Rose Bengal litun, en enginn náði fjórum stigum á van Bijsterveld kvarða. Níu einstaklingar eða 39% (einn karl og átta konur) höfðu óeðlilega lág gildi fyrir munnvatnsrennsli í hvíld, tvær konur höfðu líka óeðlilega táraframleiðslu. Þessar tvær konur höfðu ekki aðra orsök fyrir slímhúðarþurrki. Af þeim sem skoðaðir voru uppfylla því 13% fjögur greiningarskilmerki fyrir heilkenni Sjögrens, sem samsvarar því að, að minnsta kosti 0,2% (0-0,5%; 95% öryggisbil) upprunalega úrtaksins hafi Sjögrens sjúkdóm. Í viðmiðunarhópnum reyndust fjórir einstaklingar hafa óeðlilegt Schirmer-I próf og fjórir höfðu óeðlilega munnvatnsframleiðslu, einn þeirra hafði hvort tveggja óeðlilegt, en var þó einkennalaus.
Umræða
Rannsókn okkar, sem nær til marktæks úrtaks karla og kvenna úr tveimur aldurshópum sem búsett eru á tveimur stærstu þéttbýliskjörnum landsins, sýnir að einkenni frá slímhúðum vegna augn- og munnþurrks eru mjög algeng hérlendis. Rannsókn þessi er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Ennfremur rennir rannsóknin stoðum undir það að heilkenni Sjögrens sé einn af algengari fjölkerfasjúkdómum.Augn- eða munnþurrkur getur birst í margbreytilegum einkennum, eins og rakið er í upphafi þessarar greinar. Flest einkennin eru algeng í báðum aldurshópunum, en rannsóknin sýnir að hér á landi er þriðja hver kona og rúmlega tíundi hver karl í þessum aldurshópum með þurrkeinkenni frá slímhúðum í augum eða munni. Munnþurrkur virðist verða algengari á efri árum hjá báðum kynjum, auk þess sem einkenni frá stoðkerfi eru algengari meðal eldri kvenna. Rannsóknarniðurstöður okkar samrýmast því sem sýnt hefur verið fram á í nágrannalöndunum hvað varðar augnþurrk, en í Danmörku er algengi huglægra einkenna um augnþurrk meðal miðaldra kvenna tæplega 30% (4,18). Hins vegar virðist algengi augnþurrks vera nokkuð lægra í Ástralíu og Bandaríkjunum en hér á landi eða um 14% (19,26). Algengi munnþurrks hérlendis er á hinn bóginn nokkuð lægra en í Skandinavíu þar sem huglæg einkenni munnþurrks eru rúm 20% hjá báðum kynjum (18).
Þar sem þurrkeinkennin eru margvísleg, er nauðsynlegt að staðla vel spurningar sem notaðar eru í faraldsfræðilegum rannsóknum sem kanna algengi einkenna um slímhúðaþurrk. Þetta kemur glöggt fram í spurningunum um munnþurrk, en rúmlega helmingur þátttakenda hefur munnþurrk ef miðað er við jákvæða svörun við öllum spurningunum um munnþurrk í spurningakverinu, en ef eingöngu er stuðst við þær þrjár spurningar sem er að finna í EEC skilmerkjunum er aðeins fimmta hver kona og rúmlega tuttugasti hver karlmaður með munnþurrk. Þessar þrjár spurningar hafa verið valdar með framskyggnum faraldsfræðilegum aðferðum og sama er að segja um þær þrjár spurningar sem valdar voru með tilliti til augnþurrks. Endurspeglar þetta mikilvægi þess að velja staðlaðar spurningar í faraldsfræðilegum tilgangi eins og gert er í þessari rannsókn. Þrátt fyrir það að valið á spurningunum sé vandað, er ekki gott samræmi á milli huglægra einkenna um augn- eða munnþurrk og mælinga á framleiðslugetu tára- eða munnvatnskirtla (26). Með þetta í huga var völdu úrtaki einstaklinga boðið til áframhaldandi skoðunar á þurrkeinkennum sínum. Niðurstöður okkar hvað þetta varðar sýna einnig að hvorki er gott samræmi þarna á milli, né heldur milli einstakra augnprófa. Endurspeglar þetta þörfina á vel reyndum greiningarskilmerkjum fyrir Sjögrens sjúkdóminn.
Erlendar faraldsfræðilegar rannsóknir sýna að heilkenni Sjögrens er líklega algengasti fjölkerfasjúkdómurinn af ónæmisfræðilegum toga. Rannsóknir frá Kaupmannahöfn á miðaldra Dönum sýna að algengi heilkennis Sjögrens er 0,6-2,1% ef stuðst er við EEC skilmerkin (4) og í Grikklandi 0,6% (5), en algengi heilkennisins í Englandi er meira eða 2,2-4,4% (7) með sömu skilmerkjum. Ef stuðst er við önnur greiningarskilmerki, til dæmis Kaupmannahafnarskilmerkin, er algengi sjúkdómsins lægra eða 0,2-0,8% í Danmörku (4) en hins vegar hærra í miðaldra Svíum eða 1,0-4,5% (6). Síðarnefndu skilmerkin byggjast eingöngu á hlutlægu mati um augn- og munnþurrk og henta því síður til faraldsfræðilegra rannsókna þar sem skoða verður hvern og einn þátttakanda (4).
Í þessari rannsókn ákváðum við að nota EEC skilmerkin á valinn hóp þátttakenda, sem allir játuðu þremur aðaleinkennum heilkennis Sjögrens, það er þeir höfðu þurrkeinkenni, stoðkerfisverki og dagsþreytu. Í þennan hóp völdust 17 konur og sex karlar sem ef til vill endurspeglar kynjahlutfall sjúklinga með ónæmissjúkdóma, en fyrir hverjar níu konur er einn karl með heilkenni Sjögrens (3). Í þessum hópi reyndust tvær konur úr eldri aldurshópnum, önnur frá Reykjavík og hin frá Akureyri, uppfylla EEC skilmerki fyrir heilkenni Sjögrens. Þetta samsvarar því að allt að 0,5% þýðisins hafi heilkenni Sjögrens samkvæmt EEC, en enginn einstaklingur uppfyllti Kaupmannahafnarskilmerkin. Í þessu samhengi er rétt að benda á að hópurinn með augn- og munnþurrk er í raun helmingi stærri og að enn er eftir að beita seinni liðum EEC skilmerkjanna, það er ónæmisfræðilegum aðferðum, myndgreiningu og vefjasýnatöku til greiningar sjúkdómsins. Ef þessum aðferðum er bætt við og allur hópurinn með þurrkeinkenni er skoðaður, má ætla að algengi heilkennis Sjögrens sé hærra. Markmið þessarar rannsóknar var þó að kanna algengi helstu einkenna Sjögrens hér á landi, ítarlegri rannsókn á algengi heilkennisins er þegar hafin.
Styrkur þessarar rannsóknar er margþættur. Þar er fyrst að nefna gott svarhlutfall, en 74% úrtaksins svaraði spurningakverinu. Samsetning spurninga sem var sent til þátttakenda byggist á alþjóðlegum rannsóknarniðurstöðum sem er nú verið að beita í mörgum Evrópulöndum í sama tilgangi. Ennfremur er beitt faraldsfræðilegum reikniaðferðum til þess að finna stærð úrtaks og algengistölur eru reiknaðar út með tilliti til stærðar þýðanna á Akureyri og í Reykjavík. Allt þetta eykur áreiðanleika rannsóknarniðurstaðnanna. Hins vegar eru ætíð annmarkar á rannsóknum byggðum aðallega á spurningakverum eins og sést meðal annars á ósamræminu milli huglægra og hlutlægra þurrkeinkenna.
Í samantekt eru einkenni um augn- og munnþurrk algeng hér á landi og þau virðast vera ósértæk. Þurrkeinkenni frá slímhúðum eru algengari meðal kvenna og einkenni munnþurrks aukast með aldri hjá báðum kynjum. Lítill hluti þeirra er hafa þurrkeinkenni uppfylla greingarskilmerki heilkennis Sjögrens, því er nauðsynlegt að styðjast við stöðluð greiningarskilmerki þegar sjúkdómsgreiningin heilkenni Sjögrens er staðfest.
Þakkir
Höfundar þakka öllum þeim sem tóku þátt í rannsókninni og sérstaklega þeim er komu til skoðunar. Ennfremur þakka höfundar Maríu Ásgrímsdóttur og Sigurlínu Örlygsdóttur læknariturum, ásamt hjúkrunarfræðingunum Möggu Öldu Magnúsdóttur og Sigrúnu Rúnarsdóttur, fyrir veitta aðstoð. Sérstakar þakkir fær Júlíus Atlason fyrir veitta aðstoð í faraldsfræðilegri tölfræði. Rannsóknin var styrkt af Vísindasjóðum læknaráða FSA og Landspítalans og Félagi íslenskra gigtarlækna (The Scandinavian Journal of Rheumatology Grant, year 2000).
Heimildir
1. Gudbjornsson B. Clinical and Experimental Studies in Primary Sjögren´s Syndrome [doctoral dissertation]. Uppsala: Uppsala University; 1994.2. Gudbjornsson B. Sjögren's syndrome - meira en þurrkur. Læknaneminn 1997; 50(1): 4-10.
3. Manthorpe R, Asmussen K, Oxholm P. Primary Sjogren's syndrome: diagnostic criteria, clinical features, and disease activity. J Rheumatol 1997; 24/Suppl 50: 8-11.
4. Bjerrum KB. Keratoconjunctivitis sicca and primary Sjogren's syndrome in a Danish population aged 30-60 years. Acta Ophthalmol Scand 1997; 75: 281-6.
5. Dafni UG, Tzioufas AG, Staikos P, Skopouli FN, Moutsopoulos HM. Prevalence of Sjogren's syndrome in a closed rural community. Ann Rheum Dis 1997; 56: 521-5.
6. Jacobsson LT, Axell TE, Hansen BU, Henricsson VJ, Larsson A, Lieberkind K, et al. Dry eyes or mouth--an epidemiological study in Swedish adults, with special reference to primary Sjogren's syndrome. J Autoimmunol 1989; 2: 521-7.
7. Thomas E, Hay EM, Hajeer A, Silman AJ. Sjogren's syndrome: a community-based study of prevalence and impact [see comments]. Br J Rheumatol 1998; 37(10): 1069-76.
8. Tan EM, Cohen AS, Fries JF, Masi AT, McShane DJ, Rothfield NF, et al. The 1982 revised criteria for the classification of systemic lupus erythematosus. Arthritis Rheum 1982; 25: 1271-7.
9. Arnett FC, Edworthy SM, Bloch DA, McShane DJ, Fries JF, Cooper NS, et al. The American Rheumatism Association 1987 revised criteria for the classification of rheumatoid arthritis. Arthritis Rheum 1988; 31: 315-24.
10. Manthorpe R, Oxholm P, Prause JU, Schiodt M. The Copenhagen criteria for Sjogren's syndrome. Scand J Rheumatol Suppl 1986; 61: 19-21.
11. Skopouli FN, Drosos AA, Papaioannou T, Moutsopoulos HM. Preliminary diagnostic criteria for Sjogren's syndrome. Scand J Rheumatol Suppl 1986; 61: 22-5.
12. Fox RI, Robinson CA, Curd JG, Kozin F, Howell FV. Sjogren's syndrome. Proposed criteria for classification. Arthritis Rheum 1986; 29: 577-85.
13. Homma M, Tojo T, Akizuki M, Yamagata H. Criteria for Sjogren's syndrome in Japan. Scand J Rheumatol Suppl 1986; 61: 26-7.
14. Vitali C, Bombardieri S, Moutsopoulos HM, Balestrieri G, Bencivelli W, Bernstein RM, et al. Preliminary criteria for the classification of Sjogren's syndrome. Results of a prospective concerted action supported by the European Community. Arthritis Rheum 1993; 36: 340-7.
15. Whitcher JP, Jr., Gritz DC, Daniels TE. The dry eye: a diagnostic dilemma. Int Ophthalmol Clin 1998; 38: 23-37.
16. Sreebny LM. Xerostomia: diagnosis, management and clinicl complications. In: Edgar WM, O'Mullane DM, eds. Saliva and oral health. London: The British Dental Association; 1996: 51-3.
17. Schein OD, Munoz B, Tielsch JM, Bandeen-Roche K, West S. Prevalence of dry eye among the elderly. Am J Ophthalmol 1997; 124: 723-8.
18. Nederfors T, Isaksson R, Mornstad H, Dahlof C. Prevalence of perceived symptoms of dry mouth in an adult Swedish population-relation to age, sex and pharmacotherapy. Community Dent Oral Epidemiol 1997; 25: 211-6.
19. McCarty CA, Bansal AK, Livingston PM, Stanislavsky YL, Taylor HR. The epidemiology of dry eye in Melbourne, Australia. Ophthalmology 1998; 105: 1114-9.
20. Wang SL, Zhao ZT, Li J, Zhu XZ, Dong H, Zhang YG. Investigation of the clinical value of total saliva flow rates. Arch Oral Biol 1998; 43: 39-43.
21. Vitali C, Bombardieri S, Moutsopoulos HM, Coll J, Gerli R, Hatron PY, et al. Assessment of the European classification criteria for Sjogren's syndrome in a series of clinically defined cases: results of a prospective multicentre study. The European Study Group on Diagnostic Criteria for Sjogren's Syndrome. Ann Rheum Dis 1996; 55: 116-21.
22. Gudbjornsson B, Karlsson-Parra A, Karlsson E, Hallgren R, Kampe O. Clinical and laboratory features of Sjogren's syndrome in young women with previous postpartum thyroiditis. J Rheumatol 1994; 21: 215-9.
23. Guðbjörnsson B, Cariglia N, Sigurðsson R, Valdimarsson H. Iðrabólga og heilkenni Sjögrens [ágrip]. Læknablaðið 1998; 84/Fylgirit 36: 66-7.
24. van Bijsterveld OP. Diagnostic tests in the Sicca syndrome. Arch Ophthalmol 1969; 82: 10-4.
25. Vitali C, Bombardieri S, Moutsopoulos HM, Coll J, Gerli R, Hatron PY, et al. Assessment of the European classification criteria for Sjogren's syndrome in a series of clinically defined cases: results of a prospective multicentre study. The European Study Group on Diagnostic Criteria for Sjogren's Syndrome. Ann Rheum Dis 1996; 55: 116-21.
26. Bandeen-Roche K, Munoz B, Tielsch JM, West SK, Schein OD. Self-reported assessment of dry eye in a population-based setting. Invest Ophthalmol Vis Sci 1997; 38: 2469-75.