Umræða fréttir

Ársfundur Alþjóðafélags lækna

Fimmtugasti og annar ársfundur Alþjóðafélags lækna (WMA)var haldinn í Edinborg dagana 3.-7. október síðastliðinn. Læknafélag Íslands sendi þrjá fulltrúa á fundinn, formann, varaformann og formann Siðfræðiráðs félagsins.Vinnubrögð ársfunda samtakanna eru mjög lýðræðisleg því mál fara fyrst fyrir opna nefndarfundi fastanefnda en þær eru þrjár. Á fundunum hafa allir málfrelsi. Nefndirnar afgreiða málin annað hvort til stjórnar ef þau eru talin fullunnin eða þau eru send aftur til vinnuhóps til nánari skoðunar. Næsta skrefið er opinn stjónarfundur (Council) þar sem allir hafa sömuleiðis málfrelsi. Stjórnin ákveður sömuleiðis hvort mál séu tilbúin til lokaafgreiðslu og sendir þau þá áfram til aðalfundar. Á aðalfundinum sjálfum hafa aðildarfélögin atkvæðamagn í hlutfalli við greidd aðildargjöld (1:10.000). Formleg afgreiðsla fyrir hönd Alþjóðafélags lækna fer fram á aðalfundinum.Aðalmálefni nýafstaðins ársfundar voru eftirfarandi:1. Endurskoðun Helsinkiyfirlýsingarinnar: Endurskoðunin var fyrirferðarmesta mál ársfundarins en undirbúningur hafði einnig verið umtalsverður. Þriggja manna nefnd var að störfum í þrjú ár og fékk álit frá fjölmörgum aðilum, einnig hefur málið verið tekið fyrir á fundum síðustu tveggja ára. Að lokinni ítarlegri umræðu var endurskoðuð Helsinkiyfirlýsing samþykkt samhljóða. Hún hefur þegar verið þýdd á íslensku og birtist hér í þessu tölublaði Læknablaðsins.

2. Uppkast nefndar um miðlæga gagnagrunna á heilbrigðissviði: Stjórn Alþjóðfélags lækna samþykkti að nefndarálitið, eins og það lá fyrir um miðlæga gagnagrunna á heilbrigðissviði, yrði sent út til aðildarfélaganna til umfjöllunar. Gert er ráð fyrir að yfirlýsing verði samþykkt á næsta ársfundi Alþjóðafélagsins. Í stuttum umræðum um þetta mál á opnum nefndarfundi gerði formaður LÍ grein fyrir samþykktum síðasta aðalfundar LÍ.

3. Dauðarefsing: Yfirlýsing sem fól í sér andstöðu við aðild lækna að framkvæmd dauðarefsinga var samþykkt samhljóða.

4. Aðstaða fanga og útbreiðsla smitsjúkdóma: Yfirlýsing sem fékk heitið Edinborgaryfirlýsing Alþjóðafélags lækna um aðstæður fanga og útbreiðslu berkla og annarra smitsjúkdóma var samþykkt.

5. Líffæraflutningar: Yfirlýsing um siðfræði líffæraflutninga var samþykkt.

6. Kyngreining á fóstrum, pyntingar: Samþykkt var að ræða á næsta ársfundi mál frá indverska læknafélaginu um andstöðu við notkun kyngreiningar á fóstrum við val á kyni barns. Á þeim fundi verður einnig sérstaklega fjallað um pyntingar og aðstoð við fórnarlömb pyntinga en frumkvæði á þessu sviði í heiminum hefur verið af hálfu danska læknisins Ingu Genefke og samstarfsmanna hennar.Á fundi sem þessum er ljóst hversu mikill munur er á þjóðfélögum heims og þar með þeim málefnum sem læknar fást við hver á sínum stað. Ekki er að sjá að munurinn sé að minnka og sumir læknar lýstu vaxandi félagslegri mismunun í löndum sínum og jafnframt mismunun í aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Enn sem komið er vantar fulltrúa margra landa heims, en aðildarfélög Alþjóðafélags lækna eru 48. Þessi árin eru að bætast við lönd Suður-Ameríku og Austur-Evrópu þannig að samtökin eru smám saman að eflast.Næsti ársfundur Alþjóðafélags lækna verður í Nýju-Delí á Indlandi að ári.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica