Umræða fréttir

Samningur Læknafélags Íslands og lyfjafyrirtækja

Læknafélag Íslands og lyfjahópur Samtaka verslunarinnar fyrir hönd lyfjafyrirtækja hafa gert með sér þann samning sem hér er kynntur. Tilurð samningsins er sú að stjórn LÍ ákvað að skoða að nýju samskipti lækna og lyfjafyritækja, en fyrir allmörgum árum höfðu nefndir á vegum félagsins kynnt tillögur að reglum í Læknablaðinu án þess að þær hlytu formlega afgreiðslu (1). Fyrstir voru hins vegar heimilislæknar en félag þeirra gaf út leiðbeiningar til félagsmanna um samskipti þeirra við lyfjafyrirtæki árið 1987 (2).

Nefnd er stjórnin skipaði haustið 1998 hefur unnið að þessu verkefni með hléum síðan. Hún var auk undirritaðs skipuð Halldóri Jónssyni heimilislækni í Lágmúlastöðinni og Birgi Jóhannssyni fyrrverandi formanni Félags ungra lækna. Í starfi nefndarinnar kom upp sú hugmynd að í stað þess að gefa út einhliða leiðbeiningar væri vænlegra að gera samning við lyfjafyrirtæki um samskiptareglur því þá væri líklegra að samskipti yrðu farsæl en það er markmiðið. Í framhaldi af þessu voru teknar upp viðræður við fulltrúa lyfjahóps Samtaka verslunarinnar. Í ljós kom að hópurinn var að vinna að siðareglum fyrir lyfjakynna og að hugmyndir hópsins féllu vel að hugmyndum nefndarinnar. Samræðurnar gengu því vel og ekki tók langan tíma að komast að niðurstöðu.

Þetta er í fyrsta sinn sem þessir aðilar gera með sér samkomulag af þessu tagi og var því ákveðið að hafa hann tímabundinn svo innan fárra ára komi til endurskoðunar í ljósi reynslunnar.

Þeir læknar sem vilja koma á framfæri athugasemdum við þennan samning eða fá túlkun nefndarinnar á einstökum atriðum geta gert það með því að senda tölvubréf til undriritaðs í netfang jsn@mmedia.is eða á skrifstofu Læknafélagsins.

Að lokum skal bent á athyglisverð skrif um þessi mál og hliðstæð sem birtust í The New England Journal of Medicine síðastliðið sumar (3-5).

Heimildir

1. Leiðbeiningar Læknafélags Íslands um samskipti lækna við framleiðendur og söluaðila lyfja og lækningatækja. Tillögur nefndar LÍ sem starfaði frá mars 1992 til apríl 1993. Læknablaðið / Fréttabréf lækna 1993; 11 (8): 16-7.

2. Leiðbeiningar stjórnar Félags íslenskra heimilislækna um samkipti heimilislækna og lyfjafyrirtækja. Læknablaðið / Fréttabréf lækna 1987; 5 (10): 3.

3. Angell M. Is academic medicine for sale? N Engl J Med 2000; 342: 1516-8.

4. Bodenheimer T. Uneasy alliance; clinical investigators and the pharmaceutical industry. N Engl J Med 2000; 342: 1539-44.

5. Is academic medicine for sale? [letter to the editor]. N Engl J Med 2000; 343: 508-10.

Tengd skjöl
Þetta vefsvæði byggir á Eplica